mánudagur, júní 30, 2008

þrumur og bangsar

Á meðan mamma var í Íþöku ákváðum við einn eftirmiðdaginn að bregða okkur í smá göngu, enda þurfti ég að standa við stóru orðin og sanna að Íþaka væri í raun og sann „gorges“ (gilótt/gorgeous). Þar sem uppáhaldsgilið mitt sem liggur frá strætóstoppistöðinni upp á háskólasvæðið er lokað vegna vorviðgerða sáum við okkur þann kost vænstan að rölta að Áfafossunum (Buttermilk Falls). Þangað er einungis fimmtíu mínútna gangur og þar sem leiðin liggur um stórverslanasvæðið gat ég teymt mömmu í Wegmans, óhugnanlega stóra matvörubúð þar sem úrvalið er svo mikið að ég finn sjaldnast það sem ég leita að (og fer því ekki þangað nema mig langi í góð rúnnstykki) til að sýna henni herlegheitin.

Þegar við nálguðumst Áfafossana sáum við göngubrú sem virtist vera ætluð til þess að gangandi vegfarendur kæmust yfir þjóðveginn án þess að eiga á hættu að slasa sig á bílum. Hvernig sem við leituðum (bæði á þessari hlið og svo hinni á leiðinni til baka) fundum við ekki uppganginn á brúna þannig að við neyddumst til að skáskjóta okkur á milli bíla til að komast á áfangastað. Þangað komnar skoðuðum við skilti um jarðsögu svæðisins og hófum svo giljagönguna. Fyrst gengum við upp með gilinu, í návígi við fossana (sem eru sjö talsins) og köstuðum mæðinni á brú yfir þann efsta og gátum þar valið á milli þess að fara yfir brúna og ganga niður hina hlið gilsins eða fara lengra og komast að vatni sem er þarna í nágrenninu. Við tókum síðari kostinn og fórum eftir slóða sem kenndur var við birni, en þar sem engin viðvörunarskilti voru sjáanleg ákváðum við að þar væri enga birni að finna þrátt fyrir nafngiftina. Reyndar vorum við svolítið hvekktar að ganga eftir bjarnarslóða í gegnum þykkt skógarþykknið rétt fyrir sólsetur (um morguninn höfðum við lesið að leitað væri að þriðja ísbirninum heima - en vissum ekki þá að hann reyndist hafa verið kind) og kannski ekki að ástæðulausu því tveimur dögum síðar frétti ég að birnir hefðu verið á ferð ekkert mjög langt frá þessum stað (en það er óvanalegt).

En þegar okkur leist ekki lengur á skyggnið snerum við við og fórum niður gilið hinum megin og máttum ekki seinni vera. Því þegar við eygðum kóksjálfsalann (einhverra hluta vegna er einn slíkur við allar gönguleiðir hérna) og skýlið sem hann stóð undir hófst þrumuveður og grenjandi rigning. Við þökkuðum okkar sæla að hafa snúið við tímanlega og borðuðum nestið okkar í skýlinu á meðan eldingarnar leiftruðu í kringum okkur (og ansi nálægt sumar) og regnið streymdi.

Eftir hálftíma óveður var okkur loks fært að komast úr skýlinu og rölta heim. Á heimleiðinni sáum við að eldingu hafði greinilega lostið niður í spennustöð því nokkur hverfi voru rafmagnslaus. Við það hafði slokknað á þó nokkrum umferðarljósum á aðalumferðargötunni en löggan var fljót að átta sig og setti upp færanlegar stöðvunarskyldur, upplýstar með neyðarblysum.


Því miður náðum við engum myndum af mórauðum rollum (enda engar á ferli) en í staðinn er hér neðsti fossinn, býsna úfinn eftir hálftíma hellirigningu (til hægri má sjá grilla í stíginn sem við fórum upp).



Hér er svo mynd af stormþrungnum himninum.

sunnudagur, júní 29, 2008

jamm og jæja

Stærsta menningarsjokkið sem ég hef orðið fyrir hérna snýr að barneignum. Tvær stelpnanna í deildinni hafa öðru hvoru í vetur verið að plana barneignir, það er hvenær á náms-/fræðimannaferlinum það væri hentugast fyrir þær að eignast barn. Takið sérstaklega eftir eintölunni, konur sem ætla sér að verða fræðimenn hér og eiga ekki heimavinnandi eiginmenn geta víst ekki leyft sér að eiga meira en eitt barn því annað myndi eyðileggja ferilinn (og jafnvel það að eiga eitt er hættulegt). Ég talaði um þetta í fyrradag við tvær aðrar, frá Englandi og Bandaríkjunum. Sú enska sagðist aldrei hafa séð kvenkyns háskólakennara sem ætti börn fyrr en hún kom til Bandaríkjanna og þá bara eina eða tvær, sú bandaríska sagði að fræðimannastörf væru hugsuð fyrir gifta karlmenn sem ættu konur sem sæu um heimilið (barnlausar konur og einhleypir karlar væru næstbesti kosturinn) og báðar sögðu þær að þær þyrftu að velja á milli þess að eignast fjölskyldu eða helga sig fræðunum.

