mánudagur, júlí 16, 2007

meiri málfasismi (eins og sumir myndu orða það)

Þetta blogg stefnir óðum að því að verða málfarsnöldurblogg. Þessa dagana fer það nefnilega alveg ógurlega í taugarnar á mér þegar talað er um myndirnar Pan's Labyrinth, The Life of Others og Science of Sleep. Ekki það að myndirnar eigi ekki umfjöllunina skilið heldur finnst mér það afkáralegt að þegar talað er um spænskar, þýskar og franskar myndir á íslensku séu enskir titlar þeirra notaðir (versta dæmið var þó þegar danska myndin Gamle mænd i nye biler hét á Íslandi Old Men in New Cars). Það væri miklu eðlilegra að að nota heiti þeirra á frummálinu eða bara íslensku þýðinguna, algjör óþarfi að nota enska titilinn. Þessi tilhneiging til að nota ensku minnir svolítið á dæmið um Richard Clayderman - en nafn hans er iðulega borið fram upp á enskan máta þótt þýskt sé (Ritsjard í stað Rihjard). Kannski er enska í augum margra hin nýja latína, allt verður miklu flottara og fræðilegra á þeirri tungu.

Ég vildi líka gjarnan að heiti á enskum og bandarískum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum væru oftar íslenskuð, svona eins og var í gamla daga, þegar allt var þýtt (meira að segja Koppafeiti). Það er nefnilega miklu skemmtilegra að tala um Staupastein, Steinaldarmennina, Hver á að ráða?, Fyrirmyndarföður og Prúðuleikarana en Cheers, The Flintstones, Who's the Boss, The Cosby Show og The Muppet Show. Þó að RÚV haldi sig vissulega fast við það kerfi er það ekki nóg, því Stöð 2 og Skjár einn eru á góðri leið með að sleppa því að nota íslensku þegar kemur að dagskrárkynningum. Ég get upp að vissu marki (mjög takmörkuðu þó) skilið rökstuðninginn fyrir því að eingöngu ensku heitin séu notuð þótt mér finnist það ekki fallegt - en þegar ég sá á Skjá einum þætti um Hróa hött, sem bera ekki einungis heitið Robin Hood, heldur er aðalpersónan í íslenskum undirtexta nefnd Robin en ekki Hrói (og það sama gilti um nöfn annarra persóna), þá slökkti ég á tækinu af hneykslun ;o)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hehehehe ...er þetta ekki bara merki um að maður sé að verða gamall ;) ...no disrespect though.
En ég skil samt hvað þú meinar með þessu, sérstaklega að þýða titla "útlenskra" (þá meina ég ekki enskar) mynda yfir á ensku. Það er svolítið eins og að breyta evrum í dollara til að geta reiknað út hvað það er í íslenskum krónum.
Vona að þú haldir samt áfram að vera dugleg að blogga, því það er alltaf gaman að lesa ...þó svo að það sé um hnignandi málfar okkar "ignorent" íslendinganna :) (fær mann bara til að passa sig meira)

Nafnlaus sagði...

Auðvitað er ég sammála. En í þá gömlu góðu daga þótti okkur svolítið skondið, þegar við sáum norsku nöfnin á amrískum myndum. Jaws hét víst "Kempetorsken" og The Deep hét "Panik i pytten." En það var nú bara af því að norskan er eins og hún er.