mánudagur, desember 31, 2007

Guð mun ráða hvar við dönsum næstu jól

Þá eru jólin brátt hálfnuð og það eina sem ég hef afrekað er að borða, lesa, hitta fólk, sofa og baka. Nokkurn veginn það sem ég áætlaði, þó svo að ég hafi búist við að þriðji liðurinn yrði meiri um sig (en enn er tími til að bæta úr því). Reyndar man ég ekki hvað það er langt síðan ég hef átt alvöru jólafrí án vinnu eða ritgerðarskrifa og veit ekki hvenær ég fæ tækifæri til slíks næst, svo ég nýt þess bara (þó svo að mig sé hálfpartinn farið að klæja í fingurna að gera eitthvað annað en að vera í fríi).

Þetta ár hefur verið viðburðaríkt og í heildina bæði skemmtilegt og fjölbreytt. Ég vann samtals á fimm vinnustöðum (sem ég vona að sé met sem ég muni seint slá), fór í nýjan skóla, kynntist fullt af fólki (bæði Íslendingum og síðan allra þjóða kvikindum), varði tíma með vinum og fjölskyldu og komst nokkrum skrefum nær því að vita hver ég er og hvað mig langar til að verða (eða ekki verða) þegar ég verð stór.

Ég hlakka til að sjá hvað 2008 ber í skauti sér og vona að ég verði jafnánægð að ári liðnu.

Og þar sem að ég sendi engin jólakort í ár: Gleðilega rest, takk fyrir árið sem er næstum liðið og ég vona að næsta ár verði ykkur öllum gifturíkt :o)


fimmtudagur, desember 13, 2007

heimþrá

Þegar ég gekk í átt að strætóstoppistöðinni við kirkjuna í morgun, í hægri hundslappadrífu sem tyllti sér á trén og árbakkann svo að heimurinn leit út eins og hið fegursta jólakort, fattaði ég hvers ég hef saknað. Mér hefur lengi fundist eins og það væri eitthvað sem vantaði hérna - ekki voru það fjöllin því það er mjög hæðótt hér í kring og ekki var það sjórinn, því hér er risastöðuvatn sem er hægt (með góðum vilja og úr smáfjarlægð) að líta á sem út- eða innhaf, því hinn bakkinn er langt úr augsýn - heldur er það vindurinn sem er í feluleik.

Ég man ekki til þess að hér hafi hvesst síðan ég kom, smá gola, mikið af rigningu, þrumum og eldingum, en ekkert alvöru hvassviðri. Ekki það að ég sé neitt óskaplega hrifin af hvassviðri á meðan ég er úti í því (þótt það geti verið hressandi) heldur er óneitanlega einmanalegt að lesa um óveður og rafmagnsleysi heima og heyra svo ekki neitt í veðrinu hérna og þá sakna ég þess að liggja uppi í rúmi að kvöldi til og heyra hvernig vindurinn ýlfrar og næðir úti. Og þá hrynur blekkingin um að ég búi skammt frá Cayuga-úthafinu.

Mér er reyndar sagt að þetta hljóti að vera misminni í mér og að ég muni örugglega kvarta yfir vondu veðurfari og hvössum vindum hérna í janúar og febrúar. Kannski er ég bara pirruð yfir því að geta ekki opnað gluggann minn lengur, þar sem að loksins fannst snilldarlausn til að halda hita inni í herberginu mínu (svo þar væri líft) eftir að upp komst að vetrarglugginn/-hlerinn (utanáliggjandi) hafði brotnað í fyrra. Í stað þess að setja upp nýjan glugga þá lét leigusalinn festa byggingarplast yfir rúðuna að innan, þannig að nú get ég hvorki opnað gluggann til að fá ferskt loft né séð út um hann (reyndar var útsýnið ekki stórfenglegt).

Og áður en ég held áfram að væla um að ég vilji verra veður (ég hlýt að vera eitthvað lasin) og fæla þar með alla frá því að hugsanlega vilja hitta mig um jólin, þá ætla ég að halda áfram með síðustu ritgerð annarinnar - um Verschärfung (man ekki íslenska heitið) í germönskum málum.

miðvikudagur, desember 12, 2007

Skiljanlegt?

Nú velti ég því fyrir mér hvort íslenskukunnáttu minni hafi hrakað svona allsvakalega í útlandinu (sem er ekki útilokað - ég þarf oftast að lesa bloggið mitt nokkrum sinnum yfir til að hreinsa burt enskulegt orðalag) eða hvort þetta sé bara svona hrikalega illa orðað? Hvort heldur sem er þá skil ég ekki meira en fyrstu setninguna.

MEYJA 23. ágúst - 22. september
Þú fyllist ástríðu. Ástríða er munurinn á því að framkvæma verk og verða atvinnumaður. Ástríða er munurinn á að líka við einhvern og gera tilkall til hans.
(mbl.is, 12. desember)


Í kvöld fór ég út að borða með fólki úr þýska talhópnum í Rauðu hlöðunni. Andrúmsloftið var vægast sagt alþjóðlegt þar sem við vorum átta af sjö þjóðernum (þó enginn Þjóðverji) og borðuðum á ítölsku veitingahúsi í Bandaríkjunum og allar samræður fóru fram á þýsku (og í ofanálag var rauðvínið frá Chile). Maturinn var mjög góður sem og félagsskapurinn (þótt þýskan mín sé fullryðguð fyrir fáguð samtöl.)

Ef ég man rétt þá kemur fyrsti jólasveinninn til byggða í nótt. Ætli Stekkjastaur muni eftir mér ef ég skelli skónum út í glugga?

þriðjudagur, desember 11, 2007

tralala

Ég sá þetta próf á síðunni hennar Örnu og varð að prófa og komst að því að ég þarf greinilega að skoða Biblíuna aðeins betur, því ég kannast ekkert við þann sem ég er.


Which Old Testament Character are you?





You are Nehemiah!
Take this quiz!








Quizilla |
Join

| Make A Quiz | More Quizzes | Grab Code




Og að öðru, þá dauðhlakka ég til að koma heim um jólin - ekki það að mér leiðist hérna, mig langar bara til að hitta alla og tala íslensku aftur. Ég fer héðan á laugardag til að skoða jólaljósin í New York og verð þar þangað til ég flýg heim í byrjun næstu viku.

Það sem er þó verst er að tvær úr félagahópnum mínum (þær sem ég hef verið mest með) voru hér bara í eina önn og það er erfitt að kveðja, því þrátt fyrir að við höfum einungis þekkst í tæpa fjóra mánuði, höfum við gert ótrúlega margt saman og kynnst mjög vel (kannski vegna þess að allir komu hingað vinalausir og opnir fyrir nýjum vinasamböndum). En við huggum okkur við það að heimurinn er lítill og líklega lítill vandi að hittast aftur síðar.

miðvikudagur, desember 05, 2007

blogg um (nánast) ekki neitt

Núna er klukkan hálfþrjú og ég sit hér ein uppi í skóla og er að reyna að skrifa ritgerð (sem á að skila á föstudaginn, þannig að hún er ekki á síðustu stundu - enn sem komið er). Ég hef fyrir löngu komist að því að einbeitingarskorturinn er minni hér en heima og ég tala nú ekki um á nóttunni þegar allir sem ég þekki eru farnir heim svo ég "lendi" ekki í skemmtilegum samræðum eða samtuði. Þó svo að hvort tveggja geti leitt af sér mjög góðar hugmyndir, til dæmis hvernig framkvæma megi listrænan gjörning til að efla áhuga fólks á sögulegri málfræði eða hversu tilvalið sé að nota jólasveinamyndir til að skreyta prófið sem ég legg fyrir bekkinn minn á fimmtudag.

Ég held reyndar að það sé kominn tími til að fara heim því síðasta hálftímann hef ég ekkert gert af viti en fundist undurspennandi að skoða körfuboltasíður og reyna að gúggla af hverju ég er með skrýtna bletti á nöglunum (eins og litlar holur). Hvort tveggja eftir að hafa til þrautar reynt að knýja fram nýja tölvupósta, bloggfærslur hjá öðrum og nýjar færslur á mogganum, vísi og hinu nýja er. Og svo blogga ég meira að segja um nákvæmlega ekki neitt.

Af hverju í ósköpunum virðist allt í veröldinni skemmtilegra en að skrifa ritgerð?

mánudagur, nóvember 26, 2007

að þökkum gjörðum

Þá er þakkargjörðarhátíðarhelgin að baki. Ég fór í þrjú matarboð á tveimur dögum þar sem kalkúnar voru í aðalhlutverkum, eitt sem var fyrir útlendinga, annað fyrir málvísindanema og það þriðja hjá kennaranum sem sér um forníslenska leshringinn. Öll heppnuðust þau mjög vel og það var óneitanlega gaman að prófa svona bandaríska hátíð. Reyndar var þetta allt saman ósköp líkt jólunum heima, nema hvað það vantaði pakkana og stressið.

Á fimmtudagskvöldið eftir málvísindamatinn fór ég með einni stelpunni þaðan til bæjar í klukkutímaakstursfjarlægð, en á miðnætti hófst útsala í verslanamiðstöðinni þar í tilefni föstudagsins svarta (sem er víst aðalverslunardagur ársins). Við röltum um og skoðuðum en keyptum fátt, aðallega var gaman að sjá loksins snjókomu og heyra jólalög. Það sem kom mér þó mest á óvart var hve ólíkt fólkið sem ég sá þarna var frá því fólki sem býr í borginni minni.

Því miður hef ég verið óþarflega pennalöt upp á síðkastið, en í stuttu máli hefur tíminn flogið áfram, mér finnst nóvember nýhafinn og september eiginlega hafa verið í gær. Kennslan hefur gengið vel, enda er ég með mjög áhugasama nemendur. Námið gengur svona upp og ofan en að mestu upp og utan þess þá hef ég stóran hóp af fólki til að leika við. Aðalfélagar mínir hafa verið sjö útlendingar sem ég hef kynnst að mestu í gegnum samveru í Stóru rauðu hlöðunni og hef ég gert ótalmargt með þeim, til dæmis héldum við graskerjaveislu á hrekkjavökunni þar sem við elduðum þríréttaða máltíð og grasker voru aðaluppistaðan í öllum réttunum - síðustu vikurnar hafa svo verið fjölmörg matar- og kaffiboð þar sem fólk hefur boðið upp á eitthvað sérstakt frá sínu landi, mig vantar eiginlega hugmyndir um hvað ég get gert sem er séríslenskt/algengt á Íslandi og ég hef hæfni til að elda.

Málvísindaliðið gerir líka margt skemmtilegt saman (svo margt að fólk úr öðrum deildum hefur kvartað yfir því hversu miklu skemmtilegri mín deild er en þeirra) og svo hef ég hitt hina Íslendingana allavegana tvisvar (og finnst alltaf jafnskrýtið að tala íslensku). Við tækifæri (vonandi fyrir jól) mun ég setja inn nokkrar myndir, svo þið getið séð með eigin augum allt það skrýtna fólk og þá furðulegu staði sem ég er orðin vön.

Núna sit ég svo og reyni að koma saman fyrirlestri um þágufallssýki sem ég á að flytja á þriðjudaginn og því miður kemst ég ekki upp með það að segja bara að þetta sé vitlaus íslenska og eigi að vera leiðrétt samstundis, heldur er ég nú að lesa greinar sem skýra af hverju fólk á það til að nota þágufall eða nefnifall þar sem á að vera þolfallsfrumlag. Það sem fer þó mest í taugarnar á mér er hversu miklu lengur ég er að semja texta á ensku en á íslensku. Verkefni sem ég myndi rumpa af á klukkutíma heima taka minnst tvo tíma hér - allt út af tungumálaörðugleikum.

föstudagur, október 12, 2007

loksins blogg sem er hvorki um ketti né stjörnuspár

Auðvitað gerist allt þegar ég fer ekki á netið í nokkra daga. Ekki nóg með að það hafi verið hálfgerð Bítlavika heima heldur féll borgarstjórnarmeirihlutinn. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hef tiltölulega lítinn áhuga á stjórnarskiptunum (nenni ekki einu sinni að lesa um REI-málið ógurlega) en ég sárvorkenni Úllu - því samkvæmt því litla sem ég hef lesið hafa nánast verið stöðugir borgarstjórnarfundir síðustu vikuna.

Ég er komin í smákreppu með þetta blogg mitt, alltof margt sem ég á eftir að skrifa um og það veldur því að ég skrifa bara alls ekki neitt. Það er alltaf nóg að gera, námið og kennslan taka drjúgan tíma og margt hægt að finna sér til dundurs þess á milli. Síðan ég skrifaði síðast almennilega hérna hef ég farið í nokkrar sunnudagsgönguferðir í nálægum friðlendum (state parks) með fólki úr málvísindadeildinni, farið í þjóðdansatíma og á eplauppskeruhátíð, heimsótt Stóru rauðu hlöðuna nokkrum sinnum og ótal margt fleira (og svo getur það eitt að kaupa í matinn tekið tvo til þrjá tíma - fer eftir búðum og tíðni strætóferða).

Um síðustu helgi reyndi ég að skilja bandarískan fótbolta og fór ásamt fleiri útlendingum á leik gegn Harvard. Fyrst fengum við pítsur og kennslu í grundvallaratriðum leiksins og fórum svo á völlinn í 25 stiga hita og blíðviðri (og getið nú hver sólbrann). Það leið ekki á löngu þar til ég var farin að skilja út á hvað leikurinn gengur og þeir fáu kaflar leiksins sem innihéldu eitthvað bitastæðara en endalaust miðjumoð voru áhugaverðir. Reyndar var erfitt að halda huganum við leikinn þar sem að á milli áhorfendasvæðisins og leikvallarins voru klappstýrur með fimleikaatriði og lúðrasveit að spila og því hvarflaði athyglin óneitanlega töluvert þangað - enda voru atriði þeirra sérkapítuli og ekki í miklum tengslum við leikinn sjálfan.

