laugardagur, febrúar 24, 2007

goð spurning ;o)

jæja

Ég var dauðfegin í gær þegar ég horfði á Gettu betur að hafa ekki verið á vakt á Fréttablaðinu þann 3. júlí í fyrra. Nú óttast ég bara að það komi svipuð spurning upp úr DV eða einhverju sem ég hef lesið yfir. Eftir að hafa horft á þennan þátt gerðist ég menningarleg í tilefni Safnanætur og fór með Unu og Fouad á listasafnið, ég held að það séu tæp 20 ár síðan ég steig þangað fæti síðast. Sem er mjög sorglegt þar sem að mér finnst gaman að horfa á málverk og er að hugsa um að fara að gera meira af því og kannski að fara að spekúlera í straumum og stefnum. Ég hef lært töluvert um listasögu fram til ársins 0, sem var víst ekki til, en þekking mín á næstu 2000 árum á eftir ristir ekki mjög djúpt.

Ef einhver sem lest þetta hefur enn áhuga á Baugsmálinu, þá finnst mér merkilegt hversu mikla athygli nafnlausa bréfið fær og hversu miklu uppnámi það hefur valdið - hlýtur að þýða að eitthvað sé til í þessu hjá bréfritara. Hans er nú leitað og telja margir að orðið "óekkí" sem kemur fyrir í lok bréfsins muni koma upp um hann.

Og svona ef einhver hefur áhuga á því, þá er bloggið mitt komið yfir á google-form. Eina breytingin sem ég hef orðið vör við er að núna þarf ég að nota gmail-fangið mitt til að logga mig inn. Engin komment virðast hafa týnst og enn koma stafir með kommum yfir ekki fram í fyrirsögnum (allavegana sé ég þá ekki).

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

neytendafrömuður?

Jæja, þá er ég komin aftur heim frá Ísafirði, algjörlega afslöppuð. Fór í fjögurra daga helgarferð þangað með mömmu og Gunnhildi, til að hitta afa og ömmu og aðra ættingja og njóta lífsins. Það tókst og betur en það. Í dag var orðið svo hvasst að ekki var hægt að lenda flugvélum á vellinum, og vonaðist ég svona hálft í hvoru til þess að verða veðurteppt þarna. En þar sem fært var frá Þingeyri voru allir farþegarnir fluttir í rútu til Dýrafjarðar og þaðan svo flogið. Hin síðari ár er ég alltaf jafnglöð að sjá hina "hráu" fegurð Vestfjarða, fjöllin með hömrum sínum og klettum sem gnæfa yfir bæjunum og sjóinn sem er margbreytilegur bæði að lit og skapi og finnst ég vera komin heim.

Það síðastnefnda er kannski ekki skrýtið, þar sem ég rek uppruna minn mestmegnis til Vestfjarða, báðar ömmur mínar og annar afi minn fæddust þar og ólust upp. Nánar tiltekið Álftafirði, Önundarfirði og Skálavík. Ég veit mismikið um forfeður mína, mest veit ég um systkinin Jónatan og Aniku, sem eru langafi minn og langalangamma, foreldra þeirra, Magnús og Guðrúnu, og mann Aniku Reinald (sem er eini forfaðir minn sem hefur skrifað ævisögu sína og það í tveimur bindum - reyndar er hvort þeirra fyrir sig einungis um 100 síður, en það er aukaatriði).

Afi sagði mér þá sögu af Magnúsi, langaafa sínum, að hann hafi einu sinni lent í töluverðum lífsháska þegar hann var ungur maður. Svo var mál með vexti að hann vann við fjárgæslu í næsta dal við Bíldudal. Einhverju sinni var hann staddur í búð á Bíldudal þegar fimm franskir sjómenn komu þangað inn og ætluðu að selja hnífa sem þeir voru með og litu glæsilega út. Magnús fékk að handleika einn hnífinn og stakk honum í borð, en við það brotnaði oddurinn af og sagði hann hnífana greinilega til einskis nýta. Fransmennirnir voru ekki par sáttir við þetta og veittu Magnúsi fyrirsát nokkrum dögum seinna þegar hann gekk til kinda og hafði hann broddstaf einn vopna og særðist töluvert í atganginum og komst naumlega til næsta bæjar. Síðar orti hann þessa vísu um atvikið:

Birtan dvínar, björg ei finn,
bilar kraft í leynum.
Þegar sævar seggir fimm,
sóttu að mér einum.

mánudagur, febrúar 12, 2007

mánudagur, febrúar 05, 2007

ellin færist yfir...

Ég var í bankanum áðan að tala við þjónustufulltrúa, sem er kannski ekki í frásögur færandi, nema hvað hún þurfti að hringja og ráðfæra sig við einhvern og byrjaði símtalið á að segja: "Það er kona hérna hjá mér, sem þarf að fá upplýsingar um..."
Það tók mig óneitanlega svolitla stund að átta mig á því að þessi kona sem hún minntist á var ég, síaðist ekki almennilega inn fyrr en hún las upp kennitöluna mína.

Ég vil nefnilega ekkert kannast við það að vera kona, finnst það alltof fullorðinslegt orð, þó svo að ég verði eiginlega að viðurkenna að ég er orðin of gömul til að vera kölluð stelpa. Það vantar eitthvað svona millistigsorði fyrir "konur" eins og mig.

Ekki bætti það úr skák að ég fór svo strax á eftir í Ríkið og afgreiðslumanninum þar datt ekki í hug að biðja mig um skilríki. Og ég held að það séu komin tvö ár síðan ég var síðast beðin um slíkt. Þannig að það eru greinilega einhver ellimerki komin á mig :o(