fimmtudagur, mars 28, 2013

skýr dagur

Það er eitthvað svo yndislega rólegt við páskana, allt er í hægagangi og ekkert stress. Það þarf ekki að baka helling af smákökum, búa til langa lista af því sem á að vera í matinn og kaupa gjafir í stórum stíl. Aðalmálið virðist vera að allir fái sín páskaegg og geti slappað af, nema kannski þeir sem eru að ferma. Fréttaveitan á facebook haggast varla, helgarblöðin eru bæði komin og lesin og margir dagar í næstu tölublöð.

Ég ætti svo sem að vera aðeins stressaðri miðað við allt sem ég að skila af mér upp úr páskum, en ég nenni því ekki (sem gæti skýrt þessa bloggfærslu), heldur sit í inni í stofu með kaffibolla og sleiki sólina sem berst inn um gluggann, hlusta af óminn af Rás 1 sem einhver nágranna minna er með í gangi, hátt stillta, og reyni að stauta mig fram úr ritgerð Hammerichs frá 1836. Ekki nóg með að hún sé á gamaldags dönsku og svolítið sundurlaus heldur er hún prentuð með gotnesku letri og af þeim sökum (og ekki alveg nógra gæða í innskönnun) þá gengur mjög hægt að lesa hana og athyglin flöktir. Mig minnir að pabbi hafi einhvern tíma sagt mér frá einhverri rannsókn um að ef maður gæti ekki lesið ákveðinn fjölda orða á mínútu þá nennti heilinn þessu ekki og hugurinn flökti auðveldlega í aðrar áttir. Lestrarhraði minn er örugglega langt undir þeim mörkum þessa stundina og því er allt mun meira spennandi og ég væri örugglega farin að þrífa eða gera eitthvað álíka ógagnlegt ef það lægi ekki svona mikil leti í loftinu.

Letin kom þó ekki í veg fyrir að ég rölti út í búð áðan. Ekki það að mig vantaði eitthvað stórvægilegt, en var hrædd um að mig myndi vanta allt mögulegt á morgun þegar flestar búðir eru lokaðar. Ég stóðst ekki mátið og keypti mér lítið páskaegg til að maula með kaffinu, það stóð nokkurn veginn undir væntingum, þó að málshátturinn sé frekar til þess fallinn að draga úr manni kjark en að auka bjartsýnina, eða: Fallið sakar þá minnst sem fljúga lægst.

Engin ummæli: