föstudagur, október 12, 2007

loksins blogg sem er hvorki um ketti né stjörnuspár

Auðvitað gerist allt þegar ég fer ekki á netið í nokkra daga. Ekki nóg með að það hafi verið hálfgerð Bítlavika heima heldur féll borgarstjórnarmeirihlutinn. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hef tiltölulega lítinn áhuga á stjórnarskiptunum (nenni ekki einu sinni að lesa um REI-málið ógurlega) en ég sárvorkenni Úllu - því samkvæmt því litla sem ég hef lesið hafa nánast verið stöðugir borgarstjórnarfundir síðustu vikuna.

Ég er komin í smákreppu með þetta blogg mitt, alltof margt sem ég á eftir að skrifa um og það veldur því að ég skrifa bara alls ekki neitt. Það er alltaf nóg að gera, námið og kennslan taka drjúgan tíma og margt hægt að finna sér til dundurs þess á milli. Síðan ég skrifaði síðast almennilega hérna hef ég farið í nokkrar sunnudagsgönguferðir í nálægum friðlendum (state parks) með fólki úr málvísindadeildinni, farið í þjóðdansatíma og á eplauppskeruhátíð, heimsótt Stóru rauðu hlöðuna nokkrum sinnum og ótal margt fleira (og svo getur það eitt að kaupa í matinn tekið tvo til þrjá tíma - fer eftir búðum og tíðni strætóferða).

Um síðustu helgi reyndi ég að skilja bandarískan fótbolta og fór ásamt fleiri útlendingum á leik gegn Harvard. Fyrst fengum við pítsur og kennslu í grundvallaratriðum leiksins og fórum svo á völlinn í 25 stiga hita og blíðviðri (og getið nú hver sólbrann). Það leið ekki á löngu þar til ég var farin að skilja út á hvað leikurinn gengur og þeir fáu kaflar leiksins sem innihéldu eitthvað bitastæðara en endalaust miðjumoð voru áhugaverðir. Reyndar var erfitt að halda huganum við leikinn þar sem að á milli áhorfendasvæðisins og leikvallarins voru klappstýrur með fimleikaatriði og lúðrasveit að spila og því hvarflaði athyglin óneitanlega töluvert þangað - enda voru atriði þeirra sérkapítuli og ekki í miklum tengslum við leikinn sjálfan.

Á laugardaginn var opnaður þriggja helga bókamarkaður. Góðvinir sýslubókasafnsins standa fyrir honum og fer allur ágóðinn til bókasafnsins. Bækurnar eru verðlagðar eftir gerð (hörð kápa eða kilja o.s.frv.) og verðið lækkar daglega (hæsta verð fyrsta daginn var fjórir og hálfur dalur). Með slíkri verðlagningu er því auðveldlega hægt að fá góðar og jafnvel sjaldgæfar bækur ódýrt enda voru einhverjir komnir í biðröð fyrir utan kvöldinu áður. Ég kom þangað ásamt sambýlingnum korter í sjö að morgni (það var opnað klukkan átta) og þá var röðin orðin mjög löng og ég sá eftir að hafa ekki tekið myndavélina með mér, því hver á eftir að trúa mér að fólk hafi tjaldað á gangstétt til að verða fyrst til að komast inn á bókamarkað sem selur notaðar bækur? Við vorum heppnar, því við vorum þær síðustu sem komust inn í fyrsta holli. Ég keypti ekkert mjög margar bækur og þær voru allar fimmtán einstaklega vel valdar. Hins vegar ætla ég aftur um næstu helgi (sem er sú síðasta) þegar verðið verður komið niður í tíu sent og kaupa heilan helling af skáldsögum (er reyndar ekki viss um hvernig eða hvenær ég ætla að finna tíma til að lesa þær).

Annars er farið að hausta hér, hitinn kominn niður í tíu gráður og skítkalt í samanburði við síðustu vikur. Upphitun á húsinu er ekki komin almennilega í gagnið þannig að það að komast úr hlýju rúminu í morgun var að mínu mati töluvert afrek og ég sá eftir að hafa bölvað hitanum ;o)

Vona að þið hafið það öllsömul rosagott þarna heima :o)

þriðjudagur, október 02, 2007

fullkominn dagur!!!

Jaha, tad munar ekki um tad. Er reyndar buin ad fa meira en smaskammt af laerdomi i dag (var i timum milli tiu og trju) og hef naestum heila niu tima til ad upplifa allt hitt (asamt tvi ad troda inn sma meiri laerdomi) :o)

Meyja: Þetta er fullkomni dagurinn þinn. Smá skammtur af ást, af lærdómi, af ævintýri og líka af glamúr. Og auðvitað, gullið tækifæri til að græða smá pening.