þriðjudagur, júlí 17, 2007

blaðalestur

Áðan fékk ég mjög svo skemmtilegt símtal. Í mig hringdi maður frá Gallup og vildi kanna dagblaðalestur minn. Fyrst spurði hann mig um hversu oft ég hefði flett Mogganum undanfarna viku, ég varð nú að viðurkenna að það hefði verið sjaldan, síðan spurði hann um Fréttablaðið og ég sagðist fletta því svona þrisvar til fjórum sinnum í viku í fimm til tíu mínútur í senn (eða sem samsvarar því að byrja aftast og hraðlesa allt fram að teiknimyndasögunum, snúa blaðinu svo við og líta yfir fyrirsagnir og lesa þær fréttir á fremstu síðunum sem vekja áhuga minn). Blaðið lít ég svo nánast aldrei í - hef samt ekkert á móti því, það er bara ekki á ratsjánni.

Þá var ég spurð hvort ég læsi DV daglega, ég játti því, og þá hvað lesturinn tæki langan tíma í hvert sinn og svaraði ég því til að oft væru það á bilinu sjö til níu klukkustundir. Til skýringar bætti ég svo við að ég ynni við að prófarkalesa það og þess vegna færi svo mikill tími í lesturinn. Maðurinn hló bara að því og skráði að ég læsi DV í meira en klukkutíma á dag (hæsti flokkurinn). Það hífir vonandi meðaltal á lestri blaðsins eitthvað upp - spurning hvort þetta sé samt ekki smá svindl.

Engin ummæli: