Efsta röð frá vinstri: Esra, Cliff, Johanna, Becky, Peggy, Serena, Brandi, Henry
Miðröð frá vinstri: Adam, Jo, Ed, Steven, Ég
Neðsta röð frá vinstri: Gabe, Satoshi, Masa, Hongyuan
Fáir mættu með brennuefni sem reyndist í lagi því að þeir sem komu með eitthvað höfðu nóg handa öllum. Gleðin og léttirinn voru gríðarleg þegar fólk brenndi gömul verkefnablöð, glósur og útprent af greinum og allir fundu eitthvað við sitt hæfi (nema reyndar ég - en ég hef aldrei verið hrifin af að brenna bækur eða neitt það sem tengist þeim). Ég stóðst ekki mátið í miðjum gleðilátunum og spurði af hverju þau væru eiginlega í þessari deild fyrst það væri svona mikill léttir að brenna glósur og verkefni, fátt varð um svör þangað til að annar þeirra sem deilir áhuga mínum á útdauðum tungumálum glotti og sagði að enginn hefði brennt neitt sem tilheyrði sögulegum málvísindum (en það er líklega vegna þess að nánast enginn í þessari deild tekur slík námskeið).
Og þegar öllu hafði verið kastað á bálið grilluðum við sykurpúða á trjágreinum yfir eldinum og átum þá með súkkulaði og kexi (slíkar samlokur kallast smores og eru með því bandarískasta sem til er).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli