fimmtudagur, maí 10, 2007

ugla sat á kvisti

Þó að Kalli og Kobbi sómi sér vel efst á blogginu þá ætla ég að láta þá detta aðeins neðar á síðuna. Ég á nefnilega í svolitlum vanda, vanda sem ég held að hluti þjóðarinnar deili með mér - það verður kosið til Alþingis eftir tvo daga og ég veit ekki hvað ég ætla að kjósa og ekki út af því að ég geti ekki valið á milli tveggja flokka, heldur vegna þess að mig langar ekki til að kjósa neitt af því sem er í boði.

Ég hef kynnt mér flokkana sem í boði eru og skoðað stefnumálin og í raun skiptast flokkarnir í tvennt - stjórnina sem lofar öllu fögru og gerir mikið úr öllu sem hún hefur komið til leiðar og stjórnarandstöðuna sem rakkar allt niður sem stjórnin hefur gert og lofar öllu enn fegra - bara ef þeir komast að kjötkötlunum. Allir flokkar lofa því auknu fjármagni í hitt og þetta OG ætla flestir að lækka skattana líka án þess að gera grein fyrir hvaðan allir þessir peningar eiga að koma - því ef þetta væri svona auðvelt af hverju er ekki búið að gera það fyrir löngu?

Málið er að ég er ekki hlynnt ríkisstjórninni, finnst hafa verið of mikil spilling og tækifærisbúskapur hjá henni. Ég hef reyndar ákveðna samúð með Framsóknarflokknum - aðallega vegna þess að honum er kennt um allt þessa dagana á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er einhverra hluta stikkfrír, en ég vil þá samt ekki í næstu ríkisstjórn - held að það sé kominn tími á breytingar. Hins vegar held ég að stjórnarandstöðuflokkarnir yrðu ekki mikið skárri, allir flokkar virðast bara vilja skara eld að sinni köku og miðað við hvernig stjórnarandstaðan hegðar sér stundum þá virðast margir þar vera betri í því að mótmæla og elta skoðanakannanir en að koma einhverju gáfulegu að.

Það sem ég sakna samt mest úr kosningabaráttunni er að enginn virðist hugsa til lengri framtíðar en fram yfir kosningar. Enginn sem hefur sett fram skýra stefnu um hvað sé Íslandi og íslensku þjóðfélagi fyrir bestu til langs tíma litið. Engar umræður um hvar Ísland verði statt eftir 5 ár, 10 ár, 15 ár í samfélagi þjóðanna. Nánast ekkert er talað um nánara Evrópusamstarf sem er, að ég held, ákvörðun sem þarf að taka fyrr en síðar. Samfylkingin hefur reyndar aðild að ESB á stefnuskrá sinni en reynir að tala sem minnst um það vegna þess að það gæti kostað hana atkvæði. Því á meðan allir hrósa EES-samningnum og segja hann það besta sem fyrir Ísland hefur komið en hins vegar eru fáir sem vilja ganga í ESB vegna þess að það myndi eyðileggja sjálfstæði Íslendinga. Þar með gleymist það að á meðan Ísland er í EES verður það að taka upp allar reglugerðir frá ESB án þess að hafa neitt um það að segja.

Eftir að hafa gefist upp á flokkunum ákvað ég að velja flokk til að kjósa eftir fólkinu sem er í efstu fimm sætum hans, sumsé persónu en ekki flokk. Með þessari aðferð hefði ég getað hugsað mér að kjósa tvo flokka í Reykjavík norður, en þar sem ég bý sunnan Hringbrautarinnar gengur það víst ekki upp.

Því er ég farin að hallast að því að skila auðu, en finnst það einhvern veginn vera vanvirðing við kosningaréttinn, þannig að ég enda eflaust á því að gera ugla sat á kvisti - nema að ég fái hugljómun á næstu tveimur sólarhringum.

******************
Vildi óska að það væri jafnauðvelt að átta sig á pólitík og júróvisjón - en þetta er lagið sem mér finnst flottast þar:

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, ég er sammála þér frænka í nánast öllu. Það yrði ekki gott fyrir okkar litla land ef sama ríkisstjórn héldi áfram, en kaffibandalagið er engu skárra. En að skila auðu er ekki vanvirðing við kosningaréttinn að mínu mati. Það að kjósa ekki, eða kjósa e-ð bara af því bara er mun verra. Það að skila auðu segir að þér sé ekki sama, en sért ekki sátt við það sem er í boði. En það er bara mín skoðun. Hins vegar er allt í lagi að kjósa fólkið, því það er jú það sem maður er í raun og veru að kjósa. Eins og hefur sést á þessu tímabili, þá mega þingmenn skipta um flokka nánast eins og nærbuxur og halda þingsætinu sínu...

Annars er gaman að sjá blogg frá þér, þessi fína mynd af drauma sumrinu búin að tróna svolítið lengi á toppnum :)

Kolfinna sagði...

Hvernig líst þér þá á milliveginn, sem virðist nú verða þrautalendingin - hálf gamla ríkisstjórning og hálft kaffibandalagið? Annars vonast ég til að einhvern tíma verði hægt að kjósa einstaklinga en ekki flokka - gæti samt orðið erfitt að mynda meirihluta þannig.

Hehe, takk fyrir það - svona væri ég sko alveg til í að verja sumrinu - bara allt í rólegheitunum :o)