fimmtudagur, júní 29, 2006

fyndið

Stundum er gaman í vinnunni, sérstaklega þegar koma skemmtilegar villur. Ég byrjaði að safna þeim fyndnustu um daginn, sú besta kom í dag:

"Þótt menn hafi lengi vitað að smokkurinn komi í veg fyrir HIV- og klamidíusmit, hafa vísindamenn hingað til ekki vitað hvaða annað gagn hann gerir."

mánudagur, júní 26, 2006

Mig grunaði þetta eiginlega

You are 53% Virgo


Nú er bara spurning hvorum helmingi stjörnuspárinnar ég eigi að trúa :o)

sunnudagur, júní 25, 2006

Af hverju er eg ekki hissa?

http://mbl.is/mm/frettir/togt/frett.html?nid=1208948

mánudagur, júní 19, 2006

kreppa

Ég horfði á fréttirnar í gær og komst þá að því hvað er að plaga mig, af hverju ég er alltaf svona óákveðin og veit ekkert hvað ég vil verða þegar ég verð stór. Ég er með þrítugsaldurskreppu (quarter-life-crisis) - sem lýsir sér einmitt svona og er víst stigvaxandi vandamál, eftir að fólk þurfti ekki að vera komið með fjölskyldu og í framtíðarvinnu um tvítugt. Hins vegar fylgdi ekki fréttinni hvort það sé til einhver lækning við þessari krísu eða hvort hún gengur nokkurn tíma yfir.

mánudagur, júní 12, 2006

johari-gluggi

Ég bjó til svona johari-glugga og þarf hjálp frá ykkur við að fylla út í hann. Það tekur ekki nema svona hálfa mínútu :o)

http://www.kevan.org/johari?name=tiglok

sunnudagur, júní 11, 2006

furðulegar auglysingar

Ég held að ég hafi aldrei séð jafninnilega misheppnaða auglýsingu og nýju auglýsinguna frá Orkuveitunni. Öll undur rafmagnsins, sett í söngleikjastíl í alltof langri auglýsingu, sem væri líka hægt að túlka sem svo að pabbinn sé að kenna syninum að meta hálfnakið kvenfólk. (Allavegna birtast hálfnaktar konur á sjónvarpsskjám, tölvuskjám og fleiru á meðan pabbinn syngur um hvað rafmagn sé dásamlegt).

Ég er að velta fyrir mér hvernig yfirmenn Orkuveitunnar hafa lýst hvað það var sem þeir sæktust eftir með þessari auglýsingu, þegar þeir töluðu við auglýsingastofuna. Þeir hafa greinilega ekki horft í kostnaðinn, því eftir allt saman eru það áhorfendur sem þurfa að borga fyrir þessa auglýsingu.

Og talandi um asnalegar auglýsingar, þá var heilsíðuauglýsing í gær frá Eden, þar sem konur voru hvattar til að skilja HM-óða karlana eftir heima, en koma í Eden með veski kallanna og eyða á útsölu þar!!! Ég átti leið austur fyrir fjall í gær, en þessi auglýsing varð til þess að mér datt ekki í hug að koma þar við.

Þessi skipting um að konur eigi ekki að fíla fótbolta, hefur leitt til þess að Skjár 1 býður upp á sérstök "stelpukvöld" sem er gott og blessað, en það vill bara svo til að ég þekki þó nokkra stráka sem hafa gaman að þáttunum á þeirr dagskrá og finnst móðgun við sig að þeir þættir séu stimplaðir stelpuþættir.

föstudagur, júní 09, 2006

fotbolti og framsokn

Eins og allir vita, eða ættu að vita, þá hefst heimsmeistarakeppnin í fótbolta á eftir, nánar tiltekið klukkan fjögur. Ég ætla ekki að minnast á hvað ég er fúl út í Sýn fyrir að hafa sölsað undir sig réttinn og selja svo aðgang að honum á okurverði "í boði" ákveðinna fyrirtækja og láta loka á þær erlendu stöðvar sem sýna frá keppninni. Ég ætla að leyfa samkeppnisráði að hafa áhyggjur af því og reyna að eiga sem minnst viðskipti við þau fyrirtæki sem að bjóða upp á þessar sýningar í læstri dagskrá.

Hins vegar ætla ég að njóta þess að sjá þá þrjá leiki sem þeir verða að sýna í opinni dagskrá, opnunarleikinn og leikina um fyrsta og þriðja sætið. Og svo er víst sjónvarp í vinnunni minni og það verður örugglega á fullu alla keppninna svo að ég fæ að fylgjast svolítið með.

Opnunarleikurinn hefst klukkan fjögur á Sýn, þar sem Þýskaland og Kostaríka spila. Ég heyrði áðan auglýsingu frá Ríkissjónvarpinu þar sem var tilkynnt að þar á bæ yrði líka bein útsending klukkan fjögur, á ræðu Halldórs Ásgrímssonar á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins! Hversu lágt getur sjónvarpið lagst, eftir að hafa glutrað sýningarréttinum á keppninni úr höndunum á sér og ætla svo að reyna að fá fólk til að horfa á miðstjórnarfund Framsóknarflokksins í staðinn.

Þótt mér sé ekkert illa við Dóra, þá skil ég núna af hverju hann hefur ekki verið sigursælli í kosningum. Að halda mikilvæga ræðu, sem að hann vill líklega að öll þjóðin heyri á sama tíma og svona 60-70% landsmanna eru límdir við skjáinn að horfa á fótbolta, er ekkert sérlega sniðugt hjá honum og sýnir að tímasetningar eru ekki hans sterka hlið (svona ef maður skyldi ekki hafa fattað það eftir síðustu helgi) og að hann er ekki í takt við fólkið í landinu.