laugardagur, september 29, 2007

sápuóperan heldur áfram

Mér og kisu finnst túnfiskur góður. Þegar ég opna túnfiskdós kemur kisa hlaupandi og ég leyfi henni að sleikja dósina og skil alltaf eftir smá fisk í henni. Stundum þegar kisa sér mig þá hleypur hún glaðhlakkalega inn í eldhús í von um að ég elti og fái mér túnfisk (reyndar held ég að henni væri alveg sama þó svo að ég borðaði ekki henni til samlætis heldur leyfði henni að njóta heillrar dósar einni). Þetta er venjulega skondið en er nú dálítið pirrandi þar sem í fjarveru sambýlingsins (sem er að flækjast í borgarferð) þá er ég matmóðir kisu og nú er ekki nóg að skófla kattarmat í skálina hennar til að stöðva vælið, heldur étur hún hann með bestu lyst og reynir svo að kría út úr mér túnfisk að því loknu. Mér væri reyndar ósárt að gefa henni svoleiðis góðgæti daglega en gallinn er bara sá að hún er á sérstöku megrunarfæði (sem lítur mjög ógirnilega út) og það myndi fljótlega koma í ljós ef ég færi að gefa henni aukabita.

Þessi færsla sýnir ágætlega að ég er alveg að detta úr bloggformi, hef alveg ótalmargt að segja og skrifa svo bara um köttinn, sem ég á ekki - og mér líkar ekki einu sinni við ketti!

laugardagur, september 22, 2007

enginn nema fuglinn fljúgandi

Bloggleysi þarf ekki alltaf að þýða andleysi - stundum er bara tíminn alltof naumur. Ég hef frá ótalmörgu að segja, en hef ekki haft tíma til að gera því öllu skil. Síðasta helgi var stórkostleg - afmælið heppnaðist vel (kærar þakkir til allra sem sendu mér afmæliskveðjur :o) ) og ferðin til Niagarafossa var langt framar vonum og munu þessir viðburðir fá meira pláss síðar, en þangað til er hér mynd sem ég tók á fossasvæðinu.

föstudagur, september 14, 2007

söfnunarárátta?

Stundum held ég að ég sé með vott af söfnunaráráttu. Það nýjasta sem ég hef tekið upp á að safna eru fjórðungsdollarar (veit ekki hvernig er best að þýða þetta yfir á íslensku en þeir heita quarters á ensku og eru verðmætasta myntin hér, ekki til neinn hálfdollar). Í tilefni af einhverju sem ég man ekki lengur hvað er var ákveðið að gefa þá mynt út með fimmtíu ólíkum myndum á bakhliðinni (einni fyrir hvert fylki) og G. Washington á framhliðinni. Ég ákvað að safna þeim þegar ég fór yfir hrúgu af klinki sem ég átti og komst að því að ég átti þá þegar myntir frá átta fylkjum. Núna er ég komin upp í tuttugu.

Með þessu móti er alltaf spennandi að fá skiptimynt og komast að hvort þar leynist mynt sem ég á ekki og ég læri hvað öll þessi ríki heita. Er samt nokkurn veginn viss um að flestir sem safni þessu séu mun yngri en ég - en hvað gerir maður ekki til að auka spennuna í gráum hversdagsleika hins daglega lífs?

þriðjudagur, september 11, 2007

sprengjuhótanir

Ég er í skóla sem fær sprengjuhótanir.

Hverjum dettur í hug að senda skólum sprengjuhótanir? Og af hverju senda skólar sem fá slíkar hótanir nemendum sínum tölvupóst um að téðar hótanir hafi borist þeim og öðrum skólum en að þær beri ekki að taka alvarlega? Mér fannst þetta reyndar bara fyndið þar til ég fattaði hvaða dagur er á morgun (í dag hjá ykkur heima) og hvað eru til margir brjálæðingar í þessum heimi sem gæti þótt sú dagsetning táknræn. Ég ætla nú samt sem áður að mæta í skólann á morgun, held einhvern veginn að „alvöru“sprengjarar séu ekki mikið fyrir að senda aðvaranir.

Annars er bara allt gott að frétta. Það hellirigndi hérna í gær (sunnudag), mér til mikillar ánægju, því hitinn og rakinn dagana þar á undan hafði verið óbærilegur. Svo mikið rigndi að litla sakleysislega áin í gilinu sem venjulega hoppar og skoppar bláleit um flúðir og fossa var orðin vatnsmikil, brúnleit og beljandi. Og það var alveg yndislegt að vakna við byljandi regn á rúðum og hafa afsökun til að fara ekki út fyrir hússins dyr heldur liggja bara uppi í rúmi og lesa.

Líka yndislegt vegna þess að kvöldinu áður var smápartí hérna og þar sem boðsgestir voru með eindæmum skemmtilegt og skondið fólk heppnaðist það mjög vel, ekki síst í lokin þegar við fjórir Evrópubúar vorum að telja restinni trú um að Júróvisjón væri hápunktur evrópskrar menningar og tókum brot úr nokkrum vel völdum lögum því til sönnunar ;o)
Mér tókst líka að fá fullt af fólki til að smakka brennivín og ópalskot og voru flestir á þeirri skoðun að brennivínið væri langtum betra (svona öfugt við smekk flestra Íslendinga), þótt engum þætti það beinlínis gott.

Sápuóperan um líf mitt með kettinum heldur áfram. Kisa hefur nú fundið leið til að komast inn í herbergið mitt ef ég loka ekki nógu vel og sækir mjög í það að koma þangað inn og kúra í faðmlögum við skólatöskuna mína, sem undir öðrum kringumstæðum væri voða sætt. Mér líður eins og versta svikahrappi þegar ég lokka hana og alla ofnæmisvaldana hennar út úr herberginu mínu með loforðum um klapp og klór.

föstudagur, september 07, 2007

grammar is glamour

Þessi fyrirsögn er ekki jafnfjarstæðukennd og ætla mætti í fyrstu. Þetta er nefnilega upprunalega sama orðið - í Skotlandi varð frálíking í orðinu grammar og út kom orðið glamour (frálíking er þegar sama hljóðið kemur fyrir tvisvar í einu orði og breytist vegna þess á öðrum staðnum). Þetta viskukorn er komið úr fornenskutímanum sem ég var í fyrr í dag og kennarinn stakk upp á að á þeim tíma hafi þótt svo glamúrlegt að vera málfræðingur (enda voru slíkir menn mjög lærðir og vonandi virtir að verðleikum). Ég er í alvörunni að hugsa um að búa til bol með þessari áletrun til að bæta í málfræðinördabolasafnið mitt (reyndar er bara einn bolur þar enn sem komið er en hann er mjög flottur - með ablatívusarbrandara og allt).

Annars er allt við það sama, vinna, borða, læra, sofa og leika (og horfa á sjónvarpið með sambýlingnum - er orðin sammála Ingu um að netmyndbandaleigur ættu að vera sjálfsögð mannréttindi, ekkert smáljúft að fá diskana bara senda í pósti). Fimmtudagar eru alltaf skemmtilegir því þá er kaffistund í Stóru rauðu hlöðunni fyrir útlendinga og hef ég kynnst ótalmörgu fólki þar - ég var þar áðan og spjallaði og drakk kaffi - kannski fullmikið kaffi, veit ekkert hvort mér tekst að sofna í kvöld/nótt. Síðan er ég farin að dansa - er nefnilega þjóðdansaklúbbur hérna og ég fór þangað á sunnudaginn að læra gríska og serbneska dansa - það var svakafjör og þótt ég væri oftast úr takt þá tók enginn eftir því þar sem hinir voru álíka lélegir og ég. Þannig að stefnan er núna sett á næsta sunnudag og hvaða hopp og hí sem þeim dettur í hug að bjóða upp á þá.

Ég varð mjög hissa í gær þegar ég var að tala við nemendurna mína um íslenska tónlist og bjóst við venjulegu svörunum - Björk og Sigur Rós - sem ég og fékk, en að auki var einn sem hlustar á Bubba og Rottweilerhundana. Og mér til enn meiri furðu vildu þau óð og uppvæg fá slóðina á ruv.is, til að geta hlustað á íslenskt útvarp og horft á fréttir (reyndar var náungi á alþjóðkaffinu jafnóður og -uppvægur að fá slóðina - til hvers er mér hulið).

Afmælisbylgjan mikla er svo að skella á. Sambýlingurinn á afmæli á morgun (og ég var að fatta að ég veit ekki hvort ég á að gefa henni gjöf og þá hvað) og heldur smámatarboð. Þar sem ég á svo afmæli í næstu viku, sem og tveir aðrir í málvísindadeildinni verður hið hefðbundna (að mér er sagt) septemberafmælisteiti deildarinnar haldið hérna á laugardagskvöldið (sem virðist vera hið fullkomna tækifæri til að koma brennivíninu mínu og ópalskotunum á framfæri ;p). Og viku síðar verður að öllum líkindum sameiginlegt afmælishald okkar þriggja sem eigum afmæli þá - er búin að tala við bæði hin afmælisbörnin, en einhverra hluta vegna hefur mér ekki enn tekist að kynna þau hvort fyrir öðru. Þannig að í þessum veisluhöldum öllum er varla nokkur hætta á að mér takist að gleyma því að ég verð árinu eldri (og auðvitað vitrari og betri). Svo eru líka einhverjar líkur á að mér takist að taka einhverjar myndir - myndavélin er orðin mjög einmana, rykfallin og vanrækt uppi á hillu.

Takk fyrir öll kommentin, mér þykir vænt um að sjá að þið munið eftir að tékka á mér (og ég má vera smá væmin, ég er í landi væmninnar - meira að segja Hallmark-búð í klasanum hérna með dóti sem fær drenginn með tárið til að blikna í samanburði).

Og svo að lokum þá er ég ekki með berkla, var sprautuð með einhverjum próteinum í fyrradag og þar sem ekki sér neitt á mér í dag, nema far eftir stunguna, þá er ég örugg og sjúkratryggð :o)

laugardagur, september 01, 2007

merkur áfangi

Í dag gerði ég svolítið sem ég hef aldrei gert áður og bjóst ekki við að ég myndi nokkurn tíma gera. Ég skrifaði ávísun. Ég varð steinhissa þegar ég sótti debetkortið mitt um daginn og komst að því að því fylgdi ávísanahefti, því ég hef aldrei átt svoleiðis og það eru örugglega hátt í tíu ár síðan ég sá síðast slíkan forngrip.

En hér borgar maður víst flestallan fastakostnað með ávísunum, til dæmis leiguna. Þannig að í morgun rölti ég með útfyllta ávísun til leigusalans og fannst ég vera komin óralangt aftur í tímann enda orðin mjög vön því að allt svona fari í gegnum heimabankann minn.