mánudagur, nóvember 26, 2007

að þökkum gjörðum

Þá er þakkargjörðarhátíðarhelgin að baki. Ég fór í þrjú matarboð á tveimur dögum þar sem kalkúnar voru í aðalhlutverkum, eitt sem var fyrir útlendinga, annað fyrir málvísindanema og það þriðja hjá kennaranum sem sér um forníslenska leshringinn. Öll heppnuðust þau mjög vel og það var óneitanlega gaman að prófa svona bandaríska hátíð. Reyndar var þetta allt saman ósköp líkt jólunum heima, nema hvað það vantaði pakkana og stressið.

Á fimmtudagskvöldið eftir málvísindamatinn fór ég með einni stelpunni þaðan til bæjar í klukkutímaakstursfjarlægð, en á miðnætti hófst útsala í verslanamiðstöðinni þar í tilefni föstudagsins svarta (sem er víst aðalverslunardagur ársins). Við röltum um og skoðuðum en keyptum fátt, aðallega var gaman að sjá loksins snjókomu og heyra jólalög. Það sem kom mér þó mest á óvart var hve ólíkt fólkið sem ég sá þarna var frá því fólki sem býr í borginni minni.

Því miður hef ég verið óþarflega pennalöt upp á síðkastið, en í stuttu máli hefur tíminn flogið áfram, mér finnst nóvember nýhafinn og september eiginlega hafa verið í gær. Kennslan hefur gengið vel, enda er ég með mjög áhugasama nemendur. Námið gengur svona upp og ofan en að mestu upp og utan þess þá hef ég stóran hóp af fólki til að leika við. Aðalfélagar mínir hafa verið sjö útlendingar sem ég hef kynnst að mestu í gegnum samveru í Stóru rauðu hlöðunni og hef ég gert ótalmargt með þeim, til dæmis héldum við graskerjaveislu á hrekkjavökunni þar sem við elduðum þríréttaða máltíð og grasker voru aðaluppistaðan í öllum réttunum - síðustu vikurnar hafa svo verið fjölmörg matar- og kaffiboð þar sem fólk hefur boðið upp á eitthvað sérstakt frá sínu landi, mig vantar eiginlega hugmyndir um hvað ég get gert sem er séríslenskt/algengt á Íslandi og ég hef hæfni til að elda.

Málvísindaliðið gerir líka margt skemmtilegt saman (svo margt að fólk úr öðrum deildum hefur kvartað yfir því hversu miklu skemmtilegri mín deild er en þeirra) og svo hef ég hitt hina Íslendingana allavegana tvisvar (og finnst alltaf jafnskrýtið að tala íslensku). Við tækifæri (vonandi fyrir jól) mun ég setja inn nokkrar myndir, svo þið getið séð með eigin augum allt það skrýtna fólk og þá furðulegu staði sem ég er orðin vön.

Núna sit ég svo og reyni að koma saman fyrirlestri um þágufallssýki sem ég á að flytja á þriðjudaginn og því miður kemst ég ekki upp með það að segja bara að þetta sé vitlaus íslenska og eigi að vera leiðrétt samstundis, heldur er ég nú að lesa greinar sem skýra af hverju fólk á það til að nota þágufall eða nefnifall þar sem á að vera þolfallsfrumlag. Það sem fer þó mest í taugarnar á mér er hversu miklu lengur ég er að semja texta á ensku en á íslensku. Verkefni sem ég myndi rumpa af á klukkutíma heima taka minnst tvo tíma hér - allt út af tungumálaörðugleikum.