fimmtudagur, mars 29, 2007

páskafrí og hættulegt nammi

Ég er komin í páskafrí :o)

Næstum því tvær vikur í frí, reyndar tek ég tvær vaktir á DV í næstu viku (svona til að forða því að ég verði geðveik af aðgerðarleysi ;p). Mér finnst svo margir vera að fara til útlanda í páskafríinu og vildi gjarna vera á leiðinni eitthvert út í buskann, en það fær að bíða betri tíma.

En þetta frí þýðir að nú hef ég tíma til að hitta fullt af fólki og gera eitthvað skemmtiegt. Þannig að það er um að gera að panta tíma strax, svona til að koma í veg fyrir að ég taki voða vel til, bóni öll gólf og jafnvel þrífi eldhússkápana :o)

Annars hef ég uppgötvað mjög hættulegt nammi, svona lakkrísdraumabita - hættan felst í því að þeir hverfa alltof hratt...

mánudagur, mars 26, 2007

alltaf jafnskondið

Ég sá þetta á blogginu hennar Örnu og stóðst ekki mátið. Ég hef séð þetta nokkrum sinnum áður og finnst þetta alltaf jafnfyndið ;o)

fimmtudagur, mars 22, 2007

kvengervðir karlar

Ég var farin að halda að eftir ár í prófarkalestri ættu engar villur að koma mér á óvart lengur, en þar skjöplaðist mér. Í kvöld las ég yfir viðtöl við fjóra karlkyns þjálfara kvennaliða í körfubolta, þegar þeir voru spurðir út í hitt og þetta í sambandi við liðin kvengervðu þeir sig alltaf: "Við erum búnar að vera að spila vel." / "Við erum sjálfar okkar aðalóvinur" og svo framvegis. Mér fannst þetta frekar furðulegt og spurði þann sem tók viðtölin hvort þeir hefðu virkilega allir fjórir talað um sig í kvenkyni og hann sagðist hafa skrifað þetta orðrétt upp eftir þeim.

Þó svo að mér hafi þótt þetta fyndið og femínískt og sýnt hversu mikil samkenndin hjá þeim er, þá ákvað ég að rýja þá kvenleikanum og lagaði allar beinu tilvitnanirnar - í flestum tilvikum var nóg að taka "við erum búnar að" og setja "við höfum" í staðinn. Sem betur fer er ég ekki fylgjandi þeirri reglu að allt skuli hafa orðrétt eftir viðmælanda, ef mér finnst viðmælandi komast klúðurslega að orði breyti ég því - nema ég skilji ekki hvað hann meinar og þá fær hann bara að vera vitlaus á prenti í friði fyrir mér. Annars heyrði ég gott spakmæli í dag um prófarkalestur - að maður ætti að laga villur en ekki gera blaðamenn að betri pennum en þeir væru - hlýtur eiginlega að gilda um viðmælendur þeirra líka.

Stjörnuspáin mín fyrir morgundaginn (fimmtudag) segir að ég eigi að láta vinnuna eiga sig um stund. Því miður held ég að það gangi ekki - ég stefni hraðbyri á vinnualkanafnbótína :o( En það er alveg að koma páskafrí :o)

mánudagur, mars 19, 2007

æsland

Ég var að skoða vefsíðu Framtíðarlandsins og sáttmálann sem þeir vilja að allir skrifi undir. Það er gott og blessað að vilja vernda landið og ég er fullkomlega sammála því að það væri ágætis tilbreyting ef það væri horft til framtíðar þegar stórar ákvarðanir (eins og til dæmis um virkjanir) eru teknar.

Ég hef ekki kynnt mér virkjunarmál nægilega vel til að dæma um gagnsemi/skaða þeirra. Hins vegar (eins illa og það hljómar) er ég með þó nokkra fordóma gegn umhverfisverndarsinnum. Ekki það að ég vilji ekki að umhverfið sé verndað, en mér finnst óneitanlega oft vera mikil hræsnislykt af málflutningi þeirra. Til dæmis virðast flestir þeirra fara allra sinna ferða á einkabílum, því enginn stingur upp á að leggja bílunum og nota strætó eða hjóla/ganga í staðinn (hvað þá að fara á undan með fögru fordæmi). Ég hef heldur ekki tekið eftir því að neinn hafi stungið upp á því að almenningur á höfuðborgarsvæðinu flokki rusl, eins og gert er til dæmis á Ísafirði og gefst vel.

Aðalmálið hjá flestum umhverfissinnum virðist vera að berjast á móti stóriðjustefnu og engu öðru, eins og það sé það eina sem er slæmt fyrir umhverfið. Þeir virðast gleyma öllum "umhverfisslysunum" á höfuðborgarsvæðinu, því það er miklu einfaldara að mótmæla einhverju sem er langt í burtu og sýna fallegar myndir af því, en gleyma því sem skemmt er í túngarðinum. Ekki alls fyrir löngu, einmitt samtímis því að deilurnar um Kárahnjúkavirkjun stóðu sem hæst, þá voru ómetanlegar náttúruminjar - hraunmyndanir sem voru einsdæmi (eða nálægt því) á jarðarkringlunni - skemmdar. Og ástæðan var sú að koma þurfti fyrir risarisastórri IKEA-verslun. Farið var þvert á tilmæli Náttúruverndarráðs en enginn mótmælti því eða lagðist fyrir framan gröfur eða sinnti því yfirhöfuð nokkuð. Af hverju ætli það hafi verið?

föstudagur, mars 16, 2007

tíminn líður hratt...

Skrýtið hvað tíminn getur blekkt mann, liðið hratt og hægt á sama tíma. Mér finnst vikan hafa liðið hratt en samt þegar ég rifja upp hvað ég gerði á mánudaginn, þá er það óralangt í burtu. Kannski hjálpar það tímablekkingunni að ég þvælist þessa dagana á milli fjögurra vinnustaða og sé ekki fram á alvöru frídag fyrr en í páskafríinu, en þá fæ ég alveg fullt af fríi (sem væntanlega og vonandi fer í ritgerðarskrif og aðra slíka óáran).

Reyndar verð ég að viðurkenna að mér finnst að vissu leyti gaman að hafa of mikið að gera, kannski út af því að þá geri ég miklu meira en annars, er duglegri við að hitta fólk og púsla tímanum listavel saman. Gallinn er samt að þetta er mjög þreytandi til lengdar og stundum langar mig bara til að draga sængina upp fyrir höfuð og sofa.

Annars ber það hæst að í gær var loksins haldið frænkukvöld. Það vill svo skemmtilega til að í móðurfjölskyldu minni erum við 14 frændsystkin og á meðan strákarnir eru níu talsins og tuttugu ár á milli þess elsta og yngsta, þá erum við frænkurnar bara fimm og á bilinu 21 til 27. Svo á stefnuskránni er að hittast reglulega. Það hefur gengið svona upp og ofan, en í gær var sumsé frænkukvöld og ég, Arna, Hekla og Gunnhildur sátum fram á nótt og kjöftuðum saman (einhverjir verða að sjá um að slúðra um þessa fjölskyldu ;o)). Því miður komst Hjördís Lilja ekki, en Hekla kom með Sunnevu litlu (sem er virkilegt krútt). Amma hringdi svo og talaði við okkur, sem setti enn skemmtilegri brag á kvöldið.

laugardagur, mars 10, 2007

:o)

Mér líkar vel við stjörnuspána á mbl.is. Ýmist er þar eitthvað sem rætist/passar eða eitthvað uppörvandi :o)
(Þó stingur það í augun að stjörnuspá um Meyjuna er sett fram eingöngu í karlkyni - en það er kannski barasta aukaatriði)

Meyja: Hinir einstöku mannkostir þínir skína í gegn. Njóttu þess að vera einstakur, og hættu að reyna að vera einsog hinir. Aðrir munu dást að því hve öðruvísi og frumlegur þú ert.

mánudagur, mars 05, 2007

to be or not to be

Þar sem ég er nú farin að kenna verk Shakespeares, finnst mér við hæfi að skella smá fræðsluefni hingað inn. Í myndbandinu hér að neðan er "mjög raunsæ" lýsing á þróun hinnar frægu ræðu: "To be or not to be" (sem til gamans má geta að er einmitt fullkomið dæmi um iambic pentameter ;o))

laugardagur, mars 03, 2007

nafnið mitt

Síðan ég man eftir mér hef ég haft gaman af því að pæla í nöfnum og merkingu þeirra. Nafn er nefnilega eitthvað sem maður ber alla ævi og skilgreinir mann þar með. Oft er líka gaman að sjá mynstur í nafngiftum, til dæmis þegar börn eru nefnd eftir eða í höfuðið á skyldmennum sínum (oft öfum og ömmum). Nafngiftir geta líka sýnt smekk foreldra og fegurðarskyn þeirra. Og ekki má gleyma hinu fornkveðna - að fjórðungi bregði til nafns. Ég get gleymt mér algjörlega í því að skoða nafnabækur, bæði íslenskar sem erlendar, og er uppáhaldsbók mín án vafa bók Hermanns Pálssonar - Nöfn Íslendinga og er mikla skemmtun hægt að hafa af henni, því Hermann hefur sterkar skoðanir á hvaða nöfn teljist íslensk.

Ég heiti ekki eftir neinum en frægasta nafna mín er líklega Kolfinna Ávaldadóttir, sem sagt er frá í Hallfreðarsögu vandræðaskálds og kemur mikið fyrir í kvæði Davíðs Stefánssonar, þar sem hann yrkir í orðastað Hallfreðs (og hefur skiljanlega alltaf verið í uppáhaldi hjá mér). Sú nafna mín þurfti hins vegar vegna óákveðni Hallfreðs að giftast manni sem hét hinu "fagra" nafni Grís.

Nafnið mitt er sett saman úr tveimur liðum kol og finna. Kol er náttúrulega sama orðið og kol (sem notuð eru sem eldsneyti) og var þessi forliður oft notaður til að merkja dökkt yfirbragð. Finna er hins vegar kvenkyns hliðstæða við Finnur og þau orð eru af sama stofni og Finnar og finnskur. Á þeim tíma sem farið var að nota þau nöfn voru þeir kallaðir Finnar sem nú heita Samar eða Lappar og voru þeir af mörgum taldir göldróttir. Samanber skýringu í orðsifjabókinni þar sem segir um orðið Finni: "Sami, Lappi; dvergsheiti; galdramaður."

Með þessum rökum hélt ég nafn mitt væri fullskýrt og af norrænum uppruna (þó svo að samsvarandi nöfn séu ekki til í granntungunum), en mér til mikillar skemmtunar rakst ég á aðra mögulega skýringu á því um daginn. Ég fór eftir krókaleiðum inn á írska nafnasíðu og sá þar nafnið Caoilfhionn (borið fram kílin), sem mér finnst óneitanlega minna á skrýtna útgáfu af nafninu mínu (stafurinn k er ekki til í írsku, en c er notað fyrir k-hljóð). Samkvæmt skýringu á síðunni (og fleiri slíkum sem ég fletti upp á) þá er það nafn sett saman úr tveimur gelískum orðum caol sem þýðir grannur/mjór og fionn sem þýðir bjartur. Þetta nafn báru víst þó nokkrir írskir dýrlingar.

Miðað við að nafnið Melkorka á að vera íslenskun á írska nafninu Mael Curcaig og Muirchertach hefur orðið Mýrkjartan - er þá nokkuð út í hött að Caoilfhionn gæti hafa orðið Kolfinna?