miðvikudagur, júní 22, 2016

Miðnæturfjöruferð

Miðnæturfjöruferð á sumarsólstöðum. Stórstraumsfjara og gengt á sandi sem oftast er í felum langt undir sjávarmáli. Sólin að síga bak við fjöll út við sjóndeildarhringinn og litar himininn rauðan og skýin fjólublá. Æðarfuglar og ungar þeirra láta sólroðnar öldurnar vagga sér í svefn, nokkrir tjaldar rífast heiftarlega í fjöruborðinu og kríurnar sem aldrei unna sér hvíldar þjóta um án þess að gefa okkur nokkurn gaum. Auðvelt að snúa baki í borgina og finnast maður vera kominn langt út í buskann, þar sem ekkert er nema sandur, sól, sjór og skrækjandi fuglar.

sunnudagur, maí 12, 2013

með kveðju frá Kalamazoo

Laugardagskvöld, eða réttara sagt aðfaranótt sunnudags. Mér finnst ég vera nýkomin á ráðstefnuna, en það er víst bara hálfur sólarhringur eftir og svo tekur við löng heimferð.

Fyrirlestrahaldinu er lokið, ég hélt fyrirlestur í gær og náði að klára hann fjórum tímum fyrir flutning - sem ég held að sé met, oft hef ég verið að fram á síðustu stundu (sem er svo sannarlega ekki til eftirbreytni) - reyndar  lagaði ég helling eftir að ég prentaði hann út, þannig að þegar ég las hann upp þá var blaðið ansi marglitt (ég á nefnilega svo fínan marglitan penna, sem ég nota óspart). Málstofurnar okkar gengu vel, þetta voru allt í allt átta fyrirlestrar um hið yfirnáttúrulega á íslenskum miðöldum og allt gekk eins og í sögu. Á milli fimmtíu og sextíu manns hlustuðu á fyrirlestrana og það er víst óvenjugóð mæting á fyrirlestra um forníslenskar bókmenntir, allt að tvisvar til þrisvar sinnum fleiri en vaninn er.

Úrvalið af fyrirlestrum, málstofum, hringborðsumræðum og fleiru er gífurlega mikið - svo mikið að það eru u.þ.b. 30 fyrirlestrar í gangi í einu og oft erfitt að velja á milli - sér í lagi þegar velja verður út frá heitinu einu saman, hvergi virðist vera mögulegt að nálgast útdrættina sem allir þurftu þó að skila. Ég hef ekki lent á neinni slæmri málstofu ennþá en ekki heldur neinni sem er afbragð og það sem kom mér mjög á óvart var að fyrir utan málstofuna okkar þá held ég að ekkert hafi verið talað um goðafræði - hvorki norræna né af öðrum ættum. Fyrirlestrarnir sem ég hef farið á hafa verið margvíslegir en ég hef ekki enn hitt á virkilega góðan fyrirlestur - margir verið fínir, en enginn enn sem ég er dauðfegin að hafa séð - en ég hef tvö tækifæri til slíks í fyrramálið.

Á kvöldin hafa svo verið alls konar skemmtiatriði og móttökur með ókeypis áfengi - í dag var m.a.s. bjórsmökkun á bjór og miði sem eru með miðaldaaðferðum - það var ofsalega gott, enda mikið notað af hunangi og blómum í þá, þannig að þeir eru bragðgóðir og oft mjög sterkir, sterkasti bjórinn var heil 18%. Sem dæmi um skemmtiatriði má nefna leikgerð sem við sáum í gær á því atriði í Hervararsögu þegar Hervör vekur Angantý upp til að eignast sverð hans og á undan því var kona sem söng og spilaði á píanó frumsamin lög við þau fimm ljóð sem orðið höfðu hlutskörpust í ljóðasamkeppni upp úr Silmarion eftir Tolkien. Það var mjög flott. Reyndar kemur mér mjög á óvart sú áhersla sem lögð er á Tolkien hér, fullt af málstofum um verk hans og hann sjálfan sem fræðimann og höfund - auk svo allra skemmtiatriðanna sem boðið er upp á. Í kvöld var svo The Pseudo Society með fyrirlestra, en það eru uppdiktaðir fyrirlestrar þar sem gert er grín að ráðstefnugestum og flestir bráðfyndnir - ég skemmti mér best yfir því þegar einn komst að því að geimverur, nánar tiltekið Dr. Who, hefðu verið valdir að hvarfi frænda Ríkharðs þriðja. Við tók svo dansiball sem var ágætt en aðeins of hávært og mistækt í lagavali, þannig að ég entist bara þar í tvo tíma.

Ég hef dvalið á einum stúdentagarðanna og jarðhæð þess er bókaútstillingin, þar eru u.þ.b. 60 bókaútgefendur með bása þar sem þeir kynna bækurnar sínar (margar glænýjar), raða þeim upp og svo er hægt að kaupa eða panta. Ég hef gengið þarna í gegn mörgum sinnum á dag og alltaf sé ég eitthvað nýtt sem er áhugavert. Enn sem komið er hef ég bara keypt tvær bækur hér - ég hef farið mjög skipulega í þetta, skrifað niður titla og farið svo á netið og gáð hvort þær bækur séu til á Landsbókasafninu. Sem er sama aðferð og ég notaði í bókabúðinni um daginn, sat við tölvuna og fór í gegnum hvaða bækur væru til þar og hvaða bækur væri hægt að lesa í kyndli og væru kyndilvænar (þ.e. ekki með fullt af neðanmálsgreinum og töflum) - þá endaði ég eftir mikla yfirlegu með sex bækur, hver annarri eigulegri og fallegri en skilaði fleiri bókum það aftur í hilluna og ætla að reyna að komast yfir þær síðar.

Þrátt fyrir mikla möguleika á félagslífi hef ég svo sem ekki kynnst mörgu nýju fólki, því flestir halda sig við þá hópa sem þeir tilheyra, en ég hef kynnst mörgum vel sem ég kannaðist bara við áður, þannig að það er þó nokkuð. Auk þess sem ég hef hitt nokkra sem ég þekki frá fornu fari, suma algjörlega óvænt.  Ég held að eitt af því sem gerir þessa ráðstefnu svona vinalega sé hvað allir hérna eru miklir lúðar (á jákvæðasta mögulega hátt) - það er ekkert of skrýtið til að mega vera með, ekkert miðaldatengt sem hægt er að skammast sín fyrir að halda upp á, þannig að þetta er mjög öruggt umhverfi. Í gær hitti ég m.a.s. strák sem gekk út um allt með langboga sem hann hafði smíðað.  Ég er fegin að hafa komið hingað, svo fegin að ég var farin að íhuga að fara aftur á þessa ráðstefnu að ári.

miðvikudagur, maí 08, 2013

flugvallarblús

Stundum fæ ég góðar hugmyndir. Sú að ætla að eyða nóttinni á flugvelli til að ná flugi snemma næsta morgun er ekki ein þeirra. Nú sit ég dauðþreytt á bekk á Logan-flugvelli og tekst ekki að sofna nema stutta stund í einu, kannski út af því að plan A var að vaka í alla nótt og sofa í flugvélinni og því hellti ég í mig koffíni áðan, en þreytan reyndist hafa yfirhöndina - svefnfriðurinn er ekki mikill heldur, nálægt mér situr maður sem flissar hástöfum yfir einhverju sem hann les og einn starfsmannanna er óþreytandi við að keyra um á háværri skúringarvél og snúa henni í marga hringi einhvers staðar nálægt mér - sem hlýtur að merkja það að gólfin séu ansi hrein hérna. Núna ætti ég líklega að sverja þess eið að gera svonalagað aldrei aftur - eini gallinn er sá að hluti af heimferðarplönunum er önnur slík flugvallarnótt. Ég er líklega orðin of gömul fyrir svonalagað.

En á morgun hefst svo ævintýrahluti ferðalagsins, þá kemst ég á nýjar slóðir, hef aldrei farið svona langt vestur og mun m.a.s. kynnast glænýju tímabelti og þremur nýjum ríkjum. Miriam ætlar að sækja mig á flugvöllinn í Chicago og svo förum við sem leið liggur frá Illinois, yfir hluta af Indiana og svo inn í Michigan þar sem áfangastaðurinn leynist, hinn dularfulli bær Kalamazoo. Nafnið eitt og sér gefur til kynna að þar búi yfirnáttúrulegar verur (enda hélt ég fyrst þegar ég heyrði heitið að það væri tilbúningur) og mér líður stundum eins og ég sé á leið til ævintýraheims, að kanna hið óþekkta. Nöfn ríkjanna þriggja eru ekki síður ævintýraleg, því enn sem komið er eru þau ekkert nema nöfn og nánast hvað sem er getur leynst þar, ég er sér í lagi viss um að í Indiana leynist margt dularfullt og yrði í sjálfu sér ekkert mjög hissa þótt við sæjum dreka þar á ráfi. Ég sagði vini mínum frá þessum hugrenningartengslum um daginn og hann svaraði því strax til að Kalamazoo hljómaði eins og staður þar sem drekar gætu klakist út. Mér finnst það ekki hljóma ólíklega og tel að ef við rekumst á slíka skepnu í Indiana að þá hafi hún villst að heiman og sé alveg jafntýnd á þeim slóðum og ég.

þriðjudagur, maí 07, 2013

Ævintýri í bókabúð

Ég sit núna í einni flottustu bókabúð sem ég hef nokkurn tíma séð, Harvard Coop. Við mamma römbuðum hingað inn þegar við vorum hér um árið og eyddum lunganum úr þeim degi þar inni. Búðin lætur kannski ekki mikið yfir sér, en hún er á þremur hæðum og troðfull af bókum - skáldsögum og fræðibókum - og ef ég man rétt eru alveg nokkrir hillumetrar tileinkaðir goðafræði. Ég mun komast að því eftir svona tíu mínútur þegar ég hef lokið við kaffibollann minn og smákökuna með hnetusmjörssúkkulaðibitunum - orku sem er nauðsyn að hafa til að geta notið návistar bókanna til fullnustu. Bækur, kaffi og kaka - er til betri blanda í heiminum?

Innra með mér er þó barátta á milli þess að langa til að sleppa mér alveg lausri hér inni og kaupa fullt af álitlegum bókum, án þess að hafa áhyggjur af tilvonandi vísareikningi eða því hvernig ég hafi hugsað mér að dragnast með bækurnar heim. Mér líður eins og rauði djöfullinn og hvíti engillinn siti á öxlum mér og hvísli skilaboðum í eyra mér, gallinn er bara sá að ég veit ekki hvor er hvor (túlkanir óskast). Reyndar verð ég að viðurkenna að ég held að þetta nám hafi svolítið skemmt mig, núna finnst mér ég ekki mega hugsa um bækur nema þær séu gagnlegar - fræðibækur fram yfir skáldsögur. Kannski er kominn tími til að breyta því, skrifa ég um leið og ég lít úr sæti mínu á annarri hæð yfir skáldsagnadeildirnar á fyrstu og annarri hæð. Játningar um kaup verða hugsanlega í næsta bloggpóst ;o)

Fyrri hluta dagsins varði ég í miðbæ Boston, gekk um og naut þess að vera til í sólinni. Slappaði af í almenningsgarðinum, þar var barnahátíð í tilefni þess að svanirnar sneru aftur (hvaða svanir veit ég ekki og ekki heldur hvernig hægt var að tímasetja komu þeirra, en það var gaman að horfa á hátíðarhöldin), svoskoðaði mannlífið og rölti svo aðeins um göturnar. Eftir áðurnefnda dvöl okkar mömmu hér þá líður mér svolítið eins og ég þekki Boston vel - miðbærinn er hlýlegur og ég er mun hrifnari af þessari borg en New York, þar sem allt er miklu grárra og allir á fullri ferð. Hér má ég ekki líta hissa út án þess að fólk sem á leið fram hjá bjóðist til að vísa mér leið. Allt afgreiðslufólk er til í smá "small-talk" - það mætti eiginlega segja að það sé svolítil smábæjarbragur á fólkinu hér. Ég hef lítið nennt að vera almennilegur túristi, finnst miklu skemmtilegra að villast um bæinn en að leita að einhverjum ákveðnum stað - finnst ég sjá svo miklu meira þannig og verð ekki jafnpirruð á því að kort eiga það til að leiða mig á ranga staði.

mánudagur, maí 06, 2013

On the road again...

Oft fylgir ferðalögum sú löngun að segja frá því sem á daga manns drífur. Ég hef hins vegar alltof oft staðist þá freistingu og hefur þá efalaust hjálpað til að ég get (vægast sagt) verið ansi pennalöt og frestað skrifum þar til fennt hefur yfir þau atvik sem í frásögur hefðu verið færandi. En þar sem ég þykist hafa endurvakið þetta blogg (telst ekki einn póstur örugglega vera endurvakning?) og hef lagt land undir fót, með tölvu í bakpokanum og virðist alls staðar komast í netsamband, þá hef ég eiginlega enga afsökun lengur, sér í lagi þar sem ég á eftir að klára fyrirlesturinn minn og því tilvalið að skrifa eitthvað allt, allt annað ;o)

Ég ligg núna í koju á farfuglaheimili í Kínahverfinu í Boston og er að búa mig undir að fara að sofa, því þótt klukkan sé bara ellefu að staðartíma þá er ég orðin svolítið þreytt. Ég gekk héðan af rútustöðinni og fann að sjálfsögðu ekki götuna sem ég átti að ganga eftir (skv. leiðbeiningum frá farfuglaheimilinu), en fann í staðinn skilti sem benti á Kínahverfið og sirkaði bara út hvert ég ætti að fara og rambaði að lokum á réttan stað og fylltist stolti yfir ratvísi minni - enda ekki auðvelt að lesa á þessi götuskilti í myrkri. Hér virðist vera matsölustaður í hverju húsi og ekki bara kínverskir heldur líka taílenskir og japanskir og svo að sjálfsögðu McDonalds. 

Að sjálfsögðu pakkaði ég í miklum fljótheitum í morgun og þegar ég var búin að stinga bæði sólarvörn og regnhlíf í töskuna fannst mér ég vera fær í flestan sjó - og þegar ég mundi bæði eftir tannburstanum mínum og sokkum - venjulega gleymi ég öðru af þessu tvennu - fannst mér eiginlega að meira þyrfti ekki. Enn er reyndar það stutt liðið á ferðina að ég á eftir að komast að því hvaða nauðsynjahlut ég gleymdi í þetta sinn. Ferðin gekk vel, en einkenndist af biðröðum, fyrst í fjörutíu mínútur í innritun í Leifsstöð og svo í klukkutíma í innflytjendaeftirlitinu í Boston - en á móti kom að Miriam fór með sömu vél og við gátum létt hvor annarri biðina í Leifsstöð og svo fengum við okkur að borða saman þegar komið var til Boston og munum næst sjást í Chicago. Í fluginu sjálfu sat ég við glugga og miðjusætið var autt, þannig að ég gat látið fara mjög vel um mig og í bókabúðinni á flugvellinum fann ég risastóra bók með dulmálskóðunarþrautum - reyndar á ensku en ég ræð a.m.k. við hluta þeirra - og gat skemmt mér við hana þegar ég nennti ekki lengur að horfa á kvikmyndir og þætti.

fimmtudagur, mars 28, 2013

skýr dagur

Það er eitthvað svo yndislega rólegt við páskana, allt er í hægagangi og ekkert stress. Það þarf ekki að baka helling af smákökum, búa til langa lista af því sem á að vera í matinn og kaupa gjafir í stórum stíl. Aðalmálið virðist vera að allir fái sín páskaegg og geti slappað af, nema kannski þeir sem eru að ferma. Fréttaveitan á facebook haggast varla, helgarblöðin eru bæði komin og lesin og margir dagar í næstu tölublöð.

Ég ætti svo sem að vera aðeins stressaðri miðað við allt sem ég að skila af mér upp úr páskum, en ég nenni því ekki (sem gæti skýrt þessa bloggfærslu), heldur sit í inni í stofu með kaffibolla og sleiki sólina sem berst inn um gluggann, hlusta af óminn af Rás 1 sem einhver nágranna minna er með í gangi, hátt stillta, og reyni að stauta mig fram úr ritgerð Hammerichs frá 1836. Ekki nóg með að hún sé á gamaldags dönsku og svolítið sundurlaus heldur er hún prentuð með gotnesku letri og af þeim sökum (og ekki alveg nógra gæða í innskönnun) þá gengur mjög hægt að lesa hana og athyglin flöktir. Mig minnir að pabbi hafi einhvern tíma sagt mér frá einhverri rannsókn um að ef maður gæti ekki lesið ákveðinn fjölda orða á mínútu þá nennti heilinn þessu ekki og hugurinn flökti auðveldlega í aðrar áttir. Lestrarhraði minn er örugglega langt undir þeim mörkum þessa stundina og því er allt mun meira spennandi og ég væri örugglega farin að þrífa eða gera eitthvað álíka ógagnlegt ef það lægi ekki svona mikil leti í loftinu.

Letin kom þó ekki í veg fyrir að ég rölti út í búð áðan. Ekki það að mig vantaði eitthvað stórvægilegt, en var hrædd um að mig myndi vanta allt mögulegt á morgun þegar flestar búðir eru lokaðar. Ég stóðst ekki mátið og keypti mér lítið páskaegg til að maula með kaffinu, það stóð nokkurn veginn undir væntingum, þó að málshátturinn sé frekar til þess fallinn að draga úr manni kjark en að auka bjartsýnina, eða: Fallið sakar þá minnst sem fljúga lægst.

fimmtudagur, febrúar 03, 2011

Jæja

Ég mundi áðan eftir því að ég hefði einu sinni verið bloggari og hef skemmt mér síðasta klukkutímann við að lesa gamlar færslur af handahófi og rifja upp allar minningarnar sem tengjast þeim. Þetta er á við það að fara upp á háaloft og fnna þar kassa fullan af gömlum og rykföllnum dagbókum (reyndar á ég hvorki háaloft né gamlar dagbækur en það er algjört aukaatriði).

Það er skrýtið að lesa síðustu færsluna hér á undan því síðan hún var skrifuð eru komin tvö og hálft ár. Á þeim tíma hefur mjög margt gerst og mjög margt breyst, bæði hjá mér og þeim sem eru í kringum mig, en á sama tíma hefur sumt ekkert breyst.