fimmtudagur, maí 25, 2006

bankar og blöð

Jæja, þá er ég búin að halda kjafti hérna í 10 mánuði, sem er náttúrulega alltof langur tími. En í stað þess að þreyta ykkur með útdrætti úr lífi mínu síðan síðast, ætla ég að leyfa ykkur að geta í eyðurnar.

Um daginn breytti bankinn minn um nafn, hætti að heita Íslandsbanki og fór að heita Glitnir af því að það væri svo miklu auðveldara fyrir útlendinga í framburði (ég þekki engan útlending sem á auðvelt með að segja -tn- en vinn heldur ekki í banka). Fyrst fannst mér þetta asnaleg breyting út af því að ég hafði alltaf tengt Glitni við bílalán, en þetta venst furðulega vel - þótt ég sem viðskiptavinur bankans sé ekki alveg sammála hvað þeir eyða miklum peningum í kynningastarf og alls kyns fjárgjafir, finnst nefnilega að með því séu þeir að snuða mig (því ekki gefa þeir mér neina peninga).

Í samhengi við þetta fór ég að pæla í andleysi íslenskra dagblaða, ekki endilega í innihaldi heldur frekar í nafngiftum. Það eru til Dagblaðið og Morgunblaðið, sem segja hvenær dagsins blaðið ætti að koma út, Fréttablaðið - sem á að segja fréttir og svo bara Blaðið, sem reynir ekki einu sinni að skilgreina sig frekar. Þetta er í raun til skammar fyrir þjóð sem þykist eiga svo fallegt og þjált tungumál. Einu sinni voru til blöð með fallegri nöfnum en þau eru því miður ekki lengur á meðal vor. Þjóðviljinn, Dagur, Tíminn - þetta voru blöð sem báru nöfn, sem voru greinilega ekki nógu andlaus og venjuleg til að virka.

Eftir að hafa pælt í þessu þá finnst mér bara allt í lagi þó að Glitnir hafi ekki viljað heita -banki lengur og langað til að vera smá frumlegur. En kannski ættu þeir að passa sig í ljósi sögunnar og vera ekki of ákafir í að gefa alla peningana sína til ókunnugra, því það fylgir víst frumlegum nöfnum að fara stundum á hausinn.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Velkomin aftur! Húrra húrra!