þriðjudagur, febrúar 20, 2007

neytendafrömuður?

Jæja, þá er ég komin aftur heim frá Ísafirði, algjörlega afslöppuð. Fór í fjögurra daga helgarferð þangað með mömmu og Gunnhildi, til að hitta afa og ömmu og aðra ættingja og njóta lífsins. Það tókst og betur en það. Í dag var orðið svo hvasst að ekki var hægt að lenda flugvélum á vellinum, og vonaðist ég svona hálft í hvoru til þess að verða veðurteppt þarna. En þar sem fært var frá Þingeyri voru allir farþegarnir fluttir í rútu til Dýrafjarðar og þaðan svo flogið. Hin síðari ár er ég alltaf jafnglöð að sjá hina "hráu" fegurð Vestfjarða, fjöllin með hömrum sínum og klettum sem gnæfa yfir bæjunum og sjóinn sem er margbreytilegur bæði að lit og skapi og finnst ég vera komin heim.

Það síðastnefnda er kannski ekki skrýtið, þar sem ég rek uppruna minn mestmegnis til Vestfjarða, báðar ömmur mínar og annar afi minn fæddust þar og ólust upp. Nánar tiltekið Álftafirði, Önundarfirði og Skálavík. Ég veit mismikið um forfeður mína, mest veit ég um systkinin Jónatan og Aniku, sem eru langafi minn og langalangamma, foreldra þeirra, Magnús og Guðrúnu, og mann Aniku Reinald (sem er eini forfaðir minn sem hefur skrifað ævisögu sína og það í tveimur bindum - reyndar er hvort þeirra fyrir sig einungis um 100 síður, en það er aukaatriði).

Afi sagði mér þá sögu af Magnúsi, langaafa sínum, að hann hafi einu sinni lent í töluverðum lífsháska þegar hann var ungur maður. Svo var mál með vexti að hann vann við fjárgæslu í næsta dal við Bíldudal. Einhverju sinni var hann staddur í búð á Bíldudal þegar fimm franskir sjómenn komu þangað inn og ætluðu að selja hnífa sem þeir voru með og litu glæsilega út. Magnús fékk að handleika einn hnífinn og stakk honum í borð, en við það brotnaði oddurinn af og sagði hann hnífana greinilega til einskis nýta. Fransmennirnir voru ekki par sáttir við þetta og veittu Magnúsi fyrirsát nokkrum dögum seinna þegar hann gekk til kinda og hafði hann broddstaf einn vopna og særðist töluvert í atganginum og komst naumlega til næsta bæjar. Síðar orti hann þessa vísu um atvikið:

Birtan dvínar, björg ei finn,
bilar kraft í leynum.
Þegar sævar seggir fimm,
sóttu að mér einum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyrði aldrei þessa vísu hér í gamla daga. En aftur þessa (eftir Magnús):

Ég með elli ónýtt vés
anda á mínu bóli,
Gunna prjónar, Gróa les,
það gengur svona á Hóli.

(Hóll er næsti bær við Angmagsalik, eins og þú veist)