miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Survivor

Mér til mikillar gleði er Survivor byrjaður aftur og ég sé fram á margar gleðistundir á mánudögum næstu vikurnar. En samt fór fyrsti þátturinn svolítið í taugarnar á mér. Mér fannst alveg óþarfi að kjósa þannig í lið að tveir keppendanna dyttu strax út og voru í raun ekki með. Mér fannst það í raun andstyggilegt að hafa sagt fólki að það ætti að vera með í keppninni og senda það svo heim áður en hún byrjaði í raun og veru.

Ég er reyndar viss um að syngjandi enskukennarinn hefði orðið virkilega pirrandi ef hún hefði haldið áfram, en ég las viðtal við hana í gær, þar sem að hún var að segja frá hvernig það hefði verið draumur sinn í mörg ár að fá að vera með í survivor, að fá að vera hluti af ættflokki, taka þátt í þrautum og fara svo á ættflokkaþing. Þegar hún fékk að vita að hún yrði með að þessu sinni, ákvað hún að undirbúa sig eftir bestu getu - komst í gott líkamlegt form, lærði samtalstækni og stjórnunartækni, svo að allir yrðu vinir hennar og litu upp til hennar og svo áttu söngvarnir hennar að vera uppörvandi og skemmtilegir.

Eftir að hafa lesið þetta fannst mér þetta enn grimmilegra en fyrr og ætti bara að vera bannað að leyfa fólki að komast svona nálægt því að fá draum sinn uppfylltan en rífa það svo í burtu. Ég held að áhorfendum hafi ekki þótt þetta nógu skemmtilegt til þess að það væri réttlætanlegt - var spennuvaldur í 10 mínútur en svo búið. Núna vona ég bara að það verði eitthvað plott, sem leyfir þeim að koma aftur.

1 ummæli:

Ragnheidur sagði...

Það var af miskunnsemi sem hún var send burt svona snemma - hún hefði verið étin lifandi við fyrsta tækifæri hefði hún fengið að halda áfram að syngja.
En þurfum við ekki að fara að halda Survivor-fund?