fimmtudagur, desember 21, 2006

miðvikudagur, október 25, 2006

visa

Ég fékk vísareikning í dag - sem var nákvæmlega 0 krónur. Var mjög glöð að sjá svoleiðis reikning :o)

sunnudagur, október 22, 2006

Eg skil þetta ekki

Af hverju í ósköpunum er bækur Arnalds Indriðason svona vinsælar og nánast talað um hann sem rithöfund eins og hann sé næsta nóbelsskáld?

Ég hef lesið flestar bækurnar eftir hann og þær eru allt í lagi krimmar, en að mínu mati er hann langt frá því að vera besti krimmahöfundurinn á Íslandi - hvað þá að þetta sé samfélagsgagnrýni af bestu gerð eins og ég hef heyrt suma segja. Ég gef honum það að honum hefur farið gífurlega fram síðan hann skrifaði fyrstu bækurnar, en þeim er enn ábótavant til að geta staðið undir öllu þessu lofi sem hann fær.

Eða er allt þetta lof í kringum hann í raun vegna þess að hann er fyrsti afþreyingarhöfundurinn sem þykir virðulegt að lesa?

Og áður en einhver misskilur þetta þá er ég ekki að setja út á Arnald eða bækurnar hans í sjálfu sér (held að hann hafi aldrei þóst vera einhver tímamótarithöfundur) en er bara að velta fyrir mér af hverju margir láta með verk hans eins og þau séu ódauðleg listaverk.

þriðjudagur, október 03, 2006

föstudagur, september 22, 2006

sturtur og afmæli

Ég heyri oft torkennileg hljóð á kvöldin inni í eldhúsi, það tók mig langan tíma að fatta að þetta er sturtuhljóðið úr næstu íbúð. Af gamalli reynslu þakka ég fyrir að það heyrist bara í sturtunni í eldhúsi en ekki inni í svefnherbergi.

Og núna er næststærsta afmælishollið í fjölskyldunni, í dag og í gær eiga samtals þrjú frændsystkina minna afmæli og öll heita þau nöfnum sem byrja á H. Á sunnudaginn á afi svo afmæli og ég átti afmæli í síðustu viku.

föstudagur, ágúst 18, 2006

sorglegt

Ég var að flokka geisladiskana mína í gær og komst að því að ég á fleiri geisladiska með Bítlunum en íslenskri tónlist - niðurstaða sem ég held að hljóti að teljast sorglegt.

Og nú skil ég útlendinga sem röfla um hversu vond lykt sé af heita vatninu hérna - hitaveituvatnið í Reykjavík er nefnilega mjög illa lyktandi en það hlýtur að venjast.

mánudagur, júlí 31, 2006

laugardagur, júlí 22, 2006

pæling

Eitt sem ég hef verið að pæla í. Ef að ekki ætti að sökkva Kárahnjúkasvæðinu, hefði eitthvað af þessu vina Íslands fólki nokkurn tíma farið þangað? Eða allir hinir sem fara nú í gönguferðir þar og dásama fegurðina - er þetta ekki fegurð sem 90% þeirra hefðu að öðrum kosti aldrei séð? Ef maður hugsar þetta þannig má ímynda sér að þessar virkjunarframkvæmdir hafi orðið til þess að fleiri hafa notið fegurðarinnar þar en ella. Ég hafði til dæmis aldrei heyrt um að til væri staður sem héti Kárahnjúkar áður en ákveðið var að virkja þar.

mánudagur, júlí 10, 2006

heykall



Ég tók þessa mynd um daginn þegar ég fór með mömmu til Ísafjarðar. Þessi myndarlegi maður býr nálægt Bolungarvík og ef þið rýnið vandlega í myndina þá getið þið séð blómin sem hann er búinn að tína og setja í mjólkurbrúsa.

Annars fór ég á ættarmót núna um helgina til Hóla, mjög fallegur staður og mín fyrsta reynsla af Norðurlandi, reyndar sá ég ekki mikið þar sem að það var þoka og rigning mest allan tíma. Þessi ætt er reyndar ekki mjög veðursæl, fyrir 16 árum var ættarmót á Eiðum og þá snjóaði og varð ófært á Norðurlandi um Jónsmessu.

miðvikudagur, júlí 05, 2006

Illkvittni

Í vinnunni ríkir illkvittin gleði yfir því að það eru þrjár stafsetningarvillur á forsíðu Séðs og heyrðs. Stundum þarf ekki mikið til að lífga upp á andrúmsloftið.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

:o(

Er ekkert súperglöð. Þjóðverjar duttu úr keppni og flestir sem ég þekki héldu með Ítalíu eða á móti Þýskalandi og eru búnir að segja mér hvað þeim þyki það nú æðislegt að þeir séu dottnir úr keppni :o(

fimmtudagur, júní 29, 2006

fyndið

Stundum er gaman í vinnunni, sérstaklega þegar koma skemmtilegar villur. Ég byrjaði að safna þeim fyndnustu um daginn, sú besta kom í dag:

"Þótt menn hafi lengi vitað að smokkurinn komi í veg fyrir HIV- og klamidíusmit, hafa vísindamenn hingað til ekki vitað hvaða annað gagn hann gerir."

mánudagur, júní 26, 2006

Mig grunaði þetta eiginlega

You are 53% Virgo


Nú er bara spurning hvorum helmingi stjörnuspárinnar ég eigi að trúa :o)

sunnudagur, júní 25, 2006

Af hverju er eg ekki hissa?

http://mbl.is/mm/frettir/togt/frett.html?nid=1208948

mánudagur, júní 19, 2006

kreppa

Ég horfði á fréttirnar í gær og komst þá að því hvað er að plaga mig, af hverju ég er alltaf svona óákveðin og veit ekkert hvað ég vil verða þegar ég verð stór. Ég er með þrítugsaldurskreppu (quarter-life-crisis) - sem lýsir sér einmitt svona og er víst stigvaxandi vandamál, eftir að fólk þurfti ekki að vera komið með fjölskyldu og í framtíðarvinnu um tvítugt. Hins vegar fylgdi ekki fréttinni hvort það sé til einhver lækning við þessari krísu eða hvort hún gengur nokkurn tíma yfir.

mánudagur, júní 12, 2006

johari-gluggi

Ég bjó til svona johari-glugga og þarf hjálp frá ykkur við að fylla út í hann. Það tekur ekki nema svona hálfa mínútu :o)

http://www.kevan.org/johari?name=tiglok

sunnudagur, júní 11, 2006

furðulegar auglysingar

Ég held að ég hafi aldrei séð jafninnilega misheppnaða auglýsingu og nýju auglýsinguna frá Orkuveitunni. Öll undur rafmagnsins, sett í söngleikjastíl í alltof langri auglýsingu, sem væri líka hægt að túlka sem svo að pabbinn sé að kenna syninum að meta hálfnakið kvenfólk. (Allavegna birtast hálfnaktar konur á sjónvarpsskjám, tölvuskjám og fleiru á meðan pabbinn syngur um hvað rafmagn sé dásamlegt).

Ég er að velta fyrir mér hvernig yfirmenn Orkuveitunnar hafa lýst hvað það var sem þeir sæktust eftir með þessari auglýsingu, þegar þeir töluðu við auglýsingastofuna. Þeir hafa greinilega ekki horft í kostnaðinn, því eftir allt saman eru það áhorfendur sem þurfa að borga fyrir þessa auglýsingu.

Og talandi um asnalegar auglýsingar, þá var heilsíðuauglýsing í gær frá Eden, þar sem konur voru hvattar til að skilja HM-óða karlana eftir heima, en koma í Eden með veski kallanna og eyða á útsölu þar!!! Ég átti leið austur fyrir fjall í gær, en þessi auglýsing varð til þess að mér datt ekki í hug að koma þar við.

Þessi skipting um að konur eigi ekki að fíla fótbolta, hefur leitt til þess að Skjár 1 býður upp á sérstök "stelpukvöld" sem er gott og blessað, en það vill bara svo til að ég þekki þó nokkra stráka sem hafa gaman að þáttunum á þeirr dagskrá og finnst móðgun við sig að þeir þættir séu stimplaðir stelpuþættir.

föstudagur, júní 09, 2006

fotbolti og framsokn

Eins og allir vita, eða ættu að vita, þá hefst heimsmeistarakeppnin í fótbolta á eftir, nánar tiltekið klukkan fjögur. Ég ætla ekki að minnast á hvað ég er fúl út í Sýn fyrir að hafa sölsað undir sig réttinn og selja svo aðgang að honum á okurverði "í boði" ákveðinna fyrirtækja og láta loka á þær erlendu stöðvar sem sýna frá keppninni. Ég ætla að leyfa samkeppnisráði að hafa áhyggjur af því og reyna að eiga sem minnst viðskipti við þau fyrirtæki sem að bjóða upp á þessar sýningar í læstri dagskrá.

Hins vegar ætla ég að njóta þess að sjá þá þrjá leiki sem þeir verða að sýna í opinni dagskrá, opnunarleikinn og leikina um fyrsta og þriðja sætið. Og svo er víst sjónvarp í vinnunni minni og það verður örugglega á fullu alla keppninna svo að ég fæ að fylgjast svolítið með.

Opnunarleikurinn hefst klukkan fjögur á Sýn, þar sem Þýskaland og Kostaríka spila. Ég heyrði áðan auglýsingu frá Ríkissjónvarpinu þar sem var tilkynnt að þar á bæ yrði líka bein útsending klukkan fjögur, á ræðu Halldórs Ásgrímssonar á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins! Hversu lágt getur sjónvarpið lagst, eftir að hafa glutrað sýningarréttinum á keppninni úr höndunum á sér og ætla svo að reyna að fá fólk til að horfa á miðstjórnarfund Framsóknarflokksins í staðinn.

Þótt mér sé ekkert illa við Dóra, þá skil ég núna af hverju hann hefur ekki verið sigursælli í kosningum. Að halda mikilvæga ræðu, sem að hann vill líklega að öll þjóðin heyri á sama tíma og svona 60-70% landsmanna eru límdir við skjáinn að horfa á fótbolta, er ekkert sérlega sniðugt hjá honum og sýnir að tímasetningar eru ekki hans sterka hlið (svona ef maður skyldi ekki hafa fattað það eftir síðustu helgi) og að hann er ekki í takt við fólkið í landinu.

mánudagur, maí 29, 2006

kosningar

Þá eru kosningarnar búnar. Ég fór í gamla skólann minn til að kjósa, sem í sjálfu sér er ljúfsárt, en gaman að sjá hvað allt hefur breyst en um leið haldið sér. Uppi á efri hæðinni eru myndir af öllum árgöngum sem hafa útskrifast þaðan. Ég á sjálf svona myndir af mínum árgangi en veit ekki alveg hvar þær eru, svo það var mjög gaman að kíkja á þær og sjá hvað við vorum miklir krakkar þarna í den. Það er líka skrýtið að hugsa til þess að flesta þá sem eru á þessum myndum umgekkst ég daglega í 10 vetur, en núna held ég varla sambandi við neinn og veit ekkert hvað varð af sumum þarna.

En aftur að kosningunum. Listinn sem ég kaus missti mikið fylgi og einn mann í bæjarstjórn og hlutföllin fóru úr 4:3 í 5:2, sem mér finnst ansi súrt í broti. Hins vegar hefðu þeir aldrei náð meirihluta þar sem Sjálfstæðisflokkurinn "á" bæinn. En til að líta á jákvæðu hliðarnar þá get ég ekki kvartað undan bæjarstjórn síðustu ára og efast um að það verði einhverjar miklar breytingar þar á.

Það fyndna er að úrslit í bæjarstjórnum falla í skuggann af borginni, þar var aðal og nánast eini slagurinn. Ég veit allt um loforð flokkanna þar en sama og ekkert um málefnin hér, enda held ég að kosningabaráttan hafi farið mjög friðsamlega fram og aðallega snúist um að bjóða fólki pylsur, kaffi og kökur. Þess vegna er ég mjög spennt fyrir hvernig stjórnarmyndunin fer í Reykjavík, þó svo að ég geti ekki ákveðið hvaða samsetning sé best. Helst myndi ég ekki vilja Sjálfstæðisflokkinn í stjórn og sérstaklega ekki eftir að hafa horft á hrokann í Vilhjálmi á kosninganótt, en tveggja flokka samstarf ætti að verða auðveldara en fjögurra, þó svo að þessir fjórir hafi myndað síðustu borgarstjórn.

En talandi um ríkjandi meirihluta, þá hefur mér einhverra hluta vegna aldrei þótt neitt mikið fútt í tölum á kosninganótt nema að meirihlutinn falli, hver svo sem er í honum - það er einhvern veginn eina formið sem er gaman að horfa á.

fimmtudagur, maí 25, 2006

bankar og blöð

Jæja, þá er ég búin að halda kjafti hérna í 10 mánuði, sem er náttúrulega alltof langur tími. En í stað þess að þreyta ykkur með útdrætti úr lífi mínu síðan síðast, ætla ég að leyfa ykkur að geta í eyðurnar.

Um daginn breytti bankinn minn um nafn, hætti að heita Íslandsbanki og fór að heita Glitnir af því að það væri svo miklu auðveldara fyrir útlendinga í framburði (ég þekki engan útlending sem á auðvelt með að segja -tn- en vinn heldur ekki í banka). Fyrst fannst mér þetta asnaleg breyting út af því að ég hafði alltaf tengt Glitni við bílalán, en þetta venst furðulega vel - þótt ég sem viðskiptavinur bankans sé ekki alveg sammála hvað þeir eyða miklum peningum í kynningastarf og alls kyns fjárgjafir, finnst nefnilega að með því séu þeir að snuða mig (því ekki gefa þeir mér neina peninga).

Í samhengi við þetta fór ég að pæla í andleysi íslenskra dagblaða, ekki endilega í innihaldi heldur frekar í nafngiftum. Það eru til Dagblaðið og Morgunblaðið, sem segja hvenær dagsins blaðið ætti að koma út, Fréttablaðið - sem á að segja fréttir og svo bara Blaðið, sem reynir ekki einu sinni að skilgreina sig frekar. Þetta er í raun til skammar fyrir þjóð sem þykist eiga svo fallegt og þjált tungumál. Einu sinni voru til blöð með fallegri nöfnum en þau eru því miður ekki lengur á meðal vor. Þjóðviljinn, Dagur, Tíminn - þetta voru blöð sem báru nöfn, sem voru greinilega ekki nógu andlaus og venjuleg til að virka.

Eftir að hafa pælt í þessu þá finnst mér bara allt í lagi þó að Glitnir hafi ekki viljað heita -banki lengur og langað til að vera smá frumlegur. En kannski ættu þeir að passa sig í ljósi sögunnar og vera ekki of ákafir í að gefa alla peningana sína til ókunnugra, því það fylgir víst frumlegum nöfnum að fara stundum á hausinn.