mánudagur, maí 06, 2013

On the road again...

Oft fylgir ferðalögum sú löngun að segja frá því sem á daga manns drífur. Ég hef hins vegar alltof oft staðist þá freistingu og hefur þá efalaust hjálpað til að ég get (vægast sagt) verið ansi pennalöt og frestað skrifum þar til fennt hefur yfir þau atvik sem í frásögur hefðu verið færandi. En þar sem ég þykist hafa endurvakið þetta blogg (telst ekki einn póstur örugglega vera endurvakning?) og hef lagt land undir fót, með tölvu í bakpokanum og virðist alls staðar komast í netsamband, þá hef ég eiginlega enga afsökun lengur, sér í lagi þar sem ég á eftir að klára fyrirlesturinn minn og því tilvalið að skrifa eitthvað allt, allt annað ;o)

Ég ligg núna í koju á farfuglaheimili í Kínahverfinu í Boston og er að búa mig undir að fara að sofa, því þótt klukkan sé bara ellefu að staðartíma þá er ég orðin svolítið þreytt. Ég gekk héðan af rútustöðinni og fann að sjálfsögðu ekki götuna sem ég átti að ganga eftir (skv. leiðbeiningum frá farfuglaheimilinu), en fann í staðinn skilti sem benti á Kínahverfið og sirkaði bara út hvert ég ætti að fara og rambaði að lokum á réttan stað og fylltist stolti yfir ratvísi minni - enda ekki auðvelt að lesa á þessi götuskilti í myrkri. Hér virðist vera matsölustaður í hverju húsi og ekki bara kínverskir heldur líka taílenskir og japanskir og svo að sjálfsögðu McDonalds. 

Að sjálfsögðu pakkaði ég í miklum fljótheitum í morgun og þegar ég var búin að stinga bæði sólarvörn og regnhlíf í töskuna fannst mér ég vera fær í flestan sjó - og þegar ég mundi bæði eftir tannburstanum mínum og sokkum - venjulega gleymi ég öðru af þessu tvennu - fannst mér eiginlega að meira þyrfti ekki. Enn er reyndar það stutt liðið á ferðina að ég á eftir að komast að því hvaða nauðsynjahlut ég gleymdi í þetta sinn. Ferðin gekk vel, en einkenndist af biðröðum, fyrst í fjörutíu mínútur í innritun í Leifsstöð og svo í klukkutíma í innflytjendaeftirlitinu í Boston - en á móti kom að Miriam fór með sömu vél og við gátum létt hvor annarri biðina í Leifsstöð og svo fengum við okkur að borða saman þegar komið var til Boston og munum næst sjást í Chicago. Í fluginu sjálfu sat ég við glugga og miðjusætið var autt, þannig að ég gat látið fara mjög vel um mig og í bókabúðinni á flugvellinum fann ég risastóra bók með dulmálskóðunarþrautum - reyndar á ensku en ég ræð a.m.k. við hluta þeirra - og gat skemmt mér við hana þegar ég nennti ekki lengur að horfa á kvikmyndir og þætti.

Engin ummæli: