fimmtudagur, desember 13, 2007

heimþrá

Þegar ég gekk í átt að strætóstoppistöðinni við kirkjuna í morgun, í hægri hundslappadrífu sem tyllti sér á trén og árbakkann svo að heimurinn leit út eins og hið fegursta jólakort, fattaði ég hvers ég hef saknað. Mér hefur lengi fundist eins og það væri eitthvað sem vantaði hérna - ekki voru það fjöllin því það er mjög hæðótt hér í kring og ekki var það sjórinn, því hér er risastöðuvatn sem er hægt (með góðum vilja og úr smáfjarlægð) að líta á sem út- eða innhaf, því hinn bakkinn er langt úr augsýn - heldur er það vindurinn sem er í feluleik.

Ég man ekki til þess að hér hafi hvesst síðan ég kom, smá gola, mikið af rigningu, þrumum og eldingum, en ekkert alvöru hvassviðri. Ekki það að ég sé neitt óskaplega hrifin af hvassviðri á meðan ég er úti í því (þótt það geti verið hressandi) heldur er óneitanlega einmanalegt að lesa um óveður og rafmagnsleysi heima og heyra svo ekki neitt í veðrinu hérna og þá sakna ég þess að liggja uppi í rúmi að kvöldi til og heyra hvernig vindurinn ýlfrar og næðir úti. Og þá hrynur blekkingin um að ég búi skammt frá Cayuga-úthafinu.

Mér er reyndar sagt að þetta hljóti að vera misminni í mér og að ég muni örugglega kvarta yfir vondu veðurfari og hvössum vindum hérna í janúar og febrúar. Kannski er ég bara pirruð yfir því að geta ekki opnað gluggann minn lengur, þar sem að loksins fannst snilldarlausn til að halda hita inni í herberginu mínu (svo þar væri líft) eftir að upp komst að vetrarglugginn/-hlerinn (utanáliggjandi) hafði brotnað í fyrra. Í stað þess að setja upp nýjan glugga þá lét leigusalinn festa byggingarplast yfir rúðuna að innan, þannig að nú get ég hvorki opnað gluggann til að fá ferskt loft né séð út um hann (reyndar var útsýnið ekki stórfenglegt).

Og áður en ég held áfram að væla um að ég vilji verra veður (ég hlýt að vera eitthvað lasin) og fæla þar með alla frá því að hugsanlega vilja hitta mig um jólin, þá ætla ég að halda áfram með síðustu ritgerð annarinnar - um Verschärfung (man ekki íslenska heitið) í germönskum málum.

2 ummæli:

Name withdrawn sagði...

Ég man eftir því að hafa saknað vindsins þegar ég bjó út í Englandi. Þegar öðrum fannst bölvaður vindur, þá fannst mér veðrið bara hressandi. :) En ég held að þig langi ekkert sérstaklega í rokið sem er búið að vera hérna heim undanfarið.

Arna B. sagði...

Hæ elsku Kolfinna mín. Hlakka til að hitta þig um jólin.
Kkv.
Arna