þriðjudagur, júlí 08, 2008

heima, um heiman, að heiman, frá heiman

Jæja, þá er komið að lokum þessa ævintýris. Þrír dagar eftir í Íþöku áður en ég legg af stað heim (eða að heiman - erfitt að ákveða hvað er hvað). Einhverra hluta vegna hefur dótið mitt vaxið svo að það hefur verið basl að pakka, en það mun hafast á endanum (sérstaklega ef ég sendi þær bækur sem ég ætla að eiga í pósti). Annars er ég á fullu að kveðja vini og kunningja og það er mjög skrýtið til þess að hugsa að flesta mun ég líklega aldrei hitta aftur. En ég á fullt af góðum minningum um þetta ár hér og eru góðar minningar ekki það sem skiptir mestu?

Þrátt fyrir tregann sem fylgir því að flytja þá hlakka ég óneitanlega til að koma heim og hitta alla sem ég þekki þar :o) (hlakka ekki jafnmikið til atvinnuleitar og ritgerðaskrifa en það reddast vonandi allt).

(Og titill færslunnar er úr stuttmynd um seinheppna bófa sem ég sá fyrir löngu síðan)

mánudagur, júní 30, 2008

þrumur og bangsar

Á meðan mamma var í Íþöku ákváðum við einn eftirmiðdaginn að bregða okkur í smá göngu, enda þurfti ég að standa við stóru orðin og sanna að Íþaka væri í raun og sann „gorges“ (gilótt/gorgeous). Þar sem uppáhaldsgilið mitt sem liggur frá strætóstoppistöðinni upp á háskólasvæðið er lokað vegna vorviðgerða sáum við okkur þann kost vænstan að rölta að Áfafossunum (Buttermilk Falls). Þangað er einungis fimmtíu mínútna gangur og þar sem leiðin liggur um stórverslanasvæðið gat ég teymt mömmu í Wegmans, óhugnanlega stóra matvörubúð þar sem úrvalið er svo mikið að ég finn sjaldnast það sem ég leita að (og fer því ekki þangað nema mig langi í góð rúnnstykki) til að sýna henni herlegheitin.

Þegar við nálguðumst Áfafossana sáum við göngubrú sem virtist vera ætluð til þess að gangandi vegfarendur kæmust yfir þjóðveginn án þess að eiga á hættu að slasa sig á bílum. Hvernig sem við leituðum (bæði á þessari hlið og svo hinni á leiðinni til baka) fundum við ekki uppganginn á brúna þannig að við neyddumst til að skáskjóta okkur á milli bíla til að komast á áfangastað. Þangað komnar skoðuðum við skilti um jarðsögu svæðisins og hófum svo giljagönguna. Fyrst gengum við upp með gilinu, í návígi við fossana (sem eru sjö talsins) og köstuðum mæðinni á brú yfir þann efsta og gátum þar valið á milli þess að fara yfir brúna og ganga niður hina hlið gilsins eða fara lengra og komast að vatni sem er þarna í nágrenninu. Við tókum síðari kostinn og fórum eftir slóða sem kenndur var við birni, en þar sem engin viðvörunarskilti voru sjáanleg ákváðum við að þar væri enga birni að finna þrátt fyrir nafngiftina. Reyndar vorum við svolítið hvekktar að ganga eftir bjarnarslóða í gegnum þykkt skógarþykknið rétt fyrir sólsetur (um morguninn höfðum við lesið að leitað væri að þriðja ísbirninum heima - en vissum ekki þá að hann reyndist hafa verið kind) og kannski ekki að ástæðulausu því tveimur dögum síðar frétti ég að birnir hefðu verið á ferð ekkert mjög langt frá þessum stað (en það er óvanalegt).

En þegar okkur leist ekki lengur á skyggnið snerum við við og fórum niður gilið hinum megin og máttum ekki seinni vera. Því þegar við eygðum kóksjálfsalann (einhverra hluta vegna er einn slíkur við allar gönguleiðir hérna) og skýlið sem hann stóð undir hófst þrumuveður og grenjandi rigning. Við þökkuðum okkar sæla að hafa snúið við tímanlega og borðuðum nestið okkar í skýlinu á meðan eldingarnar leiftruðu í kringum okkur (og ansi nálægt sumar) og regnið streymdi.

Eftir hálftíma óveður var okkur loks fært að komast úr skýlinu og rölta heim. Á heimleiðinni sáum við að eldingu hafði greinilega lostið niður í spennustöð því nokkur hverfi voru rafmagnslaus. Við það hafði slokknað á þó nokkrum umferðarljósum á aðalumferðargötunni en löggan var fljót að átta sig og setti upp færanlegar stöðvunarskyldur, upplýstar með neyðarblysum.


Því miður náðum við engum myndum af mórauðum rollum (enda engar á ferli) en í staðinn er hér neðsti fossinn, býsna úfinn eftir hálftíma hellirigningu (til hægri má sjá grilla í stíginn sem við fórum upp).



Hér er svo mynd af stormþrungnum himninum.

sunnudagur, júní 29, 2008

jamm og jæja

Stærsta menningarsjokkið sem ég hef orðið fyrir hérna snýr að barneignum. Tvær stelpnanna í deildinni hafa öðru hvoru í vetur verið að plana barneignir, það er hvenær á náms-/fræðimannaferlinum það væri hentugast fyrir þær að eignast barn. Takið sérstaklega eftir eintölunni, konur sem ætla sér að verða fræðimenn hér og eiga ekki heimavinnandi eiginmenn geta víst ekki leyft sér að eiga meira en eitt barn því annað myndi eyðileggja ferilinn (og jafnvel það að eiga eitt er hættulegt). Ég talaði um þetta í fyrradag við tvær aðrar, frá Englandi og Bandaríkjunum. Sú enska sagðist aldrei hafa séð kvenkyns háskólakennara sem ætti börn fyrr en hún kom til Bandaríkjanna og þá bara eina eða tvær, sú bandaríska sagði að fræðimannastörf væru hugsuð fyrir gifta karlmenn sem ættu konur sem sæu um heimilið (barnlausar konur og einhleypir karlar væru næstbesti kosturinn) og báðar sögðu þær að þær þyrftu að velja á milli þess að eignast fjölskyldu eða helga sig fræðunum.

Ég benti þeim á að það væri nú frekar asnalegur hugsunarháttur, og að heima þyrftu konur ekki að velja á milli, því þar væri að miklu leyti hægt að samræma barneignir og frama og konur í þeirra stöðu ættu að berjast fyrir einhverju svipuðu, til dæmis aukningu dagheimila. Sú enska sagðist þá aldrei myndu treysta einhverjum óskyldum sér til að gæta barna fyrir sig á meðan sú bandaríska sagði að það sem gengi á litla Íslandi væri ekki hægt að framkvæma í Bandaríkjunum (hún þagnaði reyndar þegar ég benti henni á að það væri svipað kerfi á öllum Norðurlöndunum og það hefði ekki komist á áreynslulaust). Hvorugri þeirra virtist detta í hug að maðurinn ætti að bera nokkra ábyrgð á börnunum og ég held að báðum hafi þótt hugsanagangur minn barnalegur. En er ekki eitthvað rotið við kerfi sem gerir ráð fyrir því að vel menntaðar, gáfaðar konur annaðhvort fjölgi sér ekki eða þurfi að víkja af fræðavettvanginum (með doktorsgráðu) um óákveðinn tíma (og missi þar með af framgangi þar) til að sinna barneignum og barnauppeldi?

--------------------
Um daginn var óformleg nördakeppni á milli þriggja í deildinni, alls konar atriði voru talin upp þar til einn strákurinn var einróma kjörinn aðalnördinn þegar hann sagðist aldrei hafa farið á stefnumót með/verið í sambandi við stelpu sem ekki kynni latínu.

--------------------
Á eftir er úrslitaleikurinn á EM. Ólíkt því sem ég hélt í byrjun sumars þá hef ég úr nokkrum stöðum að velja til að horfa á leikinn en býst við að fara á stúdentakrána. Ég vona að liðið mitt standi sig en er engu að síður hrædd um að Spánverjarnir vinni. Fyrr í mánuðinum sá ég hins vegar (mér til mikillar gleði) fyrirsögn í Fréttablaðinu sem sagði Þjóðverja Evrópumeistara (fyrst hélt ég að ég hefði misst úr nokkrar vikur en sá svo að greinin var um vangaveltur og spár um mótið) og nú vona ég að þetta hafi verið áhrínisorð.

--------------------
Þar sem styttist óðum í að ég fari heim þá er ég byrjuð að prufupakka (það er sjá hvaða dót kemst í töskurnar), mamma tók helling með sér en nóg er eftir. Það sem mig langar hvað mest í núna (og myndi auðvelda líf mitt mikið) er taska eins og Mary Poppins átti í myndinni, handtaska sem allt kemst í. Eins og venjulega taka bækur mikið pláss (og vega þungt), þrátt fyrir að ég ætli bara að taka tæpan helming þeirra sem ég hef keypt heim með mér. Það sem kemur mér hins vegar á óvart er hvað ég hef keypt mikið af fötum og hvað þau eru plássfrek, eins og þau litu nú öll út fyrir að vera sakleysisleg og fyrirferðarlítil þegar ég keypti þau. En ef töskurýmið bregst get ég sent eitthvað með pósti eða notað Heiðuaðferðina (klætt mig í mörg lög) á heimleiðinni.

föstudagur, júní 13, 2008

fimmtudagur

Dagurinn í dag var ansi notalegur, reyndar óar mig svolítið við því hvað er miklu auðveldara að njóta lífsins en að vinna í þessari blessuðu ritgerð minni. Ég og nokkrir aðrir slógum saman hádegismat og fótboltaáhorfi og sáum Þjóðverja tapa fyrir Króötum, umræðurnar við borðið voru hinar líflegustu á meðan á leiknum stóð og á milli gáfulegra athugasemda um framgang leiksins dæmdum við króatíska markvörðinn úr leik fyrir að hafa ekki passað upp á að hafa peysuna og sokkana í sama græna litnum (svo var hann líka aðeins of duglegur að þvælast fyrir boltanum), einnig veltum við fyrir okkur hvort þýski þjálfarinn væri með hárkollu, litað hár eða bara svona unglegur, sem og hvort einungis einn þýskur leikmaður mætti vera inn á í einu í rauðum skóm. En þrátt fyrir einlægan stuðning okkar og það að ein stelpan var með þýska fánann meðferðis gekk ekki rófan.

Eftir það fór ég og hitti kunningja minn sem er á leið á íslenskunámskeið á Íslandi í sumar og við sátum úti á svölum hjá honum, drukkum te og töluðum íslensku og ensku til skiptis. Meðal umræðuefna voru öll tungumálin sem okkur langar til að læra, sem og minnisaðferðir, tímastjórnun og hvernig væri best að skrifa ritgerðir (og ég ætla að prófa aðferðina hans, því mín gengur nákvæmlega ekkert þessa dagana - enda sjáið þið hvað ég er allt í einu dugleg að blogga ;p).

Um daginn var ég spurð að því hvað ég hlakkaði mest til að borða þegar ég kæmi heim og aldrei þessu vant vissi ég ekki hverju ég ætti að svara. Venjulega sakna ég nammis og pylsna mest en Gunnhildur kom með slatta af nammi og öðru góðgæti til mín um daginn (og mamma er væntanleg fljótlega) og ég fékk íslenskar pylsur í grillkveðjuveislunni hjá Elísabetu og Bjarna um daginn þannig að mér datt ekkert í hug. En ykkur til hrellings þá lifi ég þessa dagana að mestu á ritzkexi og kjúklingasalati (örugglega bráðóhollt en er þægilegt til að taka með sem nesti). Reyndar er ég hrædd um að matarræði mitt hérna sé alls ekki til fyrirmyndar, sérstaklega þar sem ég borða mikið af unnum mat sem ég veit lítið hvað er í - einn kunningja minn hér fór heim til sín í tvær vikur og fór meðal annars í sína árlegu læknisskoðun þar og þá kom í ljós að á því ári sem hann hefur verið hér hefur kólesterólmagnið í honum aukist allsvakalega og er alltof hátt fyrir mann á hans aldri (en hann borðar reyndar mun meira kjöt en ég).

En til að enda þetta á skemmtilegri nótum þá skoðaði ég áðan gömul blogg og sá að fyrir tæpu ári tók ég próf um hversu bandarísk ég væri í háttum og fékk þá niðurstöðu að ég væri gjörsamlega óspillt.

Að gamni tók ég sama prófið og eitthvað hefur breyst:



You've Been a Little Ruined by American Culture



Whether you live in the US or not, deep down you're a little American.

And there's nothing wrong with loving American culture, but it may have negative effects on your life.

Slow down and enjoy what you have. Reconnect with life's simple pleasures.

You don't need to be in a consumerist rat race. Life's too short to overwork yourself!

fimmtudagur, júní 12, 2008

brenna

Einhvern tíma í byrjun vorannarinnar fóru útskriftarnemendurnir væntanlegu (þrír talsins) að tala um að sniðugt væri að halda brennu við lok annarinnar til að losa sig við gamlar glósur og gleðjast þannig yfir því að vera næstum búin. Um miðjan apríl var dagsetningin komin á hreint og taflan á skrifstofunni var fyllt af leiðbeiningum um hvað mætti brenna og hvað ekki (til dæmis var fólk á bannlistanum, hvort sem um lifandi verur eða ímyndir þeirra væri að ræða - það sama gilti um byggingar). Eftir að prófa- og ritgerðatíminn var úti (um miðjan maí) var veislan haldin, byrjað á því að grilla og að taka hópmynd - reyndar vantaði hátt í helminginn af meðlimum deildarinnar, en á myndinni eru flestir þeirra sem ég hef umgengist mest.



Efsta röð frá vinstri: Esra, Cliff, Johanna, Becky, Peggy, Serena, Brandi, Henry
Miðröð frá vinstri: Adam, Jo, Ed, Steven, Ég
Neðsta röð frá vinstri: Gabe, Satoshi, Masa, Hongyuan

Fáir mættu með brennuefni sem reyndist í lagi því að þeir sem komu með eitthvað höfðu nóg handa öllum. Gleðin og léttirinn voru gríðarleg þegar fólk brenndi gömul verkefnablöð, glósur og útprent af greinum og allir fundu eitthvað við sitt hæfi (nema reyndar ég - en ég hef aldrei verið hrifin af að brenna bækur eða neitt það sem tengist þeim). Ég stóðst ekki mátið í miðjum gleðilátunum og spurði af hverju þau væru eiginlega í þessari deild fyrst það væri svona mikill léttir að brenna glósur og verkefni, fátt varð um svör þangað til að annar þeirra sem deilir áhuga mínum á útdauðum tungumálum glotti og sagði að enginn hefði brennt neitt sem tilheyrði sögulegum málvísindum (en það er líklega vegna þess að nánast enginn í þessari deild tekur slík námskeið).




Og þegar öllu hafði verið kastað á bálið grilluðum við sykurpúða á trjágreinum yfir eldinum og átum þá með súkkulaði og kexi (slíkar samlokur kallast smores og eru með því bandarískasta sem til er).

miðvikudagur, júní 11, 2008

ekkert spes

Veðrið skánaði loks í gærkvöldi en þá rigndi um kvöldmatarleytið og var orðið nógu kalt um tíuleytið til að bregða yfir sig peysu (sem ég gerði ekki, enda naut ég þess að verða smákalt eftir hitabylguna). Í dag hefur hitinn ekki farið yfir 30 gráður og því líft innanhúss sem utan.

Ég naut góða veðursins í gærkvöldi með því að fara í langa gönguferð með nokkrum af þeim sem ég tók kennslufræðinámskeiðið með síðasta haust og voru fyrstu kunningjar mínir í Íþöku. Það var svolítið eins og að hverfa aftur í tímann því tvö þeirra hafði ég ekki séð síðan í haust og ekkert þeirra á þessari önn. En það var gaman að hitta þau aftur og algjör synd að við skulum ekki hafa haft meira samband í vetur. Við gengum að Cayuga-vatninu og sátum þar í rigningu og töluðum saman, meðal þess sem ég komst að var að ég er ekki eina manneskjan sem píri augun og ímynda mér að fyrrnefnt vatn sé úthaf, það er til fólk sem hræðist hluti í veruleikanum sem það sér ógnvekjandi í hryllingsmyndum, jörðin myndi ekki hreyfast þótt allir jarðarbúar hoppuðu á sama andartaki, það ríki sem heiminum stafar mest hætta af er Kína og að það er hægt að fá sekt fyrir umferðarlagabrot með því að ganga yfir götu á rauðum kalli.

Fótboltaáhorf mitt stefnir í 25% (það er einn leikur annan hvern dag) og hef ég að mestu stundað þá iðju með Þjóðverjum og Japönum. Ég hef hins vegar ekki séð neinn af góðu leikjunum en vona að það lagist á morgun. En ég hef tekið eftir að sjónvarpsþol mitt er orðið afar takmarkað og veit ekki hvort ber að hryggjast eða gleðjast yfir því.

Annars er nákvæmlega ekkert að frétta eins sorglegt og það nú hljómar, nema að ég get enn ekki sofnað án þess að taka svefntöflur (sama hvað ég reyni), en að sumu leyti er það reyndar kostur því ég er ekki lengur bundin af þreytu (fyrr en úrillskan byrjar).

Og síðast en ekki síst þá er afmælisbarn vikunnar amma sem varð áttræð í gær :o)

föstudagur, júní 06, 2008

helvíti

Ég skil núna af hverju ég fæddist á Íslandi en ekki á suðlægari slóðum. Eftir tiltölulegan kaldan (og notalegan) maímánuð með hitastig og rigningu á við meðalíslenskt sumar kom sumarið. Í þessum skrifuðu orðum (klukkan átta að kvöldi) er sólin loksins að setjast, hitinn 33 gráður á selsíus og rakinn alla lifandi að drepa - vonandi að þrumuveðrið og rigningin sem er spáð í kvöld hjálpi eitthvað til við að hreinsa loftið.

Ég passaði mig á að vera á bókasafninu þar sem er loftkæling í dag, húsið sem ég bý í er nefnilega svo gamaldags (lesist leigusalinn tímir ekki að breyta neinu eða laga, nema hann sé neyddur til þess af bæjarfélaginu) að hér er engin loftkæling. Núna er ég komin heim og þrjár stórar viftur á fullu en það dugar samt ekki til, við minnstu hreyfingu svitnum við og aumingjans kötturinn liggur afvelta í loðfeldinum sínum. Mér er sagt að þessi hiti venjist en er ekki fyllilega sannfærð, vona samt að fólk hafi rétt fyrir sér.

En til að ljúka þessu á jákvæðum nótum þá tókst mér að sofa almennilega í nótt (ég hef átt erfitt með svefn síðastliðna viku - en sambýlingurinn gaf mér svefntöflu í gær og ég vona að það hafi rétt allt af), hitinn er notaður sem afsökun til að fá sér bjór (það virkar í bíó), ég komst að því að stúdentakráin hérna ætlar að sýna flestalla leikina á EM - lokaleikina meira að segja á stóru tjaldi og mamma kemur bráðum í heimsókn :D

þriðjudagur, maí 27, 2008

sambönd

Ein vinkona mín hér á sér „ástmann“ sem hún vill helst giftast en eini gallinn er sá að hún er þegar gift. Svipbrigði ástmannsins þegar hún kynnir hann svo fyrir öðru fólki eru alltaf kostuleg (sem og svipbrigði þeirra sem hann er kynntur fyrir) - eiginmaðurinn hlær bara að þessu og segir að orð séu ódýr. Honum finnst samt ekki alveg jafnfyndið þegar eiginkona hans vitnar í kvikmyndina Persepolis (sem við sáum öll saman um daginn), en þar hélt ein persónan því fram að fyrsta hjónaband væri ekki neitt merkilegra en æfing fyrir hjónaband númer tvö.

Ástmaðurinn hefur ekki látið uppi hvað honum finnst um þennan ráðahag (eða réttara sagt þríhyrning) en hann er tvímælalaust í konuleit. Leitin gengur hálfbrösuglega því bæði er hann feiminn og óframfærinn og svo virðist hann bara falla fyrir konum sem eru í samböndum. Vinkonu minni finnst hins vegar fráleitt að slíkur karlkostur skuli vera á lausu og ákvað því fyrr í vetur að hjálpa honum við leitina - reyndar er það hægara sagt en gert, því það er erfitt að átta sig á því hvernig konum hann heillast af. Að lokum náði hún að toga upp úr honum tvennt sem konur verða að hafa til að bera, annars vegar verða þær að vera undurfríðar - en þar sem hann og vinkonu mína greinir mjög á um hvað telst undurfrítt fer hún eingöngu eftir síðara atriðinu sem er að þær verða að vera gáfaðar og því með gleraugu. Þannig að nú er leitað dyrum og dyngjum að konu sem er nógu góð handa ástmanninum og gengur með gleraugu (og er helst á lausu), en allar sem fram eru boðnar reynast annað hvort ekki nógu fallegar eða of gamlar.

Önnur vinkona mín hér gifti sig ung og skildi við manninn sinn í fyrra (eftir líflátshótanir, skattsvik og fleira skemmtilegt), hún var ákveðin í því að vera ekki einhleyp lengi og fór á stefnumót með ótalmörgum mönnum þó svo að hún segðist vera hrifnari af konum. Eftir að hafa þannig kysst óteljandi froska fann “prinsessan” hana á Facebook viku fyrir Valentínusardaginn. Síðan hafa þær tvær verið saman nánast öllum stundum og búa núna saman og stefna á að giftast á næsta ári (sem er leyfilegt þar sem önnur þeirra er frá ríki sem leyfir hjónabönd samkynhneigðra). Það skondna er að kærastan heitir sama nafni og einn kennaranna í deildinni og til að forðast misskilning fengu þær um tíma viðurnefnin “góða” og “vonda” (sem breyttist í “ekki svo góða” svona til að móðga engan).

Í deildinni er líka strákur sem er yfir sig hrifinn af kærastanum sínum og þar sem hann er opinskár og heiðarlegur ungur maður liggur hann ekkert á þeim skoðunum sínum og segir oft upp úr eins manns hljóði á skrifstofunni hvað hann sé nú ástfanginn og hvað kærastinn hans sé sætur og reynir oft að fá fólk á skrifstofunni til að dást að honum með sér og skoða myndir (sem hafa leitt til umræðna um hvað teljist of miklar upplýsingar). En það samband hefur ekki alltaf verið dans á rósum, fyrstu mánuðina vildi kærastinn ekki koma út úr skápnum þar sem hann bjó í bræðrafélagshúsi og var ekki viss um að sér yrði vært þar ef upp um kynhneigðina kæmist en sem betur fer leystist það. En til að auka enn á ruglinginn þá ber kærastinn sama nafn og tveir kennarar, reyndar ruglar það okkur ekki neitt, en þegar væntanlegir nýnemar næsta hausts komu í heimsókn áttu þeir oft erfitt með að skilja á milli hver var hvað.

Svo er ein sem lætur sér ekki nægja að hrífast af nafna/nöfnu kennara, heldur sagðist um daginn vera yfir sig ástfangin af aðalleiðbeinanda sínum, svo mjög að hún myndi hiklaust sparka kærastanum fyrir hann. Eftir smá umhugsun fannst henni það ekki nógu mikil fórn og sagðist jafnvel vera tilbúin til að þvo af honum (en það er það leiðinlegasta sem hún veit).

mánudagur, maí 26, 2008

örstutt síðan síðast

*Ég fór í gönguferð í dag á svæðinu í kringum Buttermilk Falls (eða Áfafossa eins og það myndi líklega útleggjast á íslensku) með Ísraelunum og Svíunum - gengum í rúma fjóra tíma og nutum góða veðursins. Núna rétt áðan var svo að ljúka útskriftarveislu sambýlingsins, reyndar er hún hvorki búin að skrifa lokaritgerðina né verja hana en þar sem er bara ein útskriftarathöfn á ári tók hún þátt í henni og stefnir að að ljúka restinni í sumar.

*Gunnhildur kom í heimsókn um daginn og ég hitti hana fyrst í New York þar sem við dvöldum í fjóra daga og svo kom hún með mér til Íþöku. Heimsóknin lenti saman við lokadaga annarinnar þannig að hún kom með mér á ráðstefnu (þar sem ég hélt erindi), í lokapartí málvísindadeildarinnar (þar sem leiðinlegar kennslubækur og glósur voru brenndar af fólki sem er komið nálægt útskrift) og á spurningakeppnikvöld.

*Daginn áður en Gunnhildur kom fór ég í vínsmökkunarferð, en í kringum vötnin hérna er mikið af vínekrum (Finger Lakes Wineries) - sum víni sem við smökkuðum voru frábær á meðan önnur hefðu sómt sér vel sem rottueitur. Með mér í för var fólkið úr spurningaliðinu og sem betur fer drekkur ein þeirra ekki vín og bauðst til að vera bílstjóri okkar hinna. Við lögðum snemma af stað og hófum leikinn með morgunmat á "diner" (og þar af leiðir að maturinn samanstóð af pönnukökum, beikoni og sýrópi) - síðan rúntuðum við á milli staða í hátt í sjö tíma og náðum að heimsækja svona 10-15 staði í mjög misjöfnu ásigkomulagi. Sá eftirminnilegasti leit út eins og Suðurríkjakrá og þar voru áberandi skilti um að glös væru ekki innifalin í vínsmökkunarverðinu. Síðar það sama kvöld var svo margarítulest í stofunni heima hjá mér, einhverra hluta vegna var það kallað kaffilest þegar nokkrir fóru saman að kaupa kaffi og til að fagna kennslulokum, útskriftum og fleiru var lestarnafnið yfirfært á áfengi. Í þessari tilteknu lest komst ég að tvennu - að ég hef aldrei smakkað margarítur áður og að ég hef ekki misst af miklu, því þær eru frekar vondar.

*Föstu punktar hverrar viku á þessari önn hafa (fyrir utan tíma) verið að mæta í forníslenska leshringinn, fara á spurningakeppnikvöld á kránni (þar sem ég er orðinn fastagestur), fara og hitta þýskuhringinn og svo náttúrulega að horfa á Njósnadeildina með sambýlingnum og breskum nágranna okkar (aðalaðdráttarafl þáttanna á þær virðist vera að finna einhverja starfstétt sem hefur það skítara en doktorsnemar og njóta þess að sjá aðra þjást). Svo hafa verið spilakvöld, stöku partí og kaffihúsaferðir og meira að segja kirkjuferðir, því Calanit langaði svo mikið til að vera viðstödd alvörumessu með orgelspili og öllu sem því tilheyrir - bekkjarfélagi hennar mælti með söfnuði sem reyndist hittast í íþróttahúsi og öll tónlist leikin á nútímahljóðfæri (messan var ágæt en svolítið súrrealískt að sitja undir körfuboltakörfum á meðan).

*Lokavikur annarinnar voru uppfullar af önnum en það reddaðist allt eins og vanalega, svo nú hef ég rúman mánuð til að einbeita mér að því að klára ákveðna ritgerð, sem og að pakka og finna mér vinnu fyrir haustið.

*Fólk er farið að tínast í sumarfrí hingað og þangað og sumt þeirra mun ég aldrei hitta aftur (þrátt fyrir loforð um annað), sem er sorglegt, svona rétt þegar ég var farin að kynnast fólki almennilega. Mér finnst samt skrýtnast hversu mörgu fólki ég hef kynnst á þessu tæpa ári og hvað allir eru alltaf vingjarnlegir og góðir og hvaðð það verður skrýtið að hitta það ekki í haust (eða í raun nokkurn tíma). Reyndar var mér um daginn boðið í brúðkaup hérna þann 9/9 '09 - og ég lofaði að mæta þó svo að ég sé ekki viss um að samband brúðhjónanna endist það lengi.

Loksins er svo búið að mála húsið að utan - allt í allt hefur það tekið fjóra mánuði og það er ekki gaman að vakna eldsnemma á morgnana við bölvandi málara, sérstaklega ekki þegar þeir hafa farið í dramakeppnir og hótað að reka hver annan eða hætta. En þó svo að húsið sé orðið þokkalegt að utan er það alltaf jafnógeðslegt að innan, sama hversu vel er tekið til/þrifið.

*Ég hef fylgst með kreppuástandinu heima og dáist eiginlega að dáleiðsluhæfileikum Davíðs - fyrst sagði hann okkur að það væri góðæri og það varð góðæri, síðan sagði hann okkur að það væri kreppa og þá varð kreppa. Þrátt fyrir að hafa lesið um það fékk ég áfall í gær þegar ég sá hvað verðtryggðu húsnæðislánin mín hafa hækkað skart - svo mjög að bara hækkun síðasta mánaðar jafngildir hátt í tveggja mánaða meðalkaupi fyrir mig. Ég vona bara að þeir sem eiga sök á þessari svakalegu verðbólgu séu stoltir af sjálfum sér og njóti þess virkilega að hafa "stolið" öllum þessum peningum af mér.

*Ég hef áhyggjur af því að fá ekki vinnu í haust - bæði út af þessu krepputali sem og því að ég sé nánast engin störf auglýst sem henta mér og ætla ekki að skrá mig hjá ráðningarskrifstofum fyrr en ég kem heim. Annars hlakka ég svolítið til að koma heim og hverfa aftur í fjöldann og kunnugleikann (þó svo að ég verði sjálfsagt farin að blóta Íslandi í sand og ösku á mettíma) en kvíði hins vegar því að aðlagast aftur sem og minna félagslífi (því vinkonur mínar virðast margar vera komnar annaðhvort í barneignir og fjölskyldumyndanir eða ætla að flytja langt í burtu frá mér (og já ég veit hvað þetta hljómar síngirnislega og ég get fátt sagt eftir að hafa látið mig hverfa í eitt ár).


*Hmmm, já og svo er fólk eindregið hvatt til að svara bréfum frá mér (eða láta mig vita ef ég hef ekki svarað) - er farin að fá á tilfinninguna að það sé eitthvert rosasamsæri í gangi og enginn vilji tala við mig ;p

þriðjudagur, mars 25, 2008

skrýtið

Ég var að skoða New York Times áðan. Þar var nokkurra síðna umfjöllun um þá síðustu þúsund hermenn sem hafa látist í Írak, svona í tilefni af því að nú er tala fallinna Bandaríkjamanna komin í fjögur þúsund. Andlitsmyndir af þessum þúsund hermönnum, ásamt nafni þeirra og aldri, fylltu tvær opnur og á þeirri þriðju voru brot úr bréfum og bloggum nokkurra þeirra. Uppsetningin var óneitanlega áhrifarík og minnti svolítið á Víetnamminnismerkið þar sem nöfn hinna látnu öskra á áhorfandann af svörtu granítinu.

Það skrýtna er að stríðinu lauk formlega fyrir löngu, en samt falla hermenn. Og enn skrýtnara er að sama hversu marga ég spyr þá virðist enginn vita fyrir hvaða málstað þeir hafa fallið, fólk ypptir bara öxlum, verður sorgmætt á svipinn og vill helst ekki tala um þetta. Og það sorglega er að þessi andlit í blaðinu eru bara hluti af öllum þeim sem hafa látist eða þjáðst vegna þessa "stríðs" sem enginn virðist vilja vita af hverju er háð né hvaða tilgangi það á að þjóna.

sunnudagur, mars 23, 2008

Gleðilega páska :o)

Það er hálfskrýtið að vera hér um páska, ekkert tilstand, ekkert helgihald, bara venjulegur sunnudagur og ég þarf að mæta í skólann á morgun. Það eina sem minnir á páskana er páskanammið í búðunum. Ég ætla ekki að halda daginn neitt sérstaklega hátíðlegan, þarf að fara upp í skóla á eftir og undirbúa morgundaginn. Í þessum skrifuðu orðum ligg ég þó í rúminu, hlusta á tónlist og borða hnetu-mogm, því þau eru egglaga og æt (ólíkt sumu namminu hér).

Í gærkvöldi horfið ég svo á fyrstu Star Wars-myndina (þessa frá 1977), sambýlingnum fannst það mesta hneisa að ég hefði aldrei séð hana og þegar Esra viðurkenndi slíkt hið sama þá var ákveðið að hafa sérstakt kvöld til að kynna okkur fyrir meistaraverkinu. Við vorum heima hjá Esra (sem var frábær gestgjafi) og John bættist í hópinn. Ég verð að viðurkenna að mér þótti myndin ekkert spes, bjóst við miklu meira, en ætla að láta tilleiðast að horfa á hinar myndirnar. Reyndar held ég að (T)Raumschiff Surprise hafi haft slæm áhrif á mig, þar sem stælingin á Darth Vader í þeirri mynd heitir Jens og notar astmapúst, svo að ógnvekjandi hljóðin í DV þóttu mér bara fyndin.

Ferðin til Washington var æðisleg og ég ætla að skrifa nánari lýsingu á henni fljótlega, ég fór á mörg söfn, borðaði góðan mat, kynntist nýju fólki og sá öll helstu minnismerki borgarinnar. Það eina neikvæða við ferðina var að ég fékk slæma eyrnabólgu, en hún er sem betur fer næstum horfin núna.

Svo rakst ég á stjörnuspána mína fyrir daginn í dag og langar að vita hvað enina getur þýtt. Ég kannast ekki við orðið og sé engin augljós stafavíxl eða misritun, þannig að allar tillögur eru vel þegnar.
Meyja: Í heimsbókmenntunum er sönn ást sjaldan enina sæla, og kostar yfirleitt sitt. En þetta er raunveruleikinn. Þú getur fundið hamingju í sambandi og gerir það. Endir.

laugardagur, mars 15, 2008

drekafórn

Nú er vor í lofti, þó svo að þeir sem hafa dvalið hér lengi bendi á að í venjulegu árferði geti snjóað allt fram í maí. Að þeirri svartsýni frátalinni þá er vorlegt um að litast, fyrstu blómin hafa skotist upp og það er hægt að vera úti úlpulaus.

Í gær var framin nokkurs konar árleg vorfórn á skólalóðinni þar sem dreki var brenndur. Nemendur í arkitektúr byggja árlega dreka og fara í skrúðgöngu með hann um skólasvæðið, þegar þeir fara fram hjá verkfræðibyggingunni bíður þeirra óvinur, oftast í líki fönix, og þeir berjast. Drekinn vinnur alltaf og er síðan brenndur við mikla athöfn. Þetta er sagt vera gert í tilefni dags heilags Patreks til að minnast þess að hann rak allar slöngur frá Írlandi (og drekar eru oft taldir með slöngum). Drekinn í ár var frekar lufsulegur, miðað við myndir sem ég hafði séð af drekum fyrri ára - en hann brann hratt og vel.*

Á miðvikudaginn fór ég svo með Calanit að mála egg, í tilefni páskanna - við vorum reyndar þær einu sem mættum án barna á staðinn en skemmtum okkur álíka vel og börnin við að dýfa eggjunum í allskyns liti og teikna mynstur á þau. Útkoman varð kannski ekki jafnglæsileg og vonir stóðu til, enda vorum við algerir byrjendur.*

Og síðast en ekki síst þá hófst í dag vikulangt vorfrí, þvert á ímynd slíkra vorfría þá ætla ég ekki að fara til Flórída á fyllerí, heldur fer ég í fjögurra daga ferð með öðrum útlendingum til Washington. Þetta er ferð skipulögð af útlendingaskrifstofunni hérna og lítur ansi hreint vel út - en ég verð örugglega komin með ofskammt af söfnum og menningu þegar ég kem aftur til Íþöku.


*Ef ekki væri fyrir hárfínt fegurðarskyn tölvunnar minnar (sem harðneitaði að birta slíkan óskapnað) þá væru hér meðfylgjandi myndir af lufsulegum dreka og illa máluðum eggjum.

fimmtudagur, mars 13, 2008

heilaþvottur

Um daginn rakst ég á nokkra ljóskubrandara á netinu og í stað þess að brosa að þeim móðgaðist ég, sem mér þótti skrýtið því venjulega snerta slíkir brandarar mig alls ekki. Eftir nokkra umhugsun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að líklega hafi ég verið heilaþvegin. Hérna heldur fólk því nefnilega statt og stöðugt fram að ég sé ljóshærð – og til að byrja með hélt ég því fram á móti að ég væri alls ekki ljóshærð. Ég hef þó linast töluvert í afstöðu minni upp á síðkastið (þar sem ég er óneitanlega með ljósara hár en flestir sem ég umgengst hérna) og nenni ekki að rífast yfir svona smáatriðum. Nú er ég hins vegar orðin hrædd um að undirmeðvitundin hafi tekið mark á þessu bulli í fólki og undanlátssemi í mér og skilgreini því ljóskubrandara sem eitthvað mjög neikvætt, jafnvel persónuárásir.

Eftir þessa nýtilkomnu viðkvæmni mína fyrir bröndurum og grun um óæskilegan heilaþvott, hef ég ákveðið að láta það vera að flytja nokkurn tíma í Hafnarfjörð.

laugardagur, mars 01, 2008

heppin

Stundum er alltof auðvelt að gleyma því hvað við erum heppin að vera íslensk. Við getum bölvað landinu okkar í sand og ösku og kvartað yfir dýrtíð, klíkuskap, leiðinlegum veðrum og fjarlægð frá næstu löndum. Allt getur þetta verið pirrandi en í augum fólks frá öðrum löndum myndu þetta vera lúxusvandamál.

Ég borðaði hádegismat með ísraelskum vinum mínum og þau lýstu því hvað þeim fyndist þau vera frjáls hérna. Þau eru frá Haifa sem er landamæraborg og þar er alltaf hætta á sjálfsmorðssprengju- og eldflaugaárásum frá hinni hliðinni, öryggisgæslan þar er ströng og sérstakir öryggisverðir fyrir utan búðir og veitingahús sem leita á fólki áður en það fær að fara inn. Þar þurfa líka allir (bæði konur og karlar) að gegna herþjónustu. Foreldrar þeirra vilja koma í heimsókn hingað en eiga í erfiðleikum með að fá vegabréfsáritun fyrir tveggja vikna dvöl.

Flestir karlkyns kunningja minna hérna koma reyndar frá löndum þar sem þeir verða að gegna herþjónustu og vera svo tilbúnir til að berjast ef til þess kemur og mörg þessara landa eiga í eilífum skærum við nágranna sína. Þegar ég segi að það sé enginn her á Íslandi verður fólk mjög hissa og hlær svo þegar ég bendi þeim á að Íslendingar eigi enga óvini, nánustu nágrannar okkar séu Grænlendingar og fæstir viti hvar Ísland sé nákvæmlega á landakortinu eða hafi engan áhuga á svona örríki.

Aðrir koma frá löndum þar sem hálfgert eða jafnvel algert trúarofstæki ríkir og bara það að hafa aðrar skoðanir en stjórnvöld getur verið lífshættulegt. Svo ég tali ekki um lönd þar sem er mikil fátækt og stéttaskipting. Tyrkirnir og Serbarnir sem ég þekki hérna eru svo mjög hissa á því að Ísland hafi sjálft ákveðið að standa utan ESB, þó svo að forráðamenn ESB hafi nokkrum sinnum lýst því yfir hve auðvelt það yrði fyrir Íslendinga að verða fullgildir meðlimir.

Og þá eru ótalin málefni (sem jafnvel Bandaríkjamenn öfundast út af) eins og almennt læsi, að allir hafi möguleika á að mennta sig, að við getum ferðast hvert sem við viljum, að allir hafa sama rétt og margt fleira.

Ég er alls ekki að segja að Ísland sé fullkomið, en það kemst mun nær því en flest ríki í þessum heimi og margt sem okkur finnst sjálfgefið finnst öðrum draumi líkast.

sunnudagur, febrúar 24, 2008

Vol, væl & léleg lög

Þessi vika hefur að mestu farið í slappleika og það að halda mér vakandi nógu lengi til að mæta í tíma. Ég fann svo í morgun að ég var komin með hita og hætti þá við allt sem ég hafði ákveðið að gera í dag og lagðist bara í rúmið til að reyna að ná þessu úr mér fyrir fullt og allt. Eftir að hafa sofið lungann úr deginum líður mér mun betur, en er samt enn slöpp. Núna ætla ég að reyna að halda mér vakandi í klukkutíma í viðbót og freista þess síðan að geta sofið til morguns, en gallinn er sá að mér hundleiðist, því að hitanum fylgja augnverkir og get ég því lítið sem ekkert lesið eða horft á sjónvarp/tölvu (en get skrifað með augun lokuð að mestu). Þannig að í kvöld hef ég að mestu húkt inni í herbergi með ljósin slökkt og hlustað á tónlist (og pirrast á mörgum þeim lélegu lögum sem eiga heima í tölvunni minni) í stað þess að hjálpa sambýlingnum við sjónvarpsgláp.

Og talandi um væl og léleg lög, þá heyrði ég áðan nýja júróvisjónlagið og finnst lítið til þess koma, en mun að sjálfsögðu halda með því í lokakeppninni. Enda komið upp í vana hjá mér að halda með lélegum íslenskum lögum - ég held að það séu rúm tíu ár síðan mér hefur þótt íslenska framlagið flott (og ég bíð enn eftir íslenskum keppanda sem þorir að syngja á íslensku í lokakeppninni). En ég reyni af bestu getu að smita fólkið hérna af þessum skrýtna áhuga á keppni milli „misvondra“ laga með svo góðum árangri að það stefnir allt í alvöru júróvisjónpartí í maí :D

sunnudagur, febrúar 17, 2008

biluð plata

Eitt af því sem mér finnst mest þreytandi við að vera í útlöndum er hvað margir verða uppveðraðir þegar ég segist vera íslensk og tjá mér hvað þá langar mikið til Íslands og fara að spyrja mig út í tónlist, náttúruna, veðurfar, verðlag og fleira. Stundum er gaman að fá athygli út á þjóðernið (og alltaf merkilegt að sjá hvað Ísland er vinsælt) en þegar ég er mikið meðal fólks sem ég þekki ekki, eins og raunin var í gær og fyrradag, og þarf að svara sömu spurningunum aftur og aftur og er farin að hljóma eins og gömul, biluð plata frá Ferðamálaráði verður það fljótt leiðigjarnt. Aðrir útlendingar sem ég þekki hérna virðast varla verða fyrir neinu áreiti, fólk spyr í mesta lagi hvaðan þeir séu.

Ég held að Danmörk sé eina landið sem ég hef komið til þar sem heimamönnum þótti ekkert merkilegt við Íslendinga. En alls staðar annars staðar vek ég mikla athygli. Til að líta á björtu hliðarnar þá minnist þó enginn hér á íslenska hestinn, en það var oftast það fyrsta sem Þjóðverjar nefndu og ég átti alltaf í mesta basli með að svara spurningum þeirra þar að lútandi. Reyndar á ég í svipuðum vandræðum hérna með íslenska tónlist því ég hlusta ekki á þær íslensku hljómsveitir sem eru vinsælar hér og veit oft lítið um þær nema nafnið eitt.

Stundum finnst mér að ég (og aðrir Íslendingar í útlöndum) ættum að fá prósentur fyrir alla þá landkynningu sem við stundum.

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

hæðartölfræði

Þessa dagana er varla talað um annað en Clinton og Obama og kapphlaupið á milli þeirra. Flestir hérna styðja Obama, bæði nemar og fólk í bænum (samanber skiltatalninguna mína um daginn) og á ofurþriðjudeginum var Tompkinssýsla (sem inniheldur Íþöku og nágrenni) eina sýslan í New York-fylki sem valdi hann fram yfir öldungardeildarþingmann fylkisins. Nýjustu rökin á lesstofunni fyrir því að Obama eigi frekar að vera forsetaefni demókrata eru þau að hann er mun hærri í loftinu en McCain og munar um það bil 15 sentimetrum á þeim (McCain er víst ekki nema 170 sentimetrar á hæð). Ástæðan er sú að síðan farið var að sjónvarpa kappræðum forsetaframbjóðenda hefur sá hávaxnari nær undantekningarlaust unnið. (Hér er tengill á grein á Wikipediu þar sem sjá má töflu um fylgni hæðar og sigurs í bandarískum forsetakosningum.)

Þetta gengur reyndar ekki alltaf eftir því bæði Al Gore og John Kerry voru/eru hærri í loftinu en Bush og eins og einhver benti á þá hefur kona aldrei verið í framboði þannig að þessi tölfræði spáir ekki fyrir um hvaða möguleika Hillary myndi eiga. En samkvæmt opinberum tölum er hún ekki mikið lægri en McCain og því bara spurning hversu háhælaða skó hún á ;o)

miðvikudagur, febrúar 13, 2008

andleysi og almenn svengd

Ég þjáist af andleysi þessa dagana, mig langar til að skrifa eitthvað frumlegt og skemmtilegt hérna en það virðist vanta einhverjar tengingar í mig. Ég kenni nammiskorti um - eða réttara sagt skorti á góðu nammi - því þegar besta súkkulaðið sem hægt er að fá á svæðinu er ritter sport, þá er greinilega ekki um auðugan garð að gresja. Lakkrís fyrirfinnst ekki hérna (nema rauður jarðaberjalakkrís) og kökurnar í bókasafninu eru hættar að vera spennandi. Þannig að upp á síðkastið hefur aðalnammið mitt verið kasjúhnetur (sem eru alveg yndislega góðar) og svo einhverra hluta vegna eru frosnar gulrætur saltaðar og hitaðar í örbylgjuofni allt í einu orðnar mjög gómsætar (húðinni til mikils ama). Og þegar svo er komið er þá að furða að andleysi ríki?

Andleysið nær líka að matargerð, sem er svo sem allt í lagi þegar það snýr bara að mér en verra er það þegar ég þarf að fara með mat eitthvert. Ég reyndar sneri mig út úr því á laugardaginn þegar var samskotamatur (e. potluck) hjá Becky og bauðst til að koma með drykkjarföng í staðinn fyrir mat. Enda vill fólk venjulega að ég mæti með eitthvað þjóðlegt og það eina sem mér dettur í hug fyrir utan þorramat er ýsa með kartöflum og fisk, hvort sem er frosinn eða ferskan, er erfitt að finna í þessum bæ.

Reyndar er mikil eftirspurn eftir súrsuðum hrútspungum og hákarli hérna - aðallega vegna þess að fólk trúir því ekki að þetta sé í alvörunni borðað. Ég held að ég eigi minn hluta í því að dreifa út (ó)hróðri þessara matartegunda en sambýlingurinn, sem hefur verið hérna lengi, minnist oft á Þorrablót sem var haldið fyrir nokkrum árum þar sem þetta góðgæti var á boðstólum og hana hryllir enn við því og segist aldrei hafa verið jafnfegin því að vera grænmetisæta og þá.

Íslendingafélag Íþöku heldur svo Þorrablót á föstudaginn og þar sem ekki tókst að smygla neinum hefðbundnum þorramat hingað þá virðist dagskipunin vera sú að mæta með útlendinga og „kenna“ þeim að drekka íslenskt brennivín. Ég átti pela fyrir áramót sem ég mætti með í tvö partí - í því fyrra voru málvísindanemar sem þræluðu því í sig með herkjum en í því síðara vakti það töluverða lukku og tveir kunningjar mínir frá Ísrael og Nýja-Sjálandi lýstu því yfir að þetta væri besta áfengi sem þeir hefðu smakkað.

En svo ég snúi mér aftur að laugardagskvöldinu, þá spannst umræða um nemendur og maka þeirra og hófst hún á því að eiginkona eins stráksins hrósaði eiginmanni húsráðanda fyrir að hafa flutt með henni þrátt fyrir að vera karlmaður. Mér fannst þetta skrýtið orðalag hjá henni en í ljós kom að síðan hún gifti sig fyrir átta árum síðan hefur hún fylgt eiginmanninum á hvern þann stað sem hann hefur stundað nám og þau flutt allavegana sex sinnum. Þegar ég benti henni á að það væri kominn tími á að hún flytti eitthvert og léti hann elta sig, svaraði hún því til að það kæmi ekki til greina þar sem hún hefði veðjað öllu á framtíð hans. Þegar þarna var komið sögu langaði mig til að benda á einhver íslensk dæmi um að þar fylgdu karlmenn konum sínum í nám (til að sýna fram á styrkleika og sjálfstæði íslenskra kvenna), en mundi ekki eftir einu einasta dæmi um það, en mundi eftir mörgum tilvikum þar sem par fer saman í nám eða konan fylgir karlinum. Mér fannst það athyglisivert og það skekkti jafnréttisgleraugun mín svolítið.

Meðal annarra viðburða vikunnar má nefna að mitt lið vann enn einu sinni ekki í kráarspurningakeppninni - þrátt fyrir að hafa lagt mikinn metnað í val á nafni liðsins. Kvikmynda- og körfuboltaspurningarnar voru eitthvað að flækjast fyrir okkur að þessu sinni. Og svo eignaðist ég nýja uppáhaldshljómsveit eftir að hafa séð myndina Control, sem var mjög góð og fallega sjónræn. Reyndar er spurning hvort hægt er að kalla hljómsveitina nýja, þar sem söngvarinn dó áður en ég fæddist og ég hef oft heyrt lög með sveitinni án þess þó að tengja þau saman.

laugardagur, febrúar 02, 2008

dagur í lífi mínu

Dagurinn sem nú er nýliðinn (föstudagur) var ansi góður. Mér tókst að vakna eldsnemma og fann varla fyrir verkjum í bakinu - en á miðvikudaginn las ég um jógaæfingu sem ætti að lækna fólk af vöðvabólgu og fylgdi leiðbeiningunum af kostgæfni til að losa um stífar herðar með þeim afleiðingum að hver einasti vöðvi í bakinu á mér var aumur á fimmtudaginn. Til að lifa af skóladaginn tók ég fjöldamargar verkjatöflur og skolaði þeim niður með kaffi, til að vinna gegn slævandi áhrifum og svefnleysi undanfarinnar nætur. En eftir heimatilbúna slökunarmeðferð (drekka bjór til að slaka á vöðvunum og fara svo í heita sturtu) og nægan svefn var ég næstum eins og nýsleginn túskildingur í morgun.

Það var slydda og frekar hált úti og því var öllum skólum (nema háskólanum - þó svo að mæting þangað væri valfrjáls) í nágrenninu lokað vegna veðurs, sem varð til þess að kennarinn sem átti að kenna fyrsta tímann mætti ekki. Hins vegar fórum við báðir nemendur hans og fengum okkur kaffi saman og þannig hitti ég fyrstu manneskjuna hérna sem hefur áhuga á fornum tungumálum á svipaðan hátt og ég, en hún blandar saman fornleifafræði, málvísindum og mannfræði. Og það sem meira er, þá ætlar hún að tala við súmerskukennarinn sinn og spyrja hann hvort ég megi sitja í þeim tímum þrátt fyrir að hafa ekki tekið fyrri hluta þess námskeiðs á haustönninni - ef úr því verður fæ ég að vinna með alvöru súmerskar töflur í mars og apríl (skólinn á víst mörgþúsund slíkar).

Síðan tók við frönskutími og ég er enn undrandi á því hversu auðvelt er að læra að skilja skrifaða frönsku með þeirri aðferð sem er notuð. Eftir tvær vikur get ég lesið setningar sem byggja ekki bara á samheitum heldur eru um gildi vinnu, að þrátt fyrir að Marie sé sæt þá sé hún líka gáfuð og hvernig himneskir líkamar verða að lúta eðli náttúrunnar (ég ætlaði skrifa þessar setningar hér, en vegna þess að bókin er uppi í skóla og námskeiðið gengur ekki út á það að geta tjáð sig neitt á þessu fagra tungumáli - læt ég það bíða betri tíma ;p).

Eftir það fór ég í langt hádegisverðarhlé með Brandi, sem er álíka matvönd og sumir sem ég þekki heima (nefni engin nöfn ;o)), svo við enduðum á því að fara á tvo mismunandi staði - en það var gaman. Lærði síðan (það tilheyrir víst) og fór svo á TGIF (í húsnæðinu sem leysir Rauðu hlöðuna af á meðan hún undirgengst breytingar) þar sem ég hitti Calanit, Itay, David og Richard. Síðar um kvöldið fór ég svo heim til þess síðastnefnda og spilaði við hann og vini hans - fékk að vera með eftir að hafa einhvern tíma talað um hvað ég saknaði þess að spila - spilið var mjög skemmtilegt og gekk út á að það að leggja undir sig heiminn að fornu með smákænsku. Einhverra hluta vegna tókst mér að vinna og sýna þar með fram á að Fönikíumenn hefðu staðið Rómverjum, Grikkjum og Germönum framar að öllu/flestu leyti.

Um daginn fann ég síðu með skopteikningum (er til eitthvert annað orð fyrir "comic strip"?) af háskólalífinu - sumt er óþægilega satt - og hér er hægt að skoða (ýta svo á previous eða next til að sjá fleiri).

Og vegna verkja og anna þá eru þó nokkur ósvöruð bréf í tölvupósthólfinu mínu - sem verður svarað við fyrsta tækifæri, ég var bara í meira blogg- en bréfastuði í kvöld og núna kallar rúmið hástöfum á mig og lofar mér fögrum draumum ef ég gegni fljótt.

sunnudagur, janúar 27, 2008

:o)

Það styttist í forsetaforvalið í New York-fylki (5. febrúar). Ég hef ekki heyrt neinn hérna minnast á forval repúblikana, enda er þetta víst vinstrisinnaðisti bær landsins. Að auki er það forval ekki nærri því jafnspennandi og keppnin á milli Barracks Obama og Hillary Clinton - stundum finnst mér að það séu alvöruforsetakosningarnar. Fólk hérna setur gjarna upp skilti fyrir framan hús sín til að lýsa yfir stuðningi við menn og málefni (uppáhaldið mitt er: Support Our Troops *** End the War). Á leið minni út í búð áðan (kortersganga) sá ég að minnsta kosti átta Obama-skilti en ekki eitt einasta Clinton-skilti, en það misræmi gæti reyndar stafað af því að stuðningsmenn Obama eru mun duglegri við að ganga í hús og bjóða upp á spjöld og alls kyns merki.

Blogglægð vikunnar má skrifa á það að skólinn byrjaði aftur á mánudaginn og síðan þá hef ég haft nóg að gera, bæði í skólanum og því að hitta vini og kunningja. Þeir áfangar sem ég tek/sit í þessa önn eru franska (læra að lesa málið), hettitíska og typology (hef ekki hugmynd um hvað það kallast á íslensku en fjallar um innri gerðir tungumála). Nemendum mínum hefur fækkað og við fáum ekki lengur að vera í sparikennslustofunni - en það er alltaf jafngaman að ofuráhuga þeirra á íslensku.

Hamingjuóskir dagsins fara svo til Unu og Fouads sem eignuðust heilbrigða og fallega dóttur á fimmtudaginn :o)

mánudagur, janúar 21, 2008

naut og steingeit

Eftir að hafa lesið fréttir af sviptingum í borginni á mbl.is rak ég augun í stjörnuspána neðst á síðunni:
Naut: Það söðla um og fara að vinna með alveg nýju fólki getur verið mikið átak. En ef þú ert að sækja í enn betri vinnufélaga, getur þetta verið stórkostleg hugmynd.
Og nú get ég ekki annað en velt því fyrir mér hvort Ólafur F. Magnússon sé í nautsmerkinu.

Ég vona allavegana að þetta sé stórkostleg hugmynd og allt eigi eftir að falla í ljúfa löð í borgarstjórn að þessum gjörningi loknum - en er þrátt fyrir vongæskuna nokkuð viss um að það muni ekki gerast, heldur aukist bara rifrildin og vesenið og við fyrsta tækifæri verði reynt að lokka einhverja úr hinum nýja meirihluta yfir til fráfarandi meirihluta - jafnvel þvert á pólitískar flokkslínur. Á svona stundum fæ ég óneitanlega á tilfinninguna að kjörnir fulltrúar eyði stundum meiri tíma í að rífast og plotta en að huga að því að vinna saman að því að bæta hag fólksins sem kaus þá.

Í síðustu bloggfærslu, þar sem ég leitaði að stórafmæli eða -viðburði fyrir 19. janúar þá miðaði ég við árið 1938, til að halda mynstrinu gangandi. Hins vegar var mér bent á að ég hefði leitað langt yfir skammt því frændi minn hann Jón Orri fæddist þennan dag árið 1983 (einungis 45 árum of seint til að verða sjötugur - en ef 38 er víxlað kemur út 83), hann fær því síðbúnar afmæliskveðjur og þann heiður að vera stórafmælisbarn þessarar færslu :o)

sunnudagur, janúar 20, 2008

hmmm....