Á laugardaginn var opnaður þriggja helga bókamarkaður. Góðvinir sýslubókasafnsins standa fyrir honum og fer allur ágóðinn til bókasafnsins. Bækurnar eru verðlagðar eftir gerð (hörð kápa eða kilja o.s.frv.) og verðið lækkar daglega (hæsta verð fyrsta daginn var fjórir og hálfur dalur). Með slíkri verðlagningu er því auðveldlega hægt að fá góðar og jafnvel sjaldgæfar bækur ódýrt enda voru einhverjir komnir í biðröð fyrir utan kvöldinu áður. Ég kom þangað ásamt sambýlingnum korter í sjö að morgni (það var opnað klukkan átta) og þá var röðin orðin mjög löng og ég sá eftir að hafa ekki tekið myndavélina með mér, því hver á eftir að trúa mér að fólk hafi tjaldað á gangstétt til að verða fyrst til að komast inn á bókamarkað sem selur notaðar bækur? Við vorum heppnar, því við vorum þær síðustu sem komust inn í fyrsta holli. Ég keypti ekkert mjög margar bækur og þær voru allar fimmtán einstaklega vel valdar. Hins vegar ætla ég aftur um næstu helgi (sem er sú síðasta) þegar verðið verður komið niður í tíu sent og kaupa heilan helling af skáldsögum (er reyndar ekki viss um hvernig eða hvenær ég ætla að finna tíma til að lesa þær).

Annars er farið að hausta hér, hitinn kominn niður í tíu gráður og skítkalt í samanburði við síðustu vikur. Upphitun á húsinu er ekki komin almennilega í gagnið þannig að það að komast úr hlýju rúminu í morgun var að mínu mati töluvert afrek og ég sá eftir að hafa bölvað hitanum ;o)

Vona að þið hafið það öllsömul rosagott þarna heima :o)

þriðjudagur, október 02, 2007

fullkominn dagur!!!

Jaha, tad munar ekki um tad. Er reyndar buin ad fa meira en smaskammt af laerdomi i dag (var i timum milli tiu og trju) og hef naestum heila niu tima til ad upplifa allt hitt (asamt tvi ad troda inn sma meiri laerdomi) :o)

Meyja: Þetta er fullkomni dagurinn þinn. Smá skammtur af ást, af lærdómi, af ævintýri og líka af glamúr. Og auðvitað, gullið tækifæri til að græða smá pening.

laugardagur, september 29, 2007

sápuóperan heldur áfram

Mér og kisu finnst túnfiskur góður. Þegar ég opna túnfiskdós kemur kisa hlaupandi og ég leyfi henni að sleikja dósina og skil alltaf eftir smá fisk í henni. Stundum þegar kisa sér mig þá hleypur hún glaðhlakkalega inn í eldhús í von um að ég elti og fái mér túnfisk (reyndar held ég að henni væri alveg sama þó svo að ég borðaði ekki henni til samlætis heldur leyfði henni að njóta heillrar dósar einni). Þetta er venjulega skondið en er nú dálítið pirrandi þar sem í fjarveru sambýlingsins (sem er að flækjast í borgarferð) þá er ég matmóðir kisu og nú er ekki nóg að skófla kattarmat í skálina hennar til að stöðva vælið, heldur étur hún hann með bestu lyst og reynir svo að kría út úr mér túnfisk að því loknu. Mér væri reyndar ósárt að gefa henni svoleiðis góðgæti daglega en gallinn er bara sá að hún er á sérstöku megrunarfæði (sem lítur mjög ógirnilega út) og það myndi fljótlega koma í ljós ef ég færi að gefa henni aukabita.

Þessi færsla sýnir ágætlega að ég er alveg að detta úr bloggformi, hef alveg ótalmargt að segja og skrifa svo bara um köttinn, sem ég á ekki - og mér líkar ekki einu sinni við ketti!

laugardagur, september 22, 2007

enginn nema fuglinn fljúgandi

Bloggleysi þarf ekki alltaf að þýða andleysi - stundum er bara tíminn alltof naumur. Ég hef frá ótalmörgu að segja, en hef ekki haft tíma til að gera því öllu skil. Síðasta helgi var stórkostleg - afmælið heppnaðist vel (kærar þakkir til allra sem sendu mér afmæliskveðjur :o) ) og ferðin til Niagarafossa var langt framar vonum og munu þessir viðburðir fá meira pláss síðar, en þangað til er hér mynd sem ég tók á fossasvæðinu.

föstudagur, september 14, 2007

söfnunarárátta?

Stundum held ég að ég sé með vott af söfnunaráráttu. Það nýjasta sem ég hef tekið upp á að safna eru fjórðungsdollarar (veit ekki hvernig er best að þýða þetta yfir á íslensku en þeir heita quarters á ensku og eru verðmætasta myntin hér, ekki til neinn hálfdollar). Í tilefni af einhverju sem ég man ekki lengur hvað er var ákveðið að gefa þá mynt út með fimmtíu ólíkum myndum á bakhliðinni (einni fyrir hvert fylki) og G. Washington á framhliðinni. Ég ákvað að safna þeim þegar ég fór yfir hrúgu af klinki sem ég átti og komst að því að ég átti þá þegar myntir frá átta fylkjum. Núna er ég komin upp í tuttugu.

Með þessu móti er alltaf spennandi að fá skiptimynt og komast að hvort þar leynist mynt sem ég á ekki og ég læri hvað öll þessi ríki heita. Er samt nokkurn veginn viss um að flestir sem safni þessu séu mun yngri en ég - en hvað gerir maður ekki til að auka spennuna í gráum hversdagsleika hins daglega lífs?

þriðjudagur, september 11, 2007

sprengjuhótanir

Ég er í skóla sem fær sprengjuhótanir.

Hverjum dettur í hug að senda skólum sprengjuhótanir? Og af hverju senda skólar sem fá slíkar hótanir nemendum sínum tölvupóst um að téðar hótanir hafi borist þeim og öðrum skólum en að þær beri ekki að taka alvarlega? Mér fannst þetta reyndar bara fyndið þar til ég fattaði hvaða dagur er á morgun (í dag hjá ykkur heima) og hvað eru til margir brjálæðingar í þessum heimi sem gæti þótt sú dagsetning táknræn. Ég ætla nú samt sem áður að mæta í skólann á morgun, held einhvern veginn að „alvöru“sprengjarar séu ekki mikið fyrir að senda aðvaranir.

Annars er bara allt gott að frétta. Það hellirigndi hérna í gær (sunnudag), mér til mikillar ánægju, því hitinn og rakinn dagana þar á undan hafði verið óbærilegur. Svo mikið rigndi að litla sakleysislega áin í gilinu sem venjulega hoppar og skoppar bláleit um flúðir og fossa var orðin vatnsmikil, brúnleit og beljandi. Og það var alveg yndislegt að vakna við byljandi regn á rúðum og hafa afsökun til að fara ekki út fyrir hússins dyr heldur liggja bara uppi í rúmi og lesa.

Líka yndislegt vegna þess að kvöldinu áður var smápartí hérna og þar sem boðsgestir voru með eindæmum skemmtilegt og skondið fólk heppnaðist það mjög vel, ekki síst í lokin þegar við fjórir Evrópubúar vorum að telja restinni trú um að Júróvisjón væri hápunktur evrópskrar menningar og tókum brot úr nokkrum vel völdum lögum því til sönnunar ;o)
Mér tókst líka að fá fullt af fólki til að smakka brennivín og ópalskot og voru flestir á þeirri skoðun að brennivínið væri langtum betra (svona öfugt við smekk flestra Íslendinga), þótt engum þætti það beinlínis gott.

Sápuóperan um líf mitt með kettinum heldur áfram. Kisa hefur nú fundið leið til að komast inn í herbergið mitt ef ég loka ekki nógu vel og sækir mjög í það að koma þangað inn og kúra í faðmlögum við skólatöskuna mína, sem undir öðrum kringumstæðum væri voða sætt. Mér líður eins og versta svikahrappi þegar ég lokka hana og alla ofnæmisvaldana hennar út úr herberginu mínu með loforðum um klapp og klór.

föstudagur, september 07, 2007

grammar is glamour

Þessi fyrirsögn er ekki jafnfjarstæðukennd og ætla mætti í fyrstu. Þetta er nefnilega upprunalega sama orðið - í Skotlandi varð frálíking í orðinu grammar og út kom orðið glamour (frálíking er þegar sama hljóðið kemur fyrir tvisvar í einu orði og breytist vegna þess á öðrum staðnum). Þetta viskukorn er komið úr fornenskutímanum sem ég var í fyrr í dag og kennarinn stakk upp á að á þeim tíma hafi þótt svo glamúrlegt að vera málfræðingur (enda voru slíkir menn mjög lærðir og vonandi virtir að verðleikum). Ég er í alvörunni að hugsa um að búa til bol með þessari áletrun til að bæta í málfræðinördabolasafnið mitt (reyndar er bara einn bolur þar enn sem komið er en hann er mjög flottur - með ablatívusarbrandara og allt).

Annars er allt við það sama, vinna, borða, læra, sofa og leika (og horfa á sjónvarpið með sambýlingnum - er orðin sammála Ingu um að netmyndbandaleigur ættu að vera sjálfsögð mannréttindi, ekkert smáljúft að fá diskana bara senda í pósti). Fimmtudagar eru alltaf skemmtilegir því þá er kaffistund í Stóru rauðu hlöðunni fyrir útlendinga og hef ég kynnst ótalmörgu fólki þar - ég var þar áðan og spjallaði og drakk kaffi - kannski fullmikið kaffi, veit ekkert hvort mér tekst að sofna í kvöld/nótt. Síðan er ég farin að dansa - er nefnilega þjóðdansaklúbbur hérna og ég fór þangað á sunnudaginn að læra gríska og serbneska dansa - það var svakafjör og þótt ég væri oftast úr takt þá tók enginn eftir því þar sem hinir voru álíka lélegir og ég. Þannig að stefnan er núna sett á næsta sunnudag og hvaða hopp og hí sem þeim dettur í hug að bjóða upp á þá.

Ég varð mjög hissa í gær þegar ég var að tala við nemendurna mína um íslenska tónlist og bjóst við venjulegu svörunum - Björk og Sigur Rós - sem ég og fékk, en að auki var einn sem hlustar á Bubba og Rottweilerhundana. Og mér til enn meiri furðu vildu þau óð og uppvæg fá slóðina á ruv.is, til að geta hlustað á íslenskt útvarp og horft á fréttir (reyndar var náungi á alþjóðkaffinu jafnóður og -uppvægur að fá slóðina - til hvers er mér hulið).

Afmælisbylgjan mikla er svo að skella á. Sambýlingurinn á afmæli á morgun (og ég var að fatta að ég veit ekki hvort ég á að gefa henni gjöf og þá hvað) og heldur smámatarboð. Þar sem ég á svo afmæli í næstu viku, sem og tveir aðrir í málvísindadeildinni verður hið hefðbundna (að mér er sagt) septemberafmælisteiti deildarinnar haldið hérna á laugardagskvöldið (sem virðist vera hið fullkomna tækifæri til að koma brennivíninu mínu og ópalskotunum á framfæri ;p). Og viku síðar verður að öllum líkindum sameiginlegt afmælishald okkar þriggja sem eigum afmæli þá - er búin að tala við bæði hin afmælisbörnin, en einhverra hluta vegna hefur mér ekki enn tekist að kynna þau hvort fyrir öðru. Þannig að í þessum veisluhöldum öllum er varla nokkur hætta á að mér takist að gleyma því að ég verð árinu eldri (og auðvitað vitrari og betri). Svo eru líka einhverjar líkur á að mér takist að taka einhverjar myndir - myndavélin er orðin mjög einmana, rykfallin og vanrækt uppi á hillu.

Takk fyrir öll kommentin, mér þykir vænt um að sjá að þið munið eftir að tékka á mér (og ég má vera smá væmin, ég er í landi væmninnar - meira að segja Hallmark-búð í klasanum hérna með dóti sem fær drenginn með tárið til að blikna í samanburði).

Og svo að lokum þá er ég ekki með berkla, var sprautuð með einhverjum próteinum í fyrradag og þar sem ekki sér neitt á mér í dag, nema far eftir stunguna, þá er ég örugg og sjúkratryggð :o)

laugardagur, september 01, 2007

merkur áfangi

Í dag gerði ég svolítið sem ég hef aldrei gert áður og bjóst ekki við að ég myndi nokkurn tíma gera. Ég skrifaði ávísun. Ég varð steinhissa þegar ég sótti debetkortið mitt um daginn og komst að því að því fylgdi ávísanahefti, því ég hef aldrei átt svoleiðis og það eru örugglega hátt í tíu ár síðan ég sá síðast slíkan forngrip.

En hér borgar maður víst flestallan fastakostnað með ávísunum, til dæmis leiguna. Þannig að í morgun rölti ég með útfyllta ávísun til leigusalans og fannst ég vera komin óralangt aftur í tímann enda orðin mjög vön því að allt svona fari í gegnum heimabankann minn.

föstudagur, ágúst 31, 2007

heimurinn er lítill

Ég var að koma heim af „fundi“ hjá Evrópufélaginu á svæðinu. Fundurinn fólst í því að hittast á krá, drekka bjór og kjafta við aðra útlendinga (flesta frá Evrópu). Sem var stórskemmtilegt. Ein af þeim sem ég talaði við var þýsk stelpa sem reyndist hafa lært næringarfræði í Kiel og verið þar á sama tíma og ég, ekki nóg með það heldur þekkir hún Catharinu, finnsku vinkonu mína þaðan, þær voru saman í tímum. Heimurinn er svo sannarlega lítill og verður örugglega enn minni á morgun, en þá mun ég hitta flestalla Íslendinga á svæðinu og er viss um að ég þekki/kannast við einhvern þeirra nú þegar (eða einhvern sem þeir þekkja).

Annars erum við Helle á fullu að plana afmælisdaginn okkar - ég hef aldrei fyrr hitt neinn sem á afmæli sama dag og ég og svo hitti ég tvö í sömu vikunni og er búin að lofa að halda upp á afmælið með þeim báðum - og það verður fjör. Í augnablikinu er hugmyndin sú að bjóða fólki í lautarferð með okkur með danska lagköku og kakó og fara í leiki og svo geta þeir sem vilja djammað með okkur um kvöldið. Þetta er reyndar allt á frumstigi ennþá en þar sem þennan merkilega dag ber upp á laugardag ætlum við að reyna að nýta það sem best :o)

Allt í skólanum gengur vel, tímarnir sem ég tek eru hver öðrum skemmtilegri. Setningafræðikennarinn er mjög spes og hún býr til setningar um persónur í Harry Potter til útskýringar, sem er mjög hjálplegt, og hikar ekki við að klifra inn og út um gluggann til að stytta sér leið. Í áfanganum um fornensku erum við að pæla í nýlegum kenningum um að fornenska sé í raun frekar norðurgermanskt mál en vesturgermanskt og í indóevrópska áfanganum erum við að fara yfir tungumálin sem falla undir þann flokk, sem er ofurgaman.

Nemendurnir sem ég hef eru yndislegir og mjög kappsamir um námið. Stofan er þannig að þetta er allt saman mjög huggulegt og óformlegt og eini gallinn er sá að taflan er fulllítil og ég þarf alltaf að vera að stroka út. En við erum með píanó og arin, er hægt að biðja um meira?

sunnudagur, ágúst 26, 2007

allt í gúddí

Jæja, það er líklega kominn tími á nýja færslu hérna. Ég er ekki alveg viss um hvar ég á að byrja, enda er ég algjörlega uppgefin eftir daginn. Það var hátt í fjörutíu stiga hiti og mjög rakt og til að komast í loftkælt umhverfi ákvað ég að fara í matarverslunarleiðangur með þremur strákum sem ég þekki - reyndar líka til að fá smá félagsskap og svo ratar einn þeirra um allt hérna, veit hvar allt er staðsett og hvaða strætó á að taka hvert. Samkvæmt því sem ég hef heyrt eiga dæmigerðir karlmenn helst ekki að vilja vera í búðum, ef það er sönn regla þá eru þessir þrír stórar undantekningar. Ég er ofurfljót að versla í samanburði við þá en það er mjög fyndið að fylgjast með pælingum þeirra um hitt og þetta sem þeir þurfa að kaupa, annaðhvort núna eða fljótlega, allt frá hárþurrkum, sápum og uppþvottagrindum upp í hljómborð og sængurver.

Reyndar langaði mig líka í sængurver en eftir mikla leit í Walmart þar sem við fundum bara pakka með lökum og koddaverum, töluðum við við konu sem hélt því fram að enginn hérna notaði nokkurn tíma sængurver því það væri svo auðvelt að þvo sængurnar. Okkur fannst þetta frekar skrýtið og þegar ég kom heim spurði ég sambýlinginn minn um þetta og hún sagði sængurver víða notuð og lítið mál að finna þau ef maður færi í réttu búðirnar.

Á leiðinni heim byrjaði svo að rigna og þegar ég kom út úr strætó var hellirigning og þrumuveður. Ég hljóp strax inn í næsta strætóskýli og beið veðrið af mér - þar beið líka stelpa frá Kólumbíu sem er nýkomin hingað og við tókum tal saman, skiptumst á símanúmerum og ætlum að gera eitthvað skemmtilegt saman. Skrýtið hversu auðvelt er að kynnast fólki þegar allir eru á sama félagslega núllpunktinum. Á fimmtudaginn hitti ég nefnilega danska stelpu (sem ég gat talað fullt af dönsku við og er önnur manneskjan sem ég kynnist hér sem á afmæli sama dag og ég) og ástralskan strák (sem var í alvörunni að pæla í því að fara að æfa listdans á skautum þar sem hann getur næstum því skautað aftur á bak) í Stóru rauðu hlöðunni - en á hverju fimmtudagseftirmiðdegi er kaffistund fyrir alþjóðlega nemendur og fjölskyldur þeirra. Þessi tvö voru mjög skemmtileg og við enduðum á að verja meirihluta kvöldsins saman og fórum meðal annars í bíóið sem er á skólalóðinni. Ég held að ég sé að fara að prófa að vera með í alþjóðlegum þjóðdansahóp með þeim á morgun.

Gærdagurinn var líka fjörugur. Byrjaði á stressi við að undirbúa fyrstu kennslustundina. Ég hitti hópinn fyrst á miðvikudaginn til að ákveða hvenær tímarnir ættu að vera og það gekk ótrúlega vel. Kennslustundin gekk síðan ágætlega og þau voru öll sex mjög áhugasöm, höfðu öll lært fallamál áður og sögðust öll vera að þessu til að geta lesið íslenskar miðaldabókmenntir á frummálinu. Þannig að mér líkar nú þegar vel við þau. Tímarnir sem ég verð í á þessari önn líta allir mjög vel út svo þetta ætti að verða hin besta skemmtun :o)

Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá er þetta stofan sem ég kenni í:

Stofan er í húsi sem var eitt sinn heimili forseta skólastjórnarinnar (held að það sé þýtt svona) og er húsið nú á tímum oftast notað fyrir tónleika og móttökur ýmis konar.

Í gærkvöldi var svo teiti hjá málvísindanemum til að taka á móti nýjum nemendum. Það var framar væntingum og greinilega margt stórskrýtið og -skemmtilegt fólk í þessari deild. Á tímabili fannst mér eins og ég væri stödd í grínsjónvarpsþætti - þegar upp komst að ein af stelpunum sem var að byrja væri í miðju skilnaðarferli og einn af strákunum óskaði henni til hamingju með það (og sagði að það væri það versta við að mega ekki giftast að geta aldrei skilið) og byrjaði að skipuleggja hverjum hann ætlaði að koma henni saman við. Ekki batnaði það þegar ástæður skilnaðarins komu í ljós en þær tengdust eiturlyfjabarónum og skattsvikum.

Annars er það helst að frétta að ég er búin að læra fullt um eftirnafnahefðir mismunandi þjóða og finnst það mjög spennandi efni.

þriðjudagur, ágúst 21, 2007

lítill krakki í nammibúð

Núna þarf ég að velja námskeið til að taka á haustönninni og þar sem ég er gestanemi má ég alveg ráða hvað ég tek, sama í hvaða deild það er. Ég skoðaði kennsluskrána í gær og fann á fimm mínútum um tuttugu kúrsa sem ég væri til í að taka, en má taka tvo til þrjá. Aldrei þessu vant ætla ég að fylgja reglunum enda þarf ég að ætla mér nægan tíma til að undirbúa kennsluna, svo nú taka við miklar samningaviðræður við sjálfa mig um hvað er skynsamlegt að taka og hvað skemmtilegt og svo framvegis.

Stundum öfunda ég fólk sem veit nákvæmlega hvað það vill.

mánudagur, ágúst 20, 2007

sunnudagur

Í þessum kafla af framhaldssögunni um köttinn og mig ber þess að geta að eftir að eigandinn kom heim þá er ég varla virt viðlits, nema þegar svengdin er kisu alveg að drepa. En ekki kvarta ég yfir því, kisur eru sko ekki mín deild.

Í dag eignaðist ég síma - loksins fann ég (með mikilli hjálp frá sambýlingnum) símafyrirtæki þar sem ég get keypt inneign án þess að borga dollar á dag fyrir að fá að kaupa inneign eða að þurfa að skrifa upp á samning til lengri tíma (reyndar er mínútugjaldið dýrara en í heildina verður kostnaðurinn minni). Síminn sjálfur kostaði bara tuttugu dollara og er mjög einfaldur og sætur, svo nú get ég farið að pirra fólk fram og til baka. Reyndar er stór galli á þessu öllu saman - ég þarf nefnilega að borga fyrir að taka á móti símtölum og sms-um (en það er mjög misjafnt eftir samningum hvernig það virkar). En ég á síma :o)

Hitt afrek dagsins var endurröðun á húsgögnum í herberginu mínu - hefði eiginlega þurft að taka fyrir-mynd, því munurinn er töluverður - ég færði rúmið, þannig að í stað þess að vera frístandandi úti á gólfi og skipta herberginu í tvennt þá er það komið upp í horn (og snýr nú austur-vestur í stað norður-suður) og bókahillan sem var þar er komin á annan stað. Gólfplássið jókst gríðarlega við þetta og nú eru hillurnar nær skrifborðinu og koma að meira gagni (það er að ég þarf ekki að ganga í kringum/yfir rúmið til að komast í þær). Næsta vandamál eru veggirnir - þeir eru ekki fallegir, málningin farin að flagna af og á einum eða tveimur stöðum hefur verið málað yfir með öðrum blæ af hvítum. Spurning hvort það dugi að hengja upp plaköt til að hylja þetta eða hvort aðferðirnar verði að vera áhrifameiri.

Og að lokum hef ég uppgötvað svolítið sem veldur mér áhyggjum. Undanfarna daga hef ég eytt þónokkrum tíma með eðlisfræðinemum og fattaði mér til mikillar skelfingar að ég hef aldrei á ævinni lært eðlisfræði. Ég var reyndar í tímum í Való sem hétu eðlisfræði en þar sem þeir snerust um efnafræði telst það ekki með. Í MR var ég svo á málabraut og lærði þar af leiðandi enga eðlisfræði en þó nokkuð í efnafræði. Þannig að það að reikna fjarlægðir og hraða á milli einhvers er mér hulin ráðgáta sem og að útskýra einföldustu lögmál (þó svo að ég skilji þau stundum í grunninn). Reyndar háir þetta mér ekkert með þessu fólki - því ég skilningur minn á eðlisfræðiumræðum þeirra væri örugglega jafnlítill þrátt fyrir einhvern grunn - samt sem áður finnst mér þetta vera töluverð gloppa í menntun minni.

laugardagur, ágúst 18, 2007

veður

Það hefur komið mér á óvart hérna að veðurspár hérna virðast langoftast vera réttar (allavegana enn sem komið er). Í gær var sól og blíða allan daginn og himinninn heiður en veðurstofan sagði að um kvöldið myndi rigna. Ég hló bara að því (enda vön að vantreysta veðurspám) og fór í mínum sumarfötum í Rauðu hlöðuna að hitta fólk - ekki vildi þó betur til en svo að þegar þeim stað var lokað (rúmlega sjö) var hellirigning úti og meira að segja þrumur og eldingar. Þannig að ég og aðrir skáskutum okkur á milli húsa og fundum loksins byggingu sem var opin og með stólum í anddyrinu og biðum þar þar til veðrinu slotaði. Það sama gerðist í morgun, grenjandi rigning en veðurstofan sagði að um hádegi yrði tuttugu stiga hiti og sól - og eins ólíklegt og það var út frá skýjafari þá gekk það eftir. Ég er samt við öllu búin og hef lagt sandalana á hilluna í bili.

föstudagur, ágúst 17, 2007

niðurstöður hávísindalegrar athugunar ;p

Mig hefur alltaf langað til að vita hvað ég les mikið en aldrei nennt að mæla það - þar til 1. ágúst í fyrra, frá og með þeim degi hef ég skráð allar bækur sem ég hef lesið, höfunda, lengd og á hvaða tungumáli þær voru.

Niðurstaðan er sú að á einu ári (1. ágúst 2006 til 31. júlí 2007) las ég 102 bækur sem samtals voru 26.317 blaðsíður. 75 þessara bóka og 17.084 blaðsíður voru á íslensku, 25 og 8.060 á ensku og 2 og 264 á öðrum tungumálum. 13,5 bækur voru eftir íslenska höfunda en 88,5 eftir erlenda. Lestrarminnsti mánuðurinn var október með 2 bækur og 562 blaðsíður, sá lestrarhæsti var júlí með 12 bækur og 3.819 blaðsíður.

Að meðaltali les ég því átta og hálfa bók á mánuði eða 2.193 blaðsíður (hver bók er að meðaltali 258 síður). Sex og einn fjórði af bók eru á íslensku og tveir og einn fjórði á útlensku. Einungis 1,125 bók á mánuði er eftir íslenskan höfund, þannig að hlutfall þýddra bóka er mjög hátt.

Niðurstöðurnar komu mér dálítið á óvart, því fyrir fram hafði ég búist við því að ég læsi meira en tvær bækur á viku - en sveiflurnar hafa verið miklar og farið eftir vinnuálagi og öðru. Gallinn við svona mælingu er sá að komast að því að fjöldi þeirra bóka sem ég mun ná að lesa er teljanlegur - en fjöldi þeirra bóka sem mig langar (og mun langa) til að lesa er óteljanlegur. Annar ókostur er svo sá að sjá svart á hvítu hvað ég les, ekki allt jafnhámenningarlegt og ég vildi ;p

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

myndir!

