sunnudagur, júní 11, 2006

furðulegar auglysingar

Ég held að ég hafi aldrei séð jafninnilega misheppnaða auglýsingu og nýju auglýsinguna frá Orkuveitunni. Öll undur rafmagnsins, sett í söngleikjastíl í alltof langri auglýsingu, sem væri líka hægt að túlka sem svo að pabbinn sé að kenna syninum að meta hálfnakið kvenfólk. (Allavegna birtast hálfnaktar konur á sjónvarpsskjám, tölvuskjám og fleiru á meðan pabbinn syngur um hvað rafmagn sé dásamlegt).

Ég er að velta fyrir mér hvernig yfirmenn Orkuveitunnar hafa lýst hvað það var sem þeir sæktust eftir með þessari auglýsingu, þegar þeir töluðu við auglýsingastofuna. Þeir hafa greinilega ekki horft í kostnaðinn, því eftir allt saman eru það áhorfendur sem þurfa að borga fyrir þessa auglýsingu.

Og talandi um asnalegar auglýsingar, þá var heilsíðuauglýsing í gær frá Eden, þar sem konur voru hvattar til að skilja HM-óða karlana eftir heima, en koma í Eden með veski kallanna og eyða á útsölu þar!!! Ég átti leið austur fyrir fjall í gær, en þessi auglýsing varð til þess að mér datt ekki í hug að koma þar við.

Þessi skipting um að konur eigi ekki að fíla fótbolta, hefur leitt til þess að Skjár 1 býður upp á sérstök "stelpukvöld" sem er gott og blessað, en það vill bara svo til að ég þekki þó nokkra stráka sem hafa gaman að þáttunum á þeirr dagskrá og finnst móðgun við sig að þeir þættir séu stimplaðir stelpuþættir.

2 ummæli:

Ragnheidur sagði...

sammála þér með Orkuveituauglýsinguna - hún missir algerlega marks. Merkilegast finnst mér þó að drengurinn spyr hvaðan rafmagnið komi og faðirinn, sem greinilega veit ekki svarið, bullar eitthvað um fjöllin og vatnið og fer svo bara að syngja um að það sé ekkert vesen hjá Orkuveitunni og þaðan í sund í stað þess að fræða barnið sitt. væri ég barnið myndi ég ekki sætta mig við svona loðið svar.

Kolfinna sagði...

Nákvæmlega. Og þar sem ég held að við (áhorfendur/viðskiptavinir) séum í raun barnið sem pabbinn er að fræða - þá er ég ekki sátt við auglýsinguna.