miðvikudagur, maí 08, 2013

flugvallarblús

Stundum fæ ég góðar hugmyndir. Sú að ætla að eyða nóttinni á flugvelli til að ná flugi snemma næsta morgun er ekki ein þeirra. Nú sit ég dauðþreytt á bekk á Logan-flugvelli og tekst ekki að sofna nema stutta stund í einu, kannski út af því að plan A var að vaka í alla nótt og sofa í flugvélinni og því hellti ég í mig koffíni áðan, en þreytan reyndist hafa yfirhöndina - svefnfriðurinn er ekki mikill heldur, nálægt mér situr maður sem flissar hástöfum yfir einhverju sem hann les og einn starfsmannanna er óþreytandi við að keyra um á háværri skúringarvél og snúa henni í marga hringi einhvers staðar nálægt mér - sem hlýtur að merkja það að gólfin séu ansi hrein hérna. Núna ætti ég líklega að sverja þess eið að gera svonalagað aldrei aftur - eini gallinn er sá að hluti af heimferðarplönunum er önnur slík flugvallarnótt. Ég er líklega orðin of gömul fyrir svonalagað.

En á morgun hefst svo ævintýrahluti ferðalagsins, þá kemst ég á nýjar slóðir, hef aldrei farið svona langt vestur og mun m.a.s. kynnast glænýju tímabelti og þremur nýjum ríkjum. Miriam ætlar að sækja mig á flugvöllinn í Chicago og svo förum við sem leið liggur frá Illinois, yfir hluta af Indiana og svo inn í Michigan þar sem áfangastaðurinn leynist, hinn dularfulli bær Kalamazoo. Nafnið eitt og sér gefur til kynna að þar búi yfirnáttúrulegar verur (enda hélt ég fyrst þegar ég heyrði heitið að það væri tilbúningur) og mér líður stundum eins og ég sé á leið til ævintýraheims, að kanna hið óþekkta. Nöfn ríkjanna þriggja eru ekki síður ævintýraleg, því enn sem komið er eru þau ekkert nema nöfn og nánast hvað sem er getur leynst þar, ég er sér í lagi viss um að í Indiana leynist margt dularfullt og yrði í sjálfu sér ekkert mjög hissa þótt við sæjum dreka þar á ráfi. Ég sagði vini mínum frá þessum hugrenningartengslum um daginn og hann svaraði því strax til að Kalamazoo hljómaði eins og staður þar sem drekar gætu klakist út. Mér finnst það ekki hljóma ólíklega og tel að ef við rekumst á slíka skepnu í Indiana að þá hafi hún villst að heiman og sé alveg jafntýnd á þeim slóðum og ég.

1 ummæli:

Auður sagði...

Skemmtileg skrif mín kæra. En ég saknaði játninganna úr bókabúðinni sem þú hálflofaðir í síðustu færslu :)