þriðjudagur, maí 27, 2008

sambönd

Ein vinkona mín hér á sér „ástmann“ sem hún vill helst giftast en eini gallinn er sá að hún er þegar gift. Svipbrigði ástmannsins þegar hún kynnir hann svo fyrir öðru fólki eru alltaf kostuleg (sem og svipbrigði þeirra sem hann er kynntur fyrir) - eiginmaðurinn hlær bara að þessu og segir að orð séu ódýr. Honum finnst samt ekki alveg jafnfyndið þegar eiginkona hans vitnar í kvikmyndina Persepolis (sem við sáum öll saman um daginn), en þar hélt ein persónan því fram að fyrsta hjónaband væri ekki neitt merkilegra en æfing fyrir hjónaband númer tvö.

Ástmaðurinn hefur ekki látið uppi hvað honum finnst um þennan ráðahag (eða réttara sagt þríhyrning) en hann er tvímælalaust í konuleit. Leitin gengur hálfbrösuglega því bæði er hann feiminn og óframfærinn og svo virðist hann bara falla fyrir konum sem eru í samböndum. Vinkonu minni finnst hins vegar fráleitt að slíkur karlkostur skuli vera á lausu og ákvað því fyrr í vetur að hjálpa honum við leitina - reyndar er það hægara sagt en gert, því það er erfitt að átta sig á því hvernig konum hann heillast af. Að lokum náði hún að toga upp úr honum tvennt sem konur verða að hafa til að bera, annars vegar verða þær að vera undurfríðar - en þar sem hann og vinkonu mína greinir mjög á um hvað telst undurfrítt fer hún eingöngu eftir síðara atriðinu sem er að þær verða að vera gáfaðar og því með gleraugu. Þannig að nú er leitað dyrum og dyngjum að konu sem er nógu góð handa ástmanninum og gengur með gleraugu (og er helst á lausu), en allar sem fram eru boðnar reynast annað hvort ekki nógu fallegar eða of gamlar.

Önnur vinkona mín hér gifti sig ung og skildi við manninn sinn í fyrra (eftir líflátshótanir, skattsvik og fleira skemmtilegt), hún var ákveðin í því að vera ekki einhleyp lengi og fór á stefnumót með ótalmörgum mönnum þó svo að hún segðist vera hrifnari af konum. Eftir að hafa þannig kysst óteljandi froska fann “prinsessan” hana á Facebook viku fyrir Valentínusardaginn. Síðan hafa þær tvær verið saman nánast öllum stundum og búa núna saman og stefna á að giftast á næsta ári (sem er leyfilegt þar sem önnur þeirra er frá ríki sem leyfir hjónabönd samkynhneigðra). Það skondna er að kærastan heitir sama nafni og einn kennaranna í deildinni og til að forðast misskilning fengu þær um tíma viðurnefnin “góða” og “vonda” (sem breyttist í “ekki svo góða” svona til að móðga engan).

Í deildinni er líka strákur sem er yfir sig hrifinn af kærastanum sínum og þar sem hann er opinskár og heiðarlegur ungur maður liggur hann ekkert á þeim skoðunum sínum og segir oft upp úr eins manns hljóði á skrifstofunni hvað hann sé nú ástfanginn og hvað kærastinn hans sé sætur og reynir oft að fá fólk á skrifstofunni til að dást að honum með sér og skoða myndir (sem hafa leitt til umræðna um hvað teljist of miklar upplýsingar). En það samband hefur ekki alltaf verið dans á rósum, fyrstu mánuðina vildi kærastinn ekki koma út úr skápnum þar sem hann bjó í bræðrafélagshúsi og var ekki viss um að sér yrði vært þar ef upp um kynhneigðina kæmist en sem betur fer leystist það. En til að auka enn á ruglinginn þá ber kærastinn sama nafn og tveir kennarar, reyndar ruglar það okkur ekki neitt, en þegar væntanlegir nýnemar næsta hausts komu í heimsókn áttu þeir oft erfitt með að skilja á milli hver var hvað.

Svo er ein sem lætur sér ekki nægja að hrífast af nafna/nöfnu kennara, heldur sagðist um daginn vera yfir sig ástfangin af aðalleiðbeinanda sínum, svo mjög að hún myndi hiklaust sparka kærastanum fyrir hann. Eftir smá umhugsun fannst henni það ekki nógu mikil fórn og sagðist jafnvel vera tilbúin til að þvo af honum (en það er það leiðinlegasta sem hún veit).

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég mundi segja að þú hefðir hér bætt fyrir margra mánaða vanrækslu með góðum pistlum. Hlakka til að sjá og heyra meira.
K&k