Ég benti þeim á að það væri nú frekar asnalegur hugsunarháttur, og að heima þyrftu konur ekki að velja á milli, því þar væri að miklu leyti hægt að samræma barneignir og frama og konur í þeirra stöðu ættu að berjast fyrir einhverju svipuðu, til dæmis aukningu dagheimila. Sú enska sagðist þá aldrei myndu treysta einhverjum óskyldum sér til að gæta barna fyrir sig á meðan sú bandaríska sagði að það sem gengi á litla Íslandi væri ekki hægt að framkvæma í Bandaríkjunum (hún þagnaði reyndar þegar ég benti henni á að það væri svipað kerfi á öllum Norðurlöndunum og það hefði ekki komist á áreynslulaust). Hvorugri þeirra virtist detta í hug að maðurinn ætti að bera nokkra ábyrgð á börnunum og ég held að báðum hafi þótt hugsanagangur minn barnalegur. En er ekki eitthvað rotið við kerfi sem gerir ráð fyrir því að vel menntaðar, gáfaðar konur annaðhvort fjölgi sér ekki eða þurfi að víkja af fræðavettvanginum (með doktorsgráðu) um óákveðinn tíma (og missi þar með af framgangi þar) til að sinna barneignum og barnauppeldi?

--------------------
Um daginn var óformleg nördakeppni á milli þriggja í deildinni, alls konar atriði voru talin upp þar til einn strákurinn var einróma kjörinn aðalnördinn þegar hann sagðist aldrei hafa farið á stefnumót með/verið í sambandi við stelpu sem ekki kynni latínu.

--------------------
Á eftir er úrslitaleikurinn á EM. Ólíkt því sem ég hélt í byrjun sumars þá hef ég úr nokkrum stöðum að velja til að horfa á leikinn en býst við að fara á stúdentakrána. Ég vona að liðið mitt standi sig en er engu að síður hrædd um að Spánverjarnir vinni. Fyrr í mánuðinum sá ég hins vegar (mér til mikillar gleði) fyrirsögn í Fréttablaðinu sem sagði Þjóðverja Evrópumeistara (fyrst hélt ég að ég hefði misst úr nokkrar vikur en sá svo að greinin var um vangaveltur og spár um mótið) og nú vona ég að þetta hafi verið áhrínisorð.

--------------------
Þar sem styttist óðum í að ég fari heim þá er ég byrjuð að prufupakka (það er sjá hvaða dót kemst í töskurnar), mamma tók helling með sér en nóg er eftir. Það sem mig langar hvað mest í núna (og myndi auðvelda líf mitt mikið) er taska eins og Mary Poppins átti í myndinni, handtaska sem allt kemst í. Eins og venjulega taka bækur mikið pláss (og vega þungt), þrátt fyrir að ég ætli bara að taka tæpan helming þeirra sem ég hef keypt heim með mér. Það sem kemur mér hins vegar á óvart er hvað ég hef keypt mikið af fötum og hvað þau eru plássfrek, eins og þau litu nú öll út fyrir að vera sakleysisleg og fyrirferðarlítil þegar ég keypti þau. En ef töskurýmið bregst get ég sent eitthvað með pósti eða notað Heiðuaðferðina (klætt mig í mörg lög) á heimleiðinni.

föstudagur, júní 13, 2008

fimmtudagur

Dagurinn í dag var ansi notalegur, reyndar óar mig svolítið við því hvað er miklu auðveldara að njóta lífsins en að vinna í þessari blessuðu ritgerð minni. Ég og nokkrir aðrir slógum saman hádegismat og fótboltaáhorfi og sáum Þjóðverja tapa fyrir Króötum, umræðurnar við borðið voru hinar líflegustu á meðan á leiknum stóð og á milli gáfulegra athugasemda um framgang leiksins dæmdum við króatíska markvörðinn úr leik fyrir að hafa ekki passað upp á að hafa peysuna og sokkana í sama græna litnum (svo var hann líka aðeins of duglegur að þvælast fyrir boltanum), einnig veltum við fyrir okkur hvort þýski þjálfarinn væri með hárkollu, litað hár eða bara svona unglegur, sem og hvort einungis einn þýskur leikmaður mætti vera inn á í einu í rauðum skóm. En þrátt fyrir einlægan stuðning okkar og það að ein stelpan var með þýska fánann meðferðis gekk ekki rófan.

Eftir það fór ég og hitti kunningja minn sem er á leið á íslenskunámskeið á Íslandi í sumar og við sátum úti á svölum hjá honum, drukkum te og töluðum íslensku og ensku til skiptis. Meðal umræðuefna voru öll tungumálin sem okkur langar til að læra, sem og minnisaðferðir, tímastjórnun og hvernig væri best að skrifa ritgerðir (og ég ætla að prófa aðferðina hans, því mín gengur nákvæmlega ekkert þessa dagana - enda sjáið þið hvað ég er allt í einu dugleg að blogga ;p).

Um daginn var ég spurð að því hvað ég hlakkaði mest til að borða þegar ég kæmi heim og aldrei þessu vant vissi ég ekki hverju ég ætti að svara. Venjulega sakna ég nammis og pylsna mest en Gunnhildur kom með slatta af nammi og öðru góðgæti til mín um daginn (og mamma er væntanleg fljótlega) og ég fékk íslenskar pylsur í grillkveðjuveislunni hjá Elísabetu og Bjarna um daginn þannig að mér datt ekkert í hug. En ykkur til hrellings þá lifi ég þessa dagana að mestu á ritzkexi og kjúklingasalati (örugglega bráðóhollt en er þægilegt til að taka með sem nesti). Reyndar er ég hrædd um að matarræði mitt hérna sé alls ekki til fyrirmyndar, sérstaklega þar sem ég borða mikið af unnum mat sem ég veit lítið hvað er í - einn kunningja minn hér fór heim til sín í tvær vikur og fór meðal annars í sína árlegu læknisskoðun þar og þá kom í ljós að á því ári sem hann hefur verið hér hefur kólesterólmagnið í honum aukist allsvakalega og er alltof hátt fyrir mann á hans aldri (en hann borðar reyndar mun meira kjöt en ég).

En til að enda þetta á skemmtilegri nótum þá skoðaði ég áðan gömul blogg og sá að fyrir tæpu ári tók ég próf um hversu bandarísk ég væri í háttum og fékk þá niðurstöðu að ég væri gjörsamlega óspillt.

Að gamni tók ég sama prófið og eitthvað hefur breyst:



You've Been a Little Ruined by American Culture



Whether you live in the US or not, deep down you're a little American.

And there's nothing wrong with loving American culture, but it may have negative effects on your life.

Slow down and enjoy what you have. Reconnect with life's simple pleasures.

You don't need to be in a consumerist rat race. Life's too short to overwork yourself!

fimmtudagur, júní 12, 2008

brenna

Einhvern tíma í byrjun vorannarinnar fóru útskriftarnemendurnir væntanlegu (þrír talsins) að tala um að sniðugt væri að halda brennu við lok annarinnar til að losa sig við gamlar glósur og gleðjast þannig yfir því að vera næstum búin. Um miðjan apríl var dagsetningin komin á hreint og taflan á skrifstofunni var fyllt af leiðbeiningum um hvað mætti brenna og hvað ekki (til dæmis var fólk á bannlistanum, hvort sem um lifandi verur eða ímyndir þeirra væri að ræða - það sama gilti um byggingar). Eftir að prófa- og ritgerðatíminn var úti (um miðjan maí) var veislan haldin, byrjað á því að grilla og að taka hópmynd - reyndar vantaði hátt í helminginn af meðlimum deildarinnar, en á myndinni eru flestir þeirra sem ég hef umgengist mest.



Efsta röð frá vinstri: Esra, Cliff, Johanna, Becky, Peggy, Serena, Brandi, Henry
Miðröð frá vinstri: Adam, Jo, Ed, Steven, Ég
Neðsta röð frá vinstri: Gabe, Satoshi, Masa, Hongyuan

Fáir mættu með brennuefni sem reyndist í lagi því að þeir sem komu með eitthvað höfðu nóg handa öllum. Gleðin og léttirinn voru gríðarleg þegar fólk brenndi gömul verkefnablöð, glósur og útprent af greinum og allir fundu eitthvað við sitt hæfi (nema reyndar ég - en ég hef aldrei verið hrifin af að brenna bækur eða neitt það sem tengist þeim). Ég stóðst ekki mátið í miðjum gleðilátunum og spurði af hverju þau væru eiginlega í þessari deild fyrst það væri svona mikill léttir að brenna glósur og verkefni, fátt varð um svör þangað til að annar þeirra sem deilir áhuga mínum á útdauðum tungumálum glotti og sagði að enginn hefði brennt neitt sem tilheyrði sögulegum málvísindum (en það er líklega vegna þess að nánast enginn í þessari deild tekur slík námskeið).




Og þegar öllu hafði verið kastað á bálið grilluðum við sykurpúða á trjágreinum yfir eldinum og átum þá með súkkulaði og kexi (slíkar samlokur kallast smores og eru með því bandarískasta sem til er).

miðvikudagur, júní 11, 2008

ekkert spes

Veðrið skánaði loks í gærkvöldi en þá rigndi um kvöldmatarleytið og var orðið nógu kalt um tíuleytið til að bregða yfir sig peysu (sem ég gerði ekki, enda naut ég þess að verða smákalt eftir hitabylguna). Í dag hefur hitinn ekki farið yfir 30 gráður og því líft innanhúss sem utan.

Ég naut góða veðursins í gærkvöldi með því að fara í langa gönguferð með nokkrum af þeim sem ég tók kennslufræðinámskeiðið með síðasta haust og voru fyrstu kunningjar mínir í Íþöku. Það var svolítið eins og að hverfa aftur í tímann því tvö þeirra hafði ég ekki séð síðan í haust og ekkert þeirra á þessari önn. En það var gaman að hitta þau aftur og algjör synd að við skulum ekki hafa haft meira samband í vetur. Við gengum að Cayuga-vatninu og sátum þar í rigningu og töluðum saman, meðal þess sem ég komst að var að ég er ekki eina manneskjan sem píri augun og ímynda mér að fyrrnefnt vatn sé úthaf, það er til fólk sem hræðist hluti í veruleikanum sem það sér ógnvekjandi í hryllingsmyndum, jörðin myndi ekki hreyfast þótt allir jarðarbúar hoppuðu á sama andartaki, það ríki sem heiminum stafar mest hætta af er Kína og að það er hægt að fá sekt fyrir umferðarlagabrot með því að ganga yfir götu á rauðum kalli.

Fótboltaáhorf mitt stefnir í 25% (það er einn leikur annan hvern dag) og hef ég að mestu stundað þá iðju með Þjóðverjum og Japönum. Ég hef hins vegar ekki séð neinn af góðu leikjunum en vona að það lagist á morgun. En ég hef tekið eftir að sjónvarpsþol mitt er orðið afar takmarkað og veit ekki hvort ber að hryggjast eða gleðjast yfir því.

Annars er nákvæmlega ekkert að frétta eins sorglegt og það nú hljómar, nema að ég get enn ekki sofnað án þess að taka svefntöflur (sama hvað ég reyni), en að sumu leyti er það reyndar kostur því ég er ekki lengur bundin af þreytu (fyrr en úrillskan byrjar).

Og síðast en ekki síst þá er afmælisbarn vikunnar amma sem varð áttræð í gær :o)

föstudagur, júní 06, 2008

helvíti

Ég skil núna af hverju ég fæddist á Íslandi en ekki á suðlægari slóðum. Eftir tiltölulegan kaldan (og notalegan) maímánuð með hitastig og rigningu á við meðalíslenskt sumar kom sumarið. Í þessum skrifuðu orðum (klukkan átta að kvöldi) er sólin loksins að setjast, hitinn 33 gráður á selsíus og rakinn alla lifandi að drepa - vonandi að þrumuveðrið og rigningin sem er spáð í kvöld hjálpi eitthvað til við að hreinsa loftið.

Ég passaði mig á að vera á bókasafninu þar sem er loftkæling í dag, húsið sem ég bý í er nefnilega svo gamaldags (lesist leigusalinn tímir ekki að breyta neinu eða laga, nema hann sé neyddur til þess af bæjarfélaginu) að hér er engin loftkæling. Núna er ég komin heim og þrjár stórar viftur á fullu en það dugar samt ekki til, við minnstu hreyfingu svitnum við og aumingjans kötturinn liggur afvelta í loðfeldinum sínum. Mér er sagt að þessi hiti venjist en er ekki fyllilega sannfærð, vona samt að fólk hafi rétt fyrir sér.

En til að ljúka þessu á jákvæðum nótum þá tókst mér að sofa almennilega í nótt (ég hef átt erfitt með svefn síðastliðna viku - en sambýlingurinn gaf mér svefntöflu í gær og ég vona að það hafi rétt allt af), hitinn er notaður sem afsökun til að fá sér bjór (það virkar í bíó), ég komst að því að stúdentakráin hérna ætlar að sýna flestalla leikina á EM - lokaleikina meira að segja á stóru tjaldi og mamma kemur bráðum í heimsókn :D