mánudagur, september 06, 2004

Ég var að lesa Moggann í dag og sá grein um netfíkn og er orðin skíthrædd um að vera haldin henni. Til dæmis eins og núna, í stað þess að fara að sofa þá skoða ég allar mögulegar og ómögulegar vefsíður og les hluti sem ég myndi ekki nenna að lesa ef þeir væru á öðru formi. Ég er meira að segja farin að hugsa um að fara í netbindindi (en held að ég yrði mjög fljót að brjóta það)

Annars byrjar skólinn á morgun og í einhverju bjartsýniskasti í vor ákvað ég að skrá mig í byrjendaáfanga í frönsku - svona til að geta sagt meira en þrjár setningar með hryllilegum framburði. En ég ætla bara að vera bjartsýn og vona að ég læri einhverja frönsku - eiginlega til skammar að geta ekki talað neitt rómanskt mál (hefði kannski frekar átt að byrja á spænsku, er sagt að hún sé léttari).

Svo er ég reyndar farin að hugsa um hvort ég eigi ekki bara að hætta þessu námi og fara að vinna - reyndar virðist það vera í undirmeðvitundinni, því ég er alltaf að skoða atvinnuauglýsingar þrátt fyrir að vera komin með vinnu með skóla fram að áramótum. Síðan var ég að tala við hana systur mína og hún var að segja mér hvað verslunarstjórarnir hjá Dominos eru með í laun og það er eitthvað yfir 300.000 á mánuði auk bónusa - og það tekur víst bara 2-4 ár að komast í þá tign. Þetta eru hærri laun heldur en ég á nokkurn tíma möguleika á að fá með þessa fínu háskólamenntun mína, svo ég spyr bara hvort ég sé ekki að eyða tímanum í algjöra vitleysu. Svarið verður, neinei - miklu betra að vera í vinnu sem er illa borguð en maður fær að gera það sem manni finnst gaman heldur en að fá hátt kaup fyrir eitthvað sem er leiðinlegt. Segið svo að ég sé ekki dugleg við að ljúga að sjálfri mér :o)

Engin ummæli: