mánudagur, ágúst 23, 2004

Þá virkar þetta aftur - ég hef ekkert getað skrifað hérna lengi vegna þess að blogspot tók aðgangsorðið mitt ekki gilt. En núna virkar þetta og eins og athugulir taka kannski eftir þá eru íslensku stafirnir komnir aftur svo að þar af leiðir að ég hlýt að vera komin heim (og að nota lyklaborðið og muna eftir þ&ð er virkilega erfitt eftir að hafa vanið mig á annað).

En ég kom á fimmtudagskvöldið, eftir að hafa burðast með 40 kíló af farangri inn og út úr lestum og strætóum og flugvélum, fyrst yfir Danmörku á landi og þaðan til Íslands í loftinu. Ég var reyndar hálfgrenjandi mest alla leiðina, því mig langaði ekkert að fara og saknaði allra sem ég hef kynnst þarna - en það er víst hluti af lífinu og ekkert við því að gera.

En ég hef alveg haft nóg að gera - Hekla frænka mín og Níls giftu sig nefnilega á laugardaginn og það var svo fallegt því þau skinu af hamingju allan daginn. Athöfnin fór fram í Krossinum og var mjög persónuleg og þrír vinir þeirra sungu lög á meðan athöfninni stóð. Síðan var veislan sjálf í Aratungu og allt fullt af kökum og góðgæti og fólki og frábært að hitta flesta ættingja mína á einu bretti. Ef ég væri nógu klár í þessum netheimi kæmi hérna mynd af brúðhjónunum. Til hamingju bæði tvö (og Hekla, þetta er alveg nóg til að komast á frænka mín er fræg skalann)

Svo hitti ég Úllu í gær og það var æðislegt, ég held að við höfum talað hátt í tíu klukkutíma - enda þurftum við að vinna upp langan hljóðlausan tíma. Ég á örugglega eftir að tala alveg helling næstu daga enda þarf ég að vinna upp mikinn tíma - vona samt að það endi ekki eins og þegar ég kom heim frá Englandi um árið, þegar ég talaði svo mikið að ég varð þegjandi hás í þrjá daga og reyndi samt að tala allan tímann.

En það sem ég gerði síðustu vikurnar í Þýskalandi var: Mamma kom í heimsókn og það var frábært að sýna henni alla staðina í Kiel og svo fórum við til Slésvíkur (gamall víkingabær) og Lübeck. Þegar hún kom ákvað veðrið að breytast, svo hún þyrfti ekki að nota regnfötin sem ég ráðlagði henni að koma með. Hitinn fór upp yfir 30 gráður og hélst svoleiðis eftir að hún fór og líf mitt varð þannig hlaup á milli skugga og þrá eftir rigningu sem ég hélt að myndi nú aldrei sakna (aldrei ánægð).

Svo fór ég til Rostock, sem er gamall háskólabær, þar sem fjöldamargir Íslendingar stunduðu nám fyrr á öldum, með Catharinu, fór í finnska veislu hjá henni og í kveðjugrillpartí með Tékkunum. Kvaddi Cristínu og hitti kærastann hennar sem var í heimsókn. Ég kvaddi líka sambýlingana mína og þær gáfu mér tösku sem þær höfðu skrifað á kveðjur frá Kiel. Ég reddaði svo öllum pappírum og fékk miklu fleiri einingar en ég bjóst við. (Og þetta er saga síðustu vikna í alveg örstysta máli).

En þrátt fyrir heimkomu og líklegt atburðaleysi, þá ætla ég að halda áfram að blogga, því að ég held að ég sé orðin fíkill. Svo ef einhverjir eru að lesa þetta (veit varla hvort það er, því ég fæ svo fá komment), þá heldur þetta bull eitthvað áfram fram eftir vetri, þar til ég finn mér eitthvað annað að gera sem er meira vanabindandi.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Var einmitt að spá hvort þú værir ekki komin aftur til Íslands. Svona sérstaklega þar sem það styttist í það að ég fari. :) Við verðum að heyrast við tækifæri.

Inga Þóra

Sonja sagði...

Vertu velkomin heim!!! Ég skil þig svoooo vel - eftir svona mánuði væri manni nett sama þótt maður missit af fluginu eða festist af öðrum ástæðum lengur í útlandinu :) :) Það er búið að vera rosalega gaman að lesa bloggið þitt og endilega haltu áfram. Ég er her enn í Skaftafelli og hef það fínt. Heyrumst fljótlega. SONJA

Nafnlaus sagði...

Takk :o)
Hefði ekki getað orðað þetta betur sjálf - alveg verið til í að vera kyrrsett í útlandinu. En er ekki fjör í Skaftafelli? Hlakka til að hitta þig aftur

Nafnlaus sagði...

Takk :o)
Ég hefði ekki getað orðað þetta betur - allt í lagi að verða strandaglópur einhvers staðar. En hvernig er í Skaftafelli? Hlakka til að sjá þig
K