miðvikudagur, desember 12, 2007

Skiljanlegt?

Nú velti ég því fyrir mér hvort íslenskukunnáttu minni hafi hrakað svona allsvakalega í útlandinu (sem er ekki útilokað - ég þarf oftast að lesa bloggið mitt nokkrum sinnum yfir til að hreinsa burt enskulegt orðalag) eða hvort þetta sé bara svona hrikalega illa orðað? Hvort heldur sem er þá skil ég ekki meira en fyrstu setninguna.

MEYJA 23. ágúst - 22. september
Þú fyllist ástríðu. Ástríða er munurinn á því að framkvæma verk og verða atvinnumaður. Ástríða er munurinn á að líka við einhvern og gera tilkall til hans.
(mbl.is, 12. desember)


Í kvöld fór ég út að borða með fólki úr þýska talhópnum í Rauðu hlöðunni. Andrúmsloftið var vægast sagt alþjóðlegt þar sem við vorum átta af sjö þjóðernum (þó enginn Þjóðverji) og borðuðum á ítölsku veitingahúsi í Bandaríkjunum og allar samræður fóru fram á þýsku (og í ofanálag var rauðvínið frá Chile). Maturinn var mjög góður sem og félagsskapurinn (þótt þýskan mín sé fullryðguð fyrir fáguð samtöl.)

Ef ég man rétt þá kemur fyrsti jólasveinninn til byggða í nótt. Ætli Stekkjastaur muni eftir mér ef ég skelli skónum út í glugga?

Engin ummæli: