föstudagur, júní 06, 2008

helvíti

Ég skil núna af hverju ég fæddist á Íslandi en ekki á suðlægari slóðum. Eftir tiltölulegan kaldan (og notalegan) maímánuð með hitastig og rigningu á við meðalíslenskt sumar kom sumarið. Í þessum skrifuðu orðum (klukkan átta að kvöldi) er sólin loksins að setjast, hitinn 33 gráður á selsíus og rakinn alla lifandi að drepa - vonandi að þrumuveðrið og rigningin sem er spáð í kvöld hjálpi eitthvað til við að hreinsa loftið.

Ég passaði mig á að vera á bókasafninu þar sem er loftkæling í dag, húsið sem ég bý í er nefnilega svo gamaldags (lesist leigusalinn tímir ekki að breyta neinu eða laga, nema hann sé neyddur til þess af bæjarfélaginu) að hér er engin loftkæling. Núna er ég komin heim og þrjár stórar viftur á fullu en það dugar samt ekki til, við minnstu hreyfingu svitnum við og aumingjans kötturinn liggur afvelta í loðfeldinum sínum. Mér er sagt að þessi hiti venjist en er ekki fyllilega sannfærð, vona samt að fólk hafi rétt fyrir sér.

En til að ljúka þessu á jákvæðum nótum þá tókst mér að sofa almennilega í nótt (ég hef átt erfitt með svefn síðastliðna viku - en sambýlingurinn gaf mér svefntöflu í gær og ég vona að það hafi rétt allt af), hitinn er notaður sem afsökun til að fá sér bjór (það virkar í bíó), ég komst að því að stúdentakráin hérna ætlar að sýna flestalla leikina á EM - lokaleikina meira að segja á stóru tjaldi og mamma kemur bráðum í heimsókn :D

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æ, æ, ætlarðu að bjóða mér upp á hitabylgju og svitakóf þegar ég mæti loks á svæðið. Ég sem hefði hugsanlega mögulega getað komið í vetur!!