miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Survivor

Mér til mikillar gleði er Survivor byrjaður aftur og ég sé fram á margar gleðistundir á mánudögum næstu vikurnar. En samt fór fyrsti þátturinn svolítið í taugarnar á mér. Mér fannst alveg óþarfi að kjósa þannig í lið að tveir keppendanna dyttu strax út og voru í raun ekki með. Mér fannst það í raun andstyggilegt að hafa sagt fólki að það ætti að vera með í keppninni og senda það svo heim áður en hún byrjaði í raun og veru.

Ég er reyndar viss um að syngjandi enskukennarinn hefði orðið virkilega pirrandi ef hún hefði haldið áfram, en ég las viðtal við hana í gær, þar sem að hún var að segja frá hvernig það hefði verið draumur sinn í mörg ár að fá að vera með í survivor, að fá að vera hluti af ættflokki, taka þátt í þrautum og fara svo á ættflokkaþing. Þegar hún fékk að vita að hún yrði með að þessu sinni, ákvað hún að undirbúa sig eftir bestu getu - komst í gott líkamlegt form, lærði samtalstækni og stjórnunartækni, svo að allir yrðu vinir hennar og litu upp til hennar og svo áttu söngvarnir hennar að vera uppörvandi og skemmtilegir.

Eftir að hafa lesið þetta fannst mér þetta enn grimmilegra en fyrr og ætti bara að vera bannað að leyfa fólki að komast svona nálægt því að fá draum sinn uppfylltan en rífa það svo í burtu. Ég held að áhorfendum hafi ekki þótt þetta nógu skemmtilegt til þess að það væri réttlætanlegt - var spennuvaldur í 10 mínútur en svo búið. Núna vona ég bara að það verði eitthvað plott, sem leyfir þeim að koma aftur.

laugardagur, febrúar 12, 2005

hausinn á mér er stundum ekki í lagi

Ég er að þykjast að vera að byrja að skrifa ritgerðina mína. Lenti reyndar í því í gær að fara að leita að dulmáli og vonaðist til að finna dulin skilaboð frá höfundi Snorra-Eddu. Held svona einhvern veginn að ég hafi lesið yfir mig af dulmálslyklabókum, fyrst Dan Brown og svo núna síðast Belladonnaskjalið, sem einmitt fjallar um skrif lokaritgerðar í háskóla - held að mín verði aldrei svona spennandi. Kannski hér sé komin hin fullkomna afsökun til að skrifa ritgerðina aldrei, engin von um að ég lendi í jafnmiklum ævintýrum við það og skáldsagnapersónur.

Annars sjá kúrsarnir sem ég er í alveg um það að blekkja mig til að hugsa að það sé nóg að gera hjá mér. Hélt fyrirlestur í öðrum þeirra á fimmtudaginn, sem var útdráttur úr kafla í kennslubókinni og átti að nota powerpointglærur með. Ég samdi þriggja blaðsíðna fyrirlesturinn fyrst og ætlaði svo að búa til glærur, einhvern veginn tókst mér að víxla fyrstu og annarri blaðsíðu áður en ég gerði glærurnar og þannig hélt ég svo fyrirlesturinn án þess að fatta neitt. Fannst reyndar skipulagið hjá bókarhöfundinum ekki alveg nógu gott, fattaði svo þegar ég kom heim og fór að laga útdráttinn sem ég átti að skila með að skipulagið hjá honum var bara býsna gott - það var bara ég sem var að ruglast.


hippies
You are a Hippie. Wow.


What kind of Sixties Person are you?
brought to you by Quizilla

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Má þetta?

Ég fékk bréf í morgun frá rannsóknastöð Erfðagreiningar, þar sem mér var tjáð að búið væri að fara yfir spurningalista sem ég svaraði síðast þegar ég var í úrtaki hjá þeim. Samkvæmt svörum mínum þar væru líkur á að ég væri með e-n leiðindasjúkdóm sem svo skemmtilega vill til að þeir eru einmitt að fara að rannsaka.

Ég varð alveg skíthrædd fyrst þegar ég last þetta en las svo framhaldið og samkvæmt því þá á í mesta lagi eitt einkenni af fimm við mig, sem er mér töluverður léttir. En ég á hins vegar ekki eftir að þora öðru en að fara í rannsóknina - kannski það sé nýja aðferðin til að fá fólk í rannsóknir, að hræða það upp úr skónum. Svona þar sem ég þekki mjög fáa sem hafa aldrei tekið þátt í rannsókn og marga sem hafa verið í fleiri en einni og nenna kannski núorðið ekki að fara í fleiri.