föstudagur, ágúst 31, 2007

heimurinn er lítill

Ég var að koma heim af „fundi“ hjá Evrópufélaginu á svæðinu. Fundurinn fólst í því að hittast á krá, drekka bjór og kjafta við aðra útlendinga (flesta frá Evrópu). Sem var stórskemmtilegt. Ein af þeim sem ég talaði við var þýsk stelpa sem reyndist hafa lært næringarfræði í Kiel og verið þar á sama tíma og ég, ekki nóg með það heldur þekkir hún Catharinu, finnsku vinkonu mína þaðan, þær voru saman í tímum. Heimurinn er svo sannarlega lítill og verður örugglega enn minni á morgun, en þá mun ég hitta flestalla Íslendinga á svæðinu og er viss um að ég þekki/kannast við einhvern þeirra nú þegar (eða einhvern sem þeir þekkja).

Annars erum við Helle á fullu að plana afmælisdaginn okkar - ég hef aldrei fyrr hitt neinn sem á afmæli sama dag og ég og svo hitti ég tvö í sömu vikunni og er búin að lofa að halda upp á afmælið með þeim báðum - og það verður fjör. Í augnablikinu er hugmyndin sú að bjóða fólki í lautarferð með okkur með danska lagköku og kakó og fara í leiki og svo geta þeir sem vilja djammað með okkur um kvöldið. Þetta er reyndar allt á frumstigi ennþá en þar sem þennan merkilega dag ber upp á laugardag ætlum við að reyna að nýta það sem best :o)

Allt í skólanum gengur vel, tímarnir sem ég tek eru hver öðrum skemmtilegri. Setningafræðikennarinn er mjög spes og hún býr til setningar um persónur í Harry Potter til útskýringar, sem er mjög hjálplegt, og hikar ekki við að klifra inn og út um gluggann til að stytta sér leið. Í áfanganum um fornensku erum við að pæla í nýlegum kenningum um að fornenska sé í raun frekar norðurgermanskt mál en vesturgermanskt og í indóevrópska áfanganum erum við að fara yfir tungumálin sem falla undir þann flokk, sem er ofurgaman.

Nemendurnir sem ég hef eru yndislegir og mjög kappsamir um námið. Stofan er þannig að þetta er allt saman mjög huggulegt og óformlegt og eini gallinn er sá að taflan er fulllítil og ég þarf alltaf að vera að stroka út. En við erum með píanó og arin, er hægt að biðja um meira?

sunnudagur, ágúst 26, 2007

allt í gúddí

Jæja, það er líklega kominn tími á nýja færslu hérna. Ég er ekki alveg viss um hvar ég á að byrja, enda er ég algjörlega uppgefin eftir daginn. Það var hátt í fjörutíu stiga hiti og mjög rakt og til að komast í loftkælt umhverfi ákvað ég að fara í matarverslunarleiðangur með þremur strákum sem ég þekki - reyndar líka til að fá smá félagsskap og svo ratar einn þeirra um allt hérna, veit hvar allt er staðsett og hvaða strætó á að taka hvert. Samkvæmt því sem ég hef heyrt eiga dæmigerðir karlmenn helst ekki að vilja vera í búðum, ef það er sönn regla þá eru þessir þrír stórar undantekningar. Ég er ofurfljót að versla í samanburði við þá en það er mjög fyndið að fylgjast með pælingum þeirra um hitt og þetta sem þeir þurfa að kaupa, annaðhvort núna eða fljótlega, allt frá hárþurrkum, sápum og uppþvottagrindum upp í hljómborð og sængurver.

Reyndar langaði mig líka í sængurver en eftir mikla leit í Walmart þar sem við fundum bara pakka með lökum og koddaverum, töluðum við við konu sem hélt því fram að enginn hérna notaði nokkurn tíma sængurver því það væri svo auðvelt að þvo sængurnar. Okkur fannst þetta frekar skrýtið og þegar ég kom heim spurði ég sambýlinginn minn um þetta og hún sagði sængurver víða notuð og lítið mál að finna þau ef maður færi í réttu búðirnar.

Á leiðinni heim byrjaði svo að rigna og þegar ég kom út úr strætó var hellirigning og þrumuveður. Ég hljóp strax inn í næsta strætóskýli og beið veðrið af mér - þar beið líka stelpa frá Kólumbíu sem er nýkomin hingað og við tókum tal saman, skiptumst á símanúmerum og ætlum að gera eitthvað skemmtilegt saman. Skrýtið hversu auðvelt er að kynnast fólki þegar allir eru á sama félagslega núllpunktinum. Á fimmtudaginn hitti ég nefnilega danska stelpu (sem ég gat talað fullt af dönsku við og er önnur manneskjan sem ég kynnist hér sem á afmæli sama dag og ég) og ástralskan strák (sem var í alvörunni að pæla í því að fara að æfa listdans á skautum þar sem hann getur næstum því skautað aftur á bak) í Stóru rauðu hlöðunni - en á hverju fimmtudagseftirmiðdegi er kaffistund fyrir alþjóðlega nemendur og fjölskyldur þeirra. Þessi tvö voru mjög skemmtileg og við enduðum á að verja meirihluta kvöldsins saman og fórum meðal annars í bíóið sem er á skólalóðinni. Ég held að ég sé að fara að prófa að vera með í alþjóðlegum þjóðdansahóp með þeim á morgun.

Gærdagurinn var líka fjörugur. Byrjaði á stressi við að undirbúa fyrstu kennslustundina. Ég hitti hópinn fyrst á miðvikudaginn til að ákveða hvenær tímarnir ættu að vera og það gekk ótrúlega vel. Kennslustundin gekk síðan ágætlega og þau voru öll sex mjög áhugasöm, höfðu öll lært fallamál áður og sögðust öll vera að þessu til að geta lesið íslenskar miðaldabókmenntir á frummálinu. Þannig að mér líkar nú þegar vel við þau. Tímarnir sem ég verð í á þessari önn líta allir mjög vel út svo þetta ætti að verða hin besta skemmtun :o)

Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá er þetta stofan sem ég kenni í:

Stofan er í húsi sem var eitt sinn heimili forseta skólastjórnarinnar (held að það sé þýtt svona) og er húsið nú á tímum oftast notað fyrir tónleika og móttökur ýmis konar.

Í gærkvöldi var svo teiti hjá málvísindanemum til að taka á móti nýjum nemendum. Það var framar væntingum og greinilega margt stórskrýtið og -skemmtilegt fólk í þessari deild. Á tímabili fannst mér eins og ég væri stödd í grínsjónvarpsþætti - þegar upp komst að ein af stelpunum sem var að byrja væri í miðju skilnaðarferli og einn af strákunum óskaði henni til hamingju með það (og sagði að það væri það versta við að mega ekki giftast að geta aldrei skilið) og byrjaði að skipuleggja hverjum hann ætlaði að koma henni saman við. Ekki batnaði það þegar ástæður skilnaðarins komu í ljós en þær tengdust eiturlyfjabarónum og skattsvikum.

Annars er það helst að frétta að ég er búin að læra fullt um eftirnafnahefðir mismunandi þjóða og finnst það mjög spennandi efni.

þriðjudagur, ágúst 21, 2007

lítill krakki í nammibúð

Núna þarf ég að velja námskeið til að taka á haustönninni og þar sem ég er gestanemi má ég alveg ráða hvað ég tek, sama í hvaða deild það er. Ég skoðaði kennsluskrána í gær og fann á fimm mínútum um tuttugu kúrsa sem ég væri til í að taka, en má taka tvo til þrjá. Aldrei þessu vant ætla ég að fylgja reglunum enda þarf ég að ætla mér nægan tíma til að undirbúa kennsluna, svo nú taka við miklar samningaviðræður við sjálfa mig um hvað er skynsamlegt að taka og hvað skemmtilegt og svo framvegis.

Stundum öfunda ég fólk sem veit nákvæmlega hvað það vill.

mánudagur, ágúst 20, 2007

sunnudagur

Í þessum kafla af framhaldssögunni um köttinn og mig ber þess að geta að eftir að eigandinn kom heim þá er ég varla virt viðlits, nema þegar svengdin er kisu alveg að drepa. En ekki kvarta ég yfir því, kisur eru sko ekki mín deild.

Í dag eignaðist ég síma - loksins fann ég (með mikilli hjálp frá sambýlingnum) símafyrirtæki þar sem ég get keypt inneign án þess að borga dollar á dag fyrir að fá að kaupa inneign eða að þurfa að skrifa upp á samning til lengri tíma (reyndar er mínútugjaldið dýrara en í heildina verður kostnaðurinn minni). Síminn sjálfur kostaði bara tuttugu dollara og er mjög einfaldur og sætur, svo nú get ég farið að pirra fólk fram og til baka. Reyndar er stór galli á þessu öllu saman - ég þarf nefnilega að borga fyrir að taka á móti símtölum og sms-um (en það er mjög misjafnt eftir samningum hvernig það virkar). En ég á síma :o)

Hitt afrek dagsins var endurröðun á húsgögnum í herberginu mínu - hefði eiginlega þurft að taka fyrir-mynd, því munurinn er töluverður - ég færði rúmið, þannig að í stað þess að vera frístandandi úti á gólfi og skipta herberginu í tvennt þá er það komið upp í horn (og snýr nú austur-vestur í stað norður-suður) og bókahillan sem var þar er komin á annan stað. Gólfplássið jókst gríðarlega við þetta og nú eru hillurnar nær skrifborðinu og koma að meira gagni (það er að ég þarf ekki að ganga í kringum/yfir rúmið til að komast í þær). Næsta vandamál eru veggirnir - þeir eru ekki fallegir, málningin farin að flagna af og á einum eða tveimur stöðum hefur verið málað yfir með öðrum blæ af hvítum. Spurning hvort það dugi að hengja upp plaköt til að hylja þetta eða hvort aðferðirnar verði að vera áhrifameiri.

Og að lokum hef ég uppgötvað svolítið sem veldur mér áhyggjum. Undanfarna daga hef ég eytt þónokkrum tíma með eðlisfræðinemum og fattaði mér til mikillar skelfingar að ég hef aldrei á ævinni lært eðlisfræði. Ég var reyndar í tímum í Való sem hétu eðlisfræði en þar sem þeir snerust um efnafræði telst það ekki með. Í MR var ég svo á málabraut og lærði þar af leiðandi enga eðlisfræði en þó nokkuð í efnafræði. Þannig að það að reikna fjarlægðir og hraða á milli einhvers er mér hulin ráðgáta sem og að útskýra einföldustu lögmál (þó svo að ég skilji þau stundum í grunninn). Reyndar háir þetta mér ekkert með þessu fólki - því ég skilningur minn á eðlisfræðiumræðum þeirra væri örugglega jafnlítill þrátt fyrir einhvern grunn - samt sem áður finnst mér þetta vera töluverð gloppa í menntun minni.

laugardagur, ágúst 18, 2007

veður

Það hefur komið mér á óvart hérna að veðurspár hérna virðast langoftast vera réttar (allavegana enn sem komið er). Í gær var sól og blíða allan daginn og himinninn heiður en veðurstofan sagði að um kvöldið myndi rigna. Ég hló bara að því (enda vön að vantreysta veðurspám) og fór í mínum sumarfötum í Rauðu hlöðuna að hitta fólk - ekki vildi þó betur til en svo að þegar þeim stað var lokað (rúmlega sjö) var hellirigning úti og meira að segja þrumur og eldingar. Þannig að ég og aðrir skáskutum okkur á milli húsa og fundum loksins byggingu sem var opin og með stólum í anddyrinu og biðum þar þar til veðrinu slotaði. Það sama gerðist í morgun, grenjandi rigning en veðurstofan sagði að um hádegi yrði tuttugu stiga hiti og sól - og eins ólíklegt og það var út frá skýjafari þá gekk það eftir. Ég er samt við öllu búin og hef lagt sandalana á hilluna í bili.

föstudagur, ágúst 17, 2007

niðurstöður hávísindalegrar athugunar ;p

Mig hefur alltaf langað til að vita hvað ég les mikið en aldrei nennt að mæla það - þar til 1. ágúst í fyrra, frá og með þeim degi hef ég skráð allar bækur sem ég hef lesið, höfunda, lengd og á hvaða tungumáli þær voru.

Niðurstaðan er sú að á einu ári (1. ágúst 2006 til 31. júlí 2007) las ég 102 bækur sem samtals voru 26.317 blaðsíður. 75 þessara bóka og 17.084 blaðsíður voru á íslensku, 25 og 8.060 á ensku og 2 og 264 á öðrum tungumálum. 13,5 bækur voru eftir íslenska höfunda en 88,5 eftir erlenda. Lestrarminnsti mánuðurinn var október með 2 bækur og 562 blaðsíður, sá lestrarhæsti var júlí með 12 bækur og 3.819 blaðsíður.

Að meðaltali les ég því átta og hálfa bók á mánuði eða 2.193 blaðsíður (hver bók er að meðaltali 258 síður). Sex og einn fjórði af bók eru á íslensku og tveir og einn fjórði á útlensku. Einungis 1,125 bók á mánuði er eftir íslenskan höfund, þannig að hlutfall þýddra bóka er mjög hátt.

Niðurstöðurnar komu mér dálítið á óvart, því fyrir fram hafði ég búist við því að ég læsi meira en tvær bækur á viku - en sveiflurnar hafa verið miklar og farið eftir vinnuálagi og öðru. Gallinn við svona mælingu er sá að komast að því að fjöldi þeirra bóka sem ég mun ná að lesa er teljanlegur - en fjöldi þeirra bóka sem mig langar (og mun langa) til að lesa er óteljanlegur. Annar ókostur er svo sá að sjá svart á hvítu hvað ég les, ekki allt jafnhámenningarlegt og ég vildi ;p

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

myndir!

Jæja, þá er komið að smá myndasýningu. Ég vaknaði furðu hress í gærmorgun og tók myndavélina með mér í skólann en gleymdi ýmist að taka myndir eða þær misheppnuðust. Mannamyndirnar sem hér koma á eftir eru allar af hópnum sem ég var í - myndir af hinum útlendingunum verða að bíða betri tíma.

Þessi mynd er tekin inni í kennslustofunni okkar, við vorum með svona stólaborð eins og maður sér í bíó og sátum oftast í hálfhring og svo stóð kennarinn í miðjunni (og gekk um) og talaði. En þarna eru Al, Kinjal, Soo, Raúl og Turan og fyrir aftan þau má sjá glitta í spjöld sem við vorum látin gera í hópum fyrsta daginn og á þeim er lýsing á eiginleikum bestu kennara sem við höfum haft.

Eftir þessa mynd varð eitthvað minna um myndatökur en ég ætlaði og ekki einu sinni ein mynd úr löngu gönguferðinni sem ég fór í eftir skólann - þegar ég fann stóra vatnið þegar ég var í leit að Aldi og komst í leiðinni að því að þetta er voða lítill bær, það er að staðir sem ég hélt að væru lengst í burtu eru í göngufjarlægð. Um kvöldið ákvað ég að ganga upp gilið til að komast á skólasvæðið þar sem kvöldverðarboðið var haldið og þetta er gilið margumtalaða (Cascadella Creek) - fyrri myndin er tekin í miðju gilinu og sú síðari rétt áður en lokaprílið upp bratta stiga hefst (alls tekur það mig svona fimmtán til tuttugu mínútur að fara upp gilið).

Ég var frekar ódugleg að taka myndir í kvöldverðarboðinu, var miklu duglegri við að tala og lét meira að segja platast til að fara upp á svið og syngja - huggaði mig við það að enginn þarna kunni Sofðu unga ástin mín svo ef ég var fölsk tók (vonandi) enginn eftir því ;p En þar sem afkastameiri myndasmiðir ætla að deila myndum sínum með okkur síðar hef ég engar áhyggjur. Hérna er mynd af hópnum okkar - reyndar vantar Al - en í efri röð frá vinstri eru Soo, Kinjal, Maria (kennarinn), ég og Catalina og í neðri röðinni eru Remus, Raúl, Turan, Adna og Ravishankar. Vegna vanstillingar á myndavélinni er þessi mynd ekkert mjög falleg og ég er miklu hrifnari af þessari hér - hún er líka miklu óformlegri. Með þessum hluta hópsins fór ég svo að leita að stjörnuhröpum, en þau eiga víst að vera tíð á þessum árstíma. Við fundum reyndar engan nógu dimman stað til að sjá almennilega til en lágum á endanum í hálftíma í döggvotu grasi horfandi upp í himininn og blótuðum götulýsingum og bílum. Ég sá reyndar ekkert hreyfast nema flugvélar en aðrir voru heppnari.

Í dag var svo síðasti dagur námskeiðsins, svona rétt eftir að hópurinn small almennilega saman en við ætlum að reyna að halda sambandi og erum komin með póstlista og ætlum öll að hittast á föstudaginn í Rauðu hlöðunni. En síðustu kennslustundinni lauk á hlutverkaleikjum, þar sem okkur var skipt í hópa og átti hver fyrir sig að leika tvö atriði, annað með góðum kennara og hitt með slæmum kennara. Ég lék góðan kennara sem var ekkert gaman þar sem að allt fúttið var í slæmu hlutunum - koma of nálægt nemendum og jafnvel snerta þá, mismuna þeim eftir kynferði og reka út úr stofunni. Slæmu kennararnir fóru alveg á kostum - þetta var svo tekið upp (alveg gífurleg árátta hjá þeim að taka allt upp hérna) og kennarinn okkar ætlar að sýna okkur þessar upptökur á þakkargjörðarhátíðinni, en hún er búin að bjóða okkur í svona alvöru amrískan mat þá.

Á morgun lýkur svo einveru minni hér - kettinum vafalaust til mikillar gleði - en þá kemur sambýlingurinn minn heim og ég vona bara að okkur eigi eftir að lynda vel. En miðað við bækurnar hennar og dvd-diskana höfum við tiltölulega líkan smekk á mörgu. En þetta er kisan Baby sem er næstum búin að klóra alla málninguna af herbergishurðinni minni. Og til að ljúka myndasyrpunni þá er hérna íkorni í ætisleit fyrir utan bókasafnið. Hér er aragrúi af íkornum úti um allt - í fyrsta skipti sem ég sá slíka veru varð ég mjög upprifin og fékk lagið um Brúsk á heilann, en núna pæli ég ekki lengur í þeim.

þriðjudagur, ágúst 14, 2007

úff & púff

Mér tókst að næla mér í einhverja smápest. Var með verk á bak við augun og í höfðinu í allan dag og var skítkalt þrátt fyrir að vera í peysu í 25 stiga hita. Auðvitað var það á degi þar sem ég þurfti að vera í tímum á milli níu og hálf fimm enda fór ég að því loknu beint heim og upp í rúm (sem mig dreymdi um í allan dag) og tókst að sofa í fimm tíma eða þar til sísvangi kötturinn vakti mig með væli og hurðarklóri. Mér líður töluvert skár núna og vona að ég geti sofið þetta úr mér í nótt, þó svo að það að sofna aftur hafi reynst aðeins erfiðara en ég hugði.

Myndir eru væntanlegar fljótlega - er búin að setja myndavélina í skólatöskuna og ætla að vera dugleg að smella af á morgun, sérstaklega þar sem þá verður spes kvöldverðarboð fyrir okkur aumingjans útlendingana. Og kannski kemur þá líka frásögnin af sjö tíma búðarápi í „klasanum“ á laugardaginn (þar sem æsispennandi verðsamanburður á sængum og koddum, árangurslaust áreiti á símafyrirtæki og kennslustund í suðuramerískri tónlist og menningu voru á meðal dagskrárliða) og einlægu gleðinni þegar ég fann minn gamla kunningja Aldi og múslístykkin sem ég lifði á í Þýskalandi og kannski smákveinstafir yfir því að það virðist vera næstum ómögulegt að kaupa fisk hérna nokkurs staðar í bland við kvart um fábreytni í matsölum skólans (enn sem komið er hef ég ekki séð annað en hamborgara, pítsur, samlokur og súpur) og hugsanleg afhjúpun á uppáhaldsstaðnum mínum á skólalóðinni þessa dagana.

Og svo ég hætti kannski að bulla og fari að sofa þá fann ég góðkunningja mína á youtube - fæ aldrei leið á þessum tveimur (hvort sem um er að ræða persónur eða leikendur). Góða nótt :o)

laugardagur, ágúst 11, 2007

ithaca is gorges

Jæja, þá hef ég verið hérna í rúma viku, sem mér finnst reyndar stórskrýtið því á þeim tíma hefur svo margt gerst og ég hitt svo margt nýtt fólk að það virðist vera mun lengri tími.

Kennslufræðitímarnir ganga mjög vel. Við erum fjörutíu í allt og erum í einum sameiginlegum tíma klukkutíma á dag en í tíu manna hópum fjóra tíma á dag. Hópurinn sem ég er í er mjög skemmtilegur og við náum ágætlega saman þrátt fyrir að vera frá flestum heimshornum en fyrir utan mig er þar fólk frá Indlandi (Kenjal og Ravishankar), Rúmeníu (Remus og Catalina), Suður-Kóreu (Soon), Pakistan (Adna), Púertó Ríkó (Raúl), Marokkó (Al) og Tyrklandi (Turan). Í þeim tímum erum við að læra hvernig við eigum að kenna og hvernig við eigum að halda athygli nemenda með mismunandi námsþarfir. Í gær áttum við að kenna í tíu mínútur hvert og fengum svo umsögn um hvernig við hefðum staðið okkur bæði frá kennaranum og hinum nemendunum. Herlegheitin voru tekin upp svo við fengum líka þá ánægju að sjá okkur á sjónvarpsskjá. Ég fékk tvær athugasemdir við kennsluna mína (sem var um hljóðvörp í þróun frumnorrænu yfir í forníslensku í mjög einfaldaðri mynd og lét ég nemendurna breyta orðum fram og til baka til að fá þá til að taka virkan þátt í tímanum), önnur var þessi klassíska að ég talaði ekki nógu hátt - ég veit ekki af hverju en það er eins og ég skynji ekki tónhæðina almennilega þegar ég tala, en vonandi tekst mér að laga það - hin var að ég væri of langt frá bekknum og ætti að koma alveg upp að nemendum, sem er nokkuð sem mér finnst mjög óþægilegt að kennarar geri þegar ég er nemandi og á því erfitt með að gera sem kennari.

Í dag rigndi svo - og það var notalega svalt (bara 18 gráður og engin sól) - svo ég ákvað að ganga í skólann í úðanum í morgun í stað þess að taka strætó upp hæðina. Ég prófaði meira að segja nýja leið, að ganga upp gil sem sker hæðina - það var stórfenglegt og svo fallegt að ganga þarna meðfram á og hvítfyssandi flúðum (mér brá reyndar svolítið þegar ég sá á einum stað, hinum megin árinnar tjaldhimin og steinsofandi mann undir honum). Reyndar var það hörkupuð þó að gangan hafi bara tekið tuttugu mínútur. Gil eins og þetta eru meðal einkenna borgarinnar og úti um allt er hægt að sjá boli og límmiða með áletruninni Ithaca is gorges, sem er orðaleikur því gorges þýðir gil en er borið fram eins og gorgeous (og út frá þessu er líka til áletrunin Ithaca is not George's). Á leiðinni heim gekk ég svo niður gilið og það var einhverra hluta vegna talsvert auðveldara ;o)

Eftir að hafa hlustað á tvær stelpur úr hópnum mínum tala um hvað þær væru svo rosalega uppteknar við námið (áður en skólinn byrjar!) að þær gerðu ekki neitt nema að mæta í þessa tíma og læra var ég orðin svolítið smeyk um að enginn hérna hefði áhuga á félagslífi og ég myndi ekki kynnast neinum af því hvað allir væru uppteknir (og þegar ég er farin að hafa áhyggjur af skorti á félagslífi er örugglega eitthvað að). En í dag var TGIF (tell grads it's friday) á milli fjögur og sjö í Stóru rauðu hlöðunni (Big Red Barn), sem er eins konar félagsmiðstöð nemenda í framhaldsnámi, og ég mætti þangað hálfuggandi yfir því að þekkja kannski engan - en þá sat meirihlutinn af hópnum mínum við borð úti í horni og veifaði um leið og ég kom holdvot þangað inn (því þá hafði rigningin aukist til muna og ég og sumarfötin mín urðum rennandi blaut við það að ganga frá bókasafninu - svo mjög að þegar ég kom inn var Víetnaminn tveir-einn að fara út og bauð mér regnhlífina sína til að hafa á bakaleiðinni, þó svo að hann væri lítt betur klæddur - ég afþakkaði gott boð, sem betur fer því þegar ég fór heim hafði stytt upp og ég hefði fengið samviskubit yfir því að vera með regnhlífina hans). Þetta er í fyrsta skipti sem ég hitti þetta fólk utan kennslustofunnar og umræðuefnin voru ótalmörg og ég vona bara að það að hitta þau verði vikulegur viðburður (því kennslufræðitímarnir eru bara út næstu viku).

Og talandi um þá tíma, þá fór ég í viðtal á þriðjudaginn og þær sem sáu um það (sömu konur og sjá um daglega klukkutímatímann) reyndust báðar hafa komið til Íslands og vildu endilega fá að vita allt sem ég vissi um Magna og Svanhildi Hólm (sitt í hvoru lagi reyndar, þó svo að sögur af þeim saman væru örugglega áhugaverðar) - ég tek það fram að þær minntust á þau að fyrra bragði og vildu vita hvað þau væru að gera núna eftir fimmtán mínútna frægð í Bandaríkjunum.

mánudagur, ágúst 06, 2007

montag

Í dag fór ég á kynningarmorgunverðarfund fyrir útlenska aðstoðarkennara og verðum við á námskeiði um hvernig eigi að kenna næstu tvær vikurnar. Við erum um það bil fjörutíu sem erum ný og komum frá 15 löndum. Á sama borði og ég sátu Sví, Ísraeli, Víetnami, Indverji, Marokkóbúi, Púertóríkani og Kínverji og virkuðu frekar notaleg öllsömul. Í heildina virtust flestir vera frá Kína og mér heyrðust allir nema ég vera í raungreinadeildum, aðallega í verkfræði og tölvunarfræði.
Við fengum það sem kallast American continental breakfast og samanstóð hann af ávöxtum, kaffi og sætabrauði (það síðastnefnda myndi ég seint kalla morgunverð, allavegana ekki staðgóðan ;p).

Áður en námskeiðið hefst formlega á morgun eftir hádegi eigum við öll viðtalstíma við þá sem eru yfir útlendingakennslunni, þar sem við erum spurð um hvað við ætlum okkur með náminu og hver bakgrunnur okkar sé og eigum að kenna í fimm mínútur til sýnis. Samkvæmt leiðbeiningunum eigum við að velja eitthvað eitt atriði í því sem við munum kenna og útskýra það. Ég ætla að tala um föll í íslensku, þó svo að ég sé alls ekki viss um að geta gert þeim almennilega skil á fimm mínútum (miðað við það pláss sem var tekið í að útskýra föll í ensku latínukennslubókinni sem ég var með í menntaskóla - það var reyndar alveg stórfengleg lesning svona þegar maður fallbeygir án þess að hugsa út í þetta). Minn viðtalstími er ekki fyrr en í fyrramálið svo ég fór með Kínverjunum og opnaði bankareikning og rölti svo um með kínverskri stelpu og eftir að hafa villst þónokkuð (sem er mjög auðvelt, aragrúi af byggingum á svæðinu) römbuðum við að lokum á Collegetown, sem er bæjarkjarni ofarlega á hæðinni sem skólinn stendur á og eiginlega „hinn“ miðbærinn í borginni.

Það eina sem skyggir á veruna hér er að hér er enn alltof heitt og rakt fyrir minn smekk (á örugglega eftir að kvarta yfir kulda von bráðar). Í dag var hátt í þrjátíu stiga hiti og mikill raki í loftinu, reyndar er lofað rigningu á miðvikudaginn en morgundagurinn á víst að verða verri en dagurinn í dag. Skólinn stendur uppi á hárri hæð og þó svo að ég hafi tekið strætó upp hæðina er svæðið mjög mishæðótt þarna uppi, sem í þessum hita gerir mann alveg úrvinda, en það venst og ég verð örugglega komin í hörkuform af öllu þessu príli von bráðar :o)

sunnudagur, ágúst 05, 2007

kattavandi

Ég er farin að halda að ég sé heimsins versti kattapassari. Ég hélt að þetta yrði ekkert mál, bara að gefa kettinum að éta og skipta um sand reglulega. En nei, kötturinn vill líka stöðuga athygli og klapp og knús - hefur greinilega hundleiðst þennan hálfa mánuð sem hann hefur verið einn heima og þráir félagsskap. Ég hins vegar er ekkert gefin fyrir ketti - allavegana ekki í návígi - og þeir kettir sem ég hef komist næst að umgangast er tríóið hennar Gunnhildar og þeir vilja sko ekkert leyfa mér að snerta sig. En þessi eltir mig nú á röndum þegar ég er heima og þegar ég er inni í herbergi stendur kisan fyrir utan dyrnar og mjálmar og vælir og ég er með virkilegt samviskubityfir að hunsa hana svona. Ég hef samt reynt að klappa henni eitthvað og tala við hana en það er greinilega ekki nóg - hvað á maður til dæmis að gera þegar köttur veltir sér á bakið og iðar út öllum skönkum? Klappa eða klóra eða bara forða sér?

Og fyrst þetta er orðinn dýrapóstur, þá var ég í stórmarkaði áðan og þar var leðurblaka sem hafði villst og flaug um allt þar til einhver náði að lokum að fanga hana í inkaupakörfu. Það var frekar skondin sjón að horfa á þann eltingarleik.

laugardagur, ágúst 04, 2007

Fyrirheitna landið

Þá er ég komin á áfangastað og búin að koma mér smávegis fyrir, meira að segja kaupa smá í matinn í lífrænni búð (sem er víst eina búðin sem er í göngufæri frá mér) meðal annars íslenskt vatn í flösku, ligg núna uppi í rúmi og hlusta á svona útlandakvöldhljóð, ég held að þetta sé tíst í einhverjum skordýrum (krybbur heyrði ég einhvern tíma). Fyrir utan herbergisdyrnar vælir köttur, ég lenti nefnilega óvart í því að verða kattapassari fyrir meðleigjanda minn meðan hún er í burtu. Aumingja kisan hefur verið ein svo lengi að hún vill mikla athygli og klapp. Sem væri allt í lagi nema að ég verð að passa mig rosalega að þvo hendurnar á mér ef ég klappa ketti svo hárin valdi ekki ofnæmisviðbrögðum. Núna vælir hún af því ég vil ekki leyfa henni að sofa í rúminu mínu og ekki hleypa henni inn í herbergið mitt (og nú veit ég að allt kattafólkið sem ég þekki er að hugsa hvað ég sé nú vond).

Ferðasagan var furðuviðburðalítil. Flugið var alltof langt en röðin í vegabréfseftirlitinu var samt lengri þó svo að hún hafi „bara“ tekið klukkutíma þá hlykkjaðist hún svo mikið að ég hélt alltaf að hver hlykkur væri sá síðasti. Engar athugasemdar voru gerðar við áritunina mína og ég þurfti ekki að sýna neina aukapappíra.

Þá tók við biðin langa - þar sem ég ákvað að hanga frekar á flugvellinum um nóttina til að vera viss um að ná flugvélinni frá Sýrakúsu en fara á hótel og slappa almennilega af. Þess í stað kynntist ég Terminal 4 á JFK alveg einstaklega vel. Hvar hver búð er og skyndibitastaður, hversu lengi fram eftir staðirnir eru opnir, hvar eru sæti og af hvaða gerð og í hvaða sætum var best að sofna. Fólk lá þarna úti um allt, á stólum, bekkjum og gólfinu sjálfu. Mér tókst að festa blund ótal oft en hrökk oftast upp eftir smástund. Annars var mjög gaman að sitja og horfa á mannlífið í flugstöðinni. Ég sá meðal annars Amish-fólk og hermenn í sandfelulitum með riffla og alveg augljóst að þeir höfðu sloppið við vopnaeftirlit.

En ég náði vélinni daginn eftir og þótt mér hafi fundist ég ætla mér of mikinn tíma í að komast í gegnum allt fyrir innanlandsflug (tvær klukkustundir) þá mátti ekki tæpara standa. Vélin tafðist svo á flugbrautinni og varð því næstum klukkutímabið og önnur taskan mín hafði gleymst á JFK - en sem betur fer fannst hún og var komið með hana til mín. Ég velti reyndar fyrir mér hvort forlögin væru að senda mér skilaboð með því því að í þeirri sem týndist um tíma voru flestallar bækurnar mínar en í hinni áfengið og sælgætið sem ég keypti í fríhöfninni. Vinur stelpunnar sem ég leigi með kom og sótti mig á flugvöllinn þar sem hún er í útlöndum. Hann var mjög hjálpsamur, lét mig hafa lykla og fór svo með mér á skrifstofu málvísindadeildarinnar til að ég gæti kynnt mig fyrir konunum sem vinna þar og bauðst til að fara með mig í alvöru matvörubúð á morgun.

Ég hitti líka leigusalann sem er líklega á sjötugsaldri, fyrrverandi lögfræðingur, sem er núna hálftannlaus, en á víst glás af svona íbúðum sem hann leigir út til nemenda. Hann virkaði frekar notalegur í umgengni. Íbúðin er hins vegar frekar hrörleg og illa máluð og skrýtin, en ég held ég venjist því bara. Annars er umhverfið hér í kring ótrúlega fallegt og þar sem skórinn stendur á hæð gnæfir hann yfir öllu eins og kastali.

Að frátöldum skrykkjóttum smáblundum í flugvélum og á flugvellinum þá man ég varla hvenær ég svaf síðast en finn hvernig Óli lokbrá sækir á. Góða nótt.