þriðjudagur, september 21, 2004

Heimurinn er lítill. Ég sit í tölvustofunni í Árnagarði núna og hef á síðusta hálftímanum hitt held ég nánast alla sem ég þekki vel hérna í Háskólanum. Sem er kannski ekki svo erfitt þar sem það eru nú ekkert voðalega margir núorðið, flestir eru hættir námi til að fara að vinna. En sumsé þá er greinilega vænlegra til spjalls að hanga hér heldur en niðri á kaffistofu - verst hvað fólkið í kring lítur mann illu auga við þá iðju, þykist vera að vinna eitthvað merkilegt þegar ég veit að það er bara að leika sér á netinu.

Annars var ég dugleg í þágu vísindanna í dag, tók þátt í einhverri rannsókn hjá Erfðagreiningu á erfðum líkamsfitu og til þess þurfti ég að útfylla spurningalista og gefa þeim margar flöskur af blóði og leyfa þeim að skera smá burt af fitunni minni. Deyfingin var vond en ég fann ekkert fyrir skurðinum sjálfum, það er þangað til að ég ákvað að vera fyndin og segja að það mætti alveg taka meira - ég ætti sko nóg. Þá skar læknirinn niður fyrir deyfinguna eða gerði eitthvað sem var alveg ólýsanlega sárt og ég, litli auminginn, öskraði næstum (eða meira en næstum) af sársauka. En svo var ég saumuð saman og voðalega fyndið að finna fyrir þræðinum, án þess að finna nálina stingast í húðina. En svo fæ ég borgað fyrir fituna, eða til að vera nákvæm - ég gef fituna, en fæ borgað fyrir vinnutap og óþægindi. Og svo fékk ég líka bol :o) Vildi óska að ég gæti losnað við afganginn af líkamsfitunni á sama hátt.

Gunnhildur fór líka og það trúði því í fyrsta lagi enginn að við værum systur og í öðru lagi að ég væri sex árum eldri (héldu að ég væri líka í MR) - en samt vildi enginn fá að sjá nein persónuskilríki. Henni fannst þetta miklu skemmtilegra en mér og fékk að sjá fituna sem var dregin úr henni, en hún græddi líka tveggja vikna veikindavottorð fyrir leikfimi (bað reyndar um tvo mánuði, en því var hafnað - en það kostar ekkert að reyna)

Annars eru hér afmæliskveðjur til afmælisbarna dagsins (sem ég veit að lesa þetta bæði og því passaði ég mig á að fara ekki út í blóðugar lýsingar hér að ofan, svo að einhverjar líkur séu á því að þau komist svona langt niður).
En Hemmi er 26 ára og Hekla 25 ára í dag og þar með eru þau búin að jafna aldursbilið við mig upp á nýtt og fá hamingjuóskir í tilefni þess.

Svo á Hreinn Ingi afmæli á morgun og verður 11 ára og afi á föstudaginn og nær þá þeim virðingaraldri að verða 84 ára.
Svo það er algjör afmælissprengja þessa dagana :o)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég þakka fyrir góða kveðju! :) Annars fannst mér þessar lýsingar ekki svo slæmar, sennilegast orðin vön öllu verri hlutum en þetta... Allavega, ég þakka fyrir mig.
Og mundu, alveg sama hvað þú segir, ég er alltaf ári eldri!!!
Kveðja Hekla