fimmtudagur, júlí 12, 2007

jamm

Það er óneitanlega skrýtin tilhugsun að eftir þrjár vikur fer ég og kem ekki aftur til landsins fyrr en um jólin. Mér hefur alltaf fundist svo langt í brottförina, en þrjár vikur eru víst fljótar að líða og ekki síst þegar tekið er tillit til alls sem ég á eftir að gera. Af minni alkunnu skipulagssemi er ég þó búin að gera lista yfir allt sem er ógert (og hann er langur), en lengra hefur það ekki náð. Enda sló það mig ekki fyrr en um síðustu helgi að ég sé í raun að fara, því þá byrjaði ég að kveðja fólk sem ég á eftir að sakna. Gunnhildur stakk af til Þýskalands með Lóu og kemur ekki fyrr en eftir að ég fer svo ég sé hana ekki fyrr en í desember (en ég mæli með blogginu þeirra). Afi og amma eru fyrir vestan og ég fer líklega ekki aftur þangað fyrr en í fyrsta lagi um jólin.

Annars var dvölin á Ísafirði í hæsta máta yndisleg og hefði að ósekju mátt vara lengur en í fjóra daga. Ég fór þangað með mömmu og tíminn leið við heimsóknir, bókalestur og algjöra afslöppun, helstu „áhyggjur“ hvers dags fólust í því hvað ætti að skoða þann daginn, hvaða bók ætti að lesa næst og hvað ætti að hafa í kvöldmatinn. Alveg hreint dásamlegt þegar hægt er að skilja allt stressið eftir í bænum og njóta bara lífsins.

Og ekki má gleyma hinni stórgóðu stjörnuspá dagsins: Meyja: Það eyðileggur fyrir þér að vera tilfinningasamur í þeim verkefnum sem nú fara í hönd. Þau eru mjög mikilvæg - þú gætir bjargað alheiminum. Kannski eins gott að drífa í að gera eitthvað af því sem er á listanum góða ;o)

3 ummæli:

Ragnheidur sagði...

Hæ skvís! Ég vissi ekki að þú værir að fara út en komst að því hvert með því að skoða kommentin hér að neðan. Vantar þá bara að vita hvers vegna. ;)
Annars kannast ég vel við þennan langa lista. Úff maður! :S

Kolfinna sagði...

Hæ :o)
Ég er að fara að kenna íslensku þarna og læra meira í leiðinni.
Hvenær farið þið út? Er það rétt hjá mér að þið verðið í einu af næstu fylkjum (svona „nágrannar“ á landakortinu)?

Það ætti að banna svona lista, hlutirnir ættu bara að gerast sjálfkrafa ;o)

Ragnheidur sagði...

Já, ætli "landakortanágrannar" sé ekki ágætis lýsing. ;) Við verðum í Pennsylvaniufylky, í Pittsburgh sem er sunnarlega í fylkinu.