mánudagur, desember 31, 2007

Guð mun ráða hvar við dönsum næstu jól

Þá eru jólin brátt hálfnuð og það eina sem ég hef afrekað er að borða, lesa, hitta fólk, sofa og baka. Nokkurn veginn það sem ég áætlaði, þó svo að ég hafi búist við að þriðji liðurinn yrði meiri um sig (en enn er tími til að bæta úr því). Reyndar man ég ekki hvað það er langt síðan ég hef átt alvöru jólafrí án vinnu eða ritgerðarskrifa og veit ekki hvenær ég fæ tækifæri til slíks næst, svo ég nýt þess bara (þó svo að mig sé hálfpartinn farið að klæja í fingurna að gera eitthvað annað en að vera í fríi).

Þetta ár hefur verið viðburðaríkt og í heildina bæði skemmtilegt og fjölbreytt. Ég vann samtals á fimm vinnustöðum (sem ég vona að sé met sem ég muni seint slá), fór í nýjan skóla, kynntist fullt af fólki (bæði Íslendingum og síðan allra þjóða kvikindum), varði tíma með vinum og fjölskyldu og komst nokkrum skrefum nær því að vita hver ég er og hvað mig langar til að verða (eða ekki verða) þegar ég verð stór.

Ég hlakka til að sjá hvað 2008 ber í skauti sér og vona að ég verði jafnánægð að ári liðnu.

Og þar sem að ég sendi engin jólakort í ár: Gleðilega rest, takk fyrir árið sem er næstum liðið og ég vona að næsta ár verði ykkur öllum gifturíkt :o)


fimmtudagur, desember 13, 2007

heimþrá

Þegar ég gekk í átt að strætóstoppistöðinni við kirkjuna í morgun, í hægri hundslappadrífu sem tyllti sér á trén og árbakkann svo að heimurinn leit út eins og hið fegursta jólakort, fattaði ég hvers ég hef saknað. Mér hefur lengi fundist eins og það væri eitthvað sem vantaði hérna - ekki voru það fjöllin því það er mjög hæðótt hér í kring og ekki var það sjórinn, því hér er risastöðuvatn sem er hægt (með góðum vilja og úr smáfjarlægð) að líta á sem út- eða innhaf, því hinn bakkinn er langt úr augsýn - heldur er það vindurinn sem er í feluleik.

Ég man ekki til þess að hér hafi hvesst síðan ég kom, smá gola, mikið af rigningu, þrumum og eldingum, en ekkert alvöru hvassviðri. Ekki það að ég sé neitt óskaplega hrifin af hvassviðri á meðan ég er úti í því (þótt það geti verið hressandi) heldur er óneitanlega einmanalegt að lesa um óveður og rafmagnsleysi heima og heyra svo ekki neitt í veðrinu hérna og þá sakna ég þess að liggja uppi í rúmi að kvöldi til og heyra hvernig vindurinn ýlfrar og næðir úti. Og þá hrynur blekkingin um að ég búi skammt frá Cayuga-úthafinu.

Mér er reyndar sagt að þetta hljóti að vera misminni í mér og að ég muni örugglega kvarta yfir vondu veðurfari og hvössum vindum hérna í janúar og febrúar. Kannski er ég bara pirruð yfir því að geta ekki opnað gluggann minn lengur, þar sem að loksins fannst snilldarlausn til að halda hita inni í herberginu mínu (svo þar væri líft) eftir að upp komst að vetrarglugginn/-hlerinn (utanáliggjandi) hafði brotnað í fyrra. Í stað þess að setja upp nýjan glugga þá lét leigusalinn festa byggingarplast yfir rúðuna að innan, þannig að nú get ég hvorki opnað gluggann til að fá ferskt loft né séð út um hann (reyndar var útsýnið ekki stórfenglegt).

Og áður en ég held áfram að væla um að ég vilji verra veður (ég hlýt að vera eitthvað lasin) og fæla þar með alla frá því að hugsanlega vilja hitta mig um jólin, þá ætla ég að halda áfram með síðustu ritgerð annarinnar - um Verschärfung (man ekki íslenska heitið) í germönskum málum.

miðvikudagur, desember 12, 2007

Skiljanlegt?

Nú velti ég því fyrir mér hvort íslenskukunnáttu minni hafi hrakað svona allsvakalega í útlandinu (sem er ekki útilokað - ég þarf oftast að lesa bloggið mitt nokkrum sinnum yfir til að hreinsa burt enskulegt orðalag) eða hvort þetta sé bara svona hrikalega illa orðað? Hvort heldur sem er þá skil ég ekki meira en fyrstu setninguna.

MEYJA 23. ágúst - 22. september
Þú fyllist ástríðu. Ástríða er munurinn á því að framkvæma verk og verða atvinnumaður. Ástríða er munurinn á að líka við einhvern og gera tilkall til hans.
(mbl.is, 12. desember)


Í kvöld fór ég út að borða með fólki úr þýska talhópnum í Rauðu hlöðunni. Andrúmsloftið var vægast sagt alþjóðlegt þar sem við vorum átta af sjö þjóðernum (þó enginn Þjóðverji) og borðuðum á ítölsku veitingahúsi í Bandaríkjunum og allar samræður fóru fram á þýsku (og í ofanálag var rauðvínið frá Chile). Maturinn var mjög góður sem og félagsskapurinn (þótt þýskan mín sé fullryðguð fyrir fáguð samtöl.)

Ef ég man rétt þá kemur fyrsti jólasveinninn til byggða í nótt. Ætli Stekkjastaur muni eftir mér ef ég skelli skónum út í glugga?

þriðjudagur, desember 11, 2007

tralala

Ég sá þetta próf á síðunni hennar Örnu og varð að prófa og komst að því að ég þarf greinilega að skoða Biblíuna aðeins betur, því ég kannast ekkert við þann sem ég er.


Which Old Testament Character are you?





You are Nehemiah!
Take this quiz!








Quizilla |
Join

| Make A Quiz | More Quizzes | Grab Code




Og að öðru, þá dauðhlakka ég til að koma heim um jólin - ekki það að mér leiðist hérna, mig langar bara til að hitta alla og tala íslensku aftur. Ég fer héðan á laugardag til að skoða jólaljósin í New York og verð þar þangað til ég flýg heim í byrjun næstu viku.

Það sem er þó verst er að tvær úr félagahópnum mínum (þær sem ég hef verið mest með) voru hér bara í eina önn og það er erfitt að kveðja, því þrátt fyrir að við höfum einungis þekkst í tæpa fjóra mánuði, höfum við gert ótrúlega margt saman og kynnst mjög vel (kannski vegna þess að allir komu hingað vinalausir og opnir fyrir nýjum vinasamböndum). En við huggum okkur við það að heimurinn er lítill og líklega lítill vandi að hittast aftur síðar.

miðvikudagur, desember 05, 2007

blogg um (nánast) ekki neitt

Núna er klukkan hálfþrjú og ég sit hér ein uppi í skóla og er að reyna að skrifa ritgerð (sem á að skila á föstudaginn, þannig að hún er ekki á síðustu stundu - enn sem komið er). Ég hef fyrir löngu komist að því að einbeitingarskorturinn er minni hér en heima og ég tala nú ekki um á nóttunni þegar allir sem ég þekki eru farnir heim svo ég "lendi" ekki í skemmtilegum samræðum eða samtuði. Þó svo að hvort tveggja geti leitt af sér mjög góðar hugmyndir, til dæmis hvernig framkvæma megi listrænan gjörning til að efla áhuga fólks á sögulegri málfræði eða hversu tilvalið sé að nota jólasveinamyndir til að skreyta prófið sem ég legg fyrir bekkinn minn á fimmtudag.

Ég held reyndar að það sé kominn tími til að fara heim því síðasta hálftímann hef ég ekkert gert af viti en fundist undurspennandi að skoða körfuboltasíður og reyna að gúggla af hverju ég er með skrýtna bletti á nöglunum (eins og litlar holur). Hvort tveggja eftir að hafa til þrautar reynt að knýja fram nýja tölvupósta, bloggfærslur hjá öðrum og nýjar færslur á mogganum, vísi og hinu nýja er. Og svo blogga ég meira að segja um nákvæmlega ekki neitt.

Af hverju í ósköpunum virðist allt í veröldinni skemmtilegra en að skrifa ritgerð?