föstudagur, október 29, 2004

Kennsluógn

Og breytingarnar halda áfram, ég litaði á mér hárið í fyrsta skipti á þriðjudaginn (sést reyndar ekki mikill munur). Það heppnaðist framar vonum kannski út af því að litla systir hjálpaði mér fullt (lesist hún sá um það - ég er ekki fær um svona hluti) enda var hún að lita á sér hárið og ég fékk leifarnar af þeim háralit. Samt er hárið okkar ekki eins á litinn núna, enda hafði ég litinn ekki jafnlengi í og hún og setti auk þess ekki jafnmikinn lit í.

Á mánudaginn fer ég að þykjast vera kennari. Ég held að sá misskilningur hafi orðið að ég kynni að kenna (sem ég kann ekki og er ekki með próf upp á), en ég hef engar áhyggjur af því - það reddast. Það sem ég hef áhyggjur af er að ég hef ekki hugmynd um hvar þau eru nákvæmlega stödd, á hverju ég eigi að láta þau byrja í næsta tíma og svoleiðis. Við fórum á fund fyrir viku með kennaranum sem við erum að fara að leysa af, en ég var litlu nær eftir það - svo ég vona að hann svari tölvupóstinum sem ég sendi honum áðan.

En annars vona ég að krakkagreyin (verða örugglega orðin að skrýmslum eftir helgi) verði til friðs og leyfi mér að tala. Ef þau ætla að vera eitthvað óþekk, nota ég bara lyklakipputrixið sem ég lærði í fyrra (það borgaði sig sko að hanga með krökkunum sem voru í kennslufræðinni þá) en það felst í því að mæta með risastóra lyklakippu og fleygja henni í borðið, skv. the dummies guide to teaching á það að skila sér í óttablandinni virðingu nemenda sem á að endast önnina. Ég veit ekki hvort þetta virkar, en mér fannst þetta gagnlegra en allar ígrundanirnar sem þau þurftu að skrifa.

En eitt af því sem ég á að kenna er skáldsagan Óvinafagnaður sem gerist á Sturlungaöld og fjallar um baráttu Þórðar kakala við Kolbein unga. Til þess að fá bakgrunnsupplýsingar um kappana ákvað ég að lesa Þórðar sögu kakala - ég hætti á blaðsíðu 20 því mér ofbauð. Þessir karlar fóru um héruð og fóthuggu og drápu menn fyrir engar sakir, aðallega af því að þeim leiddist eða eitthvað. Og svo eru menn að kvarta yfir handrukkurum nútímans!!! Ekki það að þeir séu ekki slæmir, en að ímynda sér hvílíkan hrylling forfeður okkar sem voru almúgafólk hefur þurft að láta yfir sig ganga.

þriðjudagur, október 26, 2004

Breytingaskeið

Ég er öll í því að breyta öllu þessa dagana. Bloggsíðan er orðin græn (allt er vænt sem vel er grænt), því hún var fullmikið bleik. Svo skipti ég um hringitón á símanum mínum, sem leiðir til þess að hann getur hringt og hringt við hliðina á mér án þess að ég fatti að þetta er minn sími, svo skil ég ekkert í að það skuli vera svona mikið um missed calls. Er að hugsa um að endurráða Alf Poier, allaveganna fattaði ég alltaf að svara þegar hann hringdi.

Survivor fundurinn gekk vel fyrir utan það að Rory var ekki rekinn í burtu - ég er orðin svolítið pirruð á honum. En hins vegar verða liðþjálfinn og Twila svolítið skemmtilegt par :o)


Og svo fyrst ég veit ekki hvað ég er að gera, þá er ágætt að vita hvaðan ég kom

sky
You came from the sky. Your a daydreamer and prefer
to have a good look on situations.


Where did you come from?
brought to you by Quizilla

sunnudagur, október 24, 2004

meira pláss

Sú stórskemmtilega breyting varð á hi-pósthólfinu mínu í síðustu viku að plássið í því jókst. Ég veit reyndar ekki alveg hvað gerðist, en á fimmtudagsmorguninn var pósthólfið mitt alveg stíflað svo ég henti öllum nýjum pósti og innihald pósthólfsins hrapaði niður í 44% og hefur haldið sér þar síðan. Ég hef ekki hugmynd um hvað gengur á en er bara ánægð, því venjulega er ég að berjast við að halda því undir 95%.

Annars hefur þessi helgi ekki staðið undir fögrum fyrirheitum um allt sem ég ætlaði að vera svo dugleg að gera :o( og sver sig þannig í ætt við aðrar helgar. Verkefnin sem ég ætla að fara yfir og þarf að skila á þriðjudaginn eru ekkert meira yfirfarin en á föstudaginn og verkefnið sem ég hefði eiginlega átt að skila á morgun (en fékk óvart frest með fram til 8. nóvember) jafnóskrifað.

En ég las þó Óvinafagnað og þó að bókin sé ágæt, hlýtur hún að vera martröð fyrir fólk sem veit ekkert um Sturlungaöldina - vona að fólkið sem ég ætla að pína í MS hafi lært eitthvað um Sturlunga, ef ekki þá erum við öll í djúpum skít (eða á betra máli, öll sokkin í svaðið). Er virkilega farin að hugsa um að mæta bara með Sturlungaspilið í tíma og láta alla spila smá, svona til að fá meiri tilfinningu fyrir persónum og staðarháttum.

Er reyndar í sjokki að vera að fara að þykjast vera kennari í tvo mánuði - en ég býst við að þetta sé bara að hrökkva eða stökkva, ágætt að prófa þetta í smá tíma áður en ég ákveð hvort ég eyði ári í kennslufræðina eður ei.

En á morgun er survivor fundur - og það er alltaf gaman að svoleiðis, ég held stundum að þetta fyrirtækjabrölt í okkur sé bara afsökun til að koma saman og horfa á Survivor :o) Ég vona að Rory verði rekinn burt næst og þá verður í mesta lagi ein stelpa rekin burt fyrir sameiningu og stelpurnar verða þá í meirihluta.

föstudagur, október 08, 2004

Góðu fréttirnar eru þær að nýja nettengingin er loksins komin í gang. Slæmu fréttirnar eru þær að þráðlausi hlutinn af þeirri tengingu er ekki kominn í gagnið og snúran sem fylgir er svo stutt að netnotkun verður öll að fara fram við símaborðið. En það er allt í lagi þegar enginn, sem gæti dottið um allar snúrurnar, er að flækjast í kring um mann.

En fyrir utan nettengingar og netleysi snýst lífið ekkert um annað þessa dagana en að vinna borða og sofa - og það á bara eftir að versna í nóvember. Ég held að pabbi hans Elíasar hafi verið mikill spekingur þegar hann sagði að lífið væri vinna borða sofa x 5 og borða sofa x 2, en eins og unglinga er háttur tók Elías ekkert mark á honum (og hvar ætli hann sé í dag?)