Nú hef ég málað mig út í horn, alveg óvart hafa tvær síðust færslur tengst stórafmælum - fimmtugs og sextugs. Til að halda mynstrinu áfram þyrfti sjötugsafmæli að koma við sögu í þessari færslu. Því miður veit ég ekki um neinn sem fæddist þann 19. janúar* 1938 né man eftir nokkru merkilegu við þá dagsetningu - það næsta sem ég hef komist er að Janis Joplin hefði orðið 65 ára í dag hefði hún lifað. Hún var ekki nema 27 ára þegar hún dó, líkt og tónlistarmennirnir Jim Morrison, Kurt Cobain og Jimi Hendrix - eins og einn skólabróðir minn hérna og jafnaldri benti mér á þegar ég náði þeim glæsilega aldri í því skyni að sýna mér hversu litlu við hefðum áorkað á frægðarferli okkar í samanburði við þau. Ég gaf nú reyndar lítið fyrir það og sagðist frekar kjósa að verða gömul og ófræg en deyja ung og verða goðsögn.

*Athugið að tímasetningin á blogginu mínu er á íslenskum tíma og því fimm tímum á undan sjálfri mér ;o)


fimmtudagur, janúar 17, 2008

dæ hard eitt, dæ hard tvö...

Ég var búin að gleyma hvað þetta var fyndið (úr Áramótaskaupinu 2001)




Annars var leikurinn áðan virkilega sorglegur (með hjálp skype, pabba og mbl.is tókst mér að fylgjast með honum). Svíagrýlan er greinilega í fullu fjöri, því ekki virtust Svíarnir vera neitt betri en íslenska liðið þegar það spilar af venjulegri getu. Og það er alltaf grátlegt að tapa með stórum mun fyrir liði af sama styrkleikaflokki.

mánudagur, janúar 14, 2008

En Æðstistrumpur segir...

Mig dreymdi svo skringilegan en um leið fallegan draum núna í morgunsárið að ég vildi ekki vakna frá honum. Þannig að í stað þess að vakna snemma og verða mikið úr verki eins og ég ætlaði mér, rumskaði ég fyrst við vekjaraklukku sambýlingsins, slökkti svo á öllum þremur vekjarasímhringingunum mínum um leið og þær upphófust og heyrði svo milli svefns og vöku í vekjaraklukku sambýlingsins fara aftur og aftur af stað (og alltaf slökkt á henni jafnóðum).

En samkvæmt draumráðningarsíðu er ekkert neikvætt að finna í draumnum, bara fyrirboða um öryggi, visku, vernd, væntumþykkju og nýtt upphaf.



Svo las ég áðan að Strumparnir ættu fimmtíu ára afmæli í dag. Ég held að teiknimyndirnar hafi komið út með íslenskri talsetningu þegar ég var lítil, allavegana var mikið strumpaæði á þeim tíma - hægt að kaupa strumpabrauð, strumpapáskaegg og strumpanammi og eflaust eitthvað fleira. Ég þarf samt greinilega að horfa aftur á þessar teiknimyndir (hvenær ætli þær komi út á DVD?) því ég man eftir alltof fáum nöfnum - Æðstistrumpur, Strympa, Letistrumpur, Gáfnastrumpur, Hégómastrumpur(?), og Bakarastrumpur eru þau einu sem ég get rifjað upp í fljótu bragði. Hvað hét aftur strumpurinn sem hataði allt og alla?






Which Smurf are you?
created with QuizFarm.com
You scored as Papa Smurf

You are Papa Smurf. You are always the leader of the group and you make all the important decisions, whether you like it or not... You should see what it's like to not lead a group for once, wear somehting that nobody will recognise you in, like white pants, and shave your beard...


Papa Smurf


70%

Lazy Smurf


60%

Vanity Smurf


45%

Greedy Smurf


40%

Smurfette


35%


sunnudagur, janúar 13, 2008

svindl (o me miseram!)

Núna ætlaði ég mér að sitja og fylgjast með leiknum Ísland-Tékkland á netinu, sem smásárabót fyrir að missa af EM, en nei, það er ekki boðið upp á netútsendingu - ekki er verið að lýsa leiknum í útvarpinu og það skásta sem ég hef komist í er veflýsing á Vísi - sem er skárra en ekkert en samt ljósár frá því að vera handboltaleikur.

Ég er næstum farin að halda að æðri máttarvöld séu að senda mér skilaboð. Boðin má túlka á tvo vegu, annaðhvort á ég ekki að vera að flækjast í útlöndum eða þá að gera eitthvað gáfulegra en að horfa á íþróttir.

Það voru þrír íþróttaviðburðir sem ég hlakkaði til að fylgjast með í ár: EM í handbolta, EM í fótbolta og ólympíuleikarnir og ég var komin með áætlun um hvernig ég ætti að fylgjast með þeim þrátt fyrir utanlandsflandur.

Ég vissi að þrátt fyrir að útsendingar RÚV á handboltaleikjum næðust ekki á netinu utan Íslands, þá yrði hægt að gerast áskrifandi að leikjum á síðu UEFA. Þegar ég fór svo á þá síðu kom í ljós að sú þjónusta stendur ekki öðrum til boða en þeim sem eru með Microsoft-stýrikerfi. Þannig að sá möguleiki er úr sögunni.

Ég er ekki bjartsýn á að finna einhvern stað hér sem sýnir leiki í EM í knattspyrnu (sjónvarpsrásir eru útilokaðar þar sem hæðir og kapalleysi veldur því að við náum einungis Fox og einhverri kristilegri stöð), en hélt að ég yrði örugg með að sjá allavegana lokaleikina ef ég kæmi heim um mánaðamótin júní-júlí. En í gær komst ég að því að úrslitaleikurinn verður leikinn 23. júní. (Ég verð þó að viðurkenna að ég er orðin vön því að missa að mestu af EM og HM í fótbolta, því útlandaflandur og tilheyrandi sjónvarpsleysi sem og einokun Sýnar hefur orðið til þess að ég hef ekki getað fylgst almennilega með slíku móti síðan sumarið 2000.)

Reyndar eru ólympíuleikarnir eftir ótruflaðir, þannig að ég bíð í ofvæni eftir að sjá hvað kemur í veg fyrir að ég geti horft á þá ;o)

föstudagur, janúar 11, 2008

gleðilegt ár

Þá er ég komin aftur til útlandsins, enn á íslenskum tíma og með fulla tösku af nammi, aðallega til að sanna það að íslenskt nammi er best í heimi (og þess vegna er ég á leið út í búð núna áður en ég geng meira á birgðirnar, voðalega fátt annað til ætilegt á heimilinu).

Ef mér telst rétt til tók ferðalagið 19 tíma, frá því að ég lagði af stað að heiman og þangað til ég var komin heim aftur (notkun mín á heim/heiman/heima er mjög frjálsleg þessa dagana). Ég gæti kvartað, til dæmis um þrengsli í flugvélinni, hvað það tók langan tíma að komast í gegnum vegabréfaskoðun (löng röð og fáir að vinna) og örugglega margt fleira - en þar sem ég komst heilu og höldnu á áfangastað og var hleypt inn í landið nenni ég því ekki.

Þar sem ég hef bara haldið mig inni í herbergi í dag hef ég enn ekki séð neitt lífsmark hérna nema hjá kisu, sem er alveg óð í athygli og umhyggju, enda verið meira og minna ein síðustu þrjár vikurnar.

Jólafríið heima var yndislegt, ég gerði kannski ekki margt en það var allt skemmtilegt (fór meðal annars vestur á Ísó) - tíminn hljóp gersamlega frá mér og ég hefði alveg getað hugsað mér að vera lengur, svo það var erfitt að fara.


En til að koma mér aftur í bandaríska gírinn tók ég þetta próf:
85% Barack Obama
84% Chris Dodd
83% Hillary Clinton
82% John Edwards
76% Bill Richardson
75% Dennis Kucinich
74% Mike Gravel
74% Joe Biden
39% Rudy Giuliani
33% Tom Tancredo
30% Mitt Romney
27% John McCain
23% Mike Huckabee
20% Ron Paul
20% Fred Thompson

2008 Presidential Candidate Matching Quiz