mánudagur, apríl 25, 2005

Stundum er Mogginn fyndinn

Þetta er frétt sem ég sá á mbl.is í morgun og ég held að ég hafi aldrei hlegið svona mikið að einni frétt áður. Ef þið viljið fylgjast með sundafrekum hans, skoðið þá opera.com/swim/ þeir lofa því að það muni birtast myndir af þessu síðar í dag.

Tækni & vísindi | mbl.is | 25.4.2005 | 08:48
Jón S. von Tetzchner segist ætla að standa við heitið og synda til Ameríku

Jón Stephensson von Tetzchner, forstjóri norska hugbúnaðarfyrirtækisins Opera Software, segist ætla að reyna að standa við heit sem hann gaf í síðustu viku, en þá sagðist hann ætla að synda frá Noregi til Bandaríkjanna, með viðkomu hjá móður sinni á Íslandi, ef 1 milljón manna sæktu sér nýjan Opera netvafra á fyrstu fjórum dögunum eftir að vafrinn var gefinn út. Vel yfir milljón manns sótti vafrann á tímabilinu. Til stendur að Jón hefji sundið í dag.
„Ég vil þakka hverjum og einum þeirra rúmlega milljón einstaklinga, sem hafa halað niður Opera 8 netvafra á síðustu dögum. Ég er stoltur af því að þetta er besti árangur í 10 ára sögu Opera. Ég hef fengið margar fyrirspurnir um helgina um það hvort ég ætli að standa við heit mitt. Þótt ég viðurkenni fúslega að loforð mitt var aðallega byggt á gleði og kappi en ekki á sundgetu minni og líkamlegu ástandi, þá mun ég gera mitt besta til að standa við það," segir Jón á heimasíðu Opera.
Á heimasíðunni er einnig birt skýrsla um stöðu mála. Segir þar að Jón hafi um helgina dvalið í nokkrar klukkustundir í Bislett Bad og synt til að undirbúa sig undir átökin framundan. Í gær hafi hann síðan legið í góðan hálftíma í baðkarinu heima hjá sér í frekar köldu vatni til að venja sig við kaldan sjóinn í Óslóarfirði.
„Ég tek þessa áskorun mjög alvarlega en eftir að hafa synt þrjár ferðir í Bislett Bad á laugardag blés ég eins og hvalur og komst að raun um að ég hefði líklega átt að byrja að þjálfa mig fyrr. Ég vona þó að nokkur aukakíló af fitu muni ríða baggamuninn og halda mér á floti og halda á mér hita."
Markaðsfulltrúi Opera mun róa við hlið Jóns í gúmbáti og er það sögð refsing hans fyrir að gera yfirlýsingu Jóns um sundið opinbera. Segir á heimasíðunni, að áhöfnin sé þessa stundinna á leið til ónefnds áfangastaðar í Óslófirði þaðan sem lagt verði upp í hina löngu ferð til Ameríku í kjölfar víkinganna.

Engin ummæli: