mánudagur, janúar 29, 2007

manudagur

Að hafa frjálsan vilja er ekki alltaf skemmtilegt. Stundum vildi ég ekkert frekar en að einhver gæti tekið ákvarðanir fyrir mig. Ég þarf til dæmis að ákveða hvað ég ætla að gera næstu fimm til sex mánuði og kemst ekki að neinni niðurstöðu. Þrennt kemur til greina og eru kostir og gallar á öllu. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég ætti að gera og nenni varla að velta því fyrir mér svo ég er komin á það stig að langa til að kasta bara upp teningi um þetta eða hringja í einhverja spálínu. Eða í raun nota hvaða aðferð sem er til að þurfa sjálf ekki að bera ábyrgð á neinu eins aumingjalega og það hljómar ;o)

Annars virðist ég sem betur fer ekki hafa verið sannspá með gengi íslenska liðsins á HM, en tók eftir því að nokkrir Þjóðverjanna höfðu séð ljósið og gert eitthvað við hárið á sér sem gerði það auðveldara að þekkja þá í sundur á vellinum og að sjálfsögðu var sá með mest áberandi hárgreiðsluna valinn maður leiksins.

Svo sá ég þáttinn um Margit Sandemo í gær. 164 bækur á 40 árum! Ekki annað hægt að segja en að hún sé afkastamikil. En hitt kom mér á óvart hversu marga bókaflokka hún hefur skrifað sem hafa ekki verið þýddir á íslensku, einhvern veginn bjóst ég við að allir hefðu misst áhugann eftir Ríki ljóssins (því það voru vægast sagt vondar). En miðað við þær ótrúlegu vinsældir sem Ísfólkið hefur notið er það kannski ekki skrýtið að bókaforlög vilji gefa allt út sem hún skrifar. Ég veit ekki hvað það er sem gerir Ísfólksbækurnar svona skemmtilegt, en þær halda sínum sjarma, mér tókst meira að segja einu sinni að skrifa ritgerð í Háskólanum um þær (eða réttara sagt áhrif nafna persóna í þeim á nafngiftir Íslendinga).

laugardagur, janúar 20, 2007

hmmm

Ég horfði á handboltaleikinn í dag og komst að því að annaðhvort hefur sjóninni hrakað eða myndavélarnar verið of langt í burtu frá leikmönnum. Allavegana átti ég í mestu vandræðum með að sjá mun á leikmönnum í víðustu skotunum. Ég legg því til að fyrir næsta stórmót í handbolta liti þeir hárið hver í sínum (áberandi) lit. Einn getur verið með rautt hár, annar hvítt, þriðji blátt, fjórði grænt o.s.frv. Það yrði óneitanlega flott (og þægilegt) á að líta.

handbolti

Núna er HM í handbolta byrjað. Mig langar til að vera bjartsýn og spá því að "strákarnir okkar" komist á verðlaunapall (sem eru nokkurn veginn þær kröfur og væntingar sem flestir gera til þeirra í upphafi móts). En ég er hins vegar frekar svartsýn og er viss um að þeir lendi í þriðja sæti riðilsins og komist ekki áfram. Og jafnframt að það verði mjög dramatískt (eins og venjulega).

Fyrsti leikurinn gegn Áströlum á að vera auðveldur og verður það án efa, þó svo að pabbi hafi minnt mig á að Íslendingar hafi tvisvar mætt léttasta liðið í riðlinum í HM í fyrsta leik og tapað. En síðast þegar Íslendingar kepptu við Ástrala vannst leikurinn með um það bil 40 mörkum, þannig að ég er ekki hrædd um að þessi leikur tapist. Hin liðin í riðlinum eru Frakkar og Úkranar* og ég er ekki viss um hvernig innbyrðis leikur þeirra mun fara, hins vegar er ég viss um að sigurliðið úr þeim leik vinni Íslendinga líka og svo geri tapliðið og Íslendingar jafntefli, nema hvað tapliðið vinnur Ástrala með fleiri mörkum en Íslendingar og kemst því áfram. Ef Frakkar og Úkranar gera hins vegar jafntefli, þá væri alveg dæmigert að Íslendingar gerðu jafntefli við bæði liðin en dyttu samt út vegna þess að þeir ynnu Ástrala með færri marka mun en hin liðin.

Ég vona aftur á móti að ég reynist ekki sannspá, en það vill oft verða svo að liðunum sem ég held með tekst að klúðra öllu og tapa, þrátt fyrir hetjulega framgöngu. Samanber textann við Við gerum okkar besta (sem ég heyrði í útvarpinu í gær), en einhvern tíma var snúið út úr honum (held að það hafi verið Spaugstofan) og hefur sú útgáfa oft reynst raunsannari en sú upprunalega:
Við gerðum okkar, gerðum okkar, gerðum okkar besta, en það bara dugði ekki til.
Við gerðum okkar, gerðum okkar, gerðum okkar besta, en úrslitin voru alltaf öðrum í vil.
Við létum spila okkur upp úr skónum, við létum spila okkur upp úr skónum, við létum spila okkur upp úr skónum, það veit mín trú.
Við létum pakka okkur alveg saman, við létum pakka okkur alveg saman, við létum pakka okkur alveg saman og hananú.



*Finnst Úkranar miklu flottara orð en Úkraínumenn

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Malfræðifasismi?

Að vera prófarkalesari er ekki alslæmt. Stundum fær maður að lesa áhugaverða texta og svo er hægt að líta á þetta sem leik - finndu villurnar (reyndar hættir sá leikur að vera skemmtilegur þegar villurnar eru orðnar fleiri en 10 í stuttum texta) eða hver skrifaði þetta? sem felst í því að fatta hvaða blaðamaður skrifaði greinina út frá stíl, efnistökum og umfram allt villum (á tíma var ég orðin virkilega góð í því). Og svo kemur fyrir að villur eru dásamlega fyndnar og nú skil ég íslenskukennarann minn í MR mjög vel þegar hann lofaði að gefa okkur plús fyrir frumlegar villur í ritgerðum. Eftir hverja ritgerðatörn safnaði hann saman skondnum villum og las upp fyrir okkur (nafnlaust að sjálfsögðu) og bað okkur um að varast þær - þessi hlátursaðferð virkaði mjög vel. Ég sé svolítið eftir því að hafa ekki verið duglegri við að skrifa niður ýmis gullkorn sem hverfa við yfirlestur.

Hins vegar koma sumar villur mér alltaf jafnmikið á óvart og stundum hef ég horft í örvæntingu á tölvuskjáinn og velt fyrir mér hvaða framtíð íslensk tunga eigi sér. Svo ég minnist ekki á slettur, lélega stafsetningu og endalaust rugl á litlum og stórum staf, þá er það til dæmis nánast teljandi á fingrum annarrar handar hversu oft ég hef séð á boðstólum rétt skrifað, svo virðist sem mörgum finnist eðlilegra að hafa það á boðstólnum eða á borðstólum og jafnvel á borðstólnum. Munurinn á forsetningunum af og virðist líka vefjast fyrir mörgum og mér til mikillar undrunar eru margir sem rugla saman forsetningunum af og á.

En það sem ég þoli síst af öllu (og fer virkilega í taugarnar á mér og er hiklaust breytt) er hið dæmigerða "íþróttatungutak", þar sem sögnin 'að hafa' er hunsuð og að vera búinn að notað í staðinn. Setningar á borð við við erum búnir að vera að spila vel / að þeir séu búnir að vera að tala um (og ég hef séð dæmi um mun verri útúrsnúning en þetta) í stað þess að segja einfaldlega við höfum spilað vel / að þeir hafi talað um. Sama gildir um ofnotkun á dvalarhorfi með sögninni 'að vera' þeir eru að spila vel / þeir eru að hlaupa.

Ég skil hins vegar af hverju þetta orðfæri er kennt við íþróttamenn. Því flest dæmi um þetta eru í viðtölum við íþróttamenn - alveg sama hvað þau eru stutt, þá tekst þeim að koma þessu að. Ég hef hins vegar ekki enn komist að niðurstöðu um af hverju það stafar, en hitt veit ég að mig langar óneitanlega stundum til að kasta bolta í hausinn á þeim og sjá hvort það lagist ekki.

(Og þessi færsla er skrifuð eftir að hafa lesið yfir töluvert magn af viðtölum tengdum HM í handbolta)

föstudagur, janúar 12, 2007

stjörnur

Stundum er stjörnuspáin mín mjög jákvæð. Þessi var til dæmis að flækjast á mbl.is fyrir daginn í dag:

Meyja: Himintunglin hvetja meyjuna til þess að losa sig við hamlandi hugmyndir um sjálfa sig. Hún getur tekist á við ferðalög, auðævi og frægð, ef hún bara trúir því sjálf.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

frekar jakvæð niðurstaða












YOUR REPORT CARD:
CategoryGrade
LoveB
Friends and FamilyB
BodyB
MindA+
Finance / CareerA
Your Life's Average Grade:   A
'What is your Life Grade?' at QuizGalaxy.com

sunnudagur, janúar 07, 2007

???

Tekið af heimasíðu ÁTVR - http://atvr.is/UmÁTVR/HeildarstefnaÁTVR/tabid/284/Default.aspx

ÁTVR er framsækið og ábyrgt fyrirtæki sem leggur áherslu á að veita öllum viðskiptavinum sínum góða þjónustu, stuðla að jákvæðri vínmenningu og draga úr neyslu tóbaks.

Ég sé ekki alveg hvernig þetta síðastnefnda getur staðist, það eru ekki hagsmunir fyrirtækisins að draga úr neyslu á vöru sem það selur og ef þeir vildu í alvöru draga úr neyslu tóbaks - af hverju hætta þeir þá ekki að selja það?

þriðjudagur, janúar 02, 2007

bless, bless 365

Ég fékk alveg yndislega áramótagjöf frá vinnunni, ég var rekin á föstudaginn. Ekki út af því að einhver gæti bent á að ég hefði staðið mig illa, heldur var ástæðan sögð vera sú að DV var selt og nýi ritstjórinn vildi bara einn prófarkalesara - þannig að núna get ég dólað á NFS næstu þrjá mánuði eða bara hætt um leið og ég fæ aðra vinnu. Þeir um það.

Það grátlega var að á fimmtudag var starfsmannafundur á DV þar sem var skýrt frá þessum breytingum og þar sagt að enginn myndi nauðugur missa vinnuna, heldur mættu starfsmenn velja á milli þess að flytjast yfir á nýja blaðið eða hætta. Ég var ekki búin að ákveða hvort ég myndi gera, ætlaði fyrst að sjá hvernig ætti að leysa málið með NFS-vaktirnar. En ég fékk ekkert val.

Reyndar var uppsögnin sjálf mjög fyndin, svona eftir á séð, og þegar ég lít til baka þá minnti þetta mig helst á atriði úr Brittas Empire - þar sem að annar aðilinn sem sá um þetta var svo ofurhress og sagði: "Gjörðu svo vel," þegar hún rétti mér uppsagnarbréfið. Ég spurði hvort ég ætti að þakka fyrir það og hún svaraði í sama glaðlega tón að það væri nú kurteisi. Toppurinn var samt þegar ég gekk út með grátstafinn í kverkunum og hún minnti mig nú á að ná mér í flugeld í matsalnum (áramótagjöf fyrirtækisins).

Þetta með flugeldinn bjargaði deginum algjörlega, því ég og aðrir í kringum mig gátum hlegið endalaust að þessum absúrdisma - allt í lagi þótt þú missir vinnuna, þú færð nefnilega flugeld í staðinn.
Annars sárvorkenndi ég þeim tveimur sem að þurftu að segja mér upp, því mér vitanlega réðu þau engu um það og virtist líða álíka illa og mér og ég held að ofurglaðværðin hafi verið stress.

Það sorglega er að mér þótti mjög gaman að vinna á DV og tímaritunum og mun sakna þess. Stemningin var oft með ágætum, sérstaklega í stressinu á fimmtudögum, þó svo að plássleysið hafi stundum haft slæm áhrif á einbeitinguna. Af þeim 21 sem deildu því litla rými sem við vorum í eru að minnsta kosti 13 sem hafa hætt eða verið sagt upp.

Það sem mér finnst þó leiðinlegast við þetta allt saman er að þessi þrjú blöð/tímarit sem ég las yfir og voru lögð niður - DV, Veggfóður og Hér & nú - voru víst öll á uppleið, sala jókst með hverju tölublaði og ritstjórnir þeirra voru bjartsýnar á framhaldið, en umbunin fór ekki eftir árangri.


(Og bara til að taka það fram þá veit ég að NFS heitir núna Fréttastofa Stöðvar 2, hitt nafnið er bara þjálla, og ég lít þannig á að DV hafi verið lagt niður, því að nýr ritstjóri þess ætlar að gjörbreyta öllum áherslum og færa það til nútímahorfs miðað við hvernig blaðið var 1998 og hvernig hann ímyndar sér að þróunin hefði orðið síðan.)