föstudagur, október 29, 2004

Kennsluógn

Og breytingarnar halda áfram, ég litaði á mér hárið í fyrsta skipti á þriðjudaginn (sést reyndar ekki mikill munur). Það heppnaðist framar vonum kannski út af því að litla systir hjálpaði mér fullt (lesist hún sá um það - ég er ekki fær um svona hluti) enda var hún að lita á sér hárið og ég fékk leifarnar af þeim háralit. Samt er hárið okkar ekki eins á litinn núna, enda hafði ég litinn ekki jafnlengi í og hún og setti auk þess ekki jafnmikinn lit í.

Á mánudaginn fer ég að þykjast vera kennari. Ég held að sá misskilningur hafi orðið að ég kynni að kenna (sem ég kann ekki og er ekki með próf upp á), en ég hef engar áhyggjur af því - það reddast. Það sem ég hef áhyggjur af er að ég hef ekki hugmynd um hvar þau eru nákvæmlega stödd, á hverju ég eigi að láta þau byrja í næsta tíma og svoleiðis. Við fórum á fund fyrir viku með kennaranum sem við erum að fara að leysa af, en ég var litlu nær eftir það - svo ég vona að hann svari tölvupóstinum sem ég sendi honum áðan.

En annars vona ég að krakkagreyin (verða örugglega orðin að skrýmslum eftir helgi) verði til friðs og leyfi mér að tala. Ef þau ætla að vera eitthvað óþekk, nota ég bara lyklakipputrixið sem ég lærði í fyrra (það borgaði sig sko að hanga með krökkunum sem voru í kennslufræðinni þá) en það felst í því að mæta með risastóra lyklakippu og fleygja henni í borðið, skv. the dummies guide to teaching á það að skila sér í óttablandinni virðingu nemenda sem á að endast önnina. Ég veit ekki hvort þetta virkar, en mér fannst þetta gagnlegra en allar ígrundanirnar sem þau þurftu að skrifa.

En eitt af því sem ég á að kenna er skáldsagan Óvinafagnaður sem gerist á Sturlungaöld og fjallar um baráttu Þórðar kakala við Kolbein unga. Til þess að fá bakgrunnsupplýsingar um kappana ákvað ég að lesa Þórðar sögu kakala - ég hætti á blaðsíðu 20 því mér ofbauð. Þessir karlar fóru um héruð og fóthuggu og drápu menn fyrir engar sakir, aðallega af því að þeim leiddist eða eitthvað. Og svo eru menn að kvarta yfir handrukkurum nútímans!!! Ekki það að þeir séu ekki slæmir, en að ímynda sér hvílíkan hrylling forfeður okkar sem voru almúgafólk hefur þurft að láta yfir sig ganga.

Engin ummæli: