mánudagur, desember 31, 2007

Guð mun ráða hvar við dönsum næstu jól

Þá eru jólin brátt hálfnuð og það eina sem ég hef afrekað er að borða, lesa, hitta fólk, sofa og baka. Nokkurn veginn það sem ég áætlaði, þó svo að ég hafi búist við að þriðji liðurinn yrði meiri um sig (en enn er tími til að bæta úr því). Reyndar man ég ekki hvað það er langt síðan ég hef átt alvöru jólafrí án vinnu eða ritgerðarskrifa og veit ekki hvenær ég fæ tækifæri til slíks næst, svo ég nýt þess bara (þó svo að mig sé hálfpartinn farið að klæja í fingurna að gera eitthvað annað en að vera í fríi).

Þetta ár hefur verið viðburðaríkt og í heildina bæði skemmtilegt og fjölbreytt. Ég vann samtals á fimm vinnustöðum (sem ég vona að sé met sem ég muni seint slá), fór í nýjan skóla, kynntist fullt af fólki (bæði Íslendingum og síðan allra þjóða kvikindum), varði tíma með vinum og fjölskyldu og komst nokkrum skrefum nær því að vita hver ég er og hvað mig langar til að verða (eða ekki verða) þegar ég verð stór.

Ég hlakka til að sjá hvað 2008 ber í skauti sér og vona að ég verði jafnánægð að ári liðnu.

Og þar sem að ég sendi engin jólakort í ár: Gleðilega rest, takk fyrir árið sem er næstum liðið og ég vona að næsta ár verði ykkur öllum gifturíkt :o)


1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

I would like to exchange links with your site bullumsullumrugl.blogspot.com
Is this possible?