sunnudagur, febrúar 24, 2008

Vol, væl & léleg lög

Þessi vika hefur að mestu farið í slappleika og það að halda mér vakandi nógu lengi til að mæta í tíma. Ég fann svo í morgun að ég var komin með hita og hætti þá við allt sem ég hafði ákveðið að gera í dag og lagðist bara í rúmið til að reyna að ná þessu úr mér fyrir fullt og allt. Eftir að hafa sofið lungann úr deginum líður mér mun betur, en er samt enn slöpp. Núna ætla ég að reyna að halda mér vakandi í klukkutíma í viðbót og freista þess síðan að geta sofið til morguns, en gallinn er sá að mér hundleiðist, því að hitanum fylgja augnverkir og get ég því lítið sem ekkert lesið eða horft á sjónvarp/tölvu (en get skrifað með augun lokuð að mestu). Þannig að í kvöld hef ég að mestu húkt inni í herbergi með ljósin slökkt og hlustað á tónlist (og pirrast á mörgum þeim lélegu lögum sem eiga heima í tölvunni minni) í stað þess að hjálpa sambýlingnum við sjónvarpsgláp.

Og talandi um væl og léleg lög, þá heyrði ég áðan nýja júróvisjónlagið og finnst lítið til þess koma, en mun að sjálfsögðu halda með því í lokakeppninni. Enda komið upp í vana hjá mér að halda með lélegum íslenskum lögum - ég held að það séu rúm tíu ár síðan mér hefur þótt íslenska framlagið flott (og ég bíð enn eftir íslenskum keppanda sem þorir að syngja á íslensku í lokakeppninni). En ég reyni af bestu getu að smita fólkið hérna af þessum skrýtna áhuga á keppni milli „misvondra“ laga með svo góðum árangri að það stefnir allt í alvöru júróvisjónpartí í maí :D

sunnudagur, febrúar 17, 2008

biluð plata

Eitt af því sem mér finnst mest þreytandi við að vera í útlöndum er hvað margir verða uppveðraðir þegar ég segist vera íslensk og tjá mér hvað þá langar mikið til Íslands og fara að spyrja mig út í tónlist, náttúruna, veðurfar, verðlag og fleira. Stundum er gaman að fá athygli út á þjóðernið (og alltaf merkilegt að sjá hvað Ísland er vinsælt) en þegar ég er mikið meðal fólks sem ég þekki ekki, eins og raunin var í gær og fyrradag, og þarf að svara sömu spurningunum aftur og aftur og er farin að hljóma eins og gömul, biluð plata frá Ferðamálaráði verður það fljótt leiðigjarnt. Aðrir útlendingar sem ég þekki hérna virðast varla verða fyrir neinu áreiti, fólk spyr í mesta lagi hvaðan þeir séu.

Ég held að Danmörk sé eina landið sem ég hef komið til þar sem heimamönnum þótti ekkert merkilegt við Íslendinga. En alls staðar annars staðar vek ég mikla athygli. Til að líta á björtu hliðarnar þá minnist þó enginn hér á íslenska hestinn, en það var oftast það fyrsta sem Þjóðverjar nefndu og ég átti alltaf í mesta basli með að svara spurningum þeirra þar að lútandi. Reyndar á ég í svipuðum vandræðum hérna með íslenska tónlist því ég hlusta ekki á þær íslensku hljómsveitir sem eru vinsælar hér og veit oft lítið um þær nema nafnið eitt.

Stundum finnst mér að ég (og aðrir Íslendingar í útlöndum) ættum að fá prósentur fyrir alla þá landkynningu sem við stundum.

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

hæðartölfræði

Þessa dagana er varla talað um annað en Clinton og Obama og kapphlaupið á milli þeirra. Flestir hérna styðja Obama, bæði nemar og fólk í bænum (samanber skiltatalninguna mína um daginn) og á ofurþriðjudeginum var Tompkinssýsla (sem inniheldur Íþöku og nágrenni) eina sýslan í New York-fylki sem valdi hann fram yfir öldungardeildarþingmann fylkisins. Nýjustu rökin á lesstofunni fyrir því að Obama eigi frekar að vera forsetaefni demókrata eru þau að hann er mun hærri í loftinu en McCain og munar um það bil 15 sentimetrum á þeim (McCain er víst ekki nema 170 sentimetrar á hæð). Ástæðan er sú að síðan farið var að sjónvarpa kappræðum forsetaframbjóðenda hefur sá hávaxnari nær undantekningarlaust unnið. (Hér er tengill á grein á Wikipediu þar sem sjá má töflu um fylgni hæðar og sigurs í bandarískum forsetakosningum.)

Þetta gengur reyndar ekki alltaf eftir því bæði Al Gore og John Kerry voru/eru hærri í loftinu en Bush og eins og einhver benti á þá hefur kona aldrei verið í framboði þannig að þessi tölfræði spáir ekki fyrir um hvaða möguleika Hillary myndi eiga. En samkvæmt opinberum tölum er hún ekki mikið lægri en McCain og því bara spurning hversu háhælaða skó hún á ;o)

miðvikudagur, febrúar 13, 2008

andleysi og almenn svengd

Ég þjáist af andleysi þessa dagana, mig langar til að skrifa eitthvað frumlegt og skemmtilegt hérna en það virðist vanta einhverjar tengingar í mig. Ég kenni nammiskorti um - eða réttara sagt skorti á góðu nammi - því þegar besta súkkulaðið sem hægt er að fá á svæðinu er ritter sport, þá er greinilega ekki um auðugan garð að gresja. Lakkrís fyrirfinnst ekki hérna (nema rauður jarðaberjalakkrís) og kökurnar í bókasafninu eru hættar að vera spennandi. Þannig að upp á síðkastið hefur aðalnammið mitt verið kasjúhnetur (sem eru alveg yndislega góðar) og svo einhverra hluta vegna eru frosnar gulrætur saltaðar og hitaðar í örbylgjuofni allt í einu orðnar mjög gómsætar (húðinni til mikils ama). Og þegar svo er komið er þá að furða að andleysi ríki?

Andleysið nær líka að matargerð, sem er svo sem allt í lagi þegar það snýr bara að mér en verra er það þegar ég þarf að fara með mat eitthvert. Ég reyndar sneri mig út úr því á laugardaginn þegar var samskotamatur (e. potluck) hjá Becky og bauðst til að koma með drykkjarföng í staðinn fyrir mat. Enda vill fólk venjulega að ég mæti með eitthvað þjóðlegt og það eina sem mér dettur í hug fyrir utan þorramat er ýsa með kartöflum og fisk, hvort sem er frosinn eða ferskan, er erfitt að finna í þessum bæ.

Reyndar er mikil eftirspurn eftir súrsuðum hrútspungum og hákarli hérna - aðallega vegna þess að fólk trúir því ekki að þetta sé í alvörunni borðað. Ég held að ég eigi minn hluta í því að dreifa út (ó)hróðri þessara matartegunda en sambýlingurinn, sem hefur verið hérna lengi, minnist oft á Þorrablót sem var haldið fyrir nokkrum árum þar sem þetta góðgæti var á boðstólum og hana hryllir enn við því og segist aldrei hafa verið jafnfegin því að vera grænmetisæta og þá.

Íslendingafélag Íþöku heldur svo Þorrablót á föstudaginn og þar sem ekki tókst að smygla neinum hefðbundnum þorramat hingað þá virðist dagskipunin vera sú að mæta með útlendinga og „kenna“ þeim að drekka íslenskt brennivín. Ég átti pela fyrir áramót sem ég mætti með í tvö partí - í því fyrra voru málvísindanemar sem þræluðu því í sig með herkjum en í því síðara vakti það töluverða lukku og tveir kunningjar mínir frá Ísrael og Nýja-Sjálandi lýstu því yfir að þetta væri besta áfengi sem þeir hefðu smakkað.

En svo ég snúi mér aftur að laugardagskvöldinu, þá spannst umræða um nemendur og maka þeirra og hófst hún á því að eiginkona eins stráksins hrósaði eiginmanni húsráðanda fyrir að hafa flutt með henni þrátt fyrir að vera karlmaður. Mér fannst þetta skrýtið orðalag hjá henni en í ljós kom að síðan hún gifti sig fyrir átta árum síðan hefur hún fylgt eiginmanninum á hvern þann stað sem hann hefur stundað nám og þau flutt allavegana sex sinnum. Þegar ég benti henni á að það væri kominn tími á að hún flytti eitthvert og léti hann elta sig, svaraði hún því til að það kæmi ekki til greina þar sem hún hefði veðjað öllu á framtíð hans. Þegar þarna var komið sögu langaði mig til að benda á einhver íslensk dæmi um að þar fylgdu karlmenn konum sínum í nám (til að sýna fram á styrkleika og sjálfstæði íslenskra kvenna), en mundi ekki eftir einu einasta dæmi um það, en mundi eftir mörgum tilvikum þar sem par fer saman í nám eða konan fylgir karlinum. Mér fannst það athyglisivert og það skekkti jafnréttisgleraugun mín svolítið.

Meðal annarra viðburða vikunnar má nefna að mitt lið vann enn einu sinni ekki í kráarspurningakeppninni - þrátt fyrir að hafa lagt mikinn metnað í val á nafni liðsins. Kvikmynda- og körfuboltaspurningarnar voru eitthvað að flækjast fyrir okkur að þessu sinni. Og svo eignaðist ég nýja uppáhaldshljómsveit eftir að hafa séð myndina Control, sem var mjög góð og fallega sjónræn. Reyndar er spurning hvort hægt er að kalla hljómsveitina nýja, þar sem söngvarinn dó áður en ég fæddist og ég hef oft heyrt lög með sveitinni án þess þó að tengja þau saman.

laugardagur, febrúar 02, 2008

dagur í lífi mínu

Dagurinn sem nú er nýliðinn (föstudagur) var ansi góður. Mér tókst að vakna eldsnemma og fann varla fyrir verkjum í bakinu - en á miðvikudaginn las ég um jógaæfingu sem ætti að lækna fólk af vöðvabólgu og fylgdi leiðbeiningunum af kostgæfni til að losa um stífar herðar með þeim afleiðingum að hver einasti vöðvi í bakinu á mér var aumur á fimmtudaginn. Til að lifa af skóladaginn tók ég fjöldamargar verkjatöflur og skolaði þeim niður með kaffi, til að vinna gegn slævandi áhrifum og svefnleysi undanfarinnar nætur. En eftir heimatilbúna slökunarmeðferð (drekka bjór til að slaka á vöðvunum og fara svo í heita sturtu) og nægan svefn var ég næstum eins og nýsleginn túskildingur í morgun.

Það var slydda og frekar hált úti og því var öllum skólum (nema háskólanum - þó svo að mæting þangað væri valfrjáls) í nágrenninu lokað vegna veðurs, sem varð til þess að kennarinn sem átti að kenna fyrsta tímann mætti ekki. Hins vegar fórum við báðir nemendur hans og fengum okkur kaffi saman og þannig hitti ég fyrstu manneskjuna hérna sem hefur áhuga á fornum tungumálum á svipaðan hátt og ég, en hún blandar saman fornleifafræði, málvísindum og mannfræði. Og það sem meira er, þá ætlar hún að tala við súmerskukennarinn sinn og spyrja hann hvort ég megi sitja í þeim tímum þrátt fyrir að hafa ekki tekið fyrri hluta þess námskeiðs á haustönninni - ef úr því verður fæ ég að vinna með alvöru súmerskar töflur í mars og apríl (skólinn á víst mörgþúsund slíkar).

Síðan tók við frönskutími og ég er enn undrandi á því hversu auðvelt er að læra að skilja skrifaða frönsku með þeirri aðferð sem er notuð. Eftir tvær vikur get ég lesið setningar sem byggja ekki bara á samheitum heldur eru um gildi vinnu, að þrátt fyrir að Marie sé sæt þá sé hún líka gáfuð og hvernig himneskir líkamar verða að lúta eðli náttúrunnar (ég ætlaði skrifa þessar setningar hér, en vegna þess að bókin er uppi í skóla og námskeiðið gengur ekki út á það að geta tjáð sig neitt á þessu fagra tungumáli - læt ég það bíða betri tíma ;p).

Eftir það fór ég í langt hádegisverðarhlé með Brandi, sem er álíka matvönd og sumir sem ég þekki heima (nefni engin nöfn ;o)), svo við enduðum á því að fara á tvo mismunandi staði - en það var gaman. Lærði síðan (það tilheyrir víst) og fór svo á TGIF (í húsnæðinu sem leysir Rauðu hlöðuna af á meðan hún undirgengst breytingar) þar sem ég hitti Calanit, Itay, David og Richard. Síðar um kvöldið fór ég svo heim til þess síðastnefnda og spilaði við hann og vini hans - fékk að vera með eftir að hafa einhvern tíma talað um hvað ég saknaði þess að spila - spilið var mjög skemmtilegt og gekk út á að það að leggja undir sig heiminn að fornu með smákænsku. Einhverra hluta vegna tókst mér að vinna og sýna þar með fram á að Fönikíumenn hefðu staðið Rómverjum, Grikkjum og Germönum framar að öllu/flestu leyti.

Um daginn fann ég síðu með skopteikningum (er til eitthvert annað orð fyrir "comic strip"?) af háskólalífinu - sumt er óþægilega satt - og hér er hægt að skoða (ýta svo á previous eða next til að sjá fleiri).

Og vegna verkja og anna þá eru þó nokkur ósvöruð bréf í tölvupósthólfinu mínu - sem verður svarað við fyrsta tækifæri, ég var bara í meira blogg- en bréfastuði í kvöld og núna kallar rúmið hástöfum á mig og lofar mér fögrum draumum ef ég gegni fljótt.