mánudagur, maí 29, 2006

kosningar

Þá eru kosningarnar búnar. Ég fór í gamla skólann minn til að kjósa, sem í sjálfu sér er ljúfsárt, en gaman að sjá hvað allt hefur breyst en um leið haldið sér. Uppi á efri hæðinni eru myndir af öllum árgöngum sem hafa útskrifast þaðan. Ég á sjálf svona myndir af mínum árgangi en veit ekki alveg hvar þær eru, svo það var mjög gaman að kíkja á þær og sjá hvað við vorum miklir krakkar þarna í den. Það er líka skrýtið að hugsa til þess að flesta þá sem eru á þessum myndum umgekkst ég daglega í 10 vetur, en núna held ég varla sambandi við neinn og veit ekkert hvað varð af sumum þarna.

En aftur að kosningunum. Listinn sem ég kaus missti mikið fylgi og einn mann í bæjarstjórn og hlutföllin fóru úr 4:3 í 5:2, sem mér finnst ansi súrt í broti. Hins vegar hefðu þeir aldrei náð meirihluta þar sem Sjálfstæðisflokkurinn "á" bæinn. En til að líta á jákvæðu hliðarnar þá get ég ekki kvartað undan bæjarstjórn síðustu ára og efast um að það verði einhverjar miklar breytingar þar á.

Það fyndna er að úrslit í bæjarstjórnum falla í skuggann af borginni, þar var aðal og nánast eini slagurinn. Ég veit allt um loforð flokkanna þar en sama og ekkert um málefnin hér, enda held ég að kosningabaráttan hafi farið mjög friðsamlega fram og aðallega snúist um að bjóða fólki pylsur, kaffi og kökur. Þess vegna er ég mjög spennt fyrir hvernig stjórnarmyndunin fer í Reykjavík, þó svo að ég geti ekki ákveðið hvaða samsetning sé best. Helst myndi ég ekki vilja Sjálfstæðisflokkinn í stjórn og sérstaklega ekki eftir að hafa horft á hrokann í Vilhjálmi á kosninganótt, en tveggja flokka samstarf ætti að verða auðveldara en fjögurra, þó svo að þessir fjórir hafi myndað síðustu borgarstjórn.

En talandi um ríkjandi meirihluta, þá hefur mér einhverra hluta vegna aldrei þótt neitt mikið fútt í tölum á kosninganótt nema að meirihlutinn falli, hver svo sem er í honum - það er einhvern veginn eina formið sem er gaman að horfa á.

2 ummæli:

Ragnheidur sagði...

Ég er alveg sammála þér að borgarstjórnarmálin fengu drúgjan meirihluta umfjöllunar í fjölmiðlum og eins og þú var ég miklu meira með á nótunum í Reykjavík en hér í Hafnarfirði. Núna voru reyndar fyrstu kosningarnar sem ég upplifi sem "ekki-Reykvíkingur" svo ég veit ekki hvort þetta er alltaf svona eða bara núna.
Velkomin aftur annars.

Kolfinna sagði...

Takk :o)
Og trúðu mér það er alveg ótrúlega gaman að vera ekki-Reykvíkingur.