fimmtudagur, júní 28, 2007

orð & bækur

Ég varð áðan virkilega fúl út í þá útgáfu orðabókarinnar sem við notum við vinnuna og gengur stundum undir gælunafninu Mörður. Hún gefur upp að það megi segja versla eitthvað þegar sú regla sem ég hef alltaf heyrt að sé algild og ég nota og passar við málkennd mína er að maður verslar einhvers staðar en kaupir eitthvað. Þetta er samt ekki í fyrsta skipti sem bókin ergir mig, því samkvæmt henni má, þvert á allar reglur sem ég hef lært, skrifa snéri í stað sneri og samrýmdur í stað samrýndur og margt fleira sem ég nenni ekki að telja upp núna en hefði leitt til rauðra strika hefði ég skrifað það á stafsetningarprófi eða í ritgerð.

Annars er ég að lesa alveg yndislega bók núna sem heitir Lost for Words - the Mangling and Manipulating of the English Language eftir John Humphrys sem er víst frægur á Englandi og hefur unnið sem pistlahöfundur í dagblöðum og verið þáttastjórnandi og fréttaþulur á BBC. Maðurinn er meinfyndinn og gerir grín að alls kyns ambögum sem hafa rutt sér til rúms í ensku. Ekki síst þegar fólk tekur upp á því að flækja einfaldan orðaforða og orðanotkun af því að það heldur að það sé fínt. Margt af því sem hann talar um má auðveldlega heimfæra upp á íslensku, þó svo að við virðumst vera komin mun styttra eftir þessum vegi til glötunar en Englendingar ;o)

Talandi um bækur, þá er ég farin að efast um raunveruleikaskyn mitt. Ég hikstaði ekkert á því að lesa bók um daginn sem fjallaði um galdramenn, vampírur, álfa og uppvakninga (þar af einn risaeðluuppvakning) á götum Chicago en átti í mesta basli með að samþykkja trúverðugleika bókar sem ég las nokkrum dögum síðar og fjallaði um kvenlögfræðing frá London sem fann lífshamingjuna í því að verða ráðskona í litlu sveitaþorpi og læra að þrífa og elda (reyndar fékk hún að liggja í sólböðum á milli og tæla garðyrkjumanninn).

Núna er svaka stuð í bakgarðinum hjá mér. KR og Fram eru að spila og á KR-vellinum er sko hitað almennilega upp með alls kyns slögurum og hátalarakerfið stillt svo hátt að glymur í hverfinu og svo sungið og hrópað og púað á meðan á leiknum stendur. Verst að ég sé ekki almennilega á völlinn héðan en stemningin skilar sér fullkomlega.

þriðjudagur, júní 19, 2007

villur

Ég grínaðist á tímabili oft með það að hið fullkomna starf fyrir mig væri að fá borgað fyrir að lesa. Sá lestur sem ég hafði í huga var svo sannarlega ekki prófarkalestur (enda var þetta áður en ég vissi að það væri atvinnugrein og löngu áður en ég uppgötvaði að það væri ekki skilyrði fyrir blaðamenn að vera góðir í íslensku), heldur bækur mér til skemmtunar. Ég komst næst því hluta úr sumrunum þegar ég var 16 og 17 og vann á skiptiborði, því þegar lítið var að gera gat ég nýtt vinnutímann í lestur.

Þetta sýnir bara að draumar geta ræst allt öðru vísi en ætlað var. Mér líður oft eins og vélmenni í vinnunni, lifandi villuleitarforrit, og það hjálpar svo sannarlega ekki til að til þess að halda einbeitingu þarf ég að slökkva á meirihluta heilastarfseminnar, sem ég held að sé alls ekki hollt og veldur því að ég er eins og heilalaus ljóska þegar ég þarf að eiga samskipti við fólkið í kringum mig. Sem betur fer verð ég orðin fyrrverandi (ekki fyrrum!) prófarkalesari innan tveggja mánaða.

Einn ljós punktur er þó við starfið og það eru skemmtilegu villurnar, sem oft eru svo fáránlegar og fyndnar að þær geta bjargað deginum. Ég hef alltaf ætlað að safna þeim en það hefur því miður ekki náð lengra en að hripa sumar niður á blað. Við tiltekt í gær fann ég svo nokkur þessara blaða og hér eru því dæmi um nokkrar góðar villur.


„Í eigu auðkylfingsins Donalds Trump.“

„Plantan festi hljómsveitina í sessi.“

„Þættirnir hafa fengið góða góma vestanhafs.“

„Ef hann hefði svikið hana á altarinu.“

„Býður upp á nýbreytni frá grillmat og kjötiðnaðarvörum.“

„Hann kemst í sögubrækurnar.“

„Hún elskar andlega þenkjandi bækur.“

„Hins vegar nýtast bökunarkartöflurnar sem komu heim úr bústaðnum um helgina.“

„Hún skar sig út á verðlaunapallinum.“

„Og foreldrum er ekki lengur heimilt að skíra börn sín í höfuðið á japönskum bílum.“

„Að lokum rennið mjúkum kolablýanti inn í augað.“

„Ranía drottning Jórdaníu sameinaðist Hollywood-leikkonunni Reneé Zellweger í síðasta mánuði.“

„Hún vekur athygli hvar sem hún fer vegna glæsileika síns og mannúðarmálanna sem hún framfylgir af ástríðu.“

„Uma kvæntist Ethan.“

„Í þrotabúi hundaræktarinnar.“

„Þar á meðal fyrrverandi forseti Íslands, frú Vigdís Grímsdóttir.“

föstudagur, júní 15, 2007

andvaka

Ég held að Pavlov væri ekki ánægður með mig núna. Þrátt fyrir að eiga að búa yfir meiri rökhæfni en hundarnir hans virðist ég bara ekki geta lært af reynslunni og tengt saman orsök og afleiðingu. Ég á nefnilega ekki að drekka kaffi, virðist bara alls ekki þola það, ekki nóg með að koffín fari illa með húðina heldur veldur það líka andvökum (líkt og núna), ég tala nú ekki um þegar ég asnast til að drekka meira en einn bolla á dag.

Þó að kaffiþolið sé lítið vil ég bara svart, sykurlaust, rótsterkt kaffi og það hjálpar reyndar mjög við að halda einbeitingu í þessari tilbreytingalausu vinnu minni. Ef ég drykki ekki kaffi þá myndi ég að öllum líkindum sofna eða hætta að taka eftir textanum fyrir framan mig. Hins vegar er gjaldið fyrir þann lúxus hátt, að vera andvaka er ekkert gaman. Fátt uppbyggilegt hægt að gera á meðan maður reynir að sofna, sérstaklega þegar með hverri mínútunni sem líður styttist í fótaferðatíma. Með litlum svefni eykst líka þörfin á kaffi að morgni til að vakna og halda einbeitingu og þannig heldur vítahringurinn áfram og aldrei man ég eftir bölvun koffínsins fyrr en of seint.

Hins vegar getur verið að ég mistúlki kenningar Pavlovs hér að ofan og sé bara orðin svo hundhlýðin að það að vinna jafngildi því að drekka kaffi. Sumsé að þegar ég sest við tölvuna er eins og bjöllu sé sveiflað og ég hleyp (slefandi?) og næ mér í bolla af kaffi.

miðvikudagur, júní 06, 2007

ekki leiðum að líkjast

Rakst á þetta og mundi að það er alltof langt síðan ég hef tekið svona skemmtipróf og örugglega enn lengra síðan ég hef sett niðurstöðurnar hér inn ;o) Af eðlislægri forvitni þætti mér gaman að vita hvaða plötum þið líkist, svona fyrst prófið er á mínu „sérsviði“.







Which Beatles Album Are You?

mánudagur, júní 04, 2007

heilaþvottur?

Í nótt dreymdi mig að ég væri á leiðinni í atvinnuviðtal og bað því fyrrverandi yfirmann um meðmæli. Hann var upptekinn í símanum en rétti mér gulan post-it miða sem á stóð: „Ekki láta heilaþvo þig.“ Einhverra hluta vegna finn ég ekkert sem gæti skýrt viðvörun við heilaþvotti á draumráðningasíðum á netinu en að dreyma yfirmann táknar víst annaðhvort mikið sjálfstraust og trú á eigin getu eða takmörk og skort á frelsi og tækifærum til sköpunar.

Á föstudaginn fékk ég tvö gluggaumslög frá Reykjavíkurborg. Í því sem ég opnaði fyrst var launaseðill fyrir kosningarnar og í smástund gladdist ég og íhugaði hvernig ég ætti að eyða peningunum eða alveg þar til ég opnaði hitt umslagið. Í því var ég rukkuð um fasteignagjöld. Að frádregnum sköttum af laununum þá skiptum við borgin nánast á sléttu - hún heimtaði þó aukalega 236 krónur af mér.

föstudagur, júní 01, 2007

oflof eða hreinræktað bull?

Ég bara verð að deila stjörnuspánni minni á mbl.is í dag með ykkur. Ég veit ekki hver semur þetta, en nú finnst mér bullið vera komið út í öfgar eða þá að einhver hefur ruglast rækilega í orðabókarþýðingunni. Í það minnsta hef ég aldrei fyrr heyrt talað um guðdómlega, stórkostlega djúpvitrar tilfinningar. Líka spurning hvort að tilfinningar geti verið vitrar, er ekki vitið til þess skapað að hafa hemil á tilfinningunum? En svo gæti þetta líka fallið undir flokkinn oflof er háð.

Meyja: Falleg saga, von og bjartsýni - klisja eða ekki - þú hefur mikið að gefa. Tilfinningarnar sem hrærast með þér eru guðdómlega, stórkostlega djúpvitrar.