þriðjudagur, mars 25, 2008

skrýtið

Ég var að skoða New York Times áðan. Þar var nokkurra síðna umfjöllun um þá síðustu þúsund hermenn sem hafa látist í Írak, svona í tilefni af því að nú er tala fallinna Bandaríkjamanna komin í fjögur þúsund. Andlitsmyndir af þessum þúsund hermönnum, ásamt nafni þeirra og aldri, fylltu tvær opnur og á þeirri þriðju voru brot úr bréfum og bloggum nokkurra þeirra. Uppsetningin var óneitanlega áhrifarík og minnti svolítið á Víetnamminnismerkið þar sem nöfn hinna látnu öskra á áhorfandann af svörtu granítinu.

Það skrýtna er að stríðinu lauk formlega fyrir löngu, en samt falla hermenn. Og enn skrýtnara er að sama hversu marga ég spyr þá virðist enginn vita fyrir hvaða málstað þeir hafa fallið, fólk ypptir bara öxlum, verður sorgmætt á svipinn og vill helst ekki tala um þetta. Og það sorglega er að þessi andlit í blaðinu eru bara hluti af öllum þeim sem hafa látist eða þjáðst vegna þessa "stríðs" sem enginn virðist vilja vita af hverju er háð né hvaða tilgangi það á að þjóna.

sunnudagur, mars 23, 2008

Gleðilega páska :o)

Það er hálfskrýtið að vera hér um páska, ekkert tilstand, ekkert helgihald, bara venjulegur sunnudagur og ég þarf að mæta í skólann á morgun. Það eina sem minnir á páskana er páskanammið í búðunum. Ég ætla ekki að halda daginn neitt sérstaklega hátíðlegan, þarf að fara upp í skóla á eftir og undirbúa morgundaginn. Í þessum skrifuðu orðum ligg ég þó í rúminu, hlusta á tónlist og borða hnetu-mogm, því þau eru egglaga og æt (ólíkt sumu namminu hér).

Í gærkvöldi horfið ég svo á fyrstu Star Wars-myndina (þessa frá 1977), sambýlingnum fannst það mesta hneisa að ég hefði aldrei séð hana og þegar Esra viðurkenndi slíkt hið sama þá var ákveðið að hafa sérstakt kvöld til að kynna okkur fyrir meistaraverkinu. Við vorum heima hjá Esra (sem var frábær gestgjafi) og John bættist í hópinn. Ég verð að viðurkenna að mér þótti myndin ekkert spes, bjóst við miklu meira, en ætla að láta tilleiðast að horfa á hinar myndirnar. Reyndar held ég að (T)Raumschiff Surprise hafi haft slæm áhrif á mig, þar sem stælingin á Darth Vader í þeirri mynd heitir Jens og notar astmapúst, svo að ógnvekjandi hljóðin í DV þóttu mér bara fyndin.

Ferðin til Washington var æðisleg og ég ætla að skrifa nánari lýsingu á henni fljótlega, ég fór á mörg söfn, borðaði góðan mat, kynntist nýju fólki og sá öll helstu minnismerki borgarinnar. Það eina neikvæða við ferðina var að ég fékk slæma eyrnabólgu, en hún er sem betur fer næstum horfin núna.

Svo rakst ég á stjörnuspána mína fyrir daginn í dag og langar að vita hvað enina getur þýtt. Ég kannast ekki við orðið og sé engin augljós stafavíxl eða misritun, þannig að allar tillögur eru vel þegnar.
Meyja: Í heimsbókmenntunum er sönn ást sjaldan enina sæla, og kostar yfirleitt sitt. En þetta er raunveruleikinn. Þú getur fundið hamingju í sambandi og gerir það. Endir.

laugardagur, mars 15, 2008

drekafórn

Nú er vor í lofti, þó svo að þeir sem hafa dvalið hér lengi bendi á að í venjulegu árferði geti snjóað allt fram í maí. Að þeirri svartsýni frátalinni þá er vorlegt um að litast, fyrstu blómin hafa skotist upp og það er hægt að vera úti úlpulaus.

Í gær var framin nokkurs konar árleg vorfórn á skólalóðinni þar sem dreki var brenndur. Nemendur í arkitektúr byggja árlega dreka og fara í skrúðgöngu með hann um skólasvæðið, þegar þeir fara fram hjá verkfræðibyggingunni bíður þeirra óvinur, oftast í líki fönix, og þeir berjast. Drekinn vinnur alltaf og er síðan brenndur við mikla athöfn. Þetta er sagt vera gert í tilefni dags heilags Patreks til að minnast þess að hann rak allar slöngur frá Írlandi (og drekar eru oft taldir með slöngum). Drekinn í ár var frekar lufsulegur, miðað við myndir sem ég hafði séð af drekum fyrri ára - en hann brann hratt og vel.*

Á miðvikudaginn fór ég svo með Calanit að mála egg, í tilefni páskanna - við vorum reyndar þær einu sem mættum án barna á staðinn en skemmtum okkur álíka vel og börnin við að dýfa eggjunum í allskyns liti og teikna mynstur á þau. Útkoman varð kannski ekki jafnglæsileg og vonir stóðu til, enda vorum við algerir byrjendur.*

Og síðast en ekki síst þá hófst í dag vikulangt vorfrí, þvert á ímynd slíkra vorfría þá ætla ég ekki að fara til Flórída á fyllerí, heldur fer ég í fjögurra daga ferð með öðrum útlendingum til Washington. Þetta er ferð skipulögð af útlendingaskrifstofunni hérna og lítur ansi hreint vel út - en ég verð örugglega komin með ofskammt af söfnum og menningu þegar ég kem aftur til Íþöku.


*Ef ekki væri fyrir hárfínt fegurðarskyn tölvunnar minnar (sem harðneitaði að birta slíkan óskapnað) þá væru hér meðfylgjandi myndir af lufsulegum dreka og illa máluðum eggjum.

fimmtudagur, mars 13, 2008

heilaþvottur

Um daginn rakst ég á nokkra ljóskubrandara á netinu og í stað þess að brosa að þeim móðgaðist ég, sem mér þótti skrýtið því venjulega snerta slíkir brandarar mig alls ekki. Eftir nokkra umhugsun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að líklega hafi ég verið heilaþvegin. Hérna heldur fólk því nefnilega statt og stöðugt fram að ég sé ljóshærð – og til að byrja með hélt ég því fram á móti að ég væri alls ekki ljóshærð. Ég hef þó linast töluvert í afstöðu minni upp á síðkastið (þar sem ég er óneitanlega með ljósara hár en flestir sem ég umgengst hérna) og nenni ekki að rífast yfir svona smáatriðum. Nú er ég hins vegar orðin hrædd um að undirmeðvitundin hafi tekið mark á þessu bulli í fólki og undanlátssemi í mér og skilgreini því ljóskubrandara sem eitthvað mjög neikvætt, jafnvel persónuárásir.

Eftir þessa nýtilkomnu viðkvæmni mína fyrir bröndurum og grun um óæskilegan heilaþvott, hef ég ákveðið að láta það vera að flytja nokkurn tíma í Hafnarfjörð.

laugardagur, mars 01, 2008

heppin

Stundum er alltof auðvelt að gleyma því hvað við erum heppin að vera íslensk. Við getum bölvað landinu okkar í sand og ösku og kvartað yfir dýrtíð, klíkuskap, leiðinlegum veðrum og fjarlægð frá næstu löndum. Allt getur þetta verið pirrandi en í augum fólks frá öðrum löndum myndu þetta vera lúxusvandamál.

Ég borðaði hádegismat með ísraelskum vinum mínum og þau lýstu því hvað þeim fyndist þau vera frjáls hérna. Þau eru frá Haifa sem er landamæraborg og þar er alltaf hætta á sjálfsmorðssprengju- og eldflaugaárásum frá hinni hliðinni, öryggisgæslan þar er ströng og sérstakir öryggisverðir fyrir utan búðir og veitingahús sem leita á fólki áður en það fær að fara inn. Þar þurfa líka allir (bæði konur og karlar) að gegna herþjónustu. Foreldrar þeirra vilja koma í heimsókn hingað en eiga í erfiðleikum með að fá vegabréfsáritun fyrir tveggja vikna dvöl.

Flestir karlkyns kunningja minna hérna koma reyndar frá löndum þar sem þeir verða að gegna herþjónustu og vera svo tilbúnir til að berjast ef til þess kemur og mörg þessara landa eiga í eilífum skærum við nágranna sína. Þegar ég segi að það sé enginn her á Íslandi verður fólk mjög hissa og hlær svo þegar ég bendi þeim á að Íslendingar eigi enga óvini, nánustu nágrannar okkar séu Grænlendingar og fæstir viti hvar Ísland sé nákvæmlega á landakortinu eða hafi engan áhuga á svona örríki.

Aðrir koma frá löndum þar sem hálfgert eða jafnvel algert trúarofstæki ríkir og bara það að hafa aðrar skoðanir en stjórnvöld getur verið lífshættulegt. Svo ég tali ekki um lönd þar sem er mikil fátækt og stéttaskipting. Tyrkirnir og Serbarnir sem ég þekki hérna eru svo mjög hissa á því að Ísland hafi sjálft ákveðið að standa utan ESB, þó svo að forráðamenn ESB hafi nokkrum sinnum lýst því yfir hve auðvelt það yrði fyrir Íslendinga að verða fullgildir meðlimir.

Og þá eru ótalin málefni (sem jafnvel Bandaríkjamenn öfundast út af) eins og almennt læsi, að allir hafi möguleika á að mennta sig, að við getum ferðast hvert sem við viljum, að allir hafa sama rétt og margt fleira.

Ég er alls ekki að segja að Ísland sé fullkomið, en það kemst mun nær því en flest ríki í þessum heimi og margt sem okkur finnst sjálfgefið finnst öðrum draumi líkast.