sunnudagur, janúar 27, 2008

:o)

Það styttist í forsetaforvalið í New York-fylki (5. febrúar). Ég hef ekki heyrt neinn hérna minnast á forval repúblikana, enda er þetta víst vinstrisinnaðisti bær landsins. Að auki er það forval ekki nærri því jafnspennandi og keppnin á milli Barracks Obama og Hillary Clinton - stundum finnst mér að það séu alvöruforsetakosningarnar. Fólk hérna setur gjarna upp skilti fyrir framan hús sín til að lýsa yfir stuðningi við menn og málefni (uppáhaldið mitt er: Support Our Troops *** End the War). Á leið minni út í búð áðan (kortersganga) sá ég að minnsta kosti átta Obama-skilti en ekki eitt einasta Clinton-skilti, en það misræmi gæti reyndar stafað af því að stuðningsmenn Obama eru mun duglegri við að ganga í hús og bjóða upp á spjöld og alls kyns merki.

Blogglægð vikunnar má skrifa á það að skólinn byrjaði aftur á mánudaginn og síðan þá hef ég haft nóg að gera, bæði í skólanum og því að hitta vini og kunningja. Þeir áfangar sem ég tek/sit í þessa önn eru franska (læra að lesa málið), hettitíska og typology (hef ekki hugmynd um hvað það kallast á íslensku en fjallar um innri gerðir tungumála). Nemendum mínum hefur fækkað og við fáum ekki lengur að vera í sparikennslustofunni - en það er alltaf jafngaman að ofuráhuga þeirra á íslensku.

Hamingjuóskir dagsins fara svo til Unu og Fouads sem eignuðust heilbrigða og fallega dóttur á fimmtudaginn :o)

mánudagur, janúar 21, 2008

naut og steingeit

Eftir að hafa lesið fréttir af sviptingum í borginni á mbl.is rak ég augun í stjörnuspána neðst á síðunni:
Naut: Það söðla um og fara að vinna með alveg nýju fólki getur verið mikið átak. En ef þú ert að sækja í enn betri vinnufélaga, getur þetta verið stórkostleg hugmynd.
Og nú get ég ekki annað en velt því fyrir mér hvort Ólafur F. Magnússon sé í nautsmerkinu.

Ég vona allavegana að þetta sé stórkostleg hugmynd og allt eigi eftir að falla í ljúfa löð í borgarstjórn að þessum gjörningi loknum - en er þrátt fyrir vongæskuna nokkuð viss um að það muni ekki gerast, heldur aukist bara rifrildin og vesenið og við fyrsta tækifæri verði reynt að lokka einhverja úr hinum nýja meirihluta yfir til fráfarandi meirihluta - jafnvel þvert á pólitískar flokkslínur. Á svona stundum fæ ég óneitanlega á tilfinninguna að kjörnir fulltrúar eyði stundum meiri tíma í að rífast og plotta en að huga að því að vinna saman að því að bæta hag fólksins sem kaus þá.

Í síðustu bloggfærslu, þar sem ég leitaði að stórafmæli eða -viðburði fyrir 19. janúar þá miðaði ég við árið 1938, til að halda mynstrinu gangandi. Hins vegar var mér bent á að ég hefði leitað langt yfir skammt því frændi minn hann Jón Orri fæddist þennan dag árið 1983 (einungis 45 árum of seint til að verða sjötugur - en ef 38 er víxlað kemur út 83), hann fær því síðbúnar afmæliskveðjur og þann heiður að vera stórafmælisbarn þessarar færslu :o)

sunnudagur, janúar 20, 2008

hmmm....

Nú hef ég málað mig út í horn, alveg óvart hafa tvær síðust færslur tengst stórafmælum - fimmtugs og sextugs. Til að halda mynstrinu áfram þyrfti sjötugsafmæli að koma við sögu í þessari færslu. Því miður veit ég ekki um neinn sem fæddist þann 19. janúar* 1938 né man eftir nokkru merkilegu við þá dagsetningu - það næsta sem ég hef komist er að Janis Joplin hefði orðið 65 ára í dag hefði hún lifað. Hún var ekki nema 27 ára þegar hún dó, líkt og tónlistarmennirnir Jim Morrison, Kurt Cobain og Jimi Hendrix - eins og einn skólabróðir minn hérna og jafnaldri benti mér á þegar ég náði þeim glæsilega aldri í því skyni að sýna mér hversu litlu við hefðum áorkað á frægðarferli okkar í samanburði við þau. Ég gaf nú reyndar lítið fyrir það og sagðist frekar kjósa að verða gömul og ófræg en deyja ung og verða goðsögn.

*Athugið að tímasetningin á blogginu mínu er á íslenskum tíma og því fimm tímum á undan sjálfri mér ;o)


fimmtudagur, janúar 17, 2008

dæ hard eitt, dæ hard tvö...

Ég var búin að gleyma hvað þetta var fyndið (úr Áramótaskaupinu 2001)




Annars var leikurinn áðan virkilega sorglegur (með hjálp skype, pabba og mbl.is tókst mér að fylgjast með honum). Svíagrýlan er greinilega í fullu fjöri, því ekki virtust Svíarnir vera neitt betri en íslenska liðið þegar það spilar af venjulegri getu. Og það er alltaf grátlegt að tapa með stórum mun fyrir liði af sama styrkleikaflokki.

mánudagur, janúar 14, 2008

En Æðstistrumpur segir...

Mig dreymdi svo skringilegan en um leið fallegan draum núna í morgunsárið að ég vildi ekki vakna frá honum. Þannig að í stað þess að vakna snemma og verða mikið úr verki eins og ég ætlaði mér, rumskaði ég fyrst við vekjaraklukku sambýlingsins, slökkti svo á öllum þremur vekjarasímhringingunum mínum um leið og þær upphófust og heyrði svo milli svefns og vöku í vekjaraklukku sambýlingsins fara aftur og aftur af stað (og alltaf slökkt á henni jafnóðum).

En samkvæmt draumráðningarsíðu er ekkert neikvætt að finna í draumnum, bara fyrirboða um öryggi, visku, vernd, væntumþykkju og nýtt upphaf.



Svo las ég áðan að Strumparnir ættu fimmtíu ára afmæli í dag. Ég held að teiknimyndirnar hafi komið út með íslenskri talsetningu þegar ég var lítil, allavegana var mikið strumpaæði á þeim tíma - hægt að kaupa strumpabrauð, strumpapáskaegg og strumpanammi og eflaust eitthvað fleira. Ég þarf samt greinilega að horfa aftur á þessar teiknimyndir (hvenær ætli þær komi út á DVD?) því ég man eftir alltof fáum nöfnum - Æðstistrumpur, Strympa, Letistrumpur, Gáfnastrumpur, Hégómastrumpur(?), og Bakarastrumpur eru þau einu sem ég get rifjað upp í fljótu bragði. Hvað hét aftur strumpurinn sem hataði allt og alla?






Which Smurf are you?
created with QuizFarm.com
You scored as Papa Smurf

You are Papa Smurf. You are always the leader of the group and you make all the important decisions, whether you like it or not... You should see what it's like to not lead a group for once, wear somehting that nobody will recognise you in, like white pants, and shave your beard...


Papa Smurf


70%

Lazy Smurf


60%

Vanity Smurf


45%

Greedy Smurf


40%

Smurfette


35%


sunnudagur, janúar 13, 2008

svindl (o me miseram!)

Núna ætlaði ég mér að sitja og fylgjast með leiknum Ísland-Tékkland á netinu, sem smásárabót fyrir að missa af EM, en nei, það er ekki boðið upp á netútsendingu - ekki er verið að lýsa leiknum í útvarpinu og það skásta sem ég hef komist í er veflýsing á Vísi - sem er skárra en ekkert en samt ljósár frá því að vera handboltaleikur.

Ég er næstum farin að halda að æðri máttarvöld séu að senda mér skilaboð. Boðin má túlka á tvo vegu, annaðhvort á ég ekki að vera að flækjast í útlöndum eða þá að gera eitthvað gáfulegra en að horfa á íþróttir.

Það voru þrír íþróttaviðburðir sem ég hlakkaði til að fylgjast með í ár: EM í handbolta, EM í fótbolta og ólympíuleikarnir og ég var komin með áætlun um hvernig ég ætti að fylgjast með þeim þrátt fyrir utanlandsflandur.

Ég vissi að þrátt fyrir að útsendingar RÚV á handboltaleikjum næðust ekki á netinu utan Íslands, þá yrði hægt að gerast áskrifandi að leikjum á síðu UEFA. Þegar ég fór svo á þá síðu kom í ljós að sú þjónusta stendur ekki öðrum til boða en þeim sem eru með Microsoft-stýrikerfi. Þannig að sá möguleiki er úr sögunni.

Ég er ekki bjartsýn á að finna einhvern stað hér sem sýnir leiki í EM í knattspyrnu (sjónvarpsrásir eru útilokaðar þar sem hæðir og kapalleysi veldur því að við náum einungis Fox og einhverri kristilegri stöð), en hélt að ég yrði örugg með að sjá allavegana lokaleikina ef ég kæmi heim um mánaðamótin júní-júlí. En í gær komst ég að því að úrslitaleikurinn verður leikinn 23. júní. (Ég verð þó að viðurkenna að ég er orðin vön því að missa að mestu af EM og HM í fótbolta, því útlandaflandur og tilheyrandi sjónvarpsleysi sem og einokun Sýnar hefur orðið til þess að ég hef ekki getað fylgst almennilega með slíku móti síðan sumarið 2000.)

Reyndar eru ólympíuleikarnir eftir ótruflaðir, þannig að ég bíð í ofvæni eftir að sjá hvað kemur í veg fyrir að ég geti horft á þá ;o)

föstudagur, janúar 11, 2008

gleðilegt ár

Þá er ég komin aftur til útlandsins, enn á íslenskum tíma og með fulla tösku af nammi, aðallega til að sanna það að íslenskt nammi er best í heimi (og þess vegna er ég á leið út í búð núna áður en ég geng meira á birgðirnar, voðalega fátt annað til ætilegt á heimilinu).

Ef mér telst rétt til tók ferðalagið 19 tíma, frá því að ég lagði af stað að heiman og þangað til ég var komin heim aftur (notkun mín á heim/heiman/heima er mjög frjálsleg þessa dagana). Ég gæti kvartað, til dæmis um þrengsli í flugvélinni, hvað það tók langan tíma að komast í gegnum vegabréfaskoðun (löng röð og fáir að vinna) og örugglega margt fleira - en þar sem ég komst heilu og höldnu á áfangastað og var hleypt inn í landið nenni ég því ekki.

Þar sem ég hef bara haldið mig inni í herbergi í dag hef ég enn ekki séð neitt lífsmark hérna nema hjá kisu, sem er alveg óð í athygli og umhyggju, enda verið meira og minna ein síðustu þrjár vikurnar.

Jólafríið heima var yndislegt, ég gerði kannski ekki margt en það var allt skemmtilegt (fór meðal annars vestur á Ísó) - tíminn hljóp gersamlega frá mér og ég hefði alveg getað hugsað mér að vera lengur, svo það var erfitt að fara.


En til að koma mér aftur í bandaríska gírinn tók ég þetta próf:
85% Barack Obama
84% Chris Dodd
83% Hillary Clinton
82% John Edwards
76% Bill Richardson
75% Dennis Kucinich
74% Mike Gravel
74% Joe Biden
39% Rudy Giuliani
33% Tom Tancredo
30% Mitt Romney
27% John McCain
23% Mike Huckabee
20% Ron Paul
20% Fred Thompson

2008 Presidential Candidate Matching Quiz