föstudagur, júní 09, 2006

fotbolti og framsokn

Eins og allir vita, eða ættu að vita, þá hefst heimsmeistarakeppnin í fótbolta á eftir, nánar tiltekið klukkan fjögur. Ég ætla ekki að minnast á hvað ég er fúl út í Sýn fyrir að hafa sölsað undir sig réttinn og selja svo aðgang að honum á okurverði "í boði" ákveðinna fyrirtækja og láta loka á þær erlendu stöðvar sem sýna frá keppninni. Ég ætla að leyfa samkeppnisráði að hafa áhyggjur af því og reyna að eiga sem minnst viðskipti við þau fyrirtæki sem að bjóða upp á þessar sýningar í læstri dagskrá.

Hins vegar ætla ég að njóta þess að sjá þá þrjá leiki sem þeir verða að sýna í opinni dagskrá, opnunarleikinn og leikina um fyrsta og þriðja sætið. Og svo er víst sjónvarp í vinnunni minni og það verður örugglega á fullu alla keppninna svo að ég fæ að fylgjast svolítið með.

Opnunarleikurinn hefst klukkan fjögur á Sýn, þar sem Þýskaland og Kostaríka spila. Ég heyrði áðan auglýsingu frá Ríkissjónvarpinu þar sem var tilkynnt að þar á bæ yrði líka bein útsending klukkan fjögur, á ræðu Halldórs Ásgrímssonar á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins! Hversu lágt getur sjónvarpið lagst, eftir að hafa glutrað sýningarréttinum á keppninni úr höndunum á sér og ætla svo að reyna að fá fólk til að horfa á miðstjórnarfund Framsóknarflokksins í staðinn.

Þótt mér sé ekkert illa við Dóra, þá skil ég núna af hverju hann hefur ekki verið sigursælli í kosningum. Að halda mikilvæga ræðu, sem að hann vill líklega að öll þjóðin heyri á sama tíma og svona 60-70% landsmanna eru límdir við skjáinn að horfa á fótbolta, er ekkert sérlega sniðugt hjá honum og sýnir að tímasetningar eru ekki hans sterka hlið (svona ef maður skyldi ekki hafa fattað það eftir síðustu helgi) og að hann er ekki í takt við fólkið í landinu.

Engin ummæli: