fimmtudagur, júlí 19, 2007

síðasti kaflinn

Mér finnst óneitanlega svolítið skrýtið að hugsa til þess að á morgun kemur síðasta Harry Potter bókin út. Það eru komin rúm átta ár síðan ég las fyrstu þrjár bækurnar í rykk eftir að hafa lesið umfjöllun um nýútkomna þriðju bókina í ensku dagblaði, þar fengu bækurnar svo mikið lof að ég fór út í næstu bókabúð og keypti fyrstu bókina til að afsanna það. En í staðinn féll ég fyrir þeim og þótt þetta séu í grunninn barnabækur þá er svo margt við þær, húmor, spenna (sérstaklega í síðustu bókunum), skemmtilegar persónur og alveg óendanlegir möguleikar til að pæla í hvað muni gerast næst og hvernig persónur muni þróast eða í hvaða nýju ljósi þær geta birst. En það sem að mér þykir best við bækurnar er að ég verð aftur lítil þegar ég les þær, því þá höfðu allar bækur (næstum sama hversu illa þær voru skrifaðar) ákveðinn ævintýraheim að geyma sem hægt var að gleyma sér fullkomlega í. Með aldrinum og (vonandi) sífellt gagnrýnni hugsun þá verður erfiðara að finna bækur sem hafa þennan sjarma.

Ég er reyndar ekki hrifin af þessu Potter æði, fannst miklu skemmtilegra að eiga bækurnar „ein“, en þegar ég kom heim með þær í farteskinu haustið 1999 hafði varla nokkur heyrt talað um þær. Samt ætla ég að kíkja á raðastemninguna annað kvöld (eða eiginlega í kvöld þar sem það er komið fram yfir miðnætti) og kannski lauma mér í eina klukkan ellefu og kaupa eintak. Það verður þó örugglega mjög skrýtið að lesa þessa síðustu bók en vegna meðfæddrar forvitni dettur mér ekki í hug að mér takist að treina mér lesturinn neitt.


Niðurstaðan úr þessu prófi hér að neðan er frekar jákvæð, en sjáum til hvernig ástandið verður eftir ár ;p

You Have Not Been Ruined by American Culture

You're nothing like the typical American. In fact, you may not be American at all.
You have a broad view of the world, and you're very well informed.
And while you certainly have been influenced by American culture (who hasn't?), it's not your primary influence.
You take a more global philosophy with your politics, taste, and life. And you're always expanding and revising what you believe.

þriðjudagur, júlí 17, 2007

blaðalestur

Áðan fékk ég mjög svo skemmtilegt símtal. Í mig hringdi maður frá Gallup og vildi kanna dagblaðalestur minn. Fyrst spurði hann mig um hversu oft ég hefði flett Mogganum undanfarna viku, ég varð nú að viðurkenna að það hefði verið sjaldan, síðan spurði hann um Fréttablaðið og ég sagðist fletta því svona þrisvar til fjórum sinnum í viku í fimm til tíu mínútur í senn (eða sem samsvarar því að byrja aftast og hraðlesa allt fram að teiknimyndasögunum, snúa blaðinu svo við og líta yfir fyrirsagnir og lesa þær fréttir á fremstu síðunum sem vekja áhuga minn). Blaðið lít ég svo nánast aldrei í - hef samt ekkert á móti því, það er bara ekki á ratsjánni.

Þá var ég spurð hvort ég læsi DV daglega, ég játti því, og þá hvað lesturinn tæki langan tíma í hvert sinn og svaraði ég því til að oft væru það á bilinu sjö til níu klukkustundir. Til skýringar bætti ég svo við að ég ynni við að prófarkalesa það og þess vegna færi svo mikill tími í lesturinn. Maðurinn hló bara að því og skráði að ég læsi DV í meira en klukkutíma á dag (hæsti flokkurinn). Það hífir vonandi meðaltal á lestri blaðsins eitthvað upp - spurning hvort þetta sé samt ekki smá svindl.

mánudagur, júlí 16, 2007

meiri málfasismi (eins og sumir myndu orða það)

Þetta blogg stefnir óðum að því að verða málfarsnöldurblogg. Þessa dagana fer það nefnilega alveg ógurlega í taugarnar á mér þegar talað er um myndirnar Pan's Labyrinth, The Life of Others og Science of Sleep. Ekki það að myndirnar eigi ekki umfjöllunina skilið heldur finnst mér það afkáralegt að þegar talað er um spænskar, þýskar og franskar myndir á íslensku séu enskir titlar þeirra notaðir (versta dæmið var þó þegar danska myndin Gamle mænd i nye biler hét á Íslandi Old Men in New Cars). Það væri miklu eðlilegra að að nota heiti þeirra á frummálinu eða bara íslensku þýðinguna, algjör óþarfi að nota enska titilinn. Þessi tilhneiging til að nota ensku minnir svolítið á dæmið um Richard Clayderman - en nafn hans er iðulega borið fram upp á enskan máta þótt þýskt sé (Ritsjard í stað Rihjard). Kannski er enska í augum margra hin nýja latína, allt verður miklu flottara og fræðilegra á þeirri tungu.

Ég vildi líka gjarnan að heiti á enskum og bandarískum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum væru oftar íslenskuð, svona eins og var í gamla daga, þegar allt var þýtt (meira að segja Koppafeiti). Það er nefnilega miklu skemmtilegra að tala um Staupastein, Steinaldarmennina, Hver á að ráða?, Fyrirmyndarföður og Prúðuleikarana en Cheers, The Flintstones, Who's the Boss, The Cosby Show og The Muppet Show. Þó að RÚV haldi sig vissulega fast við það kerfi er það ekki nóg, því Stöð 2 og Skjár einn eru á góðri leið með að sleppa því að nota íslensku þegar kemur að dagskrárkynningum. Ég get upp að vissu marki (mjög takmörkuðu þó) skilið rökstuðninginn fyrir því að eingöngu ensku heitin séu notuð þótt mér finnist það ekki fallegt - en þegar ég sá á Skjá einum þætti um Hróa hött, sem bera ekki einungis heitið Robin Hood, heldur er aðalpersónan í íslenskum undirtexta nefnd Robin en ekki Hrói (og það sama gilti um nöfn annarra persóna), þá slökkti ég á tækinu af hneykslun ;o)

fimmtudagur, júlí 12, 2007

jamm

Það er óneitanlega skrýtin tilhugsun að eftir þrjár vikur fer ég og kem ekki aftur til landsins fyrr en um jólin. Mér hefur alltaf fundist svo langt í brottförina, en þrjár vikur eru víst fljótar að líða og ekki síst þegar tekið er tillit til alls sem ég á eftir að gera. Af minni alkunnu skipulagssemi er ég þó búin að gera lista yfir allt sem er ógert (og hann er langur), en lengra hefur það ekki náð. Enda sló það mig ekki fyrr en um síðustu helgi að ég sé í raun að fara, því þá byrjaði ég að kveðja fólk sem ég á eftir að sakna. Gunnhildur stakk af til Þýskalands með Lóu og kemur ekki fyrr en eftir að ég fer svo ég sé hana ekki fyrr en í desember (en ég mæli með blogginu þeirra). Afi og amma eru fyrir vestan og ég fer líklega ekki aftur þangað fyrr en í fyrsta lagi um jólin.

Annars var dvölin á Ísafirði í hæsta máta yndisleg og hefði að ósekju mátt vara lengur en í fjóra daga. Ég fór þangað með mömmu og tíminn leið við heimsóknir, bókalestur og algjöra afslöppun, helstu „áhyggjur“ hvers dags fólust í því hvað ætti að skoða þann daginn, hvaða bók ætti að lesa næst og hvað ætti að hafa í kvöldmatinn. Alveg hreint dásamlegt þegar hægt er að skilja allt stressið eftir í bænum og njóta bara lífsins.

Og ekki má gleyma hinni stórgóðu stjörnuspá dagsins: Meyja: Það eyðileggur fyrir þér að vera tilfinningasamur í þeim verkefnum sem nú fara í hönd. Þau eru mjög mikilvæg - þú gætir bjargað alheiminum. Kannski eins gott að drífa í að gera eitthvað af því sem er á listanum góða ;o)