Jæja, þá er komið að smá myndasýningu. Ég vaknaði furðu hress í gærmorgun og tók myndavélina með mér í skólann en gleymdi ýmist að taka myndir eða þær misheppnuðust. Mannamyndirnar sem hér koma á eftir eru allar af hópnum sem ég var í - myndir af hinum útlendingunum verða að bíða betri tíma.

Þessi mynd er tekin inni í kennslustofunni okkar, við vorum með svona stólaborð eins og maður sér í bíó og sátum oftast í hálfhring og svo stóð kennarinn í miðjunni (og gekk um) og talaði. En þarna eru Al, Kinjal, Soo, Raúl og Turan og fyrir aftan þau má sjá glitta í spjöld sem við vorum látin gera í hópum fyrsta daginn og á þeim er lýsing á eiginleikum bestu kennara sem við höfum haft.

Eftir þessa mynd varð eitthvað minna um myndatökur en ég ætlaði og ekki einu sinni ein mynd úr löngu gönguferðinni sem ég fór í eftir skólann - þegar ég fann stóra vatnið þegar ég var í leit að Aldi og komst í leiðinni að því að þetta er voða lítill bær, það er að staðir sem ég hélt að væru lengst í burtu eru í göngufjarlægð. Um kvöldið ákvað ég að ganga upp gilið til að komast á skólasvæðið þar sem kvöldverðarboðið var haldið og þetta er gilið margumtalaða (Cascadella Creek) - fyrri myndin er tekin í miðju gilinu og sú síðari rétt áður en lokaprílið upp bratta stiga hefst (alls tekur það mig svona fimmtán til tuttugu mínútur að fara upp gilið).

Ég var frekar ódugleg að taka myndir í kvöldverðarboðinu, var miklu duglegri við að tala og lét meira að segja platast til að fara upp á svið og syngja - huggaði mig við það að enginn þarna kunni Sofðu unga ástin mín svo ef ég var fölsk tók (vonandi) enginn eftir því ;p En þar sem afkastameiri myndasmiðir ætla að deila myndum sínum með okkur síðar hef ég engar áhyggjur. Hérna er mynd af hópnum okkar - reyndar vantar Al - en í efri röð frá vinstri eru Soo, Kinjal, Maria (kennarinn), ég og Catalina og í neðri röðinni eru Remus, Raúl, Turan, Adna og Ravishankar. Vegna vanstillingar á myndavélinni er þessi mynd ekkert mjög falleg og ég er miklu hrifnari af þessari hér - hún er líka miklu óformlegri. Með þessum hluta hópsins fór ég svo að leita að stjörnuhröpum, en þau eiga víst að vera tíð á þessum árstíma. Við fundum reyndar engan nógu dimman stað til að sjá almennilega til en lágum á endanum í hálftíma í döggvotu grasi horfandi upp í himininn og blótuðum götulýsingum og bílum. Ég sá reyndar ekkert hreyfast nema flugvélar en aðrir voru heppnari.

Í dag var svo síðasti dagur námskeiðsins, svona rétt eftir að hópurinn small almennilega saman en við ætlum að reyna að halda sambandi og erum komin með póstlista og ætlum öll að hittast á föstudaginn í Rauðu hlöðunni. En síðustu kennslustundinni lauk á hlutverkaleikjum, þar sem okkur var skipt í hópa og átti hver fyrir sig að leika tvö atriði, annað með góðum kennara og hitt með slæmum kennara. Ég lék góðan kennara sem var ekkert gaman þar sem að allt fúttið var í slæmu hlutunum - koma of nálægt nemendum og jafnvel snerta þá, mismuna þeim eftir kynferði og reka út úr stofunni. Slæmu kennararnir fóru alveg á kostum - þetta var svo tekið upp (alveg gífurleg árátta hjá þeim að taka allt upp hérna) og kennarinn okkar ætlar að sýna okkur þessar upptökur á þakkargjörðarhátíðinni, en hún er búin að bjóða okkur í svona alvöru amrískan mat þá.

Á morgun lýkur svo einveru minni hér - kettinum vafalaust til mikillar gleði - en þá kemur sambýlingurinn minn heim og ég vona bara að okkur eigi eftir að lynda vel. En miðað við bækurnar hennar og dvd-diskana höfum við tiltölulega líkan smekk á mörgu. En þetta er kisan Baby sem er næstum búin að klóra alla málninguna af herbergishurðinni minni. Og til að ljúka myndasyrpunni þá er hérna íkorni í ætisleit fyrir utan bókasafnið. Hér er aragrúi af íkornum úti um allt - í fyrsta skipti sem ég sá slíka veru varð ég mjög upprifin og fékk lagið um Brúsk á heilann, en núna pæli ég ekki lengur í þeim.

þriðjudagur, ágúst 14, 2007

úff & púff

Mér tókst að næla mér í einhverja smápest. Var með verk á bak við augun og í höfðinu í allan dag og var skítkalt þrátt fyrir að vera í peysu í 25 stiga hita. Auðvitað var það á degi þar sem ég þurfti að vera í tímum á milli níu og hálf fimm enda fór ég að því loknu beint heim og upp í rúm (sem mig dreymdi um í allan dag) og tókst að sofa í fimm tíma eða þar til sísvangi kötturinn vakti mig með væli og hurðarklóri. Mér líður töluvert skár núna og vona að ég geti sofið þetta úr mér í nótt, þó svo að það að sofna aftur hafi reynst aðeins erfiðara en ég hugði.

Myndir eru væntanlegar fljótlega - er búin að setja myndavélina í skólatöskuna og ætla að vera dugleg að smella af á morgun, sérstaklega þar sem þá verður spes kvöldverðarboð fyrir okkur aumingjans útlendingana. Og kannski kemur þá líka frásögnin af sjö tíma búðarápi í „klasanum“ á laugardaginn (þar sem æsispennandi verðsamanburður á sængum og koddum, árangurslaust áreiti á símafyrirtæki og kennslustund í suðuramerískri tónlist og menningu voru á meðal dagskrárliða) og einlægu gleðinni þegar ég fann minn gamla kunningja Aldi og múslístykkin sem ég lifði á í Þýskalandi og kannski smákveinstafir yfir því að það virðist vera næstum ómögulegt að kaupa fisk hérna nokkurs staðar í bland við kvart um fábreytni í matsölum skólans (enn sem komið er hef ég ekki séð annað en hamborgara, pítsur, samlokur og súpur) og hugsanleg afhjúpun á uppáhaldsstaðnum mínum á skólalóðinni þessa dagana.

Og svo ég hætti kannski að bulla og fari að sofa þá fann ég góðkunningja mína á youtube - fæ aldrei leið á þessum tveimur (hvort sem um er að ræða persónur eða leikendur). Góða nótt :o)

laugardagur, ágúst 11, 2007

ithaca is gorges

Jæja, þá hef ég verið hérna í rúma viku, sem mér finnst reyndar stórskrýtið því á þeim tíma hefur svo margt gerst og ég hitt svo margt nýtt fólk að það virðist vera mun lengri tími.

Kennslufræðitímarnir ganga mjög vel. Við erum fjörutíu í allt og erum í einum sameiginlegum tíma klukkutíma á dag en í tíu manna hópum fjóra tíma á dag. Hópurinn sem ég er í er mjög skemmtilegur og við náum ágætlega saman þrátt fyrir að vera frá flestum heimshornum en fyrir utan mig er þar fólk frá Indlandi (Kenjal og Ravishankar), Rúmeníu (Remus og Catalina), Suður-Kóreu (Soon), Pakistan (Adna), Púertó Ríkó (Raúl), Marokkó (Al) og Tyrklandi (Turan). Í þeim tímum erum við að læra hvernig við eigum að kenna og hvernig við eigum að halda athygli nemenda með mismunandi námsþarfir. Í gær áttum við að kenna í tíu mínútur hvert og fengum svo umsögn um hvernig við hefðum staðið okkur bæði frá kennaranum og hinum nemendunum. Herlegheitin voru tekin upp svo við fengum líka þá ánægju að sjá okkur á sjónvarpsskjá. Ég fékk tvær athugasemdir við kennsluna mína (sem var um hljóðvörp í þróun frumnorrænu yfir í forníslensku í mjög einfaldaðri mynd og lét ég nemendurna breyta orðum fram og til baka til að fá þá til að taka virkan þátt í tímanum), önnur var þessi klassíska að ég talaði ekki nógu hátt - ég veit ekki af hverju en það er eins og ég skynji ekki tónhæðina almennilega þegar ég tala, en vonandi tekst mér að laga það - hin var að ég væri of langt frá bekknum og ætti að koma alveg upp að nemendum, sem er nokkuð sem mér finnst mjög óþægilegt að kennarar geri þegar ég er nemandi og á því erfitt með að gera sem kennari.

Í dag rigndi svo - og það var notalega svalt (bara 18 gráður og engin sól) - svo ég ákvað að ganga í skólann í úðanum í morgun í stað þess að taka strætó upp hæðina. Ég prófaði meira að segja nýja leið, að ganga upp gil sem sker hæðina - það var stórfenglegt og svo fallegt að ganga þarna meðfram á og hvítfyssandi flúðum (mér brá reyndar svolítið þegar ég sá á einum stað, hinum megin árinnar tjaldhimin og steinsofandi mann undir honum). Reyndar var það hörkupuð þó að gangan hafi bara tekið tuttugu mínútur. Gil eins og þetta eru meðal einkenna borgarinnar og úti um allt er hægt að sjá boli og límmiða með áletruninni Ithaca is gorges, sem er orðaleikur því gorges þýðir gil en er borið fram eins og gorgeous (og út frá þessu er líka til áletrunin Ithaca is not George's). Á leiðinni heim gekk ég svo niður gilið og það var einhverra hluta vegna talsvert auðveldara ;o)

Eftir að hafa hlustað á tvær stelpur úr hópnum mínum tala um hvað þær væru svo rosalega uppteknar við námið (áður en skólinn byrjar!) að þær gerðu ekki neitt nema að mæta í þessa tíma og læra var ég orðin svolítið smeyk um að enginn hérna hefði áhuga á félagslífi og ég myndi ekki kynnast neinum af því hvað allir væru uppteknir (og þegar ég er farin að hafa áhyggjur af skorti á félagslífi er örugglega eitthvað að). En í dag var TGIF (tell grads it's friday) á milli fjögur og sjö í Stóru rauðu hlöðunni (Big Red Barn), sem er eins konar félagsmiðstöð nemenda í framhaldsnámi, og ég mætti þangað hálfuggandi yfir því að þekkja kannski engan - en þá sat meirihlutinn af hópnum mínum við borð úti í horni og veifaði um leið og ég kom holdvot þangað inn (því þá hafði rigningin aukist til muna og ég og sumarfötin mín urðum rennandi blaut við það að ganga frá bókasafninu - svo mjög að þegar ég kom inn var Víetnaminn tveir-einn að fara út og bauð mér regnhlífina sína til að hafa á bakaleiðinni, þó svo að hann væri lítt betur klæddur - ég afþakkaði gott boð, sem betur fer því þegar ég fór heim hafði stytt upp og ég hefði fengið samviskubit yfir því að vera með regnhlífina hans). Þetta er í fyrsta skipti sem ég hitti þetta fólk utan kennslustofunnar og umræðuefnin voru ótalmörg og ég vona bara að það að hitta þau verði vikulegur viðburður (því kennslufræðitímarnir eru bara út næstu viku).

Og talandi um þá tíma, þá fór ég í viðtal á þriðjudaginn og þær sem sáu um það (sömu konur og sjá um daglega klukkutímatímann) reyndust báðar hafa komið til Íslands og vildu endilega fá að vita allt sem ég vissi um Magna og Svanhildi Hólm (sitt í hvoru lagi reyndar, þó svo að sögur af þeim saman væru örugglega áhugaverðar) - ég tek það fram að þær minntust á þau að fyrra bragði og vildu vita hvað þau væru að gera núna eftir fimmtán mínútna frægð í Bandaríkjunum.

mánudagur, ágúst 06, 2007

montag

Í dag fór ég á kynningarmorgunverðarfund fyrir útlenska aðstoðarkennara og verðum við á námskeiði um hvernig eigi að kenna næstu tvær vikurnar. Við erum um það bil fjörutíu sem erum ný og komum frá 15 löndum. Á sama borði og ég sátu Sví, Ísraeli, Víetnami, Indverji, Marokkóbúi, Púertóríkani og Kínverji og virkuðu frekar notaleg öllsömul. Í heildina virtust flestir vera frá Kína og mér heyrðust allir nema ég vera í raungreinadeildum, aðallega í verkfræði og tölvunarfræði.
Við fengum það sem kallast American continental breakfast og samanstóð hann af ávöxtum, kaffi og sætabrauði (það síðastnefnda myndi ég seint kalla morgunverð, allavegana ekki staðgóðan ;p).

Áður en námskeiðið hefst formlega á morgun eftir hádegi eigum við öll viðtalstíma við þá sem eru yfir útlendingakennslunni, þar sem við erum spurð um hvað við ætlum okkur með náminu og hver bakgrunnur okkar sé og eigum að kenna í fimm mínútur til sýnis. Samkvæmt leiðbeiningunum eigum við að velja eitthvað eitt atriði í því sem við munum kenna og útskýra það. Ég ætla að tala um föll í íslensku, þó svo að ég sé alls ekki viss um að geta gert þeim almennilega skil á fimm mínútum (miðað við það pláss sem var tekið í að útskýra föll í ensku latínukennslubókinni sem ég var með í menntaskóla - það var reyndar alveg stórfengleg lesning svona þegar maður fallbeygir án þess að hugsa út í þetta). Minn viðtalstími er ekki fyrr en í fyrramálið svo ég fór með Kínverjunum og opnaði bankareikning og rölti svo um með kínverskri stelpu og eftir að hafa villst þónokkuð (sem er mjög auðvelt, aragrúi af byggingum á svæðinu) römbuðum við að lokum á Collegetown, sem er bæjarkjarni ofarlega á hæðinni sem skólinn stendur á og eiginlega „hinn“ miðbærinn í borginni.

Það eina sem skyggir á veruna hér er að hér er enn alltof heitt og rakt fyrir minn smekk (á örugglega eftir að kvarta yfir kulda von bráðar). Í dag var hátt í þrjátíu stiga hiti og mikill raki í loftinu, reyndar er lofað rigningu á miðvikudaginn en morgundagurinn á víst að verða verri en dagurinn í dag. Skólinn stendur uppi á hárri hæð og þó svo að ég hafi tekið strætó upp hæðina er svæðið mjög mishæðótt þarna uppi, sem í þessum hita gerir mann alveg úrvinda, en það venst og ég verð örugglega komin í hörkuform af öllu þessu príli von bráðar :o)

sunnudagur, ágúst 05, 2007

kattavandi

Ég er farin að halda að ég sé heimsins versti kattapassari. Ég hélt að þetta yrði ekkert mál, bara að gefa kettinum að éta og skipta um sand reglulega. En nei, kötturinn vill líka stöðuga athygli og klapp og knús - hefur greinilega hundleiðst þennan hálfa mánuð sem hann hefur verið einn heima og þráir félagsskap. Ég hins vegar er ekkert gefin fyrir ketti - allavegana ekki í návígi - og þeir kettir sem ég hef komist næst að umgangast er tríóið hennar Gunnhildar og þeir vilja sko ekkert leyfa mér að snerta sig. En þessi eltir mig nú á röndum þegar ég er heima og þegar ég er inni í herbergi stendur kisan fyrir utan dyrnar og mjálmar og vælir og ég er með virkilegt samviskubityfir að hunsa hana svona. Ég hef samt reynt að klappa henni eitthvað og tala við hana en það er greinilega ekki nóg - hvað á maður til dæmis að gera þegar köttur veltir sér á bakið og iðar út öllum skönkum? Klappa eða klóra eða bara forða sér?

Og fyrst þetta er orðinn dýrapóstur, þá var ég í stórmarkaði áðan og þar var leðurblaka sem hafði villst og flaug um allt þar til einhver náði að lokum að fanga hana í inkaupakörfu. Það var frekar skondin sjón að horfa á þann eltingarleik.

laugardagur, ágúst 04, 2007

Fyrirheitna landið

Þá er ég komin á áfangastað og búin að koma mér smávegis fyrir, meira að segja kaupa smá í matinn í lífrænni búð (sem er víst eina búðin sem er í göngufæri frá mér) meðal annars íslenskt vatn í flösku, ligg núna uppi í rúmi og hlusta á svona útlandakvöldhljóð, ég held að þetta sé tíst í einhverjum skordýrum (krybbur heyrði ég einhvern tíma). Fyrir utan herbergisdyrnar vælir köttur, ég lenti nefnilega óvart í því að verða kattapassari fyrir meðleigjanda minn meðan hún er í burtu. Aumingja kisan hefur verið ein svo lengi að hún vill mikla athygli og klapp. Sem væri allt í lagi nema að ég verð að passa mig rosalega að þvo hendurnar á mér ef ég klappa ketti svo hárin valdi ekki ofnæmisviðbrögðum. Núna vælir hún af því ég vil ekki leyfa henni að sofa í rúminu mínu og ekki hleypa henni inn í herbergið mitt (og nú veit ég að allt kattafólkið sem ég þekki er að hugsa hvað ég sé nú vond).

Ferðasagan var furðuviðburðalítil. Flugið var alltof langt en röðin í vegabréfseftirlitinu var samt lengri þó svo að hún hafi „bara“ tekið klukkutíma þá hlykkjaðist hún svo mikið að ég hélt alltaf að hver hlykkur væri sá síðasti. Engar athugasemdar voru gerðar við áritunina mína og ég þurfti ekki að sýna neina aukapappíra.

Þá tók við biðin langa - þar sem ég ákvað að hanga frekar á flugvellinum um nóttina til að vera viss um að ná flugvélinni frá Sýrakúsu en fara á hótel og slappa almennilega af. Þess í stað kynntist ég Terminal 4 á JFK alveg einstaklega vel. Hvar hver búð er og skyndibitastaður, hversu lengi fram eftir staðirnir eru opnir, hvar eru sæti og af hvaða gerð og í hvaða sætum var best að sofna. Fólk lá þarna úti um allt, á stólum, bekkjum og gólfinu sjálfu. Mér tókst að festa blund ótal oft en hrökk oftast upp eftir smástund. Annars var mjög gaman að sitja og horfa á mannlífið í flugstöðinni. Ég sá meðal annars Amish-fólk og hermenn í sandfelulitum með riffla og alveg augljóst að þeir höfðu sloppið við vopnaeftirlit.

En ég náði vélinni daginn eftir og þótt mér hafi fundist ég ætla mér of mikinn tíma í að komast í gegnum allt fyrir innanlandsflug (tvær klukkustundir) þá mátti ekki tæpara standa. Vélin tafðist svo á flugbrautinni og varð því næstum klukkutímabið og önnur taskan mín hafði gleymst á JFK - en sem betur fer fannst hún og var komið með hana til mín. Ég velti reyndar fyrir mér hvort forlögin væru að senda mér skilaboð með því því að í þeirri sem týndist um tíma voru flestallar bækurnar mínar en í hinni áfengið og sælgætið sem ég keypti í fríhöfninni. Vinur stelpunnar sem ég leigi með kom og sótti mig á flugvöllinn þar sem hún er í útlöndum. Hann var mjög hjálpsamur, lét mig hafa lykla og fór svo með mér á skrifstofu málvísindadeildarinnar til að ég gæti kynnt mig fyrir konunum sem vinna þar og bauðst til að fara með mig í alvöru matvörubúð á morgun.

Ég hitti líka leigusalann sem er líklega á sjötugsaldri, fyrrverandi lögfræðingur, sem er núna hálftannlaus, en á víst glás af svona íbúðum sem hann leigir út til nemenda. Hann virkaði frekar notalegur í umgengni. Íbúðin er hins vegar frekar hrörleg og illa máluð og skrýtin, en ég held ég venjist því bara. Annars er umhverfið hér í kring ótrúlega fallegt og þar sem skórinn stendur á hæð gnæfir hann yfir öllu eins og kastali.

Að frátöldum skrykkjóttum smáblundum í flugvélum og á flugvellinum þá man ég varla hvenær ég svaf síðast en finn hvernig Óli lokbrá sækir á. Góða nótt.

fimmtudagur, júlí 19, 2007

síðasti kaflinn

Mér finnst óneitanlega svolítið skrýtið að hugsa til þess að á morgun kemur síðasta Harry Potter bókin út. Það eru komin rúm átta ár síðan ég las fyrstu þrjár bækurnar í rykk eftir að hafa lesið umfjöllun um nýútkomna þriðju bókina í ensku dagblaði, þar fengu bækurnar svo mikið lof að ég fór út í næstu bókabúð og keypti fyrstu bókina til að afsanna það. En í staðinn féll ég fyrir þeim og þótt þetta séu í grunninn barnabækur þá er svo margt við þær, húmor, spenna (sérstaklega í síðustu bókunum), skemmtilegar persónur og alveg óendanlegir möguleikar til að pæla í hvað muni gerast næst og hvernig persónur muni þróast eða í hvaða nýju ljósi þær geta birst. En það sem að mér þykir best við bækurnar er að ég verð aftur lítil þegar ég les þær, því þá höfðu allar bækur (næstum sama hversu illa þær voru skrifaðar) ákveðinn ævintýraheim að geyma sem hægt var að gleyma sér fullkomlega í. Með aldrinum og (vonandi) sífellt gagnrýnni hugsun þá verður erfiðara að finna bækur sem hafa þennan sjarma.

Ég er reyndar ekki hrifin af þessu Potter æði, fannst miklu skemmtilegra að eiga bækurnar „ein“, en þegar ég kom heim með þær í farteskinu haustið 1999 hafði varla nokkur heyrt talað um þær. Samt ætla ég að kíkja á raðastemninguna annað kvöld (eða eiginlega í kvöld þar sem það er komið fram yfir miðnætti) og kannski lauma mér í eina klukkan ellefu og kaupa eintak. Það verður þó örugglega mjög skrýtið að lesa þessa síðustu bók en vegna meðfæddrar forvitni dettur mér ekki í hug að mér takist að treina mér lesturinn neitt.


Niðurstaðan úr þessu prófi hér að neðan er frekar jákvæð, en sjáum til hvernig ástandið verður eftir ár ;p

You Have Not Been Ruined by American Culture

You're nothing like the typical American. In fact, you may not be American at all.
You have a broad view of the world, and you're very well informed.
And while you certainly have been influenced by American culture (who hasn't?), it's not your primary influence.
You take a more global philosophy with your politics, taste, and life. And you're always expanding and revising what you believe.

þriðjudagur, júlí 17, 2007

blaðalestur

Áðan fékk ég mjög svo skemmtilegt símtal. Í mig hringdi maður frá Gallup og vildi kanna dagblaðalestur minn. Fyrst spurði hann mig um hversu oft ég hefði flett Mogganum undanfarna viku, ég varð nú að viðurkenna að það hefði verið sjaldan, síðan spurði hann um Fréttablaðið og ég sagðist fletta því svona þrisvar til fjórum sinnum í viku í fimm til tíu mínútur í senn (eða sem samsvarar því að byrja aftast og hraðlesa allt fram að teiknimyndasögunum, snúa blaðinu svo við og líta yfir fyrirsagnir og lesa þær fréttir á fremstu síðunum sem vekja áhuga minn). Blaðið lít ég svo nánast aldrei í - hef samt ekkert á móti því, það er bara ekki á ratsjánni.

Þá var ég spurð hvort ég læsi DV daglega, ég játti því, og þá hvað lesturinn tæki langan tíma í hvert sinn og svaraði ég því til að oft væru það á bilinu sjö til níu klukkustundir. Til skýringar bætti ég svo við að ég ynni við að prófarkalesa það og þess vegna færi svo mikill tími í lesturinn. Maðurinn hló bara að því og skráði að ég læsi DV í meira en klukkutíma á dag (hæsti flokkurinn). Það hífir vonandi meðaltal á lestri blaðsins eitthvað upp - spurning hvort þetta sé samt ekki smá svindl.

mánudagur, júlí 16, 2007

meiri málfasismi (eins og sumir myndu orða það)

Þetta blogg stefnir óðum að því að verða málfarsnöldurblogg. Þessa dagana fer það nefnilega alveg ógurlega í taugarnar á mér þegar talað er um myndirnar Pan's Labyrinth, The Life of Others og Science of Sleep. Ekki það að myndirnar eigi ekki umfjöllunina skilið heldur finnst mér það afkáralegt að þegar talað er um spænskar, þýskar og franskar myndir á íslensku séu enskir titlar þeirra notaðir (versta dæmið var þó þegar danska myndin Gamle mænd i nye biler hét á Íslandi Old Men in New Cars). Það væri miklu eðlilegra að að nota heiti þeirra á frummálinu eða bara íslensku þýðinguna, algjör óþarfi að nota enska titilinn. Þessi tilhneiging til að nota ensku minnir svolítið á dæmið um Richard Clayderman - en nafn hans er iðulega borið fram upp á enskan máta þótt þýskt sé (Ritsjard í stað Rihjard). Kannski er enska í augum margra hin nýja latína, allt verður miklu flottara og fræðilegra á þeirri tungu.

Ég vildi líka gjarnan að heiti á enskum og bandarískum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum væru oftar íslenskuð, svona eins og var í gamla daga, þegar allt var þýtt (meira að segja Koppafeiti). Það er nefnilega miklu skemmtilegra að tala um Staupastein, Steinaldarmennina, Hver á að ráða?, Fyrirmyndarföður og Prúðuleikarana en Cheers, The Flintstones, Who's the Boss, The Cosby Show og The Muppet Show. Þó að RÚV haldi sig vissulega fast við það kerfi er það ekki nóg, því Stöð 2 og Skjár einn eru á góðri leið með að sleppa því að nota íslensku þegar kemur að dagskrárkynningum. Ég get upp að vissu marki (mjög takmörkuðu þó) skilið rökstuðninginn fyrir því að eingöngu ensku heitin séu notuð þótt mér finnist það ekki fallegt - en þegar ég sá á Skjá einum þætti um Hróa hött, sem bera ekki einungis heitið Robin Hood, heldur er aðalpersónan í íslenskum undirtexta nefnd Robin en ekki Hrói (og það sama gilti um nöfn annarra persóna), þá slökkti ég á tækinu af hneykslun ;o)

fimmtudagur, júlí 12, 2007

jamm

Það er óneitanlega skrýtin tilhugsun að eftir þrjár vikur fer ég og kem ekki aftur til landsins fyrr en um jólin. Mér hefur alltaf fundist svo langt í brottförina, en þrjár vikur eru víst fljótar að líða og ekki síst þegar tekið er tillit til alls sem ég á eftir að gera. Af minni alkunnu skipulagssemi er ég þó búin að gera lista yfir allt sem er ógert (og hann er langur), en lengra hefur það ekki náð. Enda sló það mig ekki fyrr en um síðustu helgi að ég sé í raun að fara, því þá byrjaði ég að kveðja fólk sem ég á eftir að sakna. Gunnhildur stakk af til Þýskalands með Lóu og kemur ekki fyrr en eftir að ég fer svo ég sé hana ekki fyrr en í desember (en ég mæli með blogginu þeirra). Afi og amma eru fyrir vestan og ég fer líklega ekki aftur þangað fyrr en í fyrsta lagi um jólin.

Annars var dvölin á Ísafirði í hæsta máta yndisleg og hefði að ósekju mátt vara lengur en í fjóra daga. Ég fór þangað með mömmu og tíminn leið við heimsóknir, bókalestur og algjöra afslöppun, helstu „áhyggjur“ hvers dags fólust í því hvað ætti að skoða þann daginn, hvaða bók ætti að lesa næst og hvað ætti að hafa í kvöldmatinn. Alveg hreint dásamlegt þegar hægt er að skilja allt stressið eftir í bænum og njóta bara lífsins.

Og ekki má gleyma hinni stórgóðu stjörnuspá dagsins: Meyja: Það eyðileggur fyrir þér að vera tilfinningasamur í þeim verkefnum sem nú fara í hönd. Þau eru mjög mikilvæg - þú gætir bjargað alheiminum. Kannski eins gott að drífa í að gera eitthvað af því sem er á listanum góða ;o)

fimmtudagur, júní 28, 2007

orð & bækur

Ég varð áðan virkilega fúl út í þá útgáfu orðabókarinnar sem við notum við vinnuna og gengur stundum undir gælunafninu Mörður. Hún gefur upp að það megi segja versla eitthvað þegar sú regla sem ég hef alltaf heyrt að sé algild og ég nota og passar við málkennd mína er að maður verslar einhvers staðar en kaupir eitthvað. Þetta er samt ekki í fyrsta skipti sem bókin ergir mig, því samkvæmt henni má, þvert á allar reglur sem ég hef lært, skrifa snéri í stað sneri og samrýmdur í stað samrýndur og margt fleira sem ég nenni ekki að telja upp núna en hefði leitt til rauðra strika hefði ég skrifað það á stafsetningarprófi eða í ritgerð.

Annars er ég að lesa alveg yndislega bók núna sem heitir Lost for Words - the Mangling and Manipulating of the English Language eftir John Humphrys sem er víst frægur á Englandi og hefur unnið sem pistlahöfundur í dagblöðum og verið þáttastjórnandi og fréttaþulur á BBC. Maðurinn er meinfyndinn og gerir grín að alls kyns ambögum sem hafa rutt sér til rúms í ensku. Ekki síst þegar fólk tekur upp á því að flækja einfaldan orðaforða og orðanotkun af því að það heldur að það sé fínt. Margt af því sem hann talar um má auðveldlega heimfæra upp á íslensku, þó svo að við virðumst vera komin mun styttra eftir þessum vegi til glötunar en Englendingar ;o)

Talandi um bækur, þá er ég farin að efast um raunveruleikaskyn mitt. Ég hikstaði ekkert á því að lesa bók um daginn sem fjallaði um galdramenn, vampírur, álfa og uppvakninga (þar af einn risaeðluuppvakning) á götum Chicago en átti í mesta basli með að samþykkja trúverðugleika bókar sem ég las nokkrum dögum síðar og fjallaði um kvenlögfræðing frá London sem fann lífshamingjuna í því að verða ráðskona í litlu sveitaþorpi og læra að þrífa og elda (reyndar fékk hún að liggja í sólböðum á milli og tæla garðyrkjumanninn).

Núna er svaka stuð í bakgarðinum hjá mér. KR og Fram eru að spila og á KR-vellinum er sko hitað almennilega upp með alls kyns slögurum og hátalarakerfið stillt svo hátt að glymur í hverfinu og svo sungið og hrópað og púað á meðan á leiknum stendur. Verst að ég sé ekki almennilega á völlinn héðan en stemningin skilar sér fullkomlega.

þriðjudagur, júní 19, 2007

villur

Ég grínaðist á tímabili oft með það að hið fullkomna starf fyrir mig væri að fá borgað fyrir að lesa. Sá lestur sem ég hafði í huga var svo sannarlega ekki prófarkalestur (enda var þetta áður en ég vissi að það væri atvinnugrein og löngu áður en ég uppgötvaði að það væri ekki skilyrði fyrir blaðamenn að vera góðir í íslensku), heldur bækur mér til skemmtunar. Ég komst næst því hluta úr sumrunum þegar ég var 16 og 17 og vann á skiptiborði, því þegar lítið var að gera gat ég nýtt vinnutímann í lestur.

Þetta sýnir bara að draumar geta ræst allt öðru vísi en ætlað var. Mér líður oft eins og vélmenni í vinnunni, lifandi villuleitarforrit, og það hjálpar svo sannarlega ekki til að til þess að halda einbeitingu þarf ég að slökkva á meirihluta heilastarfseminnar, sem ég held að sé alls ekki hollt og veldur því að ég er eins og heilalaus ljóska þegar ég þarf að eiga samskipti við fólkið í kringum mig. Sem betur fer verð ég orðin fyrrverandi (ekki fyrrum!) prófarkalesari innan tveggja mánaða.

Einn ljós punktur er þó við starfið og það eru skemmtilegu villurnar, sem oft eru svo fáránlegar og fyndnar að þær geta bjargað deginum. Ég hef alltaf ætlað að safna þeim en það hefur því miður ekki náð lengra en að hripa sumar niður á blað. Við tiltekt í gær fann ég svo nokkur þessara blaða og hér eru því dæmi um nokkrar góðar villur.


„Í eigu auðkylfingsins Donalds Trump.“

„Plantan festi hljómsveitina í sessi.“

„Þættirnir hafa fengið góða góma vestanhafs.“

„Ef hann hefði svikið hana á altarinu.“

„Býður upp á nýbreytni frá grillmat og kjötiðnaðarvörum.“

„Hann kemst í sögubrækurnar.“

„Hún elskar andlega þenkjandi bækur.“

„Hins vegar nýtast bökunarkartöflurnar sem komu heim úr bústaðnum um helgina.“

„Hún skar sig út á verðlaunapallinum.“

„Og foreldrum er ekki lengur heimilt að skíra börn sín í höfuðið á japönskum bílum.“

„Að lokum rennið mjúkum kolablýanti inn í augað.“

„Ranía drottning Jórdaníu sameinaðist Hollywood-leikkonunni Reneé Zellweger í síðasta mánuði.“

„Hún vekur athygli hvar sem hún fer vegna glæsileika síns og mannúðarmálanna sem hún framfylgir af ástríðu.“

„Uma kvæntist Ethan.“

„Í þrotabúi hundaræktarinnar.“

„Þar á meðal fyrrverandi forseti Íslands, frú Vigdís Grímsdóttir.“

föstudagur, júní 15, 2007

andvaka

Ég held að Pavlov væri ekki ánægður með mig núna. Þrátt fyrir að eiga að búa yfir meiri rökhæfni en hundarnir hans virðist ég bara ekki geta lært af reynslunni og tengt saman orsök og afleiðingu. Ég á nefnilega ekki að drekka kaffi, virðist bara alls ekki þola það, ekki nóg með að koffín fari illa með húðina heldur veldur það líka andvökum (líkt og núna), ég tala nú ekki um þegar ég asnast til að drekka meira en einn bolla á dag.

Þó að kaffiþolið sé lítið vil ég bara svart, sykurlaust, rótsterkt kaffi og það hjálpar reyndar mjög við að halda einbeitingu í þessari tilbreytingalausu vinnu minni. Ef ég drykki ekki kaffi þá myndi ég að öllum líkindum sofna eða hætta að taka eftir textanum fyrir framan mig. Hins vegar er gjaldið fyrir þann lúxus hátt, að vera andvaka er ekkert gaman. Fátt uppbyggilegt hægt að gera á meðan maður reynir að sofna, sérstaklega þegar með hverri mínútunni sem líður styttist í fótaferðatíma. Með litlum svefni eykst líka þörfin á kaffi að morgni til að vakna og halda einbeitingu og þannig heldur vítahringurinn áfram og aldrei man ég eftir bölvun koffínsins fyrr en of seint.

Hins vegar getur verið að ég mistúlki kenningar Pavlovs hér að ofan og sé bara orðin svo hundhlýðin að það að vinna jafngildi því að drekka kaffi. Sumsé að þegar ég sest við tölvuna er eins og bjöllu sé sveiflað og ég hleyp (slefandi?) og næ mér í bolla af kaffi.

miðvikudagur, júní 06, 2007

ekki leiðum að líkjast

Rakst á þetta og mundi að það er alltof langt síðan ég hef tekið svona skemmtipróf og örugglega enn lengra síðan ég hef sett niðurstöðurnar hér inn ;o) Af eðlislægri forvitni þætti mér gaman að vita hvaða plötum þið líkist, svona fyrst prófið er á mínu „sérsviði“.







Which Beatles Album Are You?

mánudagur, júní 04, 2007

heilaþvottur?

Í nótt dreymdi mig að ég væri á leiðinni í atvinnuviðtal og bað því fyrrverandi yfirmann um meðmæli. Hann var upptekinn í símanum en rétti mér gulan post-it miða sem á stóð: „Ekki láta heilaþvo þig.“ Einhverra hluta vegna finn ég ekkert sem gæti skýrt viðvörun við heilaþvotti á draumráðningasíðum á netinu en að dreyma yfirmann táknar víst annaðhvort mikið sjálfstraust og trú á eigin getu eða takmörk og skort á frelsi og tækifærum til sköpunar.

Á föstudaginn fékk ég tvö gluggaumslög frá Reykjavíkurborg. Í því sem ég opnaði fyrst var launaseðill fyrir kosningarnar og í smástund gladdist ég og íhugaði hvernig ég ætti að eyða peningunum eða alveg þar til ég opnaði hitt umslagið. Í því var ég rukkuð um fasteignagjöld. Að frádregnum sköttum af laununum þá skiptum við borgin nánast á sléttu - hún heimtaði þó aukalega 236 krónur af mér.

föstudagur, júní 01, 2007

oflof eða hreinræktað bull?

Ég bara verð að deila stjörnuspánni minni á mbl.is í dag með ykkur. Ég veit ekki hver semur þetta, en nú finnst mér bullið vera komið út í öfgar eða þá að einhver hefur ruglast rækilega í orðabókarþýðingunni. Í það minnsta hef ég aldrei fyrr heyrt talað um guðdómlega, stórkostlega djúpvitrar tilfinningar. Líka spurning hvort að tilfinningar geti verið vitrar, er ekki vitið til þess skapað að hafa hemil á tilfinningunum? En svo gæti þetta líka fallið undir flokkinn oflof er háð.

Meyja: Falleg saga, von og bjartsýni - klisja eða ekki - þú hefur mikið að gefa. Tilfinningarnar sem hrærast með þér eru guðdómlega, stórkostlega djúpvitrar.

föstudagur, maí 18, 2007

Klaufaskapur og annað skemmtilegt

Ég er hrædd um að ég hafi hugsanlega orðið mér úti um nýtt ör áðan. Var að taka mat út úr ofninum og tókst einhvern veginn að snerta efri brún brennheitrar, innanverðrar ofnhurðarinnar með handarbakinu. Þrátt fyrir að hafa strax látið buna ískalt vatn á handarbakið (af hverju gerir maður það annars?) þá er þar nú rauðfjólublár flekkur sem mig logsvíður í og upphleypt rönd hefur nú þegar myndast. Ojæja, í versta falli fölnar það með tímanum, allavegana er það reynslan - nefnilega ekki í fyrsta skipti sem ég brenni mig á svona skaðræðisgrip.

Og núna er verið að búa til nýja ríkisstjórn, ég er alveg ískyggilega skoðanalaus í þessu öllu. Var samt að vonast eftir meiri sirkus í kringum þetta allt saman. Þrátt fyrir vandann með að gera upp hug minn fyrir kosningarnar þá tók ég samt virkan þátt í þeim, var nefnilega að telja atkvæði í Reykjavík suður. Úlla var í skipulagningu og fékk mig, Unu, Ingu, Gunnhildi og Bigga í talninguna. Það var virkilega gaman og mikil stemning og vel gert við okkur, sérstaklega var samt fyndið að vera í innsigluðum sal þar sem var búið að líma fyrir alla glugga og setja planka fyrir allar dyr og hlekkja hurðirnar saman að utan. Við máttum ekki taka símana með okkur inn og vorum því alveg sambandslaus við umheiminn frá sjö til tíu á meðan fyrri hluti atkvæða var talinn (og það var orðið mjög loftlaust þegar innsiglin voru svo rofið klukkan tíu). Við vorum í þeim hóp sem fór yfir atkvæði sem höfðu verið grófflokkuð og athuguðum hvort að bunkarnir væru ekki allir með sama flokknum kjörnum og tíndum út vafaatkvæði. Ég sá að mestu um að skoða seðla merkta Frjálslynda flokknum og Íslandshreyfingunni og var hissa á þeim fjölda atkvæða sem þeir flokkar hlutu, en fjallið með atkvæðum greiddum Sjálfstæðisflokknum var óhugnanlega stórt í samanburði og voru þrír í því að fara í gegnum þau atkvæði og andvörpuðu sumir sáran yfir því magni. Una öðlaðist svo fimmtán mínútur (eða að minnsta kosti fimm) af frægð þegar hún sást greinilega á hægri hönd þess sem las upp atkvæðin í sjónvarpinu.

fimmtudagur, maí 10, 2007

ugla sat á kvisti

Þó að Kalli og Kobbi sómi sér vel efst á blogginu þá ætla ég að láta þá detta aðeins neðar á síðuna. Ég á nefnilega í svolitlum vanda, vanda sem ég held að hluti þjóðarinnar deili með mér - það verður kosið til Alþingis eftir tvo daga og ég veit ekki hvað ég ætla að kjósa og ekki út af því að ég geti ekki valið á milli tveggja flokka, heldur vegna þess að mig langar ekki til að kjósa neitt af því sem er í boði.

Ég hef kynnt mér flokkana sem í boði eru og skoðað stefnumálin og í raun skiptast flokkarnir í tvennt - stjórnina sem lofar öllu fögru og gerir mikið úr öllu sem hún hefur komið til leiðar og stjórnarandstöðuna sem rakkar allt niður sem stjórnin hefur gert og lofar öllu enn fegra - bara ef þeir komast að kjötkötlunum. Allir flokkar lofa því auknu fjármagni í hitt og þetta OG ætla flestir að lækka skattana líka án þess að gera grein fyrir hvaðan allir þessir peningar eiga að koma - því ef þetta væri svona auðvelt af hverju er ekki búið að gera það fyrir löngu?

Málið er að ég er ekki hlynnt ríkisstjórninni, finnst hafa verið of mikil spilling og tækifærisbúskapur hjá henni. Ég hef reyndar ákveðna samúð með Framsóknarflokknum - aðallega vegna þess að honum er kennt um allt þessa dagana á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er einhverra hluta stikkfrír, en ég vil þá samt ekki í næstu ríkisstjórn - held að það sé kominn tími á breytingar. Hins vegar held ég að stjórnarandstöðuflokkarnir yrðu ekki mikið skárri, allir flokkar virðast bara vilja skara eld að sinni köku og miðað við hvernig stjórnarandstaðan hegðar sér stundum þá virðast margir þar vera betri í því að mótmæla og elta skoðanakannanir en að koma einhverju gáfulegu að.

Það sem ég sakna samt mest úr kosningabaráttunni er að enginn virðist hugsa til lengri framtíðar en fram yfir kosningar. Enginn sem hefur sett fram skýra stefnu um hvað sé Íslandi og íslensku þjóðfélagi fyrir bestu til langs tíma litið. Engar umræður um hvar Ísland verði statt eftir 5 ár, 10 ár, 15 ár í samfélagi þjóðanna. Nánast ekkert er talað um nánara Evrópusamstarf sem er, að ég held, ákvörðun sem þarf að taka fyrr en síðar. Samfylkingin hefur reyndar aðild að ESB á stefnuskrá sinni en reynir að tala sem minnst um það vegna þess að það gæti kostað hana atkvæði. Því á meðan allir hrósa EES-samningnum og segja hann það besta sem fyrir Ísland hefur komið en hins vegar eru fáir sem vilja ganga í ESB vegna þess að það myndi eyðileggja sjálfstæði Íslendinga. Þar með gleymist það að á meðan Ísland er í EES verður það að taka upp allar reglugerðir frá ESB án þess að hafa neitt um það að segja.

Eftir að hafa gefist upp á flokkunum ákvað ég að velja flokk til að kjósa eftir fólkinu sem er í efstu fimm sætum hans, sumsé persónu en ekki flokk. Með þessari aðferð hefði ég getað hugsað mér að kjósa tvo flokka í Reykjavík norður, en þar sem ég bý sunnan Hringbrautarinnar gengur það víst ekki upp.

Því er ég farin að hallast að því að skila auðu, en finnst það einhvern veginn vera vanvirðing við kosningaréttinn, þannig að ég enda eflaust á því að gera ugla sat á kvisti - nema að ég fái hugljómun á næstu tveimur sólarhringum.

******************
Vildi óska að það væri jafnauðvelt að átta sig á pólitík og júróvisjón - en þetta er lagið sem mér finnst flottast þar:

fimmtudagur, apríl 26, 2007

sunnudagur, apríl 22, 2007

vor

Það er greinilega komið vor. Þó nokkrar húsflugur hafa vaknað til lífsins og hreiðrað um sig í stofuglugganum, einhverra hluta vegna vilja þær helst vera á bak við hljómtækin (sem standa í gluggakistunni) af hverju veit ég ekki. Þessir nýju heimilisvinir fara voðalega lítið í taugarnar á mér nema þegar fluguskammirnar sækja í mig, sveima fyrir framan andlitið eða reyna að setjast að á höndum og handleggjum og gefast ekki upp sama hve mikið ég reyni að hrista þær af mér.

Annað sem tilheyrir óneitanlega vorinu eru próf og ég er að komast á þá skoðun að það sé mun erfiðara að semja próf en taka þau, allavegana sit ég hér og reyni að semja próf með frekar takmörkuðum árangri.

fimmtudagur, mars 29, 2007

páskafrí og hættulegt nammi

Ég er komin í páskafrí :o)

Næstum því tvær vikur í frí, reyndar tek ég tvær vaktir á DV í næstu viku (svona til að forða því að ég verði geðveik af aðgerðarleysi ;p). Mér finnst svo margir vera að fara til útlanda í páskafríinu og vildi gjarna vera á leiðinni eitthvert út í buskann, en það fær að bíða betri tíma.

En þetta frí þýðir að nú hef ég tíma til að hitta fullt af fólki og gera eitthvað skemmtiegt. Þannig að það er um að gera að panta tíma strax, svona til að koma í veg fyrir að ég taki voða vel til, bóni öll gólf og jafnvel þrífi eldhússkápana :o)

Annars hef ég uppgötvað mjög hættulegt nammi, svona lakkrísdraumabita - hættan felst í því að þeir hverfa alltof hratt...

mánudagur, mars 26, 2007

alltaf jafnskondið

Ég sá þetta á blogginu hennar Örnu og stóðst ekki mátið. Ég hef séð þetta nokkrum sinnum áður og finnst þetta alltaf jafnfyndið ;o)

fimmtudagur, mars 22, 2007

kvengervðir karlar

Ég var farin að halda að eftir ár í prófarkalestri ættu engar villur að koma mér á óvart lengur, en þar skjöplaðist mér. Í kvöld las ég yfir viðtöl við fjóra karlkyns þjálfara kvennaliða í körfubolta, þegar þeir voru spurðir út í hitt og þetta í sambandi við liðin kvengervðu þeir sig alltaf: "Við erum búnar að vera að spila vel." / "Við erum sjálfar okkar aðalóvinur" og svo framvegis. Mér fannst þetta frekar furðulegt og spurði þann sem tók viðtölin hvort þeir hefðu virkilega allir fjórir talað um sig í kvenkyni og hann sagðist hafa skrifað þetta orðrétt upp eftir þeim.

Þó svo að mér hafi þótt þetta fyndið og femínískt og sýnt hversu mikil samkenndin hjá þeim er, þá ákvað ég að rýja þá kvenleikanum og lagaði allar beinu tilvitnanirnar - í flestum tilvikum var nóg að taka "við erum búnar að" og setja "við höfum" í staðinn. Sem betur fer er ég ekki fylgjandi þeirri reglu að allt skuli hafa orðrétt eftir viðmælanda, ef mér finnst viðmælandi komast klúðurslega að orði breyti ég því - nema ég skilji ekki hvað hann meinar og þá fær hann bara að vera vitlaus á prenti í friði fyrir mér. Annars heyrði ég gott spakmæli í dag um prófarkalestur - að maður ætti að laga villur en ekki gera blaðamenn að betri pennum en þeir væru - hlýtur eiginlega að gilda um viðmælendur þeirra líka.

Stjörnuspáin mín fyrir morgundaginn (fimmtudag) segir að ég eigi að láta vinnuna eiga sig um stund. Því miður held ég að það gangi ekki - ég stefni hraðbyri á vinnualkanafnbótína :o( En það er alveg að koma páskafrí :o)

mánudagur, mars 19, 2007

æsland

Ég var að skoða vefsíðu Framtíðarlandsins og sáttmálann sem þeir vilja að allir skrifi undir. Það er gott og blessað að vilja vernda landið og ég er fullkomlega sammála því að það væri ágætis tilbreyting ef það væri horft til framtíðar þegar stórar ákvarðanir (eins og til dæmis um virkjanir) eru teknar.

Ég hef ekki kynnt mér virkjunarmál nægilega vel til að dæma um gagnsemi/skaða þeirra. Hins vegar (eins illa og það hljómar) er ég með þó nokkra fordóma gegn umhverfisverndarsinnum. Ekki það að ég vilji ekki að umhverfið sé verndað, en mér finnst óneitanlega oft vera mikil hræsnislykt af málflutningi þeirra. Til dæmis virðast flestir þeirra fara allra sinna ferða á einkabílum, því enginn stingur upp á að leggja bílunum og nota strætó eða hjóla/ganga í staðinn (hvað þá að fara á undan með fögru fordæmi). Ég hef heldur ekki tekið eftir því að neinn hafi stungið upp á því að almenningur á höfuðborgarsvæðinu flokki rusl, eins og gert er til dæmis á Ísafirði og gefst vel.

Aðalmálið hjá flestum umhverfissinnum virðist vera að berjast á móti stóriðjustefnu og engu öðru, eins og það sé það eina sem er slæmt fyrir umhverfið. Þeir virðast gleyma öllum "umhverfisslysunum" á höfuðborgarsvæðinu, því það er miklu einfaldara að mótmæla einhverju sem er langt í burtu og sýna fallegar myndir af því, en gleyma því sem skemmt er í túngarðinum. Ekki alls fyrir löngu, einmitt samtímis því að deilurnar um Kárahnjúkavirkjun stóðu sem hæst, þá voru ómetanlegar náttúruminjar - hraunmyndanir sem voru einsdæmi (eða nálægt því) á jarðarkringlunni - skemmdar. Og ástæðan var sú að koma þurfti fyrir risarisastórri IKEA-verslun. Farið var þvert á tilmæli Náttúruverndarráðs en enginn mótmælti því eða lagðist fyrir framan gröfur eða sinnti því yfirhöfuð nokkuð. Af hverju ætli það hafi verið?

föstudagur, mars 16, 2007

tíminn líður hratt...

Skrýtið hvað tíminn getur blekkt mann, liðið hratt og hægt á sama tíma. Mér finnst vikan hafa liðið hratt en samt þegar ég rifja upp hvað ég gerði á mánudaginn, þá er það óralangt í burtu. Kannski hjálpar það tímablekkingunni að ég þvælist þessa dagana á milli fjögurra vinnustaða og sé ekki fram á alvöru frídag fyrr en í páskafríinu, en þá fæ ég alveg fullt af fríi (sem væntanlega og vonandi fer í ritgerðarskrif og aðra slíka óáran).

Reyndar verð ég að viðurkenna að mér finnst að vissu leyti gaman að hafa of mikið að gera, kannski út af því að þá geri ég miklu meira en annars, er duglegri við að hitta fólk og púsla tímanum listavel saman. Gallinn er samt að þetta er mjög þreytandi til lengdar og stundum langar mig bara til að draga sængina upp fyrir höfuð og sofa.

Annars ber það hæst að í gær var loksins haldið frænkukvöld. Það vill svo skemmtilega til að í móðurfjölskyldu minni erum við 14 frændsystkin og á meðan strákarnir eru níu talsins og tuttugu ár á milli þess elsta og yngsta, þá erum við frænkurnar bara fimm og á bilinu 21 til 27. Svo á stefnuskránni er að hittast reglulega. Það hefur gengið svona upp og ofan, en í gær var sumsé frænkukvöld og ég, Arna, Hekla og Gunnhildur sátum fram á nótt og kjöftuðum saman (einhverjir verða að sjá um að slúðra um þessa fjölskyldu ;o)). Því miður komst Hjördís Lilja ekki, en Hekla kom með Sunnevu litlu (sem er virkilegt krútt). Amma hringdi svo og talaði við okkur, sem setti enn skemmtilegri brag á kvöldið.

laugardagur, mars 10, 2007

:o)

Mér líkar vel við stjörnuspána á mbl.is. Ýmist er þar eitthvað sem rætist/passar eða eitthvað uppörvandi :o)
(Þó stingur það í augun að stjörnuspá um Meyjuna er sett fram eingöngu í karlkyni - en það er kannski barasta aukaatriði)

Meyja: Hinir einstöku mannkostir þínir skína í gegn. Njóttu þess að vera einstakur, og hættu að reyna að vera einsog hinir. Aðrir munu dást að því hve öðruvísi og frumlegur þú ert.

mánudagur, mars 05, 2007

to be or not to be

Þar sem ég er nú farin að kenna verk Shakespeares, finnst mér við hæfi að skella smá fræðsluefni hingað inn. Í myndbandinu hér að neðan er "mjög raunsæ" lýsing á þróun hinnar frægu ræðu: "To be or not to be" (sem til gamans má geta að er einmitt fullkomið dæmi um iambic pentameter ;o))

laugardagur, mars 03, 2007

nafnið mitt

Síðan ég man eftir mér hef ég haft gaman af því að pæla í nöfnum og merkingu þeirra. Nafn er nefnilega eitthvað sem maður ber alla ævi og skilgreinir mann þar með. Oft er líka gaman að sjá mynstur í nafngiftum, til dæmis þegar börn eru nefnd eftir eða í höfuðið á skyldmennum sínum (oft öfum og ömmum). Nafngiftir geta líka sýnt smekk foreldra og fegurðarskyn þeirra. Og ekki má gleyma hinu fornkveðna - að fjórðungi bregði til nafns. Ég get gleymt mér algjörlega í því að skoða nafnabækur, bæði íslenskar sem erlendar, og er uppáhaldsbók mín án vafa bók Hermanns Pálssonar - Nöfn Íslendinga og er mikla skemmtun hægt að hafa af henni, því Hermann hefur sterkar skoðanir á hvaða nöfn teljist íslensk.

Ég heiti ekki eftir neinum en frægasta nafna mín er líklega Kolfinna Ávaldadóttir, sem sagt er frá í Hallfreðarsögu vandræðaskálds og kemur mikið fyrir í kvæði Davíðs Stefánssonar, þar sem hann yrkir í orðastað Hallfreðs (og hefur skiljanlega alltaf verið í uppáhaldi hjá mér). Sú nafna mín þurfti hins vegar vegna óákveðni Hallfreðs að giftast manni sem hét hinu "fagra" nafni Grís.

Nafnið mitt er sett saman úr tveimur liðum kol og finna. Kol er náttúrulega sama orðið og kol (sem notuð eru sem eldsneyti) og var þessi forliður oft notaður til að merkja dökkt yfirbragð. Finna er hins vegar kvenkyns hliðstæða við Finnur og þau orð eru af sama stofni og Finnar og finnskur. Á þeim tíma sem farið var að nota þau nöfn voru þeir kallaðir Finnar sem nú heita Samar eða Lappar og voru þeir af mörgum taldir göldróttir. Samanber skýringu í orðsifjabókinni þar sem segir um orðið Finni: "Sami, Lappi; dvergsheiti; galdramaður."

Með þessum rökum hélt ég nafn mitt væri fullskýrt og af norrænum uppruna (þó svo að samsvarandi nöfn séu ekki til í granntungunum), en mér til mikillar skemmtunar rakst ég á aðra mögulega skýringu á því um daginn. Ég fór eftir krókaleiðum inn á írska nafnasíðu og sá þar nafnið Caoilfhionn (borið fram kílin), sem mér finnst óneitanlega minna á skrýtna útgáfu af nafninu mínu (stafurinn k er ekki til í írsku, en c er notað fyrir k-hljóð). Samkvæmt skýringu á síðunni (og fleiri slíkum sem ég fletti upp á) þá er það nafn sett saman úr tveimur gelískum orðum caol sem þýðir grannur/mjór og fionn sem þýðir bjartur. Þetta nafn báru víst þó nokkrir írskir dýrlingar.

Miðað við að nafnið Melkorka á að vera íslenskun á írska nafninu Mael Curcaig og Muirchertach hefur orðið Mýrkjartan - er þá nokkuð út í hött að Caoilfhionn gæti hafa orðið Kolfinna?

laugardagur, febrúar 24, 2007

goð spurning ;o)

jæja

Ég var dauðfegin í gær þegar ég horfði á Gettu betur að hafa ekki verið á vakt á Fréttablaðinu þann 3. júlí í fyrra. Nú óttast ég bara að það komi svipuð spurning upp úr DV eða einhverju sem ég hef lesið yfir. Eftir að hafa horft á þennan þátt gerðist ég menningarleg í tilefni Safnanætur og fór með Unu og Fouad á listasafnið, ég held að það séu tæp 20 ár síðan ég steig þangað fæti síðast. Sem er mjög sorglegt þar sem að mér finnst gaman að horfa á málverk og er að hugsa um að fara að gera meira af því og kannski að fara að spekúlera í straumum og stefnum. Ég hef lært töluvert um listasögu fram til ársins 0, sem var víst ekki til, en þekking mín á næstu 2000 árum á eftir ristir ekki mjög djúpt.

Ef einhver sem lest þetta hefur enn áhuga á Baugsmálinu, þá finnst mér merkilegt hversu mikla athygli nafnlausa bréfið fær og hversu miklu uppnámi það hefur valdið - hlýtur að þýða að eitthvað sé til í þessu hjá bréfritara. Hans er nú leitað og telja margir að orðið "óekkí" sem kemur fyrir í lok bréfsins muni koma upp um hann.

Og svona ef einhver hefur áhuga á því, þá er bloggið mitt komið yfir á google-form. Eina breytingin sem ég hef orðið vör við er að núna þarf ég að nota gmail-fangið mitt til að logga mig inn. Engin komment virðast hafa týnst og enn koma stafir með kommum yfir ekki fram í fyrirsögnum (allavegana sé ég þá ekki).

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

neytendafrömuður?

Jæja, þá er ég komin aftur heim frá Ísafirði, algjörlega afslöppuð. Fór í fjögurra daga helgarferð þangað með mömmu og Gunnhildi, til að hitta afa og ömmu og aðra ættingja og njóta lífsins. Það tókst og betur en það. Í dag var orðið svo hvasst að ekki var hægt að lenda flugvélum á vellinum, og vonaðist ég svona hálft í hvoru til þess að verða veðurteppt þarna. En þar sem fært var frá Þingeyri voru allir farþegarnir fluttir í rútu til Dýrafjarðar og þaðan svo flogið. Hin síðari ár er ég alltaf jafnglöð að sjá hina "hráu" fegurð Vestfjarða, fjöllin með hömrum sínum og klettum sem gnæfa yfir bæjunum og sjóinn sem er margbreytilegur bæði að lit og skapi og finnst ég vera komin heim.

Það síðastnefnda er kannski ekki skrýtið, þar sem ég rek uppruna minn mestmegnis til Vestfjarða, báðar ömmur mínar og annar afi minn fæddust þar og ólust upp. Nánar tiltekið Álftafirði, Önundarfirði og Skálavík. Ég veit mismikið um forfeður mína, mest veit ég um systkinin Jónatan og Aniku, sem eru langafi minn og langalangamma, foreldra þeirra, Magnús og Guðrúnu, og mann Aniku Reinald (sem er eini forfaðir minn sem hefur skrifað ævisögu sína og það í tveimur bindum - reyndar er hvort þeirra fyrir sig einungis um 100 síður, en það er aukaatriði).

Afi sagði mér þá sögu af Magnúsi, langaafa sínum, að hann hafi einu sinni lent í töluverðum lífsháska þegar hann var ungur maður. Svo var mál með vexti að hann vann við fjárgæslu í næsta dal við Bíldudal. Einhverju sinni var hann staddur í búð á Bíldudal þegar fimm franskir sjómenn komu þangað inn og ætluðu að selja hnífa sem þeir voru með og litu glæsilega út. Magnús fékk að handleika einn hnífinn og stakk honum í borð, en við það brotnaði oddurinn af og sagði hann hnífana greinilega til einskis nýta. Fransmennirnir voru ekki par sáttir við þetta og veittu Magnúsi fyrirsát nokkrum dögum seinna þegar hann gekk til kinda og hafði hann broddstaf einn vopna og særðist töluvert í atganginum og komst naumlega til næsta bæjar. Síðar orti hann þessa vísu um atvikið:

Birtan dvínar, björg ei finn,
bilar kraft í leynum.
Þegar sævar seggir fimm,
sóttu að mér einum.

mánudagur, febrúar 12, 2007

mánudagur, febrúar 05, 2007

ellin færist yfir...

Ég var í bankanum áðan að tala við þjónustufulltrúa, sem er kannski ekki í frásögur færandi, nema hvað hún þurfti að hringja og ráðfæra sig við einhvern og byrjaði símtalið á að segja: "Það er kona hérna hjá mér, sem þarf að fá upplýsingar um..."
Það tók mig óneitanlega svolitla stund að átta mig á því að þessi kona sem hún minntist á var ég, síaðist ekki almennilega inn fyrr en hún las upp kennitöluna mína.

Ég vil nefnilega ekkert kannast við það að vera kona, finnst það alltof fullorðinslegt orð, þó svo að ég verði eiginlega að viðurkenna að ég er orðin of gömul til að vera kölluð stelpa. Það vantar eitthvað svona millistigsorði fyrir "konur" eins og mig.

Ekki bætti það úr skák að ég fór svo strax á eftir í Ríkið og afgreiðslumanninum þar datt ekki í hug að biðja mig um skilríki. Og ég held að það séu komin tvö ár síðan ég var síðast beðin um slíkt. Þannig að það eru greinilega einhver ellimerki komin á mig :o(

mánudagur, janúar 29, 2007

manudagur

Að hafa frjálsan vilja er ekki alltaf skemmtilegt. Stundum vildi ég ekkert frekar en að einhver gæti tekið ákvarðanir fyrir mig. Ég þarf til dæmis að ákveða hvað ég ætla að gera næstu fimm til sex mánuði og kemst ekki að neinni niðurstöðu. Þrennt kemur til greina og eru kostir og gallar á öllu. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég ætti að gera og nenni varla að velta því fyrir mér svo ég er komin á það stig að langa til að kasta bara upp teningi um þetta eða hringja í einhverja spálínu. Eða í raun nota hvaða aðferð sem er til að þurfa sjálf ekki að bera ábyrgð á neinu eins aumingjalega og það hljómar ;o)

Annars virðist ég sem betur fer ekki hafa verið sannspá með gengi íslenska liðsins á HM, en tók eftir því að nokkrir Þjóðverjanna höfðu séð ljósið og gert eitthvað við hárið á sér sem gerði það auðveldara að þekkja þá í sundur á vellinum og að sjálfsögðu var sá með mest áberandi hárgreiðsluna valinn maður leiksins.

Svo sá ég þáttinn um Margit Sandemo í gær. 164 bækur á 40 árum! Ekki annað hægt að segja en að hún sé afkastamikil. En hitt kom mér á óvart hversu marga bókaflokka hún hefur skrifað sem hafa ekki verið þýddir á íslensku, einhvern veginn bjóst ég við að allir hefðu misst áhugann eftir Ríki ljóssins (því það voru vægast sagt vondar). En miðað við þær ótrúlegu vinsældir sem Ísfólkið hefur notið er það kannski ekki skrýtið að bókaforlög vilji gefa allt út sem hún skrifar. Ég veit ekki hvað það er sem gerir Ísfólksbækurnar svona skemmtilegt, en þær halda sínum sjarma, mér tókst meira að segja einu sinni að skrifa ritgerð í Háskólanum um þær (eða réttara sagt áhrif nafna persóna í þeim á nafngiftir Íslendinga).

laugardagur, janúar 20, 2007

hmmm

Ég horfði á handboltaleikinn í dag og komst að því að annaðhvort hefur sjóninni hrakað eða myndavélarnar verið of langt í burtu frá leikmönnum. Allavegana átti ég í mestu vandræðum með að sjá mun á leikmönnum í víðustu skotunum. Ég legg því til að fyrir næsta stórmót í handbolta liti þeir hárið hver í sínum (áberandi) lit. Einn getur verið með rautt hár, annar hvítt, þriðji blátt, fjórði grænt o.s.frv. Það yrði óneitanlega flott (og þægilegt) á að líta.

handbolti

Núna er HM í handbolta byrjað. Mig langar til að vera bjartsýn og spá því að "strákarnir okkar" komist á verðlaunapall (sem eru nokkurn veginn þær kröfur og væntingar sem flestir gera til þeirra í upphafi móts). En ég er hins vegar frekar svartsýn og er viss um að þeir lendi í þriðja sæti riðilsins og komist ekki áfram. Og jafnframt að það verði mjög dramatískt (eins og venjulega).

Fyrsti leikurinn gegn Áströlum á að vera auðveldur og verður það án efa, þó svo að pabbi hafi minnt mig á að Íslendingar hafi tvisvar mætt léttasta liðið í riðlinum í HM í fyrsta leik og tapað. En síðast þegar Íslendingar kepptu við Ástrala vannst leikurinn með um það bil 40 mörkum, þannig að ég er ekki hrædd um að þessi leikur tapist. Hin liðin í riðlinum eru Frakkar og Úkranar* og ég er ekki viss um hvernig innbyrðis leikur þeirra mun fara, hins vegar er ég viss um að sigurliðið úr þeim leik vinni Íslendinga líka og svo geri tapliðið og Íslendingar jafntefli, nema hvað tapliðið vinnur Ástrala með fleiri mörkum en Íslendingar og kemst því áfram. Ef Frakkar og Úkranar gera hins vegar jafntefli, þá væri alveg dæmigert að Íslendingar gerðu jafntefli við bæði liðin en dyttu samt út vegna þess að þeir ynnu Ástrala með færri marka mun en hin liðin.

Ég vona aftur á móti að ég reynist ekki sannspá, en það vill oft verða svo að liðunum sem ég held með tekst að klúðra öllu og tapa, þrátt fyrir hetjulega framgöngu. Samanber textann við Við gerum okkar besta (sem ég heyrði í útvarpinu í gær), en einhvern tíma var snúið út úr honum (held að það hafi verið Spaugstofan) og hefur sú útgáfa oft reynst raunsannari en sú upprunalega:
Við gerðum okkar, gerðum okkar, gerðum okkar besta, en það bara dugði ekki til.
Við gerðum okkar, gerðum okkar, gerðum okkar besta, en úrslitin voru alltaf öðrum í vil.
Við létum spila okkur upp úr skónum, við létum spila okkur upp úr skónum, við létum spila okkur upp úr skónum, það veit mín trú.
Við létum pakka okkur alveg saman, við létum pakka okkur alveg saman, við létum pakka okkur alveg saman og hananú.



*Finnst Úkranar miklu flottara orð en Úkraínumenn