föstudagur, nóvember 26, 2004

Föstudagur til frægðar

Þá er kominn föstudagur og helgarfrí - jibbý!!!
Reyndar veit ég ekki hvort verður mikið um frí, en það er bara gamall og góður vani að fagna helgarkomu. En eftir viku get ég gert það með sanni, því þá verða allar vinnurnar mínar nánast búnar og þar sem ég gerðist aumingi og tók engan kúrs í Háskólanum á þessari önn get ég farið að jólast á fullu - í fyrsta sinn í 12 ár sem ég þarf ekki að fara í próf í desember.

Annars er mér farin að þykja kennslan skemmtileg - finnst ég vera komin upp á lag með þetta (er ekki viss um að nemendurnir séu sammála). Svo núna er ég að hugsa um að fara í kennslufræðina eftir svona þrjú til fjögur ár - held að ég hafi gott af að gera eitthvað sem tengist skólum ekkert í millitíðinni. Þannig að ég er allaveganna komin með áætlun að framtíðinni.

Í dag var óvenju gaman í strætó á leiðinni heim, því hann var troðfullur af krökkum úr FÁ sem voru að dimitera - í Skrekkbúningum. Þar hitti ég vinkonu systur minnar og vá hvað mér fannst ég vera orðin gömul að hún sem er alltaf svo lítil í hausnum á mér sé að fara að útskrifast úr menntaskóla um áramótin.

Svo verð ég auðvitað að tilkynna á síðunni að ein frænka mín gerðist svo fræg í gær að komast á forsíðu Séð og heyrt. Þar var hún með kærastanum sínum og þau voru að tala um samband sitt og fleira og flottar myndir af þeim innan í blaðinu. Það sorglega er samt að ég hafði ekki hugmynd um að hún ætti kærasta fyrr en ég sá Séð og heyrt í gær - og það segir sitt um fréttaflæðið í fjölskyldunni - samt hitti ég pabba hennar og bróður fyrir tveimur vikum og þeir minntust ekkert á þetta

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Blogggráða

Fann þetta á netinu og fannst það fyndið:

The University of Blogging

Presents to
bullumsullumrugl

An Honorary
Bachelor of
Community Promotion

Majoring in
Attention Seeking
Signed
Dr. GoQuiz.com
®

Username:


Blogging Degree
From Go-Quiz.com

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

brjálaði bormaðurinn

Stundum er barasta ekkert gaman að búa í blokk. Eins og til dæmis núna - þá er einhver að negla og bora og brjóta niður veggi og svona í einhverri nærliggjandi íbúð og það heyrist alltof vel. Svo á milli skorpnanna hjá honum heyrist ýmist í krakkagríslingnum sem er að æfa sig á píanó eða þeim sem er að læra á klarinett. Ég ákvað að taka þátt í keppninni og spila nú tónlist á hæsta af miklum móð - held reyndar að það hafi öfug áhrif því þá virðast keppinautar mínir um óró og ónæði færast allir í aukana og hávaðinn verður óumbærilegur.

Kennslan gengur ágætlega þessa dagana, ég er búin að fatta hvernig er best að láta þau vinna eitthvað í tímum. Annars kemst ég betur og betur að því hvað ég er mikill MR-ingur inn við beinið. Ég hélt nefnilega að mér hefði tekist að bæla það algjörlega niður undanfarin ár, en núna verð ég oft að bíta í tunguna til að koma ekki með athugasemdir á borð við - en ég gerði þetta í MR, þið ættuð að geta gert það líka. Ég skellti til dæmis 1. bekknum mínum í stafsetningarpróf í dag og hvað þau vældu - samt las ég bara upp tæpan helming af tiltölulega léttri æfingu. Auk þess að væla yfir erfiðleikastigi hennar, þá skrifaði helmingurinn af bekknum í hverja línu þótt ég margtæki það fram að þau ættu að skrifa í aðra hverja - þau þóttust ekki geta það.

Svo núna hatar allur 1. bekkurinn minn, mér er reyndar sama um það en er að velta þessu fyrir mér með hvort ég sé haldinn þessum skelfilega MR-hroka. Held reyndar að ástæðan sé sú að ég hef aldrei kennt í menntaskóla, bara verið nemandi í einum slíkum og miði því allt við það sem við vorum látin gera - nema náttúrulega að allt fari versnandi og þessi ´88 grey séu bara ekki á sama þroskastigi og '80 árgangurinn á sínum tíma.

Talandi um níunda áratuginn, þá verður svona '85 ball á morgun og búið að skreyta allan skólann og allir flestir eru í fötum frá þessu tímabili. Skil ekki hvernig tískan gat þróast svona, en þetta er gaman að sjá.

Annars er fullt af afmælum um þessar mundir, ber þar fyrsta að nefna skæruliðana tvo sem báðir eru nú orðnir sjö ára. Dagbjartur átti afmæli á laugardaginn og Gunnar Kristinn telst vera afmælisbarn dagsins í dag - til hamingju báðir tveir.

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Bull á miðvikudagskvöldi

Ég sá áðan lokin á landsleik Íslands og Noregs og þegar Íslendingar minnkuðu muninn í 6-2, sagði annar lýsandinn að núna væri staða Íslendinga að vænkast - og það var eins og hann meinti það. En leikurinn endaði svo 7-2, þannig að þetta tap var mun vænna en 14-2.

Annars langar mig að prófa svona brjótasamandót sem Hagkaup er að auglýsa - það er svo fyndið að sjá hversu hratt þetta gengur í auglýsingunni, ef ég væri að gera þetta myndi ég beygja þetta í vitlausri röð, því þótt þetta virki einfalt er þetta örugglega ekki aulahelt.

Svo sá ég Bráðarvaktarauglýsingu áðan og Carter virðist vera kominn aftur - jibbý og svo var Rory loksins rekinn úr Survivor, æðislegt að sjá hvað hinir kallarnir voru fúlir í atriðum næsta þáttar. Ég held með Twilu en í augnablikinu er Ami sigurstranglegust - en allt getur nú breyst og ég fylgist spennt með því :o)

Og svo er svo langt síðan ég hef tekið svona próf...

You are Marilyn Monroe!
You're Marilyn Monroe!


What Classic Pin-Up Are You?
brought to you by Quizilla


mánudagur, nóvember 08, 2004

Ekki í góðu skapi

Núna er ég búin að kenna sex daga af 25 og ég er búin að ákveða að ég ætli ekki að fara í kennslufræðina - kemur ekki til mála að verða kennari.

Sex dagar og ég er búin að missa röddina gjörsamlega, krakkakvikindin geta ekki haldið sér saman nema í fimm mínútur í einu og skrópa svo í prófum og tímum og kenna misskilningi um og halda að þau eigi þá að fá mætingu - fífl!!!

Svo tekur þetta upp allan tímann að finna eitthvað til að láta þau gera, búa til verkefni og próf - og eru þau þakklát, ónei, þau reyna bara að sleppa eins auðveldlega frá öllu og mögulegt er. Ég er með einn bekk sem er í lagi en tvo sem eru hryllilegir, ef ég væri bara með bekki eins og þann fyrsta myndi ég íhuga kennarastarfið, en eftir hina tvo þá segi ég bara nei takk.

Nú sit ég með sáran háls, þreytt augu og búin að finna enn eitt starf sem mig langar ekki til að vinna við. Gott samt að hafa komist að því áður en ég fór í kennslufræðina. Bara 19 dagar eftir - get ekki beðið.

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Er enn á lífi

Ég lifði fyrsta daginn minn sem kennari af (sem betur fer því ég verð að standa undir fínu nafngiftinni sem Ragnheiður gaf mér). Reyndar kenndi ég bara tvo tíma, en það var alveg nóg. Ég var búin að gleyma hversu leiðinlegir menntaskólanemar geta verið. Þarna var fólk að tala saman, hlusta á geislaspilara og reyna að trufla mig eins mikið og mögulegt er. Þau eru ekki þarna til að læra af sjálfsdáðun, það er alveg ljóst.

1. bekkurinn var allt í lagi - þau hlýddu öllu og dugði að vera svolítið leiðinleg við aðalkjaftaskana til að allt lagaðist. 2. bekkurinn var verri, þóttust aldrei hafa heyrt um bókina sem þau eiga að vera búin að lesa, nema kannski að kennarinn hafi sagt eitthvað um það í síðustu viku. Þegar ég benti þeim svo á að þau hefðu kennsluáætlun sem tæki það skýrt fram að þau ættu að vera búin að lesa þessa bók, hélt ein stelpan því fram að þau ættu ekki að þurfa að lesa kennsluáætlunina, kennarinn ætti að segja þeim allt sem þau þyrftu að vita!!!

Stjörnuspáin mín í mogganum fyrir laugardaginn var alveg furðulega rétt - í henni stóð eitthvað á þessa leið: Þú átt eftir að öðlast fjármuni í dag en þú verður að passa þig á eyðslunni. Og viti menn, áður en ég las stjörnuspána þá hafðí ég komist að því að ég var búin að fá útborgað fyrir október og af því tilefni pantað geisladiska með Travelling Wilburys í gegnum netið.

Ég held að ég ætti að fara að loka vísakortinu mínu - það er nefnilega alveg stórhættulegt að eiga svoleiðis og vera nettengd. Ég tók líka smá syrpu á Amazon fyrir helgi. Nú vona ég bara að ég lendi ekki í því að þurfa að borga mikla tolla af öllu nýja dótinu mínu og þá get ég bráðum farið að munda vísakortið aftur :o)