föstudagur, maí 18, 2007

Klaufaskapur og annað skemmtilegt

Ég er hrædd um að ég hafi hugsanlega orðið mér úti um nýtt ör áðan. Var að taka mat út úr ofninum og tókst einhvern veginn að snerta efri brún brennheitrar, innanverðrar ofnhurðarinnar með handarbakinu. Þrátt fyrir að hafa strax látið buna ískalt vatn á handarbakið (af hverju gerir maður það annars?) þá er þar nú rauðfjólublár flekkur sem mig logsvíður í og upphleypt rönd hefur nú þegar myndast. Ojæja, í versta falli fölnar það með tímanum, allavegana er það reynslan - nefnilega ekki í fyrsta skipti sem ég brenni mig á svona skaðræðisgrip.

Og núna er verið að búa til nýja ríkisstjórn, ég er alveg ískyggilega skoðanalaus í þessu öllu. Var samt að vonast eftir meiri sirkus í kringum þetta allt saman. Þrátt fyrir vandann með að gera upp hug minn fyrir kosningarnar þá tók ég samt virkan þátt í þeim, var nefnilega að telja atkvæði í Reykjavík suður. Úlla var í skipulagningu og fékk mig, Unu, Ingu, Gunnhildi og Bigga í talninguna. Það var virkilega gaman og mikil stemning og vel gert við okkur, sérstaklega var samt fyndið að vera í innsigluðum sal þar sem var búið að líma fyrir alla glugga og setja planka fyrir allar dyr og hlekkja hurðirnar saman að utan. Við máttum ekki taka símana með okkur inn og vorum því alveg sambandslaus við umheiminn frá sjö til tíu á meðan fyrri hluti atkvæða var talinn (og það var orðið mjög loftlaust þegar innsiglin voru svo rofið klukkan tíu). Við vorum í þeim hóp sem fór yfir atkvæði sem höfðu verið grófflokkuð og athuguðum hvort að bunkarnir væru ekki allir með sama flokknum kjörnum og tíndum út vafaatkvæði. Ég sá að mestu um að skoða seðla merkta Frjálslynda flokknum og Íslandshreyfingunni og var hissa á þeim fjölda atkvæða sem þeir flokkar hlutu, en fjallið með atkvæðum greiddum Sjálfstæðisflokknum var óhugnanlega stórt í samanburði og voru þrír í því að fara í gegnum þau atkvæði og andvörpuðu sumir sáran yfir því magni. Una öðlaðist svo fimmtán mínútur (eða að minnsta kosti fimm) af frægð þegar hún sást greinilega á hægri hönd þess sem las upp atkvæðin í sjónvarpinu.

Engin ummæli: