miðvikudagur, desember 05, 2007

blogg um (nánast) ekki neitt

Núna er klukkan hálfþrjú og ég sit hér ein uppi í skóla og er að reyna að skrifa ritgerð (sem á að skila á föstudaginn, þannig að hún er ekki á síðustu stundu - enn sem komið er). Ég hef fyrir löngu komist að því að einbeitingarskorturinn er minni hér en heima og ég tala nú ekki um á nóttunni þegar allir sem ég þekki eru farnir heim svo ég "lendi" ekki í skemmtilegum samræðum eða samtuði. Þó svo að hvort tveggja geti leitt af sér mjög góðar hugmyndir, til dæmis hvernig framkvæma megi listrænan gjörning til að efla áhuga fólks á sögulegri málfræði eða hversu tilvalið sé að nota jólasveinamyndir til að skreyta prófið sem ég legg fyrir bekkinn minn á fimmtudag.

Ég held reyndar að það sé kominn tími til að fara heim því síðasta hálftímann hef ég ekkert gert af viti en fundist undurspennandi að skoða körfuboltasíður og reyna að gúggla af hverju ég er með skrýtna bletti á nöglunum (eins og litlar holur). Hvort tveggja eftir að hafa til þrautar reynt að knýja fram nýja tölvupósta, bloggfærslur hjá öðrum og nýjar færslur á mogganum, vísi og hinu nýja er. Og svo blogga ég meira að segja um nákvæmlega ekki neitt.

Af hverju í ósköpunum virðist allt í veröldinni skemmtilegra en að skrifa ritgerð?

Engin ummæli: