þriðjudagur, maí 07, 2013

Ævintýri í bókabúð

Ég sit núna í einni flottustu bókabúð sem ég hef nokkurn tíma séð, Harvard Coop. Við mamma römbuðum hingað inn þegar við vorum hér um árið og eyddum lunganum úr þeim degi þar inni. Búðin lætur kannski ekki mikið yfir sér, en hún er á þremur hæðum og troðfull af bókum - skáldsögum og fræðibókum - og ef ég man rétt eru alveg nokkrir hillumetrar tileinkaðir goðafræði. Ég mun komast að því eftir svona tíu mínútur þegar ég hef lokið við kaffibollann minn og smákökuna með hnetusmjörssúkkulaðibitunum - orku sem er nauðsyn að hafa til að geta notið návistar bókanna til fullnustu. Bækur, kaffi og kaka - er til betri blanda í heiminum?

Innra með mér er þó barátta á milli þess að langa til að sleppa mér alveg lausri hér inni og kaupa fullt af álitlegum bókum, án þess að hafa áhyggjur af tilvonandi vísareikningi eða því hvernig ég hafi hugsað mér að dragnast með bækurnar heim. Mér líður eins og rauði djöfullinn og hvíti engillinn siti á öxlum mér og hvísli skilaboðum í eyra mér, gallinn er bara sá að ég veit ekki hvor er hvor (túlkanir óskast). Reyndar verð ég að viðurkenna að ég held að þetta nám hafi svolítið skemmt mig, núna finnst mér ég ekki mega hugsa um bækur nema þær séu gagnlegar - fræðibækur fram yfir skáldsögur. Kannski er kominn tími til að breyta því, skrifa ég um leið og ég lít úr sæti mínu á annarri hæð yfir skáldsagnadeildirnar á fyrstu og annarri hæð. Játningar um kaup verða hugsanlega í næsta bloggpóst ;o)

Fyrri hluta dagsins varði ég í miðbæ Boston, gekk um og naut þess að vera til í sólinni. Slappaði af í almenningsgarðinum, þar var barnahátíð í tilefni þess að svanirnar sneru aftur (hvaða svanir veit ég ekki og ekki heldur hvernig hægt var að tímasetja komu þeirra, en það var gaman að horfa á hátíðarhöldin), svoskoðaði mannlífið og rölti svo aðeins um göturnar. Eftir áðurnefnda dvöl okkar mömmu hér þá líður mér svolítið eins og ég þekki Boston vel - miðbærinn er hlýlegur og ég er mun hrifnari af þessari borg en New York, þar sem allt er miklu grárra og allir á fullri ferð. Hér má ég ekki líta hissa út án þess að fólk sem á leið fram hjá bjóðist til að vísa mér leið. Allt afgreiðslufólk er til í smá "small-talk" - það mætti eiginlega segja að það sé svolítil smábæjarbragur á fólkinu hér. Ég hef lítið nennt að vera almennilegur túristi, finnst miklu skemmtilegra að villast um bæinn en að leita að einhverjum ákveðnum stað - finnst ég sjá svo miklu meira þannig og verð ekki jafnpirruð á því að kort eiga það til að leiða mig á ranga staði.

Engin ummæli: