þriðjudagur, maí 27, 2008

sambönd

Ein vinkona mín hér á sér „ástmann“ sem hún vill helst giftast en eini gallinn er sá að hún er þegar gift. Svipbrigði ástmannsins þegar hún kynnir hann svo fyrir öðru fólki eru alltaf kostuleg (sem og svipbrigði þeirra sem hann er kynntur fyrir) - eiginmaðurinn hlær bara að þessu og segir að orð séu ódýr. Honum finnst samt ekki alveg jafnfyndið þegar eiginkona hans vitnar í kvikmyndina Persepolis (sem við sáum öll saman um daginn), en þar hélt ein persónan því fram að fyrsta hjónaband væri ekki neitt merkilegra en æfing fyrir hjónaband númer tvö.

Ástmaðurinn hefur ekki látið uppi hvað honum finnst um þennan ráðahag (eða réttara sagt þríhyrning) en hann er tvímælalaust í konuleit. Leitin gengur hálfbrösuglega því bæði er hann feiminn og óframfærinn og svo virðist hann bara falla fyrir konum sem eru í samböndum. Vinkonu minni finnst hins vegar fráleitt að slíkur karlkostur skuli vera á lausu og ákvað því fyrr í vetur að hjálpa honum við leitina - reyndar er það hægara sagt en gert, því það er erfitt að átta sig á því hvernig konum hann heillast af. Að lokum náði hún að toga upp úr honum tvennt sem konur verða að hafa til að bera, annars vegar verða þær að vera undurfríðar - en þar sem hann og vinkonu mína greinir mjög á um hvað telst undurfrítt fer hún eingöngu eftir síðara atriðinu sem er að þær verða að vera gáfaðar og því með gleraugu. Þannig að nú er leitað dyrum og dyngjum að konu sem er nógu góð handa ástmanninum og gengur með gleraugu (og er helst á lausu), en allar sem fram eru boðnar reynast annað hvort ekki nógu fallegar eða of gamlar.

Önnur vinkona mín hér gifti sig ung og skildi við manninn sinn í fyrra (eftir líflátshótanir, skattsvik og fleira skemmtilegt), hún var ákveðin í því að vera ekki einhleyp lengi og fór á stefnumót með ótalmörgum mönnum þó svo að hún segðist vera hrifnari af konum. Eftir að hafa þannig kysst óteljandi froska fann “prinsessan” hana á Facebook viku fyrir Valentínusardaginn. Síðan hafa þær tvær verið saman nánast öllum stundum og búa núna saman og stefna á að giftast á næsta ári (sem er leyfilegt þar sem önnur þeirra er frá ríki sem leyfir hjónabönd samkynhneigðra). Það skondna er að kærastan heitir sama nafni og einn kennaranna í deildinni og til að forðast misskilning fengu þær um tíma viðurnefnin “góða” og “vonda” (sem breyttist í “ekki svo góða” svona til að móðga engan).

Í deildinni er líka strákur sem er yfir sig hrifinn af kærastanum sínum og þar sem hann er opinskár og heiðarlegur ungur maður liggur hann ekkert á þeim skoðunum sínum og segir oft upp úr eins manns hljóði á skrifstofunni hvað hann sé nú ástfanginn og hvað kærastinn hans sé sætur og reynir oft að fá fólk á skrifstofunni til að dást að honum með sér og skoða myndir (sem hafa leitt til umræðna um hvað teljist of miklar upplýsingar). En það samband hefur ekki alltaf verið dans á rósum, fyrstu mánuðina vildi kærastinn ekki koma út úr skápnum þar sem hann bjó í bræðrafélagshúsi og var ekki viss um að sér yrði vært þar ef upp um kynhneigðina kæmist en sem betur fer leystist það. En til að auka enn á ruglinginn þá ber kærastinn sama nafn og tveir kennarar, reyndar ruglar það okkur ekki neitt, en þegar væntanlegir nýnemar næsta hausts komu í heimsókn áttu þeir oft erfitt með að skilja á milli hver var hvað.

Svo er ein sem lætur sér ekki nægja að hrífast af nafna/nöfnu kennara, heldur sagðist um daginn vera yfir sig ástfangin af aðalleiðbeinanda sínum, svo mjög að hún myndi hiklaust sparka kærastanum fyrir hann. Eftir smá umhugsun fannst henni það ekki nógu mikil fórn og sagðist jafnvel vera tilbúin til að þvo af honum (en það er það leiðinlegasta sem hún veit).

mánudagur, maí 26, 2008

örstutt síðan síðast

*Ég fór í gönguferð í dag á svæðinu í kringum Buttermilk Falls (eða Áfafossa eins og það myndi líklega útleggjast á íslensku) með Ísraelunum og Svíunum - gengum í rúma fjóra tíma og nutum góða veðursins. Núna rétt áðan var svo að ljúka útskriftarveislu sambýlingsins, reyndar er hún hvorki búin að skrifa lokaritgerðina né verja hana en þar sem er bara ein útskriftarathöfn á ári tók hún þátt í henni og stefnir að að ljúka restinni í sumar.

*Gunnhildur kom í heimsókn um daginn og ég hitti hana fyrst í New York þar sem við dvöldum í fjóra daga og svo kom hún með mér til Íþöku. Heimsóknin lenti saman við lokadaga annarinnar þannig að hún kom með mér á ráðstefnu (þar sem ég hélt erindi), í lokapartí málvísindadeildarinnar (þar sem leiðinlegar kennslubækur og glósur voru brenndar af fólki sem er komið nálægt útskrift) og á spurningakeppnikvöld.

*Daginn áður en Gunnhildur kom fór ég í vínsmökkunarferð, en í kringum vötnin hérna er mikið af vínekrum (Finger Lakes Wineries) - sum víni sem við smökkuðum voru frábær á meðan önnur hefðu sómt sér vel sem rottueitur. Með mér í för var fólkið úr spurningaliðinu og sem betur fer drekkur ein þeirra ekki vín og bauðst til að vera bílstjóri okkar hinna. Við lögðum snemma af stað og hófum leikinn með morgunmat á "diner" (og þar af leiðir að maturinn samanstóð af pönnukökum, beikoni og sýrópi) - síðan rúntuðum við á milli staða í hátt í sjö tíma og náðum að heimsækja svona 10-15 staði í mjög misjöfnu ásigkomulagi. Sá eftirminnilegasti leit út eins og Suðurríkjakrá og þar voru áberandi skilti um að glös væru ekki innifalin í vínsmökkunarverðinu. Síðar það sama kvöld var svo margarítulest í stofunni heima hjá mér, einhverra hluta vegna var það kallað kaffilest þegar nokkrir fóru saman að kaupa kaffi og til að fagna kennslulokum, útskriftum og fleiru var lestarnafnið yfirfært á áfengi. Í þessari tilteknu lest komst ég að tvennu - að ég hef aldrei smakkað margarítur áður og að ég hef ekki misst af miklu, því þær eru frekar vondar.

*Föstu punktar hverrar viku á þessari önn hafa (fyrir utan tíma) verið að mæta í forníslenska leshringinn, fara á spurningakeppnikvöld á kránni (þar sem ég er orðinn fastagestur), fara og hitta þýskuhringinn og svo náttúrulega að horfa á Njósnadeildina með sambýlingnum og breskum nágranna okkar (aðalaðdráttarafl þáttanna á þær virðist vera að finna einhverja starfstétt sem hefur það skítara en doktorsnemar og njóta þess að sjá aðra þjást). Svo hafa verið spilakvöld, stöku partí og kaffihúsaferðir og meira að segja kirkjuferðir, því Calanit langaði svo mikið til að vera viðstödd alvörumessu með orgelspili og öllu sem því tilheyrir - bekkjarfélagi hennar mælti með söfnuði sem reyndist hittast í íþróttahúsi og öll tónlist leikin á nútímahljóðfæri (messan var ágæt en svolítið súrrealískt að sitja undir körfuboltakörfum á meðan).

*Lokavikur annarinnar voru uppfullar af önnum en það reddaðist allt eins og vanalega, svo nú hef ég rúman mánuð til að einbeita mér að því að klára ákveðna ritgerð, sem og að pakka og finna mér vinnu fyrir haustið.

*Fólk er farið að tínast í sumarfrí hingað og þangað og sumt þeirra mun ég aldrei hitta aftur (þrátt fyrir loforð um annað), sem er sorglegt, svona rétt þegar ég var farin að kynnast fólki almennilega. Mér finnst samt skrýtnast hversu mörgu fólki ég hef kynnst á þessu tæpa ári og hvað allir eru alltaf vingjarnlegir og góðir og hvaðð það verður skrýtið að hitta það ekki í haust (eða í raun nokkurn tíma). Reyndar var mér um daginn boðið í brúðkaup hérna þann 9/9 '09 - og ég lofaði að mæta þó svo að ég sé ekki viss um að samband brúðhjónanna endist það lengi.

Loksins er svo búið að mála húsið að utan - allt í allt hefur það tekið fjóra mánuði og það er ekki gaman að vakna eldsnemma á morgnana við bölvandi málara, sérstaklega ekki þegar þeir hafa farið í dramakeppnir og hótað að reka hver annan eða hætta. En þó svo að húsið sé orðið þokkalegt að utan er það alltaf jafnógeðslegt að innan, sama hversu vel er tekið til/þrifið.

*Ég hef fylgst með kreppuástandinu heima og dáist eiginlega að dáleiðsluhæfileikum Davíðs - fyrst sagði hann okkur að það væri góðæri og það varð góðæri, síðan sagði hann okkur að það væri kreppa og þá varð kreppa. Þrátt fyrir að hafa lesið um það fékk ég áfall í gær þegar ég sá hvað verðtryggðu húsnæðislánin mín hafa hækkað skart - svo mjög að bara hækkun síðasta mánaðar jafngildir hátt í tveggja mánaða meðalkaupi fyrir mig. Ég vona bara að þeir sem eiga sök á þessari svakalegu verðbólgu séu stoltir af sjálfum sér og njóti þess virkilega að hafa "stolið" öllum þessum peningum af mér.

*Ég hef áhyggjur af því að fá ekki vinnu í haust - bæði út af þessu krepputali sem og því að ég sé nánast engin störf auglýst sem henta mér og ætla ekki að skrá mig hjá ráðningarskrifstofum fyrr en ég kem heim. Annars hlakka ég svolítið til að koma heim og hverfa aftur í fjöldann og kunnugleikann (þó svo að ég verði sjálfsagt farin að blóta Íslandi í sand og ösku á mettíma) en kvíði hins vegar því að aðlagast aftur sem og minna félagslífi (því vinkonur mínar virðast margar vera komnar annaðhvort í barneignir og fjölskyldumyndanir eða ætla að flytja langt í burtu frá mér (og já ég veit hvað þetta hljómar síngirnislega og ég get fátt sagt eftir að hafa látið mig hverfa í eitt ár).


*Hmmm, já og svo er fólk eindregið hvatt til að svara bréfum frá mér (eða láta mig vita ef ég hef ekki svarað) - er farin að fá á tilfinninguna að það sé eitthvert rosasamsæri í gangi og enginn vilji tala við mig